Sýnir færslur með efnisorðinu kveðja. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu kveðja. Sýna allar færslur

25 september, 2015

Vem kan segla

Mallorca 1974: Þarna hafði, að sögn, einn félaginn unnið
talsvert af  freyðivíni í einhverjum leik í skemmtigarði
og hópurinn samfagnaði auðvitað.
Það var mikil tilhlökkun í hópi nýstúdenta frá ML sem hélt til Mallorca vorið 1974. Félagarnir, sem höfðu deilt gleði og sorgum  í fjóra vetur, töldu sig auðvitað vera orðna nokkuð sjóaða á flestum sviðum og hugðu gott til skemmtilegs tíma á sólarströnd.  Eðlilega voru væntingarnar mismunandi til ferðarinnar, en einhverjir, sem voru nú ekki mikið meira en svona nokkuð venjulegir íslenskir sveitamenn sem höfðu kynnst lítið eitt lífsreyndara fólk á Laugarvatni, hugðust heldur betur njóta þess að stíga á erlenda grund í fyrsta skipti af alvöru. Eitt af því fyrsta sem bar fyrir augu var, að því er virtist, venjuleg verslun við hlið hótelsins. Þegar þar var komið inn blöstu við hilluraðir með áfengi af ýmsum tegundum, á verði sem varla gat talist eðlilegt á íslenskan mælikvarða.
Það varð úr við þessar aðstæður, að ég festi kaup á rommi, en það var drykkur sem hafði á sér svona ákveðin suðrænan blæ í huganum. Síðan festi ég kaup á kóla drykk. í framhaldinu smakkaði ég og smakkaði síðan aðeins meira.
Hópurinn naut lífsins á Mallorca og ferðin var eins vel heppnuð og vonir stóðu til og segir ekki meira af henni, en síðan þá hef ég ekki smakkað þennan drykk án þess að vera kominn aftur til Mallorca, tvítugur að aldri.
Þarna er um að ræða þekkt fyrirbæri, tenging bragðs við ákveðnar aðstæður í fortíðinni.

Þessi pistill átti ekkert að vera um romm og kókakóla. Það bara gerðist einhvernveginn í samhengi þess sem hann átti að snúast um.

Hópurinn hvarf frá Mallorca eftir tilskilinn tíma og dreifðist í ýmsar áttir. Miðjarðarhafseyjan skapaði umgjörð síðustu samskipta okkar sem hóps og suma bekkjarfélagana hef ég ekki séð síðan, við aðra hef ég átt í nokkuð reglulegum samskiptum af einhverju tagi.

Þessar vikurnar hefur mér talsvert oftar en áður orðið hugsað til menntaskólaáranna. Fyrst vegna þess að fyrir nokkrum vikum lést Jóhanna Gestsdóttir, sem var bekkjarfélagi á Laugarvatni. Við útför hennar frétti ég af því að önnur bekkjarsystir mín væri langt leidd af samskonar sjúkdómi og hún lést síðan þann 11. september síðastliðinn. Útför hennar fer fram í dag.
Sigurveig um það leyti sem hún kom á Laugarvatn

Sigurveig Knútsdóttir hét hún og þegar hún kom á Laugarvatn hafði hún átt heima í Svíþjóð einhvern tíma. Hún hafði sig alla jafna ekki mikið í frammi, var ekki áhugamanneskja um íþróttir svo ég muni, var meira svona fyrir hugans ævintýr. Hún féll ágætlega inn í hópinn, sem átti oft góðar stundir saman.

Þar með kem ég að tengingunni við bragðminnið sem fjallað er um hér ofar.

Það gerðist nokkuð oft á góðri stund að fólk fór að syngja. Fastur liður í þeim söng var sænska barnagælan "Vem kan segla förutan vind". Þarna kom Sigurveig sterk inn með sænskubakgrunninn sinn. Hún sætti sig ekki við rangan framburð, eða að rangt væri farið með. Mest vinnan hjá henni fór í að kenna meðsöngvurum framburðinn á "skiljas" í þriðju línu, og það gekk misvel að koma honum frá sér svo Sigurveig væri ánægð.  Síðan þurfti hún ítrekað að benda á að maður segir "åror" en ekki "årer".
Ég læt hér textann fylgja og lít á hann sem minningu um ágæta bekkjarsystur.

Vem kan segla förutan vind,
vem kan ro utan  åror.
Vem kan skiljas från vännen sin,
utan at fälla tårar.

Jag kan segla förutan vind,
jag kan ro utan åror.
Men ej skiljas från vännen min,
utan at fälla tårar.




Í hvert sinn sem ég hef heyrt þennan söng síðan hefur Sigurveig komið upp í hugann. Í hvert sinn sem Sigurveig hefur komið upp í hugann hefur mér dottið þessi söngur í hug, ásamt framburðarkennslunni.

Um ævigöngu Sigurveigar frá því leiðir skildust á Mallorca fyrir rúmum fjórum áratugum veit ég afskaplega lítið þó skömm sé frá að segja. Hún fór í listnám og hélt að minnsta kosti eina sýningu á grafíklistaverkum / dúkristum árið 1997. Þá náði hún sér í kennsluréttindi 1995 og starfaði síðan við kennslu í einhvern tíma. Loks  afrekaði hún það að eignast tvær dætur.

---------------

Í pistlinum um Jóhönnu nefndi ég von mína um að allur hópurinn sem eftir væri myndi hittast á Laugarvatni í maí árið 2024 til að fagna saman og minnast. Þá vissi ég ekki að nokkrum dögum síðar myndi annar bekkjarfélagi falla frá.  Ég verð að aðlaga von mína af þessu tilefni og taka undir orð sem enn ein bekkjarsystir mín lét frá sér fara fyrir stuttu, þar sem hún gerði athugasemd við að ég skyldi tala um árið 2024 í þessu sambandi í stað ársins 2019.
Ég vænti þess og vona, að í minningu þessara félaga okkar hittumst við öll á Laugarvatn til að fagna 45 ára stúdentsafmæli í maí 2019.

04 september, 2015

Á besta aldri

Jóhanna Ólöf  Gestsdóttir, 40 ára stúdent.
Vorið 2004 komu saman á Laugarvatni fyrstu stúdentarnir sem fögnuðu 50 á stúdentsafmæli. Þeir komu síðan aftur á Laugarvatn á síðasta ári, allir nema einn, í tilefni af 60 ára afmælinu, þá orðnir um áttrætt. Sá eini sem ekki kom lést nokkrum dögum fyrir hátíðina og hafði verið búinn að gera ráðstafanir til að vera viðstaddur. Það er auðvitað gaman þegar svona hópur, sem gekk saman gegnum súrt og sætt í fjögur ár á mótunarárum, nær allur svo háum aldri.

Ég fagnaði 40 ára stúdentsafmæli vorið 2014 ásamt hópi bekkjarfélaganna. 25 vorum við sem lukum stúdentprófi frá ML vorið 1974, 9 okkar kláruðu sig af máladeild og 16 af eðlis- og náttúrufræðdeild.
Við, þessi 9 sem lukum máladeildinni, erum nú orðin 8.   Þann 29. ágúst síðastliðinn lést Jóhanna Ólöf Gestsdóttir, eða Jóka, eins og hún var kölluð í okkar hópi. Jóhanna er jarðsungin í dag.

Það er nú svo með stúdentahópana sem hverfa frá Laugarvatni á hverju vori, að þeir halda mismiklu sambandi eftir að menntaskólaárunum lýkur. Það fer hver sína leið, finnur sér farveg til að ferðast um gegnum lífið. Hópurinn okkar Jóhönnu hefur nú ekkert verið sérstaklega samheldinn, hverju svo sem þar er um að kenna, en við höfum flest vitað hvert af öðru, sumir hafa haldið hópinn vel og ræktað vináttu frá þessum árum. Flest höfum nokkrum sinnum komið saman á Laugarvatni til að júbilera. Jóhanna sinnti þeim þætti vel, þó svo hún hafi ekki átt samleið með hópnum öll 4 árin á Laugarvatni. Hún kom inn í bekkjarhópinn í 2. bekk og var síðan utan skóla, í það minnsta frá áramótum í 4. bekk.

1974
Sama árið og hún útskrifaðist eignaðist hún frumburðinn og giftist Baldri Garðarssyni. Þau slitu samvistum. Seinni maður Jóhönnu var Kristján Sigurðsson og þau eignuðust 4 börn saman.

Jóhanna, já.
Ég held að ég megi segja á ég hafi ekki þekkt hana mjög náið, sem persónu, en það man ég að hún hafði ákveðnar skoðanir og var ófeimin við að tjá þær. Að því leyti breyttist konan ekkert þó árunum fjölgaði.
Eins og oft vill verða í bekkjakerfisskóla þá mótast samskiptin í hverjum bekk mest í 1. bekk og þroskast síðan eftir því sem ofar dregur. Af þessum sökum má segja að Jóhanna hafi ekki algerlega náð að samsama sig þessum hóp og að sumu leyti voru samskipti hennar ekki minni við árganginn á undan okkur, en innan hans steig hún fyrst niður fæti í skólanum. Áður en hún kom á Laugarvatn hafði hún lokið eins árs námi við framhaldsdeild Gagnfræðaskólans á Akranesi.

Ævistarfið snérist um ungt fólk. Fimm eignaðist hún börnin og kom til manns og ótölulegur fjöldi ungmenna naut leiðsagnar hennar sem kennara og það sem ég ræddi við hana um uppeldismál bendir til að þau hafi verið hennar hjartans mál og starfsvettvangur hennar hentaði því vel. Á s.l. vori lauk hún viðbótardiplómanámi í náms- og kennslufræði frá HÍ, svo hún var greinilega ekki á þeim buxunum að fara að hægja verulega á.

Brotthvarf Jóhönnu úr jarðlífinu fær mann til að staldra aðeins við, velta fyrir sér því sem allir vita auðvitað, en ýta jafnharðan frá sér. Okkur er mældur mislangur tími og mælinguna þá þekkir enginn.

Eftir tæp 8 ár, vorið 2024 kemur þessi hópur saman aftur til að júbílera á Laugarvatni. Þá verður í það minnsta engin Jóka til að gleðjast með, en vonum að við hin fáum hist þar til að rifja upp sameiginlega sögu og deila því sem á dagana hefur drifið.

40 ára júbílantar sem hittust á Laugarvatni vorið 2014.
Frá vinstri: Smári Björgvinsson, Páll M Skúlason, Ólafur Þór Jóhannsson,
Lára Halldórsdóttir, Haraldur Hálfdánarson, Jarþrúður Þórhallsdóttir,
Eiríkur Jónsson, Jason Ívarsson.
Þarna hafði Jóhanna  brugðið sér frá og við gátum ekki hafnað góðu boði
hennar Bubbu (Rannveigar Pálsdóttur),um að smella af okkur mynd.


09 maí, 2015

Hún bjó hinumegin við ána

Guðný Pálsdóttir, Hveratúni, Jónína Jónsdóttir Lindarbrekku,
Guðný Guðmundsdóttir Laugarási (Helgahúsi),
María Eiríksdóttir Skálholti, Margrét Guðmundsdóttir Iðu.
Ævin lengist eins og við er að búast. Það er bara eðlilegt í því samhengi að fólk af minni kynslóð sé að verða búið að kveðja flesta sem á undan hafa farið. Það er víst gangurinn.
Fyrir nokkru bættist í hóp þessa fólks hún Magga á Iðu á 95 aldursári. Hún er jarðsungin í dag.
Magga á Iðu (Margrét Guðmundsdóttir) fyllti þann hóp fólks hér í neðsta hluta Biskupstungna sem hefur verið fastur punktur í tilveru okkar sem hér fæddumst ólumst upp síðustu síðustu 70 árin eða svo.
Magga og Ingólfur hófu búskap sinn á Iðu um svipað leyti og foreldrar mínir hófu ævistarf sitt í Laugarási og voru á svipuðum aldri, mamma og Magga á Iðu (mér finnst hún aldrei hafa verið kölluð Magga, bara Magga á Iðu) voru jafnaldrar og pabbi einu ári eldri en Ingólfur. Aldrei varð ég var við að skugga bæri á í samskiptum þeirra og ég minnist þess ekki nokkurntíma að eitthvað kæmi þar upp á. Það sama má reyndar segja um flest það fólk sem átti samleið hér í neðri hluta sveitarinnar, frá Spóastöðum niður að Helgastöðum og Eiríksbakka.
Magga og Ingólfur voru búin að búa á Iðu í ein 12 ár þegar brúin á Hvítá varð til þess að breyta ýmsu og auðvelda  samskipti. En þar sem Ingólfur telst vera síðasti ferjumaðurinn á Iðuhamri, hafa þau Magga nú ekki verið í vandræðum með að skjótast í heimsóknir eða á samkomur þegar svo bar undir þó engin væri brúin.

Ég ætla nú ekki að þykjast hafa þekkt Möggu á Iðu neitt sérlega vel. Líklega voru kynnin bara svipuð því sem gerist milli barna og vinafólks foreldra þeirra. Þegar mér verður hugsað til hennar, Ingibjargar á Spóastöðum, Mæju í Skálholti, frú Önnu í Skálholti, Gauju (Laugarási/Helgahúsi), Jónu á Lindarbrekku, Fríðar (í Laugargerði) og Gerðu (kona Gríms læknis), detta mér í hug saumaklúbbar, kvenfélagið, spilakvöld og einhverskonar leikstarfsemi.  Þetta voru konurnar sem, auk mömmu, auðvitað, tilheyrðu umhverfi mínu meðan ég sleit barnsskónum, og ég get ómögulega fundið neitt annað en ágætar minningar af návist þeirra.
Af þeim konum sem hér voru taldar eru þær nú þrjár sem dansa um jarðlífið og megi þær gera það sem lengst. Hinar dansa nú annarsstaðar, í það minnsta í hugum okkar sem kynntumst þeim.

14 mars, 2015

Hreinn og beinn

Starfsfólk ML fór í námsferð á Íslendingaslóðir í Kanada 2008
og þar fann Hreinn Silfur hafsins á bókasafni Manitóbaháskóla
og var sáttur við það. 
"Vitiði hvernig við gerðum þetta í Héraðsskólanum?" Auðvitað vissi það enginn og það voru ekki margir sem voru yfirleitt tilbúnir að fá kynningu á því hvernig þeir höfðu gert þetta í Héraðsskólanum. Þarna var á ferð andblær sögunnar eða reynslunnar að freista þess að fá áheyrn í nútímanum, en eins og mér er nú orðið ljóst og líklega öllum þeim sem búa yfir langri reynslu, að smám saman hættir nútiminn að hlusta á söguna, ef reynslan passar ekki inn í nútíma aðstæður. Sprenglærður nútíminn telur sig vita betur en svo að það þurfi að leita til öldunga um ráð sem duga.

Hreinn Ragnarsson kom með fjölskyldu sinni á Laugarvatn 1970 og hóf að kenna við Héraðsskólann. Eftir því sem líftími Héraðsskólans styttist lét Hreinn sig flæða æ meir inn í kennslustofur menntaskólans. Mér finnst þetta hafi bara gerst einhvernveginn af sjálfu sér.

Í annarri ferð starfsmanna ML, til Bæjaralands 2011,
varð á vegi okkur sölubás í Nürnberg þar sem hægt var 
að kaupa MATJES. Ég fékk fyrirlestur um það fyrirbæri, sem
er einhver ákveðin síldartegund.
Hreini kynntist ég til að byrja með í gegnum blakæfingarnar og blakleiki í gamla íþróttahúsinu við Héraðsskólann þegar ég var í ML í upphafi 8 áratugar síðustu aldar. Mér fannst hann í eldri kantinum (rétt ríflega þrítugur) eins og aðrir kennarar á staðnum sem stunduðu blakið af krafti með okkur ML-ingunum. Síðan áttum við samleið að hluta þegar við renndum okkur saman í gegnum uppeldis- og kennslufræði  við HÍ nokkrum árum seinna, en á þeim tíma stundaði hann þar framhaldsnám í sögu og íslensku. Síðan var það ekki fyrr en ég kom aftur á Laugarvatn 1986, sem starfsmaður ML að leiðir okkar lágu saman á ný og upp frá því var það svo.

Ætli mér sé ekki óhætt að segja að Hreinn hafi verið kennari af gamla skólanum, eldri skóla en mínum og ævafornum skóla ef tekið er mið af nútíma kennsluháttum. Á hans tíma í Héraðsskólanum var kennarapúltið á upphækkun svo vel sæist yfir. Þar sat kennarinn oftar en ekki og talaði við eða yfir bekkinn milli þess sem nemendur voru teknir upp með því að þurfa að svara spurningum eða skila af sér verkefnum á töflunni.  Ég kenndi um tíma í Héraðsskólanum undir lokin á skólahaldi þar og þá voru þar þessar upphækkanir, sem gerðu ekkert nema þvælast fyrir þar sem ég með mína, þá nýjustu kennsluhætti, dansaði um stofuna fram og til baka, stundum gleymandi upphækkuninni og því hrasandi fram af henni eða hrasandi um hana. En svona var hlutunum fyrir komið í Héraðsskólanum og því varð ekki breytt.

Það áttu sér stað umtalsverðarbreytingar á kennsluháttum á þeim tíma sem Hreinn starfaði í ML. Hann hélt nú samt sínu striki og framkvæmdi sín verk eins og hann taldi að best hentaði markmiðunum. Ég skil hann nú og finn það á sjálfum mér hve fjarri nútíma kennsluhættir eru þeim sem mér voru innrættir á sínum tíma. Um það gæti ég sagt margt en læt það vera þessu sinni.

Þeir sem starfa lengi í kennslu kynnast stöðugum breytingum á starfsumhverfi sínu, en þegar upp er staðið eru það ekki kennsluaðferðirnar sem eru úrslitaatriðið þegar gagnsemi kennslunnar eða námsins eru metin, heldur eðlislæg hæfni til starfsins og þekkingin á viðfangsefninu.  Hreinn hefði líklega ekki starfað við kennslu alla sína starfsævi nema hafa það til að bera sem þurfti. Hann bjó yfir djúpri þekkingu á viðfangsefnum sínum og gat tekið að sér ólíkar námsgreinar. Hann átti í engum vandræðum með að tjá sig og koma efninu til skila þannig að unga fólkið hefði af gagn bæði og gaman, kysi það svo. Mig grunar, eða réttara sagt ég veit, að tilkoma tölvunnar inn í skólastarfið, hafi ekki verið honum sérlega að skapi og hann taldi sig ekkert sérstaklega knúinn til að tileinka sér neina umtalsverða færni á því sviði. Með tilkomu fartölvunnar fór Hreinn fram á að nemendur stunduðu frekar prjónaskap í kennslustundum en tölvuspil.

Þar kom þó að Hreinn fékk ekki hunsað tölvuöldina og þar kom til lokafrágangur á stórvirki hans Silfur hafsins, gull Íslands. Það þurfti að lesa yfir, bæta við og lagfæra og ég reikna fastlega með að við þá vinnu hafi Hreinn uppgötvað nytsemi tölvunnar þó hann hafi aldrei viðurkennt hana eða tekið í sátt í orði.

Samstarfsmaðurinn Hreinn var, í mínum huga, tengingin við söguna. Hann var þar í flokki með Kristni skólameistara og Óskari Ólafssyni. Ég er af þeirri kynslóð sem þeir félagar leiddu í gegnum skólana á Laugarvatni ég var svo gæfusamur að fá að kynnast þessum ágætu körlum frá ýmsum hliðum. Ég hafði skilning á stöðu þeirra í því flóði breytinga sem með reglulegu millibili æðir fyrir skólakerfið. Ég skildi og skil efasemdir þeirra um að við værum á réttri leið með uppfræðslu ungmenna.

Hreinn kenndi ML-ingum á bíl áratugum saman og ökukennslan og umferðarmál voru honum alltaf ofarlega í huga. Hann hélt áfram að kenna á Nissan eftir að að lét gott heita í störfum utan heimilis að öðru leyti.

Oft lá leið piltsins upp í menntaskóla eftir að hann hætti þar störfum, en frú Guðrún (fG) starfaði þar áfram nokkur ár eftir að Hreinn hætti.

Hreinn lést þann 3. mars, s.l. og útför hans fór fram frá Skálholtskirkju í gær. Ég reikna ekki með að gleyma kynnunum af honum í bráð.






27 ágúst, 2014

Af gömlum unglingi og fleiru.

Skúli Magnússon
Haustið er að ganga í garð og gróður jarðar býr sig undir að tryggja upprisu að vori. Mannlífið skiptir um takt og daglegt líf Kvisthyltinganna tveggja, sem eftir eru í kotinu þegar börn og barnabörn eru horfin til síns heima til að sinna sínu, er sem óðast að komast í fastar skorður og því líkur á að upp verði tekinn þráðurinn á þessum vettvangi sem ýmsum öðrum.

Viðfangsefni mitt þessu sinni er sú breyting sem varð í lífi okkar, afkomenda Skúla Magnússonar, garðyrkjubónda í Hveratúni, þegar hann lét gott heita í byrjun ágúst og kvaddi jarðlífið eftir langa og nokkuð vel útfærða glímu við Elli kerlingu. Hann var á 96. áldursári og þótti það bara orðið ágætt, kvaddi sáttur, saddur lífdaga.
Við skildum og skiljum það vel að hann var tilbúinn að hverfa á braut. Þannig er nú lífinu einusinni háttað, að það tekur enda einhverntíma og svo langt líf sem hans er hreint ekki sjálfsagt, en þakkarvert. Þrátt fyrir að allir væru nokkuð sáttir við þessi málalok, var þarna um að ræða endinn á langri sögu og þar með fylltumst við trega og söknuði. Okkar bíður auðvitað það hlutskipti að halda áfram okkar leið á okkar forsendum. Við systkinin erum nú kominn á þann aldur að við teljumst, eftir því sem ég best veit, fullfær um að kunna fótum okkar forráð, en samt... með "gamla unglingnum" hvarf töluvert mikilvægur þáttur í tilveru okkar, rétt eins og gerist oftast, allsstaðar og á öllum tímum þegar lífi lýkur.

Ég nefndi langa sögu, sögu sem hófst við aðstæður sem nútímamaðurinn á erfitt með að ímynda sér. Pabbi fæddist í september, veturinn eftir að frostaveturinn mikli hafði valdið fólki ýmsum búsifjum. Foreldrar hans, eins og svo margir aðrir í þeirra sporum, liðu fyrir skort á jarðnæði á láglendinu, svo þau tóku það til bragðs að flytja að Rangárlóni við norðanvert Sænautavatn í Jökuldalsheiði, líklegast vorið 1918, með tvo syni á barnsaldri og þann þriðja á leiðinni. Sjá einnig hér.

Það er eiginlega ekki fyrr en maður fer að skoða þau lífskjör sem svokölluðu almúgafólki voru búin á fyrri hluta síðustu aldar ofan í kjölinn út frá einhverjum sem maður þekkir, sem maður áttar sig á hvílikar breytingar hafa átt sér stað.  Það hlýtur að vera mikið spunnið í þær kynslóðir sem þurftu að takast á við tilveruna á fyrri hluta tuttugustu aldar, ekki síst þann hluta þeirra sem þurfti að leggja á sig ómælt erfiði til að hafa í sig og á.  Þetta fólk fann leiðir til lífsbjargar, en það þurfti líka að færa fórnir. Föðurforeldrar mínir eru, til að mynda, sagðir hafa eignast 10 börn, en einungis sex þeirra náðu að vaxa úr grasi.  Faðir minn var sendur um sex ára gamall í fóstur á næsta bæ, líklegast til að létta á barnmörgu heimili.  Eftir það ólst hann upp með Sigurði Blöndal, syni hjónanna í Mjóanesi og síðar á Hallormsstað, sem hann hefur ætíð vísað til sem fóstbróður síns.
Þar sem ég sit og skrifa þetta fæ ég þær fregnir að Sigurður hafi látist í gær. Þeir fóstbræðurnir munu því ferðast áfram saman, nú á slóðum sem ég kann ekki að fjalla um.

Ég ætla nú ekki að fara að rekja ævigöngu föður míns, en hann dvaldi í Hveratúni til haustsins 2012, en þá varð það úr að hann flutti á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu.
Fram til þess síðsta tókst honum að halda léttri lund og þeim sem heimsóttu hann mætti alltaf brosandi andlitið, eða í það minnsta glott út í annað. Hann spurði frétta og tók í nefið og svo spurði hann aftur frétta. Hann var ekkert mikið fyrir að gera sjálfan sig og sína líðan að umfjöllunarefni, hafði meiri áhuga á því sem var að öðru leyti um að vera. Svo þegar umræðuefnið þraut um stund kom fyrsta línan í einhverri vísu, svona einskonar biðleikur til að kalla fram frekari frásagnir. Þessi var til dæmis nokkuð algeng

Svo er það við sjóinn viða
sama gerist upp til hlíða,
sveinn og meyja saman skríða,
segjast elskast jafnt og þétt,
     hvað er auðvitað alveg rétt!
Í hjónabandi að lifa og líða
uns lausakaupamet er sett.
          (ég hef ekki fundið höfundinn)

Við sem umgengumst hann lærðum þessar vísur smám saman og þá fór hann að láta sér nægja að fara með fyrstu línuna og beið svo eftir að við kláruðum dæmið og svo skellihló hann á viðeigandi stöðum.

Dvölin á Lundi á Hellu er kapítuli út af fyrir sig. Miðað við allt og allt held ég að betri staður til ljúka langri vegferð sé vandfundinn. Þetta segi ég ekki endilega vegna þess að mér finnist Hella í sjálfu sér vera sérlega hentugur staður fyrir aldraða í uppsveitum Árnessýslu, heldur vegna þess, að starfsfólkið á Lundi er einstaklega vel starfi sínu vaxið.
Við setjum lög og reglur um aðbúnað hinna ýmsu þjóðfélagshópa, meðal annars þeirra sem þurfa einhverja aðhlynningu síðustu árin. Þar er gert ráð  fyrir lágmarksfermetrafjölda á mann, lágmarks lofthæð og hvaðeina sem varðar ytri aðbúnað.
Ég leyfi mér að segja að húsakynnin eru ekki það sem mestu máli skiptir, heldur fólkið sem hefur þann starfa að annast um þá sem aldraðir eru, reynsluboltana, sem eiga langa og viðburðaríka sögu, en eru smám saman að missa krafta, eru orðnir vígamóðir í baráttu sinni við áður nefnda Elli, tapa heyrn eða sjón og jafnvel dvelja æ meir á sviðum sem raunveruleikinn nær ekki alveg til.  Við þessar aðstæður er það starfsfólkið sem skiptir sköpum. Það þarf að nálgast öldungana þar sem þeir eru á hverjum tíma og reyna að setja sig í spor þeirra, sinna þeim og þörfum þeirra af nauðsynlegri þolinmæði og umhyggju, spjalla við það og grínast við það.
Lífsgæði aldraðra felast ekki síst í því að þeir fái að njóta þess að finnast þeir skipta máli.

Hér fyrir ofan var ég að lýsa nálgun starsfólksins á Lundi, eins og við systkinin upplifðum hana. Rangæingar eru eflaust þakklátir fyrir að svo samhent, velhugsandi og dugmikið fólk skuli starfa við umönnun aldraðra á Lundi.
Svona fólk eiga aldraðir skilið í lok ævidagsins og fyrir umhyggjuna, velvildina og nærgætnina erum við systkinin afar þakklát.

Við sem stöndum undir samfélagsrekstrinum hverju sinni, skuldum öfum okkar og ömmum hverju sinni það, að síðustu áranna fái þau að njóta áhyggjulaust og við bestu aðstæður.  Nútíminn talar mikið um að horfa fram á veginn, en sannleikurinn er auðvitað sá, að ef ekki væri sá vegur sem þegar hefur verið farinn, þá væri heldur enginn vegur framundan.
---------
Í lokin skelli ég hér myndbandi af söng Laugaráskvartettsins. Þeir flytja Nú máttu hægt, en lagið er eftir H. Pfeil og ljóðið eftir Þorstein Erlingsson. Upptakan var gerð í Skálholti 16. ágúst. Laugaráskvartettinn skipa æskufélagar úr Laugarási: Egill Árni og Þorvaldur Skúli Pálssynir frá Kvistholti og Hreiðar Ingi Þorsteinsson og Þröstur Freyr Gylfason frá Launrétt í Laugarási. Það var Brynjar Steinn Pálsson frá Kvistholti sem myndaði og klippti, meðupptökumaður hljóðs var Guðný Rut Pálsdóttir frá Kvistholti.
Laugaráskvartettinn flutti þetta lag við útför afa síns og fyrrum nágranna.

NÓTT (Nú máttu hægt)




24 desember, 2013

Jólagola í Laugarási


Jú, það hreyfir vind, en samt ekki að neinu marki. Auðvitað bara eðlilegt sem fyrirboði þess sem koma skal með öllu því tilstandi sem fylgir. Með golunni færist ró yfir húsið, einstaka smellir heyrast í prjónum frúarinnar, sem kveðst ekkert vera viss um hvað hún sé að prjóna. Kannski er það einhver jólaandi. Yngri hluti þeirra Kvisthyltinga sem heima eru, sinnir verkefnum út á við
Það er að koma að því að aftengja þetta samband við umheiminn um stund og og við tekur væntanlga að sinna einhverjum þeim verkum sem mér kunna að verða falin.
Hér með skrái ég von mína um að þið sem kikið inn á þetta svæði mitt við og við, eigið friðsæl og góð jól.

27 desember, 2011

Ég hef heyrt fólk efast

Í gær sáust skilaboð á samskiptasíðum frá fólki sem sat fast hér og þar. Þarna voru t.d. ein  frá manni sem tilkynnti að hann væri fenntur inni á Laugarvatni og öðrum sem var í sömu stöðu undir Eyjafjöllum.

Á sama tíma svifu glitrandi snjókornin úr loftinu yfir Laugarási og bættust við dúnmjóka mjöllina sem fyrir var. Hér er enginn  fenntur inni því hér ríkir lognkyrrðin ein.

Fleiri myndir

Bestu jólakveðjur til ykkar allra sem dveljið á lognminni stöðum. 

Að þessu búnu biðst ég afsökunar á svo ögrandi sendingu. :)

24 desember, 2011

Jólakveðja úr skugga skötupotts.


Nú á aðfangadagsmorgni er lokasprettur, en þó enginn lokasprettur þar sem ég, í það minnsta, tek aðdragandann að jólum með mínum hætti að mestu. Hendi í Sörur, jú, og dreifi gleði til þeirra sem tekst að píra í gegnum skóginn á dýrðina sem stafar frá ljósakeðjunum gömlu og nýju.  Hefði sjálfsagt getað verið kappsamari við ýmislegt annað, en það er eins og það er, ennþá.
Þá er lokið Þorláksmessu
það eru að koma jól.
Siggi' er ekki' að sinna þessu
Solla á bláum kjól. 
Í gær var Þorláksmessa, eins og flestum ætti að vera kunnugt og þá er tekist á við margrædda Þorláksmessuhefð, en ég er, eins og einhverjum er kunnugt, ekki skötufíkill og hef lönngum haldið því fram að hér væri á ferð skemmd fæðutegund og að át á henni gæfi til kynna einhverja misskilda karlmennskustæla. Ég fékk talsvert góða staðfestingu á þessari skoðun minni, með því að í einum margra útvarpsþátta um skötu greindi viðælandi frá tilurð þessa siðar. Það var beinlínis markmimð fólks að leggja sér til munns skemmdan mat af einhverju tagi daginn fyrir veisluhöld jólanna, til að finna betur muninn á því sem ætt er og óætt. Vestfirðíngar höfðu skötuna, og Austfirðingar einhvern skemmdan fisk eða hákarlsúrgang, sem ekki hefur festst (jú það er hægt að skrifa þetta svona) jafn rækilega í þjóðarsálinni. Það góða við skötuna er, að það er auðvelt að tjá sig um hana.
Á Þorláksmessu þykist ég
þekkjast við barbarana
Skatan hún er skelfileg
skömm er að éta hana
 Nei, ekki vil ég berjast gegn hefðum þjóðarinnar, þessi hefðarmaður sem ég er.  Ég styð fD í því að fá sér skötubarð fyrir/á Þoddlák. Skatan var meira að segja lengi vel tilreidd hér innanhúss, með afleiðingum sem allir geta ímyndað sér. Nú síðustu allmörg ár hefur gamli unglingurinn tekið þátt í skötudýrðinni og jafnframt hefur suðan færst út fyrir hús, öllum hlutaðeigandi til gleði, þó misjafnlega hátt sé haft um það.
Á Þorláksmessu  þrái ég
að þefa af skötupotti.
"Skatan hún er skemmtileg,
skal ei höfð að spotti."
segi ég og glotti.
-----

Nú, meðan vindstyrkur eykst víða um land og fréttir berast að óendanlega forsjálum ökumönnum, sem sitja í bílum sínum á heiðum landsins, nálgast jólahátið.  Hana vér allir prýðum. Ljósin eru komin upp, búið að græja jólatréð: "Fella gervijólatré líka barrið?" var spurt þegar hafist var handa á þessum bæ í gærkvöld.

Allt að verða klárt. 

Ykkur, óþekktu einstaklingar, sem lesið skrif mín hér að jafnaði, og fjölskyldum ykkar, flyt ég hér með von mína um að við öll fáum að njóta gleði, góðs matar, friðar og kannski messu, einhverjir, næstu daga.

Talsverður hluti Kvisthyltinga dvelur erlendis um þessi jól. Til þessa hóps við ég telja 7 fullburða einstaklinga. Sannarlega söknum við fjögur, sem hér dveljum, samvistanna við þau, en með samskiptatækni nútimans verður þetta talsvert auðveldara en það hefði verið fyrir einhverjum áratugum.

Hjónunum í Görlitz og dætrum þeirra tveim og nýju hjónunum í Álaborg og syni þeirra flytur þessi síða bestu kveðjur úr þorpinu í skóginum.

(ef höfundar er ekki getið að meintum kveðskap, þá er hann frumortur og því við mig að sakast að því er varðar bragfeila og mér að hrósa ef tær snilldin lætur á sér kræla)

28 ágúst, 2011

Hvað leynist bak við orðin?

Til að leiðrétta þann mögulega misskilning á ástandi mínu og stöðu almennt, sem komið hefur fram í framhaldi af því sem ég skráði hér, lýsi ég því yfir að ég er í aldeilis ágætis ámigkomulagi og ekkert það hefur gerst í mínu lífi sem gefur tilefni til að hafa áhyggjur af mér á einn eða neinn hátt. Þvert á móti dunda ég mér við það þetta haustið, að njóta lífsins á besta stað á Íslandi í frítíma mínum, sinna áhugaverðri vinnunni minni með mörgu ágætis fólki, bíða þess að þriðja barnabarnið skelli sér í heiminn, kynna mér nýju, fínu linsuna, sem ég var að fjárfesta í og svo framvegis.

Ég get lofað fólki því, að ef eitthvað skyldi verða raunverulega að hjá mér þá mun ég ekki einu sinni ýja að því á þessum síðum, enda þær ekki ætlaðar til slíks af minni hálfu.

Auðvitað þakka ég þeim sem hafa áhyggjur af velferð minni, en biðst um leið afsökunar á að hafa ekki talað nægilega skýrst á áðurnefndum  texta, en ég hef nú þann háttinn á þegar ég sest við þessa iðju, að segja hlutina ekki alltaf hreint út, heldur oft með talsvert óbeinum og dulúðugum hætti til þess að lesendur fái tækifæri til að rýna á milli línanna, sem er góður siður.

Svo er það.
Síðan er haldið áfram.

11 janúar, 2011

Nú árið er liðið

Á þessum degi fagnar þessi ungi maður því, að fyrsta ári lífsins er lokið og að í hönd fer ár númer tvö. Þetta er ekki svo lítill áfangi á þessu æviskeiði, annað en með mig, sem þarf orðið að reikna út hver staða mín er. Yfir hálendið flyt ég honum árnaðaróskir.

24 desember, 2010

Að höndum fer......

Það blæs úti og hitinn skriðinn upp fyrir frostmark. Þorláksmessuliðir eru afgreiddir með skötusuðu utandyra á æskuheimilinu. Reykelsi bjargaði því sem bjargað varð í húslyktarmálunm á þeim bæ í kjölfar framkvæmdar þess einkennilega siðar. Hangikjötið hefur hlotið viðeigandi suðu, skreytiþörfinni hefur verið fullnægt, árleg þrifnaðargleði sem stundum hefur verið kallað "jólaskap", er líklega afstaðin. 
Framundan er dagur friðar og hugleiðinga, væntanlega, nema eitthvað ófyrirséð komi upp úr dúrnum.

Í herbergjum sínum hvíla nú þau sem deila munu jólum með okkur fD þessu sinni: ungfrúin á bænum, sem komin er heim frá borginni vestan Eyrasunds yfir hátíðarnar, og sá yngsti sem dvelur þennan veturinn í því sem sumir vilja kalla borg óttans.

Nokkru sunnar, í landamærabænum Görlitz má finna elsta afkomandann, þar sem hann ætlar að finna jólaandann á nýjum stað ásamt konu og dóttur, sem nú upplifir jólin fyrsta sinni með því móti að hún geti tjáð sig um það sem fyrir ber. 

Í austfirskum bæ dvelur sá næst elsti og nýtur jóla með sinni konu og syni, sem kom hér við eina dagstund eftir komuna frá þeim norður jóska bæ sem Álaborg nefnist. Þessi fjölskylda á leið í Laugarás til stuttrar dvalar áður en haldið verður aftur í ríki drottningar.

Svona ganga nú hlutirnir fyrir sig. Líklega ekki ósvipað og hjá mörgum öðrum sem komnir eru á þann aldur sem hér er um að ræða. Veruleiki sem hægt er að venja sig við og aðlagast. Þetta þýðir samt ekki að ævihlutverkinu sé að verða lokið, heldur aðeins að skipt er um gír; ekið áfram hægar og af meiri yfirvegun en oft áður.

Líklega er það ósköp eðlilegt að hugurinn hvarfli til liðinna jóla og ýmiss þess sem Kvisthyltingar hafa gengið í gegnum saman, súrt og sætt. Það ber að þakka fyrir þá sögu um leið og vonast er til að hún megi eiga sér framtíð þó í öðru formi verði.

---------------------------

Hvaða skilboð eru mest við hæfi á þessum tíma árs, til þess nafnlausa hóps sem lætur sig hafa það, að renna yfir það sem skráð er á þessa síðu, við og við?
Einfaldasta og eðlilegasta svarið er auðvitað að óska þess að allir þeir sem þeim hóp tilheyra, og fjölskyldur þeirra til sjávar og sveita, til fjalla og dala, hérlendis sem erlendis, njóti þess að geta haldið friðsæl og fagnaðarrík jól, hver með sínum hætti.

Það geri ég hér með.

17 desember, 2010

Svo jólakortin springi ekki!

Hjónin sem hér um ræðir eru nafnlaus, en samtalið átti sér stað þegar þau áttu leið í kaupstað skömmu fyrir jól. Í farteskinu voru jólakortin sem send skyldu vítt og breytt til vina og ættingja. Klukkan varð að nálgast 4, en þá er pósthúsinu yfirleitt lokað.

"Ég þarf að fara með kortin á pósthúsið áður en það lokar."

"Af hverju seturðu kortin bara ekki í póstkassann?"

"Ef hann er kannski ekki tæmdur fyrr en í fyrramálið?! Kemur ekki til greina!"

"Það er þá sem sagt hætta á að kortunum verði kalt?"

"Maður veit aldrei hvað getur gerst. Maður er alltaf að heyra af því að það sé verið að sprengja upp póstkassa. Ég er búin(n) að hafa fyrir að útbúa kortin og ætla sko ekki að taka sénsinn á að setja þau í póstkassa!"

Fleira var ekki sagt. 
Ekið á pósthúsið þar sem jólakortin komust inn í hlýjuna, og þeim stafaði engin hætta af  því að verða sprengd í loft upp.

Jól í nánd.

02 október, 2010

Leiðarlok Laugvetnings


Kristinn Kristmundsson, fyrrverandi skólameistari Menntaskólans að Laugarvatni, lést þann 15. september, 73 ára að aldri. Hann fæddist á Kaldbak í Hrunamannahreppi. Það eru 50 ár á þessu ári síðan hann gekk að eiga eftirlifandi konu sína Rannveigu Pálsdóttur (Bubbu) frá  Stóru-Sandvík. Þau eignuðust 4 börn.
Útför Kristins verður gerð frá Skálholtsdómkirkju í dag og hann verður jarðsettur á Laugarvatni.

Kynni okkar Kristins hófust haustið 1970, þegar ég hóf nám í Menntaskólanum að Laugarvatni, sama haust og hann tók við skólameistaraembættinu. Eftir árin þar lá leiðin annað þar til ég hóf störf sem kennari við skólann haustið 1986. Eftir það starfaði ég með Kristni þar til hann lét gott heita. Þar með lauk samskiptum okkar hreint ekki, þar sem hann og Bubba sóttu skólann oft heim síðan og í gegnum veru Bubbu í Skálholtskórnum héldu samskiptin einnig áfram.

40 ára kynni, sem aldrei bar skugga á, skilja eftir sig mynd af einstaklega heilsteyptum manni, sönnum húmanista með leiftrandi kímnigáfu. Þarna fór maður sem sóttist ekkert sérstaklega eftir sviðsljósinu, en lenti þar bara aftur og aftur, þar sem samferðamenn gerðu þá kröfu til hans að fá að heyra hvað hann hefði fram að færa. Ég hugsa að ég orði það sem svo, að af honum hafi geislað einhvers konar persónulegri dýpt. Hann var í eðli sínu fræðimaður, mikill íslenskumaður og afbragðs kennari. Aldrei varð ég var við að hann hreykti sér, þvert á móti ástundaði hann það að gera minna úr sjálfum sér en efni stóðu til. Þetta kom ekki síst fram þegar hann flutti tækifærisvísur eftir sjálfan sig, sem reyndust undantekningalaust fela í sér allt sem prýðir góðan kveðskap. 

Ég reikna ekki með að það hafi verið einfalt mál fyrir Kristin að taka við stjórn Menntskólans að Laugarvatni þegar hann var rétt að verða 33 ára að aldri. Unga fólkið á árunum í kringum og upp úr 1970 var nú ekki beinlínis það meðfærilegasta sem sögur fara af. Þetta voru árin þegar ungdómurinn var talsvert uppreisnargjarnari og gagnrýnni en nú er. Við þær aðstæður hlýtur að hafa reynt á ungan mann að halda utan um svo stórt heimili sem þarna var um að ræða. Lífsförunautur hans, hún Bubba, var án efa betri en engin í að styðja hann í erilsömu og krefjandi starfi.  Það má kannski líta svo á, að fyrsti áratugurinn hans við skólastjórnina hafi verið nokkurskonar eldskírn. Eftir það  vil ég fullyrða að hann hafi verið skólinn og skólinn hann. Þeir eru orðnir margir nemendur hans, sem nú minnast hans fyrir þau áhrif sem hann og skólinn höfðu á líf þeirra. Mér fannst það alltaf með ólíkindum, en samt lýsandi fyrir þá persónulegu nánd sem einkenndi skólabraginn, og hvernig Kristinn nálgaðist starf sitt, að hann hafði ávallt á hraðbergi nöfn allra nemenda, hvort sem þeir voru í skólanum eða horfnir á braut. 

Þó svo veikindi hafi sett eitthvert strik í reikninginn síðustu árin, var Kristinn ekkert á því að láta það aftra sér frá því að sinna hugðarefnum sínum og njóta lífsins að öðru leyti.
Mér sérstaklega minnistæð framganga hans í Ítalíuferð Skálholtskórsins fyrir nokkrum árum, þar sem hann reyndist enginn eftirbátur þeirra sprækustu.   
Ég minnist góðs samferða- og samstarfsmanns með hlýju og virðingu.
                                                                                                                                   

24 apríl, 2010

Engilingar

Það þurfti talsvert sterk bein til að standa af sér þá orrahríð sem garðyrkjan varð fyrir á þeim tíma þegar gengi krónunnar var lágt og innflutt  grænmeti, blóm og krydd, frá fjarlægum löndum fyllti hillur verslana. Auðvitað kom það síðan í ljós, hve mikilvægt það er fyrir þjóðina að vera sjálfri sér næg um þetta sem annað. 

Það hefur talist til ákveðinnar sérvisku lengi vel að stunda lífræna ræktun hér á landi, alveg fram á síðustu ár, en nú er þessi tegund ræktunar talin sem enn ein viðbótin við framboðið innan hins svokallaða græna geira.

Það er langur tími liðinn frá því einu grænmetistegundirnar sem voru ræktaðar í íslenskum gróðurhúsum voru gúrkur og tómatar. Á síðustu áratugum hafa íslenskir garðyrkjubændur stöðugt verið að þreifa fyrir sér með nýjar tegundir til ræktunar.














Nýir handhafar hvatningarverðlauna garðyrkjunnar hafa verið þátttakendur og frumherjar í þróuninni sem hefur gert íslenska garðyrkju að einni af mikilvægustu atvinnugreinunum.

Ingólfur og Sigrún er sérvitringar að mörgu leyti - óforbetranlegir, að margra mati, en ef svoleiðis fólk væri ekki til staðar væri þetta allt fremur lágkúrulegt hjá okkur.

Enn ein rósin í hnappagat okkar Laugarásbúa.

Ingólfur hefur látið hafa það eftir sér að þau eigi þetta nú ekki skilið, en hvað veit hann um það?

Hamingjuóskir til Engilinga.

04 apríl, 2010

Páskasól


Það er ekki laust við að maður sé skominn á það stig að óska þess að gula augað á himni taki sér hvíld um stund og víki þannig fyrir hlýjum sunnanvindum sem ná að vekja líf af vetrardvala. Mér liggur við að segja að það sé sólin sjálf sem er birtingarmynd páskahretsins hér sunnanlands. Vissulega má láta sig hafa það að fara út fyrir hússins dyr um hádaginn án þess að vera kappklæddur, en þar fyrir utan nær hitinn varla að skríða yfir úr frosti. Sem sagt, þessu má alveg fara að linna.


Ef manni tekst að líta framhjá því, að með sól á þessum árstíma fylgir oftast fremur svöl norðanátt, þá er sú gula hreint ekki alslæm. Hún hamast við að lofa því að vetrardrunginn hverfi brátt. Það er reyndar ekki hægt að segja að það hafa svo sem verið vetur yfirleitt.


Í tilefni af því að fD er nú farin til messu, sannarlega í trúarlegum tilgangi, sendi ég hér kveðju til lesenda, nær og fjær, til sjávar og sveita; kveðju sem flytur ósk þeim til handa um gleði og bjartsýni, sól í sinni og sumarsýn.


12 janúar, 2010

Annar hluti þess sem lítið er og stórt

Síminn hringdi og Óslóarangi Kvisthyltinga kynnti til sögunnar glænýjan mann, sem beðið hefur verið um nokkra hríð, með tilhlökkun hjá þeim sem enga, eða takmarkaða ábyrgð bera, og tilhlökkunarblandinni áhyggjukvíðaröskun hjá þeim sem þarna voru að eignast sitt fyrsta barn. Þau vita það sannarlega að framundan eru spennandi tímar minnkandi persónufrelsis, en ætli maður verði ekki að reikna með að þau séu fyllilega búin til slíks. Þau vita það væntanlega einnig, að jafnframt því sem þau missa eitthvað við svona nokkuð, þá birtist eitthvað annað í staðinn, margfalt stærra og verðmætara.

Hér eru ítrekaðar kveðjur okkar til nýbakaðra foreldra.



... og einnig til litla pjakksins.



24 desember, 2009

Þá eru það jólin

Það er auð jörð, frost, en meinlaust veður að öðru leyti á sunnanverðu landinu, en von á stórviðrum á norðvesturhorninu. Þannig er staðan hið ytra þegar jólahátíð gengur í garð. Þó víða um lönd telji fólk, sem á annað borð veltir því fyrir sér hvort þessi þjóð er til eða ekki, að hér gangi málin fyrir sig með miklum hörmungum, þá er staðreyndin sú, að ef við tökum mið af stærstum hluta mannkyns, þá lifum við við allsnægtir. Við njótum við þess að búa í góðum, upphituðum húsum, með ljós í hverju herbergi og nóg að bíta og brenna. Það er engin raunverulega ástæða til þess að við sökkvum okkur ofan í bölmóð og sjálfsvorkunn. Við getum verið reið við einhverja þá sem við teljum að hafi valdið þessu ástandi, en reiði okkar beinist í ýmsar áttir þar til þetta hefur allt verið gert upp samkvæmt þeim reglum sem við, sem þjóð höfum sett okkur.

Ég ætla ekki að þykjast telja, að enginn eigi erfitt á þessu landi á þessum tímum. Auðvitað er það svo. Það áttu líka margir erfitt á þeim uppblásnu tímum sem við lifðum fyrir nokkrum árum. Það munu einnig margir eiga erfitt þegar þetta áfall er liðið hjá. Þannig er nú líf mannsins í fortíð, nútíð og framtíð. Við eigum ekki að þykjast vera í verri stöðu en flestar aðrar þjóðir.

Að setjast við tölvuna sína og fá þar útrás fyrir reiði sína, sem allir geta lesið sem lesa vilja, er að mörgu leyti jákvætt, en líka talsvert varasamt. Fordæming á fólki, gífuryrði, bölv og ragn hefur lítið með gagnlega umræðu að gera. Þetta er tjáningarmáti sem fór fram innra með fólki fyrir daga bloggs og fésbókar, en fær nú að flæða fyrir augu hvers sem lesa vill. Því stórkarlalegri ummæli sem eru viðhöfð, því minna mark er hægt að taka á þeim. Þetta ár hefur verið ár upphrópana, sem má jafnvel líkja við stríðsástand. Skotfærin eru orðin sem sögð eru, eða skrifuð. Sem betur fer eru þau bara orð. Þau gætu verið eitthvað enn verra.

Það er ekki langt í að nýtt og líklega strembið ár gangi í garð. Það eiga eftir að falla mörg vanhugsuð orð og margir eiga eftir að þurfa að neita sér um margt það, sem sjálfsagt hefur þótt. Það eitt vitum við, að áfram líður tíminn án þess að nokkur fái rönd við reist. Það kemur að því, fyrr eða síðar, að upp renni bjartari tíð en sú sem nú er uppi.

Meira verður ekki sagt um þessi mál hér og nú.

Fyrir hönd Kvisthyltinga óska ég öllum lesendum þessarar útrásar- og upplýsingasíðu, gleði og friðar á jólum. Reynið nú að gera sem minnst og njóta þess í stað þess, að vera til með ykkar fólki, hvar sem það nú dvelur.

Mér telst til, að nú séu að ganga í garð önnur jólin frá árinu 1978, sem Kvisthyltingar eyða ekki saman, allir með tölu. Tveir þeir eldri dveljast erlendis með litlu fjölskyldunum sínum, en tveir þeir yngri gista æskuheimilið enn á jólum. Svona er gangur lífsins.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...