Sýnir færslur með efnisorðinu eitur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu eitur. Sýna allar færslur

16 janúar, 2019

Minning um eitur


Við teljum það meðal þess jákvæða við íslenskar gróðurhúsaafurðir að þær eru framleiddar án þess að til þurfi að koma eiturefni. Það er fjarri mér að gera lítið úr þeirri staðreynd, þvert á móti. Hún, ein og sér, er næg ástæða til að velja íslenskt grænmeti umfram það sem nálgast má frá garðyrkjuverksmiðjum annarra landa. 

Það er nú samt ekki svo, að íslensk gróðurhús hafi alltaf verið eiturefnalaus. Sú var tíð, að allskyns eiturtegundir voru notaðar við að halda skaðvöldum í ræktuninni í skefjum og það þótti hreint ekkert tiltökumál. Ég velti því stundum fyrir mér hvernig við, sem ólumst upp í svo eitruðu umhverfi, lifðum af.

Textinn sem fylgir hér er tekinn úr grein í Timanum frá 1949, þar sem fjallað er um garðyrkju á Íslandi og á þeim tíma munu hafa verið 7 hektarar undir gleri á landinu, í gróðurhúsum og vermireitum. 

Brennisteinn
Fram í hugann stökkva mis skýrar minningar um eiturefnanotkun í gróðurhúsunum í Hveratúni. Eftirminnilegast held ég að sé þegar brennisteinn var notaður til sótthreinsunar, en það var gert þannig, að  lokum af kíttisdunkum (ef einhver veit nú hvað það er) var komið fyrir á nokkrum stöðum í viðkomandi gróðurhúsi. Síðan var brennisteinshrauk komið fyrir á þessum lokum. Brennisteinninn var einhvernveginn gulgrænn að lit, svona eiturlitur.
Þegar búið var að setja brennistein á öll lokin var kveikt í honum, fyrst þeim sem fjærst var dyrunum. Mig minnir að ekki hafi nú dugað eldspýtur til. Síðan var bara að koma sér sem allra fyrst út úr gróðurhúsinu. Húsið þurfti að vera eins þétt og kostur var og það mátti ekki koma inn í það fyrr en sólarhring síðar.

Þetta eru leiðbeiningar um notkun brennisteins til sótthreinsunar sem birtar voru í Ægi, 1940:
Brennisteinn. Brennistein má ekki nota á málaða fleti. Að minnsta kosti 1 kg af brennisteini (brennisteinsblómum) þarf til þess að sótthreinsa hverja 10 rúmmetra. Brennisteinninn er settur í breiðan, grunnan járnpott. Hentug stærð er ca 1/2 metir í þvermál og 10 cm á dýpt. Potturinn er látinn standa í bala með ca. 5 cm djúpu vatni. Er það gert bæði til þess að koma í veg fyrir tjón, ef potturinn skyldi rifna meðan á brunanum stendur, og til þess að nægur raki verði í loftinu. Hæfilegt er að brennisteinslagið í pottinum sé 7—8 cm þykkt og þarf yfirborðið að hallast ofurlítið frá pottröndinni og inn að miðju, en þar er gerð dálítil hola, sem fyllt er með ca. 30 rúmsentimetrum af spírítus. Þegar brennslan skal hefjast, er kveikt á spíritusnum með eldspýtu. Allar rifur, dyr og gluggar verða að vera svo vel þéttaðir með álímdum pappírsrenningum, að reykurinn af brennisteininum tapist ekki út. Að minnsta kosti 24 klst. þurfa að líða áður en húsið er opnað aftur. 
Brennisteinninn var ekki notaður nema í lok ræktunartímabils, þegar komið var að því að "henda út". Því fór fjarri að hann væri ein eiturefnið sem notað var í gróðurhúsunum, en ég kann ekki að nefna þau öll. Sum verkuðu á skorkvikindi, önnur á sjúkdóma af ýmsu tagi. Til að dreifa efnunum voru notaðar úðadælur af ýmsu tagi og gasgrímur fyrir andlitinu. 

Ég stundaði ræktun á papriku á níunda og tíunda áratugnum, en blaðlús er, af einhverjum ástæðum, afskaplega hrifin af paprikuplöntum.  Á fyrri hluta þess tíma sem ég stóð í þessari ræktun notaði ég eiturefnið Permasect og einnig annað sem kallaðist Torque til að úða yfir plönturnar þegar lúsarfjandinn lét á sér kræla. Það var svo undir hælinn lagt hvort tókst að ráða niðurlögum þessara kvikinda, sem fjölguðu sér ógnarhratt. Þarna þurfti maður að bakka í gegnum gróðurhúsið, með útðabrúsann, með gasgrímu fyrir andlitinu.

Svo var farið að tala um lífrænar varnir.

Sníkjuvespa að verpa í lús. Af vefnum innigardar.is

Ég get viðurkennt það nú, að við fyrstu kynni fannst mér þetta hlyti að vera húmbúkk,  sem ekkert gagn myndi gera. Samt sem áður ákvað ég nú að prófa. Pantaði svona sníkjuvespur (Aphidius ervi), en þær voru fluttar inn í plastflöskum með einhverju æti í. Þessuer dreift á plönturnar og svo þarf bara að bíða.
Ég lærði það fljótt að ef ég var búinn að missa lúsina og langt, tókst þessum sníkjuvespum ekki að yfirbuga þær. Ef gripið var nógu snemma inn í virkaði þetta afskaplega vel.  Sníkjvespurnar verpa í lýsnar og þær breytast við það í múmíur. Út úr dauðum lúsunum skríða síðan nýjar vespur sem taku til við að verpa í aðrar lýs. 
Ef lúsin var komin vel á skrið var og er til ránmýs og Maríuhæna, sem ég prófaði einu sinni (og horfði á fljúga út um gluggana).
É gkomst upp á lag með að nota lífrænar varnir og þá varð ekki aftur snúið. Þvílíkur munur sem það var, að þurfa ekki að vera að sulla í eitri.
Það er varla að þeim sem stunda matjurtaræktun í dag, detti í hug að nota annað en lífrænar varnir.
Sem betur fer. 
Þetta er ein af ástæðum þess, að við eigum að velja íslenskt grænmeti. 

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...