Sýnir færslur með efnisorðinu kolefnisspor. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu kolefnisspor. Sýna allar færslur

21 nóvember, 2018

Fáránleiki

Fáránleiki er  eitt af þessum orðum sem er orðið merkingarlaust eftir að hafa verið misnotað um ýmislegt sem varla getur talist neitt sérlega fáranlegt. Þetta orð er þarna samt og ég ætla að leyfa mér að nota það um allan fjárann hér á eftir og leyfa lesandanum síðan að meta það, hvort um er að ræða viðeigandi notkun orðsins.


1. Það er fáránlegt ef ég kaupi poka af ísmolum í Bónus. Ísmolum sem búið er að flyta í frystigámi frá Bandaríkjunum.



2. Það er fáranlegt þegar ég, í verslunarferð í Krónuna, kaupi grísakjöt frá Spáni, þegar ég get fengið sýklalyfjalaust, íslenskt grískjöt frá bónda í næsta nágrenni við mig.
3. Það er fáránlegt þegar ég kaupi blandað salat í Nettó, sem ræktað er og unnið á Ítalíu, en skolað úr íslensku vatni  í stað þess að kaupa samskonar bakka með salati sem er ræktað í næsta húsi, algerlega laust við varnarefni.

4. Það er fáránlegt þegar ég kaupi tilbúinn fiskrétt frá Noregi í 10-11 þegar ég get keypt margfalt betri samskonar íslenskan fiskrétt.

5. Það er fáránlegt þegar ég á leið í Vínbúðina og kaupi rauðvínsflösku frá Chile eða Nýja Sjálandi. Fáránlegt vegna þeirrar vegalengdar sem þessi glerflaska hefur ferðast áður en vínið ratar í glasið mitt og glerflaskan, eins þung og hún er, lendir í maski í endurvinnslunni.

6. Það er fáránlegt að í íslenskum matvöruverslunum þurfi ávallt að vera til ávextir og grænmeti af öllum tegundum, allt árið. Látum vera með þetta helsta, sem ekki er ræktað hér á veturna, en það er fáránlegt, að kaupa grænmeti og ávexti frá Suðurálfu, sem fluttir hafa verið 15.000 km hingað norðureftir. Segðu mér að það sé ekki fáránlegt.

7. Það er fáránlegt þegar ég kaupi innflutt glingur til jólagjafa á sama tíma og ég get nálgast allt sem ég þarf í þessu efni, jafnvel í næsta herbergi.

Þessum fáránleika öllum þarf eiginlega að linna. Fyrir honum færa innflytjendurnir ýmis þau rök sem ganga í neytendur. Stundum eru rökin gild en í annan stað fáránleg. Já, ég nota áfram þetta margþvælda orð: fáránlegt.

Það er þetta með viðskiptafrelsið og alþjóðasamninga.
Við lifum á tímum þar sem það sem hægt er að gera telst mikilvægara en það sem þarf að gera. Okkur finnst að vegna þess að það er hægt að flytja inn ódýra ísmola frá Bandaríkjunum, þá skuli það gert og það telst vera réttur okkar.
Algengustu rökin fyrir fáránlegum innflutningi snúa að því, að það sem innflutt er, sé ódýrara. Oft er það rétt, en hvernig má það vera?
Hvernig getur kíló af rauðri papriku sem er flutt inn frá Spáni kostað 300 kr meðan sú íslenska kostar 900 kr.?
Hvernig getur staðið á því að poki með ísmolum frá Bandaríkjunum sé 40% ódýrari en samsvarandi poki sem framleiddur er á Íslandi?  Og, ef út í það er farið, hvernig getur mögulega staðið á því að innflutt vara, með öllum þeim áhrifum sem hún hefur á umhverfi okkar, sé ódýrari og oft miklu ódýrari en vara sem framleidd er hér á landi, með allri þeirri ódýru og hreinu orku og hreinu vatni sem við njótum?
Hvernig getur staðið á því?
Nokkrar tillögur, sem ef til vill þarf að skoða:

1. Við erum gráðug þjóð.  Góð og gild fullyrðing og líklega hægt að sannreyna í einhverjum tilvikum.
2. Við búum við hærri framleiðslukostnað vegna þess að við borgum betri laun og gerum betur við starfsfólkið okkar.  Vísast er þetta að einhverju leyti réttmæt fullyrðing, en er þetta á heildina litið svo?  Ég veit um Íslending sem sótti um vinnu, en fékk ekki, þar sem hægt var að fá innflutt vinnuafl að miklu hagstæðari kjörum (fyrir vinnuveitandann).
3. Ísland er bara á þannig stað á jörðinni, að framleiðsla hlýtur að kosta meira. Þetta á ekki síst við um ræktun grænmetis og ávaxta. Þessu verður varla á móti mælt.
4. Íslenskur markaður er svo lítill og því kostar framleiðsla á hverja einingu meira. Erfitt er að að mótmæla þessu. Það kostar að vera lítill og búa norður í Ballarhafi.
5. Milliliðir á Íslandi taka  óeðlilega mikið til sín. Þessu hefur löngum verið haldið fram og er rannsóknarefni.
6. Innfluttar vörur eru framleiddar fyrir margfalt stærri markaði og af margfalt ver launuðu vinnuafli (jafnvel börnum og þrælum).  Ég fjallaði um innflutning á grænmeti í fyrra og þá umfjöllun má lesa undir þessum hlekkjum:

Engisprettufaraldur  


Lifi frelsið - burt með siðferðið 


Þetta viljum við ekki vita.


Framundan er innflutningur á hráu kjöti. 
Dómur hefur verið kveðinn upp þar sem okkur er gert að leyfa slíkan innflutning.
Það er varað við afleiðingum þess.
Við vitum öll hvernig það fer.

Við búum í landi sem þannig er ástatt með, að við þurfum að flytja inn stóran hluta þess varnings sem við notum. Mér finnst að við ættum að gera það vel, vanda okkur.
Einbeitum okkur að því að framleiða íslenskar vörur og kaupa íslenskar vörur.  Það er gott fyrir okkur þegar upp er staðið og það er líka til þess fallið að auka líkur á að jörðin verði byggileg eitthvað áfram.
Þetta síðasta er sennilega of dramatískt, en hvað er dramatík, ef út í það er farið?

Ætli sé ekki rétt að láta staðar numið - í bili - og halda áfram með lífið í þessu leikhúsi fáránleikans.

Þar með er þessi blástur frá í tilgangsleysi sínu........ og fáránleika.


19 september, 2017

Lifi frelsið - burt með siðferðið


 Ég hef víst áður nefnt þetta umfjöllunarefni og þá var tilefnið engispretta sem varð að leikfélaga barna í leikskóla einum á höfuðborgarsvæðinu og þótti bara heldur "krúttleg". Mörg önnur dæmi um svipað hafa ratað í fjölmiðla, en aldrei verið gert neitt stórmál úr þeim.  Allavega ekki jafn stórt og þegar ekki fannst kjöt í kjötbökunni hérna um árið, eða þegar þurfti að fjarlægja öll brúnegg úr stórmörkuðum.

Ég velti því fyrir mér hversvegna gallaðar vörur fá svo misjafna athygli eftir því hvort  þær eru innlendar eða erlendar.  Enn sem komið er hef ég aðeins eitt svar: Neikvæð umræða um innflutningsvörur þjónar ekki hagsmunum innflutningsverslunar.  Er það mögulega svo, að stærstu innflytjendurinir og dreifendurnir stýri því hvað fjallað er um í fjölmiðlum á þessu landi?   Hvað vitum við, þetta venjulega fólk um það hvað liggur að baki umfjöllun fjölmiðla? Getum við yfir höfuð treyst nokkru sem þar kemur fram, vegna þess að það er allt meira og minna litað af hagsmunum eigendanna?
Ég veit þetta ekki.
Ég veit hinsvegar að íslensk garðyrkja á mjög undir högg að sækja í stórverslunum vegna þess að þar hefur innflutt grænmeti, samskonar og það sem einnig er framleitt hér, náð yfirhöndinni svo um munar.

Hversvegna er íslenskt grænmeti komið í þennan skammarkrók?
Aðrir vita það sjálfsagt betur en ég og stór hluti neytenda vill fremur íslenskar garðyrkjuafurðir en erlendar,. þó þær sé því miður dýrari en þær innfluttu, af þrem ástæðum, fyrst og fremst:

1. Þær eru íslenskar.
Við, sem þjóð eigum að vera sjálfum okkur næg í matvælaframleiðslu og með óheftum innflutningi gröfum við undan möguleikum okkar til sjá þjóðinni fyrir matvælum, ef og þegar á þarf að halda.

2. Þær eru einfaldlega miklu ferskari, nýrri og ómengaðri en innfluttar afurðir, sem við þar að auki vitum ekkert um meðhöndlun á.

3. Kolefnisspor þeirra er rétt um helmingur kolefnisspors innfluttra afurða.



Hér er um að ræða einn mikilvægasta þáttinn, svona ef maður reynir að horfa kalt á málið. 
Á sama tíma og íslenskt salat, sem ræktað er í gróðurhúsum sést varla í stórverslunum, blasa þar við ótaldir hillumetrar að erlendu salati.

Sannarlega eru salatpokarnir rækilega merktir með heitum íslenskra fyrirtækja, eins og Hollusta eða Hollt og gott. Í smáa letrinu kemur uppruninn síðan fram. Ég hef fyrir því fulla vissu, að fjölmargir, ef ekki flestir, telja að þarna séu um íslenska vöru að ræða og kemur á óvart þegar ég hef bent á hið gagnstæða. Ég tel að þarna sé verið að blekkja neytendur, eins og svo oft áður.  

Ef þessi fyrirtæki væru stolt af vörunum sínum og uppruna þeirra, myndi upprunalandsins vera getið með stóru letri á umbúðunum svo væntanlegir kaupendur gætu valið á eðlilegum forsendum: 
Splunkunýtt frá Spáni
Íðilfagurt frá Ítalíu.
Makalaust frá Marokkó
Hvar er stoltið?

Þetta salat var ræktað og skorið einhversstaðar við einhverjar aðstæður, með einhverjum áburði eða vökvun, með einhverjum lyfjum, af einhverjum. Það eina sem við fáum að vita um þetta er, að það hefur (stundum) verið skolað með íslensku vatni.
Þetta salat var flutt, jafnvel yfir hálfan hnöttinn í flugi, í það minnsta frá einhverju landi á meginlandi Evrópu.

Ég er löngu búinn að átta mig á því, að þau fyrirtæki sem flytja inn grænmeti til að keppa við hið íslenska, hafa einungis það í huga að ná sæmilegum arði út úr innflutningnum. Sum hafa ekki einu sinni fyrir því að þvo það úr íslensku vatni, áður en það lendir á borði okkar. Við bregðumst bara hreint ekki við þessu.  Jú, jú, það finnst rottuungahræ í salati. Frá þessu er sagt í einum litlum fjölmiðli og síðan ekki söguna meir.  Er innflytjandinn ekki kallaður til ábyrgðar?  Það er ekki svo. 

Mér varð hugsað til þessa í morgun þegar ég sá, annarsvegar rottuhræið og hinsvegar frásögn af því að í landinu sem hreykir sér af frelsi og hreysti, í fylkinu Flórída, er fólki bannað að setja sólarrafhlöður á þök húsa sinna, til að framleiða vistvæna orku, vegna þess að öflugir talsmenn orkufyrirtækis hafa séð til þess að lög eru í gildi sem banna fólki að framleiða eigin raforku.

As pointed out by the Miami New Times, Florida Power and Light (FPL) – a major supplier of electricity to the state – has invested heavily in lobbying state lawmakers to disallow residents from powering their own homes with solar power panels. In fact, thanks to the current laws, it is illegal to do so; you have to connect any solar panels to your local electric grid.



Það þarf ekki að fjölyrða um það, en þarna eru það hagsmunir fyrirtækja, sem hafa áhrif inn í stjórnkerfið, sem ráða för, en ekki það sem kemur almenningi vel.
Það sama tel ég að megi segja um stöðu mála á þessu landi.
"Fólk þarf að geta treyst því að það verði gengið í málin og þau leyst fyrir það". Einhvernveginn svona orðaði formaður Flokksins þetta fyrir nokkrum dögum.

Ef við viljum búa við frelsi, þurfum við að búa yfir siðferðiskenndinni sem óhjákvæmilega verður að vera með í för.
Án siðferðiskenndar er ekkert frelsi, svo einfalt er það.


-------------------------------------------------
KANNSKI NÆST:


😎

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...