24 desember, 2010

Að höndum fer......

Það blæs úti og hitinn skriðinn upp fyrir frostmark. Þorláksmessuliðir eru afgreiddir með skötusuðu utandyra á æskuheimilinu. Reykelsi bjargaði því sem bjargað varð í húslyktarmálunm á þeim bæ í kjölfar framkvæmdar þess einkennilega siðar. Hangikjötið hefur hlotið viðeigandi suðu, skreytiþörfinni hefur verið fullnægt, árleg þrifnaðargleði sem stundum hefur verið kallað "jólaskap", er líklega afstaðin. 
Framundan er dagur friðar og hugleiðinga, væntanlega, nema eitthvað ófyrirséð komi upp úr dúrnum.

Í herbergjum sínum hvíla nú þau sem deila munu jólum með okkur fD þessu sinni: ungfrúin á bænum, sem komin er heim frá borginni vestan Eyrasunds yfir hátíðarnar, og sá yngsti sem dvelur þennan veturinn í því sem sumir vilja kalla borg óttans.

Nokkru sunnar, í landamærabænum Görlitz má finna elsta afkomandann, þar sem hann ætlar að finna jólaandann á nýjum stað ásamt konu og dóttur, sem nú upplifir jólin fyrsta sinni með því móti að hún geti tjáð sig um það sem fyrir ber. 

Í austfirskum bæ dvelur sá næst elsti og nýtur jóla með sinni konu og syni, sem kom hér við eina dagstund eftir komuna frá þeim norður jóska bæ sem Álaborg nefnist. Þessi fjölskylda á leið í Laugarás til stuttrar dvalar áður en haldið verður aftur í ríki drottningar.

Svona ganga nú hlutirnir fyrir sig. Líklega ekki ósvipað og hjá mörgum öðrum sem komnir eru á þann aldur sem hér er um að ræða. Veruleiki sem hægt er að venja sig við og aðlagast. Þetta þýðir samt ekki að ævihlutverkinu sé að verða lokið, heldur aðeins að skipt er um gír; ekið áfram hægar og af meiri yfirvegun en oft áður.

Líklega er það ósköp eðlilegt að hugurinn hvarfli til liðinna jóla og ýmiss þess sem Kvisthyltingar hafa gengið í gegnum saman, súrt og sætt. Það ber að þakka fyrir þá sögu um leið og vonast er til að hún megi eiga sér framtíð þó í öðru formi verði.

---------------------------

Hvaða skilboð eru mest við hæfi á þessum tíma árs, til þess nafnlausa hóps sem lætur sig hafa það, að renna yfir það sem skráð er á þessa síðu, við og við?
Einfaldasta og eðlilegasta svarið er auðvitað að óska þess að allir þeir sem þeim hóp tilheyra, og fjölskyldur þeirra til sjávar og sveita, til fjalla og dala, hérlendis sem erlendis, njóti þess að geta haldið friðsæl og fagnaðarrík jól, hver með sínum hætti.

Það geri ég hér með.

1 ummæli:

  1. Þakka góðar kveðjur og sömuleiðis, Kærar þakkir fyrir jólasendinguna sem var gerð af mikilli alúð.
    Bestu kveðjur til þín og þinna,
    Sigrún systir

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...