Sýnir færslur með efnisorðinu þríhljó. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu þríhljó. Sýna allar færslur

03 apríl, 2019

Kúba: Þríhjól, ríkispizza og kókótaxi

Það var komið myrkur þegar Kúbuferðahópurinn sneri til baka til Havana eftir langan og viðburðaríkan dag.  Ef skynsemin hefði ráðið, hefði þetta kvöld átt að líða í rólegheitum, með VR á náttborðinu og upprifjun á deginum í höfðinu og það var líka vilji ótilgreinds hluta  þremenninganna sem hér um ræðir.  Bara slappa af og slaka á. Annar, einnig ótilgreindur hluti hópsins var ekki búinn að gleyma ríkispizzustaðnum Prado y Neptuno, sem áður hefur komið við sögu og þeim fyrirætlunum sem þá voru uppi um að fara ekki frá Havana fyrr en slíkri pizzu hefði verið sporðrennt. Á endanum, hafði þessi hluti hópsins betur og því var ákveðið að leggja í þá 20 mínútna gönguferð sem áður hafði verð mæld.

Ég ætla nú að hætta að tala um þennan hóp í þriðju persónu og bara segja frá því sem gerðist á tiltölulega persónulegan hátt, í þeirri von að ég teljist ekki ganga of langt. Þessi umræddi hópur var, auk mín, skipaður þeim fD og fR, en þær hafa áður komið við sögu í þessum pistlum. Við erum öll komin mismunandi langt inn á sjötugsaldurinn, en ég minnist þess enn frá æskuárum mínum hvað mér fannst slíkt fólk vera orðið gamalt - hrumt og átti erfitt með gang, talaði hægt og hreyfði sig hægt, undirlagt af gigtarsjúkdómum og átti ekki langt eftir, augljóslega. Ekki þarf ég að taka það fram, að viðhorf mín til þessa hafa breyst umtalsvert síðan, enda fyrri skoðunin hreinir aldursfordómar, sem ekki eiga að líðast.

Hófst nú gangan, en þar sem við höfðum áður farið þessa leið og hún hafði verið algerlega vandræðalaus létum við vera að taka með okkur götukort, þrátt fyrir að við vissum ekki fyrir víst hvað torgið (Parque Central) héti né nafnið á veitingahúsinu (Prado y Neptuno), en þetta má hvorttveggja sjá á kortinu sem hér fylgir, merkt með Y. Leiðin þarna á milli er merkt með rauðri línu og endar í híbýlum okkar, sem ég merkti með X. Ég er reyndar ekkert viss um að við höfum búið á þessum stað, gæti verið einni götu nær eða fjær, sem segir margt um þá miður ábyrgu ákvörðun að leggja þarna af stað upp götuna Virtudes, í myrkri, kortlaus, en auðvitað alls ekki vitlaus - því dytti mér aldrei í hug að halda fram. 

Þarna komum við út úr íbúðinni og ég taldi bara sjálfsagt, að leið okkar hæfist með því halda þá til hægri (blá brotin lína á kortinu). Þarna hefðu þær fD og fR átt að gefa skýrt til kynna efasemdir sínar um að þetta væri rétt ákvörðun, t.d. með því að segja sem svo: "Ertu viss um að við séum á réttri leið?" (Þrjú hjól undir bílnum, en áfram skröltum við þó, o.s.frv.). Nei, þær gerðu engar athugasemdir og  gangan hófst, öruggum skrefum fólks sem vissi hvað það var að gera.  Nú yrði stutt í ríkispizzuna, sko.  
Það var hinsvegar ekki langt liðið á þssa göngu þegar ég sá birtast út úr myrkrinu, hús, sem lokaði götunni og sem sannarlega átti ekki að vera þarna. Það var eitthvað sem sagði mér þá að ekki væri allt eins og ætlað var.  Ég hægði aðeins á mér í þeirri von að efasemdir mínar yrðu staðfestar, sem gerðist nú ekki strax, eiginlega ekki fyrr en ég orðaði þær. Við trúðum því ekki að svona gæti þetta verið. Það átti að vera öðruvísi.  Þetta hafði nú ekki verið flókin leið þarna á milli. 

Við afréðum að ganga götuna á enda og sjá hvað þar biði okkar, en auðvitað var það bara endinn á götunni. Þá fórum við að snúast lítillega hvert um annað, í algerri óvissu um hvað bragðs skyldi taka. 

Eins og alltaf á þessum götum var þarna annað fólk og það var ákveðið að reyna að spyrja til vegar. Maður á miðjum aldri varð fyrsta fórnarlambið. Bæði var það, að hann talaði nánast enga ensku og við enga spænsku og við mundum ekki hvað torgið sem við vorum að fara á, heitir. Var það Plaza Central, Central Plaza, það var allavega eitthvað Central.  Maðurinn vildi samt allt fyrir okkur gera og bauðst til að ganga með okkur áleiðis, en það leystist einhvern veginn upp.  

Þá bar að konu eina, einnig á miðjum aldri, ef  til vill. Það var sama með tungumálasamskipti okkar, en hún leiddi okkur inn á rétta braut varðandi nafnið á torginu, sem er Parque Central. Þar sem við vorum að "tala" við hana bar að mann, líklega milli tvítugs og þrítugs á einu af þessum þríhjólum sem er mjög algeng þarna á götunum og þá í hlutverki leiguhjóla, eða TAXA. Við ræddum málin stutta stund og þau reyndu að leiðbeina okkur, en það náðist ekki mikill skilningur úr því samtali. Það var þá sem ökumaður leiguhjólsins sagði okkur að setjast í hjólið og hann myndi fara með okkur. Þetta var hjól svipaðrar gerðar og sjá má hér efst, tvö frekar mjó sæti og gripurinn allur fremur veikbyggður. 
"Are you sure? There are three of us?"
"Yes, yes, come, come, sit in". 

Ekki neita ég því að það komu að minnsta kosti vöflur á mig. Hvernig átti maður að bregðast þarna við? Þetta var eiginlega dálítil klípa. Annarsvegar maður sem, sem örugglega veitti ekkert að pening,  og var allur af vilja gerður til að hjálpa okkur að komast í pizzuna og hinsvegar hugmyndin um að við þrjú sem þarna vorum, settumst á þetta veikbyggða farartæki. Ég get alveg fjallað um það hvað við erum nú nett í vextinum og allt það, en læt það vera af augljósum ástæðum. 

Það var um það bil þarna sem fR og fD misstu svalann (kúlið) eins og sagt er stundum. ( Ég tel mig hafa haldið mínum, en er reyndar ekki viss) Ég veit svo sem ekki fyrir víst hvað olli því að það gerðist, mögulega einhverskonar taugaveiklunarviðbrögð þarna úti á þessari illa lýstu götu, rammvillt og þurfa að taka ákvörðun um að setjast upp í þríhjól hjá einhverjum náunga sem mögulega gæti haft eitthvað misjafnt í hyggju. 
Það er einnig mögulegt að þetta hafi tengst tilhugsuninni um það hvernig við þrjú áttum að geta komist fyrir á þessu þríhjóli. Ég bara veit þetta ekki og þær hafa ekki fjölyrt um það. 
Svalinn lét á sjá allavega og við tók óstöðvandi hlátur, sem hélt áfram eftir að niðurstaða varð um að í þríhjólið reyndum við að troða okkur og fá flutning á torgið Parque Central, þar sem ríkispizzuveitingahúsið var. 
Hann hélt áfram meðan fR settist í annað sætið og ég í hitt. Eftir þetta ríkti almenn kátína af einhverju tagi meðan fD brölti einnig inn, settist á annað læri mitt og hné, en tókst einnig að ná taki á veikbyggðum þakbita,  þegar ökumaðurinn kom sér síðastur fyrir og hóf að taka farartækið til kostanna, þegar tók að marra og braka í farkostinum,  þegar keðjan fór af, ökumaðurinn sagði "sorry" stökk af og skellti henni á aftur í dimmu stræti í gömlu Havana, þegar ökumaðurinn beygði sig til hliðar til að líta eftir afturdekkinu sem hélt okkur fD uppi.
Það dró hinsvegar úr henni eftir því sem lengra leið og við fundum næstum áþreifanlega hve miklum átökum blessaður ökumaðurinn þurfti að beita, en talsverður hluti leiðarinnar var á fótinn. 
Hún vék loks fyrir viðringu fyrir þessari hetju sem loksins stöðvaði og benti: "Parque Central". Og viti menn, þarna blasti torgið við. Ökumaðurinn steig að hjólinu og við á eftir. Hann horfði á okkur aðframkominn af mæði og í ljósunm frá torginu blikaði á svitadropana á efri vör hans.  
Hversdagshetja.  

Hann fékk aukagreiðslu og handaband í þakklætisskyni fyrir allt það sem hann hafði þarna á sig lagt fyrir okkur túristaræflana.

Jú, upphófust hláturrokur, stundum upp úr eins manns hljóði, þegar tilhugsunin kallaði fram myndir af einstökum þáttum þessa, sem átti að verða 20 mínútna göngutúr eftir götu sem ber heitð Virtudes.

Þarna var leiðin orðin greið á Prado y Neptuno, ríkisrekinn veitingastað sem sérhæfði sig í pizzum. Við þennan stað og pizzurnar þar hafði hugur hluta hópsins dvalið samfellt í þrjá daga. Nú var komið að því.  
Við vorum reyndar næstum ein á þessum, svolítið sovéska stað. Sérstakur dyravörður tók á móti okkur, okkur vísað til sætis, boðið að drekka o.s.frv., pizzur valdar eftir smekk. Eftir mjög hæfilegan tíma komu þær - snilldar pizzur og vel þess virði að bíða eftir þeim í nokkra daga og leggja á sig Havanaævintýri til að fá að njóta þeirra.  Undur góðar, bara.

Við tókum góðan tíma í að klára þennan þátt kvöldsins, en þá hófst umræðan um heimferð. Ættum við að ganga í tuttugu mínútur eða taka Coco taxa.  Nú var það ég, sem beðið hafði eftir ferð með slíku farartæki dögum saman, sem náði meirihluta og út héldum við á leigubílastæðið sem þarna var rétt hjá. Það voru Coko taxar í röðum. Völdum bara þann sem næstur var. Bílstjórinn ýtti honum á góðan stað og allt klárt til að stíga um borð. Viti menn, rifjaðist ekki upp hluti hláturkastsins frá því fyrr um kvöldið og nú vegna þess, að mér var ætlað að brölta í miðsætið (en í Coco taxa eru nefnilega þrjú sæti). Þetta gerði ég með glans (þau einhverjir í hópnum hefðu jafnvel vonað eitthvað annað) og fylgdarkonurnar settustu sitthvorumegin við mig og allt róaðist og ferðin gat hafist. 
Við vissum reyndar ekki heimilisfangið, en höfðum, sem betur fer tekið með okkur nafnspjald, sem dugði til þess að heim komumst við úr sallafínni ferð.

Þreyta dagsins tók nú aftur yfir eftir að adrenalínflæðið hafði fyrr um kvöldið fjarlægt það eins og dögg fyrir sólu.  Nóttin tók okkur mjúklega í konunglegum húsakynnunum.

Það verður víst einn pistill enn ..........

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...