14 desember, 2025

Costa Rica (4) - Nágrennið

FRAMHALD AF ÞESSU
Þegar til átti að taka morguninn eftir pg umhverfið blasti við í dagsbirtu, að ég uppgötvaði, mér til allmikillar hrellingar, að venjulega myndavélarlinsan mín (EFS 17-85mm) var biluð - föst í upphafsstillingu. Þetta setti ýmislegt úr skorðum. Ég hafði tekið með mér báðar linsurnar mínar í handfarangri og varla sleppt af þeim  augunum yfir höf og lönd. Sem betur fer reyndist hin linsan (EF 100-400mm USM) virka eins og skyldi.  Það þýddi ekkert að æðrast yfir þessari stöðu, stóra linsan fengi þá bara víðtækara hlutverk.

Morgunverðurinn

Þessi 3ji dagur ferðarinnar, sunnudagurinn 16. nóvember, hófst með morgunverði á veitingastaðnum. Honum var þannig háttað, að ákveðin tegund morgunverðar var innifalinn í dvölinni og ef þú vildir eitthvað umfram það, var hægt að panta það og greiða fyrir.  
Grunnmorgunverðurinn fólst í tveim tegundum af brauðsneiðum (sem hægt var að rista) með smjöri og hlaupsultu, einum þrem tegundum af ávöxtum og tveim til þrem tegundum af sætum kökum af einhverju tagi. Svo var ávaxtasafi og kaffi einnig á boðstólnum. Ég lét mér þetta bara vel líka, enda laus við valkvíða gagnvart stórum morgunverðarhlaðborðum. Það átti ekki við um alla og einhverjir keyptu sér líklega annarskonar morgunverð.  Þetta mál þróaðist þannig, að fararstjórarnir okkar, áhyggjufullir yfir mögulegum próteinskorti ferðalanganna, komu því svo fyrir að við gátum pantað okkur, úr þeirra vasa, eggjahræru (scrambled eggs) til viðbótar við grunnmorgunverðinn. Ekki varð ég var við að morgunverðurinn þennan fyrsta morgun, kæmi niður að getu hópsins í átökunum sem framundan voru þennan daginn.

Gangan að fossinum

Megin viðfangsefni þessa dags var gönguferð. Vandi minn og mögulega annarra í hópnum var, að ég áttaði mig engan veginn í hvaða átt var haldið frá  bækistöðinni. Bæði vegna þess, að við vorum á kafi í skógi og þar með engin sjáanleg kennileiti og svo var sólin, þegar hún birtist milli skýjanna, það hátt á lofti að hún hjálpaði lítið. 
Hvað um það, við mættum til brottfarar fljótlega eftir morgunverðinn og hafði verið bent á að búnaður okkar skyldi taka mið af því að við gætum skellt okkur í sund undir fossi. Við fD ákváðum að láta mögulegar sundferðir eiga sig að þessu sinni. Ég hugðist bara einbeita  mér að myndatökum.
Svo kom þarna 12 manna sendibíll og flutti helming hópsins á tiltekinn stað. Sá helmingur beið svo þar með Alejandro, þar til bíllinn kæmi aftur með hinn hluta hópsins. Við fD vorum í fyrri hlutanum sem beið.  Alejandro beið þarna með okkur og sá allskyns dýr og benti okkur á. 
Ég varð oft undrandi á því í ferðinni yfir því hvernig honum tókst að greina fugla, eða önnur dýr, hvort sem var í trjátoppum eða á jörðu niðri. Það má kannski skoða það sem ástæðu, að þú lærir á minnstu smáatriði í umhverfinu sem þú býrð alla jafna við. Þarna var ég stöðugt að rýna í trjáþykknið, en sá sjaldnast nokkuð, jafnvel ekki þó Alejandro reyndi að benda á það.  
Dæmi um hvað hann var naskur á umhverfið átti sér stað meðan mið biðum þarna eftir seinni hópnum. Þá benti hann okkur allt í einu á maur á trjástofni, sem ég átti fullt í fangi þeð að sjá í fyrstu, eiginlega ekki fyrr en maðurinn benti á hann með greinarstúf. 


Hér fyrir neðan er svo stækkuð mynd af maurnum. Því miður var ég bara með biluðu linsuna og varð því að fara eins nærri maurnum og ég þorði:


Alejandro tjáði okkur að þessi maur væri varasamur. Hann kallðist "Bullet-ant"- um 3 cm langur (held að það sé rétt munað hjá mér). Stunga hans er eins og maður fái í sig skot úr byssu, sem sagt frekar sársaukafullt líklega. Bólga í stungusárinu og sársauki getur varið í meira en einn dag. Það var, sem sagt ástæða fyrir því að ég hætti mér ekki nær til myndatöku.

Fyrri hluti hópsins bíður eftir þeim seinni og hlustar andaktugur á Alejandro.

Þegar seinni hluti hópsins  kom var haldið af stað í göngu upp með á sem ég reyni að vera viss um að heiti Río Azul, eða Bláá. Nafnið er augljóslega til komið vegna bláma vatnsins í henni, en það á rætur að rekja til eldfjallasvæðisins sem hún kemur frá, full af steinefnum, sem sagt.
Myndir segja meira um gönguna upp með ánni, svo ég læt þær duga fyrst um sinn. (bara smella á þær til að fá stærri útgáfu (þetta vita nú allir)









Þetta var ævintýralegt umhverfi og fagurt. Þar kom að hópurinn kom að fossi, sem ég hygg að sé kallaður Las Choreras vef Kúbuferða. Þennan foss hef ég ekki fundið á Google maps og þar með varð erfiðara hjá mér að átta mig á áttum á þessu svæði, ekki það að það hafi neitt breytt upplifuninni.
Þarna var kominn fossinn þar sem fólki gafst færi á að fækka fötum og skella sér ofan í tjörn undir fossinum og það gerðu flestir.





Ég var bara eitthvað að dunda mér með myndavélina með biluðu linsunni. Og rakst þá meðan annars á leðurblökur í skýli sem þarna var. 

Fossbaðinu lauk og 12 manna bíllinn flutti okkur aftur í bækistöðvarnar, þar sem við nýttum það sem eftir lifði dags við að kanna umhverfið aðeins betur og fara í heita pottinn.

Framhald síðar




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Costa Rica (4) - Nágrennið

FRAMHALD AF ÞESSU Þegar til átti að taka morguninn eftir pg umhverfið blasti við í dagsbirtu, að ég uppgötvaði, mér til allmikillar hrelling...