Sýnir færslur með efnisorðinu heimavöllur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu heimavöllur. Sýna allar færslur

16 janúar, 2020

FC Kvistur: 0 - FC Sylvaticus: 2

Það þekkjum við Íslendingar, að það er alltaf erfitt að tapa, sérstaklega fyrir Dönum.
Mér finnst líka erfitt að tapa. Ég tapaði í gær og er ekki enn búinn að jafna mig. Ég efast um að ég muni nokkurntíma jafna mig. Hvernig er líka hægt að jafna sig eftir svona nokkuð?

Eins og mörgum, sem þetta lesa, er kunnugt, þá hef ég útbúið hér á pallinum fyrir utan hús, aðstöðu fyrir fugla himinsins og þangað hendi ég fæðu svo þeir megi lifa af íslenskan vetur og geti síðan, þegar  vorar, búið sér til hreiður með eggjum og þannig viðhaldið stofninum og við fengið að njóta sumargleði þeirra.

Pallurinn er minn heimavöllur og það má líta svo á, að allir þeir heimaleikir sem ég á þar, séu vináttuleikir sem enda alla jafna á jafntefli. Einstaka sinnum (reyndar of oft á þessum vetri) sækja mig heim lið sem ég vil ekkert sérstaklega takast á við. Þau hafa hinsvegar verið að færa sig upp á skaftið.

Í gær fór fram á pallinum leikur, sem fór því miður ekki vel, enda reyndist við ofurefli að etja; slíkt að ég þykist góður að hafa ekki farið ver út úr þeim atgangi en raunin varð.
Frá þessu skal nú greint.

Aðstaðan og aðdragandinn.

Pallurinn hér fyrir utan er nokkuð stór, en snjóalög hafa leitt til þess að ég hef grafið stíga að fóðurborðum. Þessir stígar eru reyndar ísilagðir, en það hefur ekki komið að sök. Inni hef ég síðan þessa ágætu CROCS skó, sem ég fer í þegar ég legg leið mína út á pall.
Það er rétt að geta þess að hiti í Laugarási í gær var örlítið yfir frostmarki.
Leikurinn sem fór fram á pallinum í gær, átti aldrei að eiga sér stað, en gestaliðið kom málum þannig fyrir, að hann varð ekki umflúinn

Leikurinn

Völlurinn. Myndin er tekin eftir leikinn og má þarna sjá nokkur merki um atganginn.

Þarna tókust á heimalið og lið gesta. Heimaliðið, sem var auðvitað ég, kalla ég FC Kvistur (sem kallast ÉG hér eftir) og gestaliðið, sem var hagamús sem lék undir nafninu FC Sylvaticus (Hagamús kallast Apodemus sylvaticus á fræðimáli). Þetta lið kallast MÚSIN hér eftir. Þjálfari og eigandi FC Kvists er fD, sem kallast fD hér eftir.

Leikurinn hófst þannig, að við reglubundna skoðun á vellinum sást að MÚSIN var þar mætt til leiks (sjá Fyrri hálfleikur á myndinni). Þar sem framundan var það mál í Kvistholti, að nauðsynlegt taldist að ljúka yrði þessum leik sem fyrst, opnaði ÉG dyrnar út á pall, í þeirri trú að það dygði til sigurs, enda hafði það verið svo fram til þessa. 
En ekki núna.
MÚSIN sat þarna áfram grafkyrr og sinnti sínu; lét eins og ekkert væri, hitaði upp. Við svo búið mátti ekki standa, og eftir leiðbeiningar frá fD tók ÉG mér í snjó í hönd sem ég hnoðaði í snjóbolta. Boltanum henti ég síðan í átt að MÚSINNI. Boltinn lenti í um meters fjarlægð frá markinu og hafði engin áhrif. MÚSIN lét sér aldeilis ekki bregða við þessa árás. Haggaðist ekki. Virtist varla líta upp. Því var það, að ÉG hnoðaði annan snjóbolta og kastaði aftur og nú nær en fyrr, en með nákvæmlega sömu áhrifum.

Þarna var það orðið ljóst að ÉG yrði að fara út í beinskeyttari aðgerðir, ef einhver von ætti á vera til þess að sigur ynnist innan tímamarka. ÉG varð að fara út á völlinn og freista þess að ná sigri í meira návígi. ÉG fór í Crocs skóna og steig út. Í því bar svo við, að fD hvarf af hliðarlínunni og hélt til dyngju sinnar og varð þar með ekki vitni að því sem nú fór í hönd. Kannski var það eins gott.

ÉG, sem sagt, steig út á pallinn og gekk, með nokkuð ógnandi hljóðum í átt að MÚSINNI, sem lét sig atferli mitt litlu skipta, rétt eins og ÉG væri ekki þarna. ÉG velti eitt augnablik fyrir mér, hvort  andstæðingurinn væri ef til vill bæði blindur og heyrnarlaus, svo rólegur var hann, þar sem ÉG nálgaðist með svo ógnandi tilburðum sem þarna var um að ræða.
Við svo búið mátti ekki standa og þar sem ég var kominn í um það bil meters fjarlægð, án þess að MÚSIN léti sig það nokkru skipta, ákvað ég að grípa til aðgerðar sem myndi endanlega gera út um leikinn.
Nú var það svo, eins og áður hefur komið fram og sést á myndinni af vellinum, að hann var ísi lagður og hiti rétt yfir frostmarki. ÉG var íklæddur Crocs plastskóm. Við þessar aðstæður ákvað ÉG að sparka snjó úr nálægum skalfi í átt til MÚSARINNAR og þar með gera út um leikinn.  Ég er viss um að hver sá sem þetta les, getur ímyndað sér hvað gerist, þegar maður í plastskóm ætlar að taka vítaspyrnu á ísilagðri tjörn. Um það gilda einföld eðlisfræðilögmál. Áður en ÉG gat hugsað málið til enda, tókst ÉG á loft og lenti síðan á bakinu á vellinum.
ÉG hafði þarna fengið á mig nokkuð dramatískt mark og þar með lauk fyrri hálfleik, ...... nema MÚSIN hefði gefið leikinn og horfið til síns heima út í skógi. Við þær aðstæður hefið leiknum verið lokið, með sigri mínum - eða ekki.
Þegar ÉG hafði komist að því, að ÉG var óbrotinn; lemstraður, en óbrotinn, fór ég að líta í kringum mig, þar sem ég lá á bakinu á miðjum velli. Ég vonaði sannarlega  að MÚSIN hefði þara gefið leikinn, en sú von brást. Það var eins og hlakkaði í henni (túlkun mín) þar sem hún stóð undir húsveggnum og horfði á mig. Stóð þarna hreyfingarlaus og naut þess að hafa fellt þennan Golíat svo eftirminnilega. Naut þess að hugsa með sjálfri sér sem svo, að og það geti verið skynsamlegt að gera frekar minna en meira. Naut þess, að .......
ÉG neita því ekki, að þarna var adrenalínflæðið í líkama mínum það mikið orðið, að það fjarlægði það litla sem eftir var af yfirvegun og skynsemi, en þess í stað rann á mig vígamóður. ÉG stökk á fætur, ef hægt er að kalla það því nafni þegar um er að ræða karlmann á mínum aldri. Stóð síðan ógnandi andspænis MÚSINNI sem hló að óförum mínum við vegginn (sjá Síðari hálfleikur á myndinni).
ÉG var þess albúinn að grípa til hvaða ráða sem var til að gera út um þennan leik. Því var það, að ég, í fjarveru eiganda og stjórnanda liðsins, fD, gekk þungum, en ákveðnum skrefum í átt að skellihlæjandi MÚSINNI. Þar sem ÉG var kominn næstum að borðinu (sjá mynd) lét ÉG vaða í aðra, enn öflugri vítaspyrnu en í fyrra skiptið ...... með enn dramatískara falli, beint á bakið, svo úr mér varð allur vindur.  ÉG komst að því, þegar ég náði andanum aftur, að enn var ég óbrotinn, en nokkuð lemstraðri en eftir fyrra fallið.  Sem fyrr leit ég rannsakandi í kringum mig. Komst fljótt að því, að þar var enga MÚS að sjá. Hafði hún flúið af vettvangi og játað sig sigraða, kannski? 
Nei, hún hafði stigið af vellinum, ósigruð.  Þið sem hafið horft á hnefaleika vitið, að þegar annar aðilinn í þeim leik liggur blóðugur á gólfinu, hefur hinn að öllum líkindum sigrað. Það var þannig þarna.
Þjálfarinn og eigandinn beið mín þegar ÉG gekk af velli og fór úr Crocs skónum við hliðarlínuna, Hann lét sér fátt um finnast. Hafði ekki fylgst með leiknum, en greina mátti allnokkra óánægju með þetta ótrúlega tap á heimavelli.
Nú bíð ÉG eftir að félagaskiptaglugginn opni.

Lexían: Sagan um Davíð og Golíat er sönn.
 

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...