Sýnir færslur með efnisorðinu Hilmar Einarsson. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Hilmar Einarsson. Sýna allar færslur

17 febrúar, 2023

Hilmar Einarsson - minning

"Fleiri nýjungar litu dagsins ljós og voru til marks um þá viðleitni stjórnvalda og skólayfirvalda að endurskipuleggja starfsemi menntaskólanna og bæta úr því sem aflaga hafði farið á undanförnum árum. Þegar um haustið 1970 var ráðinn sérstakur starfsmaður til að hafa umsjón með nemendabústöðum, umgengni þar og heimilisháttum. Var það gert á grundvelli nýrra laga um menntaskóla frá sama ári og var meira en tímabært ef tekið er mið af rekstri skólans á undanförnum árum. Nýi starfsmaðurinn var Hilmar Einarsson trésmíðameistari og hafði hann reyndar unnið að byggingu og frágangi heimavistarhúsanna allt frá því fyrsta skóflustungan var tekin.  Annálaritari skólans  þóttist hinsvegar vita allt um það,  til hvers leikurinn var gerður: "Hann á að passa að nemendur drekki ekki brennivín og að þeir gangi vel um húsin". Nú var líka kjörið tækifæri fyrir nemendur, að sýna snyrtimennsku í hvívetna." 

 (Margrét Guðmundsdóttir, Þorleifur Óskarsson: Menntaskólinn að Laugarvatni, forsaga, stofnun og saga til aldarloka. Sögusteinn 2001, bls 193)

Það má kannski segja, að haustið 1970 standi, að vissu leyti, upp úr í sögu Menntaskólans að Laugarvatni og kemur þar þrennt til: Hilmar var ráðinn til að hafa umsjón með heimavistunum, nýr skólameistari, Kristinn Kristmundsson, hóf störf, og ég settist í 1. bekk. Þetta þrennt átti síðan fljótlega eftir að búa til þá sögu sem hér verður frá greint, eftir stuttan inngang.

Ungt fólk á þessum árum var, svona þegar litið er til baka, ekkert sérlega leiðitamt, ef svo má að orði komast. Ekki vil ég segja að það hafi verið uppreisnargjarnt, en allavega vildi það, mögulega umfram aðrar kynslóðir ungs fólks, gjarnan fara sínar eigin leiðir. Mér verður stundum hugsað til þeirrar stöðu sem þeir Kristinn og Hilmar voru búnir að koma sér í með því að taka við rekstri skólans þetta haust. Þarna beið þeirra starf með, eða fyrir, all kraftmikið ungt fólk.

Þetta vor lauk ég námi í Héraðsskólanum, þar sem Benedikt Sigvaldason var skólastjóri. Dvölin í héraðsskólanum var að mörgu leyti eftirminnileg, er hún er ekki umfjöllunarefnið hér, utan að geta þess, að ekki fór hjá því að ég hlakkaði dálítið til þess að komast í hóp menntskælinganna, sem nutu talsvert meira frelsis til ýmissa athafna, en dvölin í héraðsskólanum bauð upp á. 

Hvað um það, þarna héldu þeir Kristinn, 33 ára og Hilmar, þrítugur, inn í haustið og voru búnir að setja upp hvernig þeir hygðust nú halda utan um hópinn sem lagði leið sína á staðinn. Þeir voru búnir að setja upp nokkuð ákveðið kerfi um það hvernig tekið skyldi á málum, ef nemendur vikju af tiltekinni braut siðprýði og ásættanlegrar hegðunar.  Einn hluti áætlunarinnar fólst í því, að Hilmar fékk bók í hendur, þar sem skráð skyldu frávik frá því sem hægt væri að sætta sig við, að því er hegðun varðaði. Þannig var það hugsun þeirra (tel ég), að með bókhaldi af því tagi yrði hægt að kortleggja hvernig landið lægi hverju sinni og bregðast við með fyrirfram ákveðnum hætti við ítekuð brot á þeim reglum sem giltu á heimavistinni.

Það sem fer hér á eftir, skrái ég eftir nokkrar vangaveltur um réttmæti þess að varpa ljósi á gamlar syndir. Hilmar hafði gaman af að rifja upp þessa sögu í heyranda hljóði, eftir að ljóst var orðið að ég, með framgöngu minni á fullorðinsárum, hafði sýnt fram á að ég hafði komist tiltölulega óskaddaður frá þessu öllu saman. Þetta er saga sem hvorugur okkar gleymdi og fyrir mér er hún einkar ljóslifandi. Ég treysti mér til að segja hana frá minni hlið, vegna þess að nú nýt ég eftirlaunaáranna og ekkert getur snert mig lengur þannig að skaða megi.  Vissulega er sumt í þessari sögu ekki alveg skýrt, en það verður að vera svo. Nú er ég einn eftir til frásagnar og frásögn mín er svona:

Haustið 1970 kom ég, ásamt öðrum nýnemum inn í þennan nýja heim, sem heimavist ML var. Vissulega hafði ég þá kynnst heimavistarlífi ágætlega, eftir þrjá vetur á heimavist héraðsskólans í skjóli Benedikts Sigvaldasonar og hans fólks. Ég vissi auðvitað, að um dvölina á vistinni giltu reglur. Ég var einnig kominn á þá skoðun og deildi henni með skólafélögunum, að reglurnar væru þess eðlis, að ef brot á þeim færu "undir radarinn" teldist ekki um raunverulegt brot að ræða. 

Þar sem þessi saga hefst minnir mig að framundan hafi verið Busaball. Við busarnir (nýnemar) sem ekki höfðum aldur til, fengum eldri og reyndari skólafélaga til og kaupa fyrir okkur það sem til þurfti, svo ballið gæti "farið vel fram". Þarna hafði ég gert nauðsynlegar ráðstafanir. Þegar þeir sem tóku að sér að kaupa inn fyrir mig komu síðan úr innkaupaferðinni, þurfti ég að fara út í bílinn til þeirra til að nálgast varninginn. Þarna var um að ræða einskonar uppmjóa vodkaflösku af tiltekinni tegund.  Ég fékk flöskuna í hendur á bílaplaninu fyrir utan NÖS og kom henni fyrir undir úlpunni. Síðan hélt ég glaður í bragði inn í vistina. Þar var herbergið mitt  á efri hæðinni, í þeim hluta sem næstur er skólahúsinu. Það var tveggja manna, hægra megin á ganginum, líklegast fyrsta eða annað herbergi frá snyrtingunum. 

Ég átti ekki von á því að heimavistarhúsbóndinn Hilmar yrði neitt á ferðinni á þeim tíma dags sem þarna var um að ræða og var því mögulega full kærulaus (eða saklaus) í umgengni minni við flöskuna. Það næsta sem ég vissi var, að á móti mér, í anddyrinu þegar ég kom inn, kom Hilmar. Væntanlega með áðurnefnda bók í vasanum og væntanlega þegar farinn að fá lítilsháttar kvíðahnút í magann vegna ballsins sem framundan var.  Auðvitað áttaði hann sig á því, að þarna var ég ekki með allt mitt uppi á borðinu; varð ljóst að ég hafði ólöglegan varning falinn undir úlpunni og gerði mér ljóst hvað það þýddi.  Auðvitað fylltist ég þarna talsverðri skelfingu og sá, á örskotsstund, hvað þetta myndi hafa í för með sér og ég reikna með að Hilmar hafi séð, afar skýrt hvernig mér varð við. 

Við vorum bara þarna tveir í anddyrinu, svo engin voru vitnin. Hilmar sagði þá, að við skyldum koma upp í herbergi og fara þar yfir málið, sem við síðan gerðum. Þar áttum við einhver samskipti, þar sem ég reikna með að ég hafi verið talsvert miður mín, og Hilmar í nokkurri klemmu með stöðuna. Ég sá sennilega fyrir mér viðbrögð móður minnar, þar sem sonurinn kæmi heim með skottið á milli lappanna eftir örskamma dvöl í menntaskóla. Þá er ekki ólíklegt að ég hafi líka séð fyrir mér handónýtt busaball, eða bara ekkert ball.  
Klemma Hilmars fólst hinsvegar í því, annarsvegar, að fyrir framan hann var heldur aumur nýnemi, sem ekki hafði áður sýnt af sér ósæmilega hegðun og, hinsvegar, að í vasnum var bókin, bókin þar sem skráð skyldu öll þau brot sem framin væru og áfengisnotkun á heimavistinni taldist meðal verstu brota. Hann yrði að greina skólameistara frá, sem síðan myndi þurfa að taka afstöðu til sakarefnisins, mögulega þannig, að um brottvikningu úr skóla yrði að ræða, í lengri eða skemmri tíma.  

Eitthvað var málið rætt áfram, en hvaða orð féllu, nákvæmlega, man ég ekki lengur, enda má reikna með að fátt hafi brennt sig fast í minnisstöðvarnar annað en yfirþyrmandi skelfing yfir þeirri stöðu sem ég var þarna kominn í.  Hilmar tjáði mér, eins og honum bar, að hann yrði að gera vodkaflöskuna upptæka og auðvitað átti ég ekki von á öðru, þó líklega hafi ég gert málamyndatilraun til að malda í móinn. 
Augljóslega þurfti að ná einhverri niðurstöðu þarna og hún náðist, með nokkurskonar Salómonsdómi Hilmars: Hann spurði mig hvort ég væri með eitthvert ílát í herberginu og sú var raunin. Þá opnaði hann flöskuna og hellti vænum slurk úr henni, skrúfaði síðan tappann á aftur og tjáði mér að ég gæti vitjað flöskunnar hjá honum þegar skóla lyki vorið eftir og sjálfsagt fylgdu föðurlegar leiðbeiningar um tilgang lífsins og heimavistardvalarinnar, en ekki man ég það. 

Svona lauk þessum eftirminnilegu samskiptum, og úr varð sameiginleg minning okkar Hilmars. Hann skráði brotið í bókina, eins og þeir Kristinn höfðu ákveðið. Ég veit hinsvegar ekki hvort þeir áttu samtal um málið í framhaldinu, en finnst það líklegt, vegna þess, að Hilmar sagði mér síðar, að nafn mitt hefði verið það eina sem rataði í þessa bók. Þetta skráningarkerfi var aflagt eftir þetta, en ekki finnst mér ólíklegt að þeir félagar hafi skemmt sér konunglega í umfjöllun um málið. 

Ég fór svo heim til Hilmars vorið eftir og fékk flöskuna í hendur aftur og reikna með að innihaldið hafi komið í góðar þarfir á einhverju Mánaballi í Aratungu sumarið 1971. 
Bókina geymdi Hilmar hinsvegar, með þessu eina nafni brotamanns og mér finnst nú alveg við hæfi, að ég fái hana í hendur, rúmlega hálfri öld síðar og með henni nokkurskonar "uppreist æru".

Eftir þetta lauk ég mínum fjórum árum í ML og fór að sinna hinu og þessu eins og gengur, en örlögin leiddu mig  aftur á Laugarvatn um miðjan 9. áratuginn og þá í hlutverki kennarans. Það gekk svo sem áfallalaust. Eðlilega áttu börn Hilmars og Lindu leið í gegnum skólann og það leiddi síðan til þess að ég fékk að reyna það, að fortíð manns getur bankað upp á hvenær sem er. Þannig gerðist það, að eitt sinn uppljóstraði eitt barnanna, í heyranda hljóði um atburðinn sem ofanskráð saga lýsir. Þá hafði viðkomandi mögulega verið að gramsa í gömlu dóti frá föður sínum og fundið þar þessa bók, með einu nafni og líklega atvikalýsingu. Ég er ekki frá því að uppljóstrunin hafi frekar komið mér til góða í samskiptum mínum við nemendur. Þau áttuðu sig kannski betur á því að ég var einusinni á þeirra aldri og hafði reynt svipaðar aðstæður og þau voru stundum í sjálf.



Mér finnst þessi saga lýsa Hilmari afar vel. Hann bjó yfir sterkri siðferðiskennd og manngæsku, naut þess ekkert sérstaklega setja öðrum stólinn fyrir dyrnar, en ef það reyndist nauðsynlegt, valdi hann til þess leið sem allir gátu sætt sig við.  
Bæði hann og Linda störfuðu lengi við ML og þeirra beggja minnast þeir nemendur skólans, sem kynntust þeim í störfum þeirra, með mikilli hlýju, því þau voru (og eru) fyrst og fremst gott fólk. Fólk eins og þau er vel til þess fallið að vinna með ungu fólki á mikilvægu þroskaskeiði.

Hilmar lést þann 10. febrúar síðastliðinn. Úför hans var gerð í dag frá Selfosskirkju og hann mun hvíla í Laugarvatnskirkjugarði.

-----------------------

Ef ofangreind frásögn af hálfrar aldar gömlum atburði (frekar en atviki) víkur í einhverju verulegu frá því sem telst satt vera og rétt, þá er engu um að kenna nema einhverri gloppu í minni mínu. Við slíku er víst fátt að gera.

Myndirnar sem birtar eru með þessari grein tók ég við ýmis tækifæri þar sem við Hilmar vorum báðir á ferð og ég með myndavélina, Þarna er um að ræða t.d. Íslendingaslóðir í Kanada, Bayern í Þýskalandi og  Helsinki í Finnlandi og Ísland. 

Vettvangurinn


Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...