Sýnir færslur með efnisorðinu kóræfing. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu kóræfing. Sýna allar færslur

20 desember, 2018

Af aftansöng á aðfangadag

Skálholtskórinn æfir í Kistuholti 19
Það var kóræfing fyrir stuttu, sem ekki er í frásögur færandi, svo sem. það eru alltaf kóræfingar og alla jafna eru kóræfingar eins og kóræfingar eru.

Þessi var óvenjuleg í tvennu tilliti:

1. Hún fór fram í afskaplega glæsilegu húsi í Kistuholti 19 í Reykholti.
Þetta hús byggðu Guðni Karlsson, frá Gýgjarhólskoti og Inga Kristjánsdóttir, en það er nú í eigu Sjálfsbjargar og er auglýst til skammtímaleigu á bókunarsíðum. Um húsið segir á einni slíkri síðu:

Kistuholt 19 (mynd af bókunarsíðu)

Þetta sumarhús með eldunaraðstöðu er staðsett í Reykholti. Gististaðurinn er nútímalegur og býður upp á heitan pott á veröndinni, ókeypis WiFi og ókeypis bílastæði í bílskúr hússins. Það leiðir upphitaður rampur að útidyrunum sem gerir það auðveldlega aðgengilegt.
Rúmgóða húsið býður upp á aðgengi fyrir hreyfihamlaða hvarvetna um húsakynnin. Til staðar er fullbúið eldhús, borðstofuborð og rúmgóð stofa með flatskjá.
Það fór afar vel um kórinn í þessu æfingahúsnæði og ekki skemmdu indælar veitingar í boði Bergþóru og Jóns fyrir.

Skálholtskórinn æfir á aðventu 2018. Þarna vantar aðal, enda
á bak við myndavél.
2. Það kom fram hjá stjórnandanum, að ákvörðun hefði verið tekin um að það verði ekki aftansöngur kl. 18 á aðfangadag, eins og verið hefur um langa hríð, heldur aðeins miðnæturmessa kl 23.30.
Þessar fregnir hittu fólk misvel. Þetta breytir mig engu lengur.
Í gamla daga var aldrei neinn svona aftansöngur eða miðnæturmessa í Skálholtskirkju. Fólk var bara heima hjá sér, hlustaði á útvarpsmessu og borðaði að henni lokinni, áður en sest var inn í stofu.
Á jóladag var síðan haldið til messu með pomp og prakt og að henni lokinni gæddi fólk sér á súkkulaði og tertum.

Svo var farið að vera með aftansöng kl. 18. Lengi vel sinntum við því í engu, héldum uppteknum hætti, en þar kom að fD þótti ekki verra að losna við mig og barnaskarann meðan yfir stóðu krítískustu augnablik matseldarinnar. Þar með upphófst sú hefð að ég hélt með börnin til aftansöngs. Hún stóð þar til kirkjunnar menn gengu fram af mér og hefur ekki náð fótfestu síðan, jafnvel þó kirkjunnar menn séu aðrir nú en þá.
Það er sem sagt komin ný hefð á mitt heimili, sama hefð og í gamla daga: engar kirkjuferðir á aðfangadagskvöldi og þannig verður það.
Mér finnst reyndar, að í messufjölda eins og svo mörgu öðru, séu gæðin mikilvægari en fjöldinn.

Hvað um það, með upplýsingum um að enginn verði aftansöngurinn á aðfangadagskvöldi, skapaðist lítilsháttar órói í hópnum um stund, áður en haldið var áfram með æfinguna. Þessi ákvörðun umsnýr rótgróinni hefð hjá ýmsum, en bara ýmsum - ekki mér.

Ég finn auðvitað til með þeim sem hafa gert aftansönginn að föstum punkti í jólahefðinni hjá sér. Það er nefnilega þannig að flest í kringum þetta kvöld er í fastari skorðum en flest annað í lífi afar margra. 
Kannski eru það einmitt hefðirnar sem enn halda þessu samfélagi saman. Þeim hefur farið hratt fækkandi síðustu áratugina.

-----
Myndin efst er tekin á farsíma á æfingunni sem um er rætt. Svo léleg er hún, að ég ákvað að breyta henni í "innsetningu" frekar en sleppa henni. 
Farsímamyndir ber að forðast 😉

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...