Sýnir færslur með efnisorðinu kennslustund. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu kennslustund. Sýna allar færslur

05 apríl, 2020

Kannski er þetta kennslustund

Þegar maður vaknar klukkan fimm að morgni, þá er það ekkert endilega aldurstengt.
Það hvín í húsinu og dynkir heyrast þegar hver hviðan á fætur annarri lætur hálfrar aldar trjágróðurinn hneigja sig í lotningu fyrir kennaranum eina, náttúrunni og óskoruðu valdi hennar yfir öllu því smáa sem staldrar við á jörðinni skamma stund af eilífinni, en hverfur síðan, eins og sandkorn sem aldan skolar af stöndinni, eitthvert út í óravíddir hafsins. Kemst að því að það skiptir í raun svo ógnar litlu þegar upp er staðið.

Hverfur.

“Life's but a walking shadow, a poor player,
That struts and frets his hour upon the stage,
And then is heard no more. It is a tale
Told by an idiot, full of sound and fury,
Signifying nothing.” 
W. Shakespeare - "Macbeth"

Sljór farandskuggi er lífið, leikari 
sem fremur kæki á fjölunum um stund 
og þegir uppfrá því, stutt lygasaga 
þulin af vitfirringi, haldlaust geip, óráð 
sem merkir ekkert. 
(þýðing Helgi Hálfdánarson)


Ætli ég hafi ekki byrjað að finna fyrir þeirri tilfinningu fyrir svona tveim áratugum, að mannkynið væri á vegferð, sem hlyti að ljúka með einhverjum afgerandi hætti. Mér hefur fundist við vera kominn inn í einhvern spíral, sem flytur okkur æ hraðar að einhverjum þeim endapunkti sem er óhjákvæmilegur, eftir að hann hefur á annaðborð náð að grípa okkur með sér. 

Ég hef átt í nokkrum erfiðleikum með að geta mér til um hvar þetta ferðalag okkar myndi enda: ferðalag sem hefur einkennst að stöðugt meiri fjarlægð okkar frá náttúrunni. Sannarlega höfum við notað hana óspart í okkar þágu, litið á hana sem hráefni til að búa til heim sem er fullur af græðgi, óhófi og sjálfsupphafningu. Stöðugt hraðar og hraðar, höfum við lifað og stöðugt hraðar tekið og notað það sem við eigum ekki. Þetta höfum við gert í okkar þágu og á kostnað þess sem leyfir okkur að dvelja hér skamma stund. 
Við erum vanþakklátur hópur. 
Við erum með afbrigðum  eigingjarn og sjálfselskur hópur. 
Við höldum að við séum "kóróna sköpunarverksins".
Við erum hinsvegar svo ógnarlítil og varnarlaus þegar upp er staðið.


Ef það er nú svo, að þessi spírall hefur fært okkur að einhverjum endapunkti; punkti þar sem náttúran segir: "Hingað og ekki lengra", hvað tekur þá við?

Ég held að flest okkar veltum fyrir okkur á þessari stundu, sem er í rauninni ómælanlegur hluti af tímanum, hvað tekur við þegar þessari áminningu linnir; þegar kennarinn mikli hefur sett okkur stólinn fyrir dyrnar og tilkynnt okkur, að nú sé nóg komið af græðginni, óhófinu og sjálfsupphafningunni.  
Mér finnst þetta vera óhjákvæmilegar vangaveltur. 
Hvert ætlum við að fara eftir að við höfum náð þessum botni? Liggur leiðin aftur til baka, í ákveðinni auðmýkt og viðurkenningu á því, að við höfum verið á rangri leið? Liggur leiðin kannski áfram í fullvissu þess að við séum ekki komin á neinn fokking botn? 

Þetta er tími til að staldra við og, að minnsta kosti, velta vöngum smá stund. 
Erum við  kannski komin svo langt frá náttúrunni að við sjáum ekkert samhengi?  
Er það kannski svo að við viljum ekki sjá og viljum ekki heyra? Erum við orðin svo stór upp á okkur og mikl með okkar, að við sjáum okkur sjálf, hér og nú, sem það markverðasta sem jörðin hefur fengið að njóta frá því hún myndaðist? 

Ég vona að framundan sé tími sem við nýtum til að endurhugsa tilveruna í heild sinni. 
Við þurfum að staldra við og velta svo ótalmörgu fyrir okkur. 
Við þurfum helst að geta sætt okkur við, að við höfum gengið of langt og höfum nú fengið alvarlega áminningu frá kennaranum.  
Við vitum ekki hvort þetta er síðasta áminningin áður en okkur verður vísað úr skólanum. 
Það er ekki þess virði að komast að því.



Stöldrum nú við - fyrir framtíðina.  (Gabríel, Júlía, Emilía og Rakel)

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...