FRAMHALD AF ÞESSU
Malarvegurinn til áfangastaðarins, sem kallast "Blue River Resort & Spa" benti eindregið til þess að okkar biðu einhverskonar skógarkofar þar sem búnaður væri allur hinn frumstæðasti. Carlos bílstjóri gerði allt sem í hans valdi stóð til að mjór og holóttur malarvegurinn færi eins vel með okkur og kostur var, meðan sólin hraðlækkaði á lofti. Beggja vegna vegarins var annaðhvort þéttur frumskógur eða húsbyggingar, sem aldrei hefðu farið í gegnum bygginganefnd á Íslandi. Ég var nú reyndar ekki lengi að komast að því, fyrir sjálfan mig, hversvegna, enda kom í ljós að við vorum þarna komin í heimshluta, þar sem ekki rignir lárétt - heimshluta, þar sem þak er í rauninni alveg nóg og þar með útveggir nánast aukaatriði.
Það var komið myrkur þegar við renndum í hlað, eftir nokkrar tafir, þar sem kröpp beygja að mjórri brú, olli nokkrum töfum. Á móti okkur tók starfsfólk og úthlutaði lyklum að vistarverum. Ég set hér kort af þessu "resorti", sem má útleggja sem: "afmarkað svæði með hóteli, sundlaug og einhverri afþreyingu". Ékki kannast ég við orð á íslensku sem nær yfir þetta hugtak, set hér inn mynd af þessu svæði til útskýringar:
Frá bílastæðinu renndum við farangrinum, með leiðbeiningum starfsmanna, enda vissi maður varla hvað snéri upp eða niður þarna í myrkrinu. Það tók alveg tíma að komast á leiðarenda, en augljóslega tókst það. Bústaður nr. 104 tók við okkur og reyndist eitthvað allt annað en ég hafði búist við. Myndir sanna það.
Matarminni mitt er ekkert sérstakt, en ég tel að maturinn hafi samanstaðið af hrísgrjónum, svartbaunum og einhverju kjöti. Stundum, í ferðinni, gátum við valið á milli silungs, svíns og kjúklings, en ég er ekki viss hvernig þessu var háttað þarna. Maturinn var allavega alveg ágætur, eins og hann var reyndar í allri ferðinni.
Það sem mér þótti sérlega áhugavet þarna á veitingastaðnum var, að það voru engir veggir. Þetta var síðan oftar ekki raunin.
Íslensk líkamsklukkan kallaði á svefn og því engu nætulífi til að dreifa eftir matinn. Í draumaheimi dvöldum við til svona rúmlega kl. 3 eða 4 um morguninn, aldeilis klár í að takast á við þau undur sem biðu okkar.
Þetta er húsið okkar og gatan fyrir framan það, þegar birti af degi.





