Sýnir færslur með efnisorðinu franska. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu franska. Sýna allar færslur

29 september, 2017

Ég veit það ekki / Je ne sais pas

Vorið 1974 lauk ég stúdentsprófi af máladeild Menntaskólans að Laugarvatni.  Í máladeildum þess tíma voru kennd tungumál og fyrir utan að hafa þekkta fræðimenn sem íslenskukennara (Haraldur Matthíasson, Ólafur Briem og Kristinn Kristmundsson), var ég sérlega heppinn með enskukennarann Björn Inga Finsen, frönsku- og latínukennarann Kristján Árnason og þýskukennarann Vilborgu Ísleifsdóttur. Danskan var kannski ekki jafn metnaðarfull, en ekki fannst mér hún beinlínis óþolandi.

Veturinn eftir stúdentsprófið fékk ég kennarastöðu við Lýðháskólann í Skálholti og fékk þar nokkurskonar eldskírn í því starfi sem kennsla er. Meðal kennslugreinanna var franska og kennslubókin var "Avec plaisir" (Með ánægju).

Það má segja, að það hafi verið á grundvelli þessarar kennslu í Lýðháskólanum, sem ég sættist á að taka að mér viku kennslu í frönsku í forföllum í þrem bekkjum í ML. Þessari viku lauk í dag.
Sennilega var ég beðinn um þetta vegna þeirrar undarlegu áráttu minnar gegnum árin að þurfa sífellt að vera að slá um mig með einhverjum frösum á frönsku eða þýsku (Eitthvað verður maður að nota nám sitt í).

Mér leist nú ekkert sérlega vel á hugmyndina fyrst, en ákvað samt að slá til, dragandi eins mikið úr getu minni til þess arna og mögulegt var, einfaldlega til að skapa sem minnstar væntingar.
Efnið sem fyrir lá var nokkuð vel afmarkað og undirbúið upp í hendurnar á mér og ekki varð annað séð en þetta gæti allt gengið nokkuð bærilega.

Byrjendahópi var mér ætlað að kenna heitin á dögum og mánuðum. Þar komst ég fljótlega að því, að ég kunni talsvert meira en þau (eru búin að læra frönsku í 5 vikur) og óx þar með ásmegin.

Nemendum í þriðja bekk, sem eru í sínum þriðja áfanga í frönsku, var mér ætlað að kenna Passé composé, eða svokallaða samsetta þátíð sem myndast með hjálparsögnunum AVOIR (hafa) og  ÊTRE (vera). Einhvernveginn hefur Kristjáni Árnasyni tekist að koma málum svo fyrir í gamla daga að þetta reyndist hreint ekki óyfirstíganlegt og þó ég segi sjálfur frá, þá held ég að aðal frönskukennarinn þurfi ekki nema fínpússa þegar hann kemur aftur til starfa.

Loks var mér ætlað að halda nemendum síðasta hópsins, sem var nýkominn úr viku námsferð til Parísar, að verki við plakatagerð, en það er kennsluaðferð sem ég hélt, í alvöru, að ég myndi aldrei þurfa að sinna. Sjálfsagt hefur hún sínar jákvæðu hliðar, en eins og mér var sagt í kennslufræðinámi fyrrum, þá verður hver kennari að finna þá nálgun að kennslunni sem hentar persónu hans best. Ég er ekki plakatpersóna og það þóttu tíðindi meðal fyrrum samstarfsmanna, þegar ég keyrði "föndurvagninn" um gangana í vikunni.

Loks þykir mér rétt að geta þess að ég var heppinn með nemendur í þessum tímum.  Byrjendurnir og ég höfðum eiginlega aldrei átt nein samskipti áður, svo þau voru frekar feimin við mig, eða eitthvað (eikkað/einkað).  Ég hafði með sama hætti ekki haft nein kynni af þeim svo þau voru bara svona nafnlaus massi fyrir framan mig, eða þannig. En þetta var í góðu lagi held ég.
Miðhópurinn var skemmtilegur og jákvæður, jafnvel þó rödd heyrðist sem tjáði andúð sína á að þurfa að læra frönsku.
Hópur þeirra sem lengst voru kominn vann sín verk við að klippa og líma og skrautskrifa, rétt eins og fyrir var lagt.

Hreint ágætt bara, en ég held ég muni ekki taka jafn jákvætt að frekari beiðnir um forfallakennslu.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...