Ég fæddist inn í og ólst upp á því sem kallað hefur verið "framsóknarheimili". Á slíkum heimilum, á tíma áður en jafnvel sjónvarpið var komið til sögunnar, var ekki um að ræða aðra fjölmiðla en flokksblaðið Tímann, sem kom í knippum tvisvar til þeisvar í viku og ríkisútvarpið, sem þá útvarpaði á einni rás, sem var líkust því sem rás 1 er í dag. Þetta var einfaldur heimur, verð ég að segja.
Að óbreyttu hefði ég haldið áfram að vera grjótharður framsóknarmaður fram á þennan dag. Það fór hinsvegar svo, að á þeim tíma ævinnar þegar stjórnmálaskoðanir tóku að festast að einhverju ráði, lá leið mín úr foreldrahúsum og ég uppgötvaði annarskonar hugmyndir um hvernig þjóðfélagið ætti að vera. Það varð til ákveðin lífsskoðun eða sýn á þjóðfélagið, sem tengdist ekki einstökum persónum eða stjórnmálaflokkum endilega, heldur fól hún í sér, að ég þurfti að velja milli flokka í kosningum, sem héldu fram svipaðri sýn og ég hafði. Það er fjarri því, að þessi lífssýn mín hafi eitthvað að gera með mína eigin hagsmuni eða fjölskyldunnar. Ég hef þá staðföstu trú að þjóðfélagi sé best þannig komið, að einkahagsmunum, viðskiptahagsmunum, hagsmunum einstakra stétta aða hópa, sé eins fyrir komið. Með öðrum orðum, það á ekki að hygla að einum á kostnað annars. það eiga allir að taka þátt, hver eftir því sem hann getur.
Ég geri mér grein fyrir að það eru og verða hópar og einstaklingar í samfélaginu sem telja sig "jafnari" en aðra. Það er verkefni samfélagsins að halda þeim í skefjum.
Ég játa það, að stundum hefur framsóknarmaðurinn í mér (fjórðungi bregður til fósturs) látið á sér kræla, en hefur ekki náð neinni fótfestu, enda tel ég framsóknarflokkinn hvorki vera né fara þó margt sé þar að finna (ef horft er framhjá hversu ólánlega þeim flokki hefur stundum tekist með val á forystu) sem fellur að sýn minni.
Nú er ég kominn í talsverða klemmu.
Ég hef verið þeirrar eindregnu skoðunar að maður eigi að kjósa eftir sannfæringu sinni, eins og hún endurspeglast í skoðunum manns á því hvernig samfélaginu í heild verði best borgið. Ég hef gert fremur lítið úr því þegar fólk kýs á öðrum forsendum, t.d. vegna ástar á einhverjum stjórnmálaleiðtoga, eða á grundvelli einkahagsmuna, eða "af því bara".
Þá er það klemma mín
Nú stend ég frammi fyrir því að velja milli einkahagsmuna og lífsskoðana þegar ég geng að kjörborðinu.
Ástæðan?
Fyrir nokkrum mánuðum birti einn þingmanna stjórnmálaflokks, sem ég hef oft ljáð atkvæði mitt, opinberlega þá skoðun súna að ég ætti að "fokka mér" og að ég væri "ofboðslega vitlaus".
Að vísu sagði hann þetta ekki berum orðum, þessi "ágæti" þingmaður, heldur samþykkti hann þessa skoðun á mér, með því á smella á hnappinn þar sem fólk getur látið sér vel líka það sem einhver segir. Hann, sem sagt, "lækaði" þessa skoðun.
Ef einhver áttar sig ekki á um hvað málið snýst, þá má eitthvað um það hér.
Ég hélt þá, að framundan væru nokkur ár þar til ég þyrfti aftur að gera upp við mig hvernig atkvæði mínu yrði best varið, en nú blasri við að ég þarf að ákveða mig með hraði.
Á ég að kjósa flokk þar sem forystumennirnir taka þátt í því, á samfélagsmiðlum, að fordæma fólk sem það þekkir ekki?
Á ég að kjósa flokk sem hýsir kima þar sem mannhatur fær að þrífast?
Á ég að velja þann flokk sem ég kemst næst því að deila skoðunum með?
Ég breyti ekki þeirri skoðun minni, að maður á að kjósa í samræmi við sannfæringu sína á því hvað kemur samfélaginu í heild best. Ég neita því hinsvegar ekki, að persónulegir hagsmunir hljóti að koma við sögu.
Svona er nú það.
---------------------------
Það er af ásettu ráði sem ég fjalla ekki um einstaklinga, eða einstaka flokka (nema, framsóknarflokkinn, auðvitað). Ég er búinn að læra það að slíkt breytir engu. Fylgjendur verða bara meiri fylgjendur og andstæðingar meira andstæðingar.
08 október, 2017
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)
Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...
-
Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...
-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlaso...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli