Sýnir færslur með efnisorðinu símalína. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu símalína. Sýna allar færslur

09 júní, 2021

Varla vansæmdarlaust

Unnið við að leggja símalínu - einhversstaðar
Fólk var að byrja að lifa hraðar, þarna á fyrstu tveim áratugum síðustu aldar. Í stað venjulegra róðrarbáta við að komast yfir árnar, þurfti að setja upp dragferjur til að komast í kaupstað. Þetta var svo ekki nóg, því það þurfti endilega að fara að byggja brýr yfir árnar, sennilega til að auðvelda lífið. Ekki nóg með það, á tímum heimstyrjaldar var allt að fara á fleygiferð og krafan um að fá símatengingu í hverja sveit varð æ háværari. Hvar gat þetta eiginlega endað? 

Tungnamenn hafa aldrei verið meðal kröfuhörðustu íbúa þessa lands, en þegar svo var komið að það var kominn talsími í neðri sveitir, varð ekki lengur þagað og hreppsnefndin sendi sýslunefndinni bréf til að fá hana til að biðja síma- og landsstjórnina að fara nú að gyrða sig í brók og leggja símastreng í Tungurnar. Hér kemur svo bréf Tungnamanna, þar sem þeir freista þess að beita fyrir sig erlendum ferðamönnum og kónginum sjálfum:

Eins og tekið er fram í lögum nr. 25, 22. okt., 1912, um ritsíma og talsímakerfi Íslands, 4. gr., á að leggja síma frá Hraungerði að Torfstöðum upp í Hreppa o.s.fr.  Síðan eru liðin 6 ár og þessi sími þó eigi kominn lengra en spölinn frá Hraungerði að Kiðjabergi, syðsta bæ í Grímsnesi á þessari leið. Með öðrum orðum má segja, að hann sje sama sem ekkert kominn áleiðis, því að þessi spotti hans er gagnslaus fyrir allar sveitirnar, sem honum er, á endanum ætlað að ná um, meira að segja gagnslaus fyrir meginhluta Grímsneshrepps.

Eins og tímanna táknum er nú varið, má með sanni segja, að sími sé yfirleitt nauðsynlegastur af öllu nauðsynlegu, hvað alt viðskiftalíf snertir. Kaupstaðirnir, þar sem þjettbýlið er þó svo mikið og verslun og aðdrættir hægir, hafa talið sjer síma óhjákvæmilega. Sama er að segja um sveitir og hjeruð, sem standa vel að vígi hvað verslun og aðdrætti snertir, að þeir telja sjer á þessum tímum síman óhjákvæmilegann. Hvað mætti þá segja um sveitir eins og Biskptungnahrepp, sem liggur í ca. 90 km. fjarlægð frá aðalverslunarstað sínum Reykjavík, á þangað að sækja yfir einn hinn mesta fjallveg, Hellisheiði, er stórvötnum lukt á alla vegu og auk þess sjálf víðáttu mikil og veglaus. Hví ætti þá ekki sími að vera slíkri sveit beinlínis lífskilyrði, til að spara ferðalög og ljetta öll viðskifti?

Allavega mjög gamalt símtæki
Á það má einnig líta, að þessi sveit hefir að geyma Geysi og Gullfoss, sem útlendir og innlendir ferðamenn streyma að á sumrum til að skoða. Varla getur talist vansæmdarlaust að veita þeim ekki þau þægindi, að geta haft síma nálægt sjer, mönnum, sem ekki hafa áður þekt eða reynt slíka einangrun, sem er að því að komast úr símasambandi við umheiminn og sem bera síðan frjettir út um heiminn um menningu eða menningarleysi vort. Síðast mætti og minna á það, að konungur vor er væntanlegur hingað á næsta sumri og má þá telja víst, að hann vilji bregða sjer hingað austur til að sjá Geysi, Gullfoss og ef til vill hinn fornfræga stað, Skálholt, og má þá búast við, að honum finnist fátt um um, auk vegleysanna, að vera algert út úr símasambandi svo langa leið, sem um er að ræða.

Heyrst hefir að símastaurar og þráður væri þegar til, en myndi jafnvel ekki verða notað í þenna löngu lögboðna síma, vegna þess, að þessi sími myndi ekki gefa jafnmiklar tekjur og væri hann lagður annarsstaðar. En er þá ekkert að      aðstæður og hag sveitanna, sem ...??? [neðsti hluti blaðsins skemmdur og þvó ólæsilegur - sjá mynd] líklegt, að þessi sími gefi jafnmiklar tekjur og annarsstaðar, þar sem sveitirnar, sem hann lægi um, eru allfjölmennar? Auk þess er nýstofnað Kaupfélag innan þeirra, sem óhjákvæmilega þarf mjög á síma að halda.


Með erindi þessu viljum vjer beina máli voru til hinnar heiðrðu sýslunefndar Árnessýslu, ef hún vildi taka mál þetta að sjer og koma því á framfæri við síma- og landsstjórnina og gera sitt til, að þvi verði hraðað til framkvæmdar, svo að Biskupstungnahreppur og aðrar uppsveitir sýslunnar verði eigi lengur en þörf gerist, látnar vera án þessa óhjákvæmilega viðskifta og menningartækis, sem sími er.


Virðingarfyllst
Biskupstungnahreppi 24. mars, 1919
Eiríkur Þ. Stefánsson, Torfastöðum (bréfritari)
Þorsteinn Þórarinsson, Drumboddsstöðum
Bjarni Guðmundsson, Bóli
Jón Gunnlaugsson, Skálholti
Björn Bjarnarson, Brekku.


Afgreiðsla sýslunefndar á erindi Tungnamanna.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...