05 apríl, 2017

Engisprettufaraldur

Ég man orðið tímana tvenna. Vissulega er minnið þó gloppótt og einskorðast við undarlegustu tilvik oft afskaplega ómerkileg, meðan merkir atburðir eru horfnir það djúpt í minnisstöðvarnar í heila mínum að þeir verða ekki svo auðveldlega kallaðir fram.
Sumt man ég þó vel.

Einu sinni voru bara ræktaðir tómatar eða gúrkur (agúrkur, segja sumir) í gróðurhúsum á Íslandi. Svo hófst blómaræktun, en um hana veit ég fátt.  Utandyra spruttu kartöflur, gulrófur og hvítkál, líklega einnig blómkál. Ætli þetta hafi ekki verið úrvalið.
Það var með grænmetið eins og annað; gagnvart því ríkti ákveðin íhaldssemi og markaðssetning tók tíma. Ætli menn hafi ekki byrjað að rækta papriku, t.d. að einhverju ráðiu, á sjöunda áratugnum. Það liðu síðan allmörg ár þar til hún  náði fótfestu að ráði. Hefur líklega ekki síst haft með að gera vaxandi snertingu landans við útlönd.
Þegar ljóst var, að paprikan var farin að festa sig í sessi, hófst innflutingur, auðvitað. Innflutningsfyrirtæki sáu hag sinn í að keppa við íslenska framleiðslu, sem enn var bundin við vor, sumar og haust. Garðyrkjubændur voru síðan tekjulausir yfir vetrarmánuðina.
Svona hefur þetta verið með fleiri afurðir íslenskra garðyrkjubænda. Ég nefni hér kínakálið, sem var heilmikil nýjung þegar það kom fyrst fram í ræktun hér. Það var komið svo að engin máltíð var framreidd nema kínakál væri í salatinu. Þá hófst auðvitað gengdarlaus innflutningur á því.
Garðyrkjubændur skópu markaðinn, svo hófst innflutningurinn og í krafti viðskiptafrelsis.

Mér varð hugsað til þessa þegar í ítarlegri frétt var sagt frá nýjasta gæludýrinu í leikskóla í höfuðborginni, en það var engispretta sem hafði fundist í salati sem börnunum var ætlað.  Ég þarf auðvitað ekki að segja það, en umrætt salat var ekki  ræktað á þessu landi, heldur flutt inn frá einhverju landi þar sem engisprettur eiga heimkynni.

Mér varð á að hugsa hvort þarna væri ekki ástæða fyrir foreldra að láta til sín taka. Það var útlent skordýr í salatinu sem borið var fyrir börnin þeirra. Einhverntíma hefði heyrst hljóð úr horni, en það hefur ríkt þögn í kjölfar þessarar fréttar.  Hvað ef það hefði nú verið kakkalakki í salatinu?  Hvað eru börnin búin að sporðrenna miklu af engisprettum eða öðrum kvikindum með innflutta salatinu?

Látum það vera, því það er annað sem mér finnst meira áhyggjuefni en engisprettur í salati, því á sama tíma og leikskólar gefa börnunum innflutt salat, fá garðyrkjubændur sem rækta salat og hafa gert það að mikilvægum þætti í matarmenningunni, rutt brautina sem áður, fá nú æ oftar þau skilaboð frá stórmörkuðum eða dreifingaraðilum, að æ minni eftirspurn sé eftir salatinu þeirra. Það er ekki svo að salatneysla landans sé að dragast saman, þvert á móti, innflutningurinn eykst. Engispretturnar fara nú um grænmetismarkaðinn og háma í sig allt sem á vegi verður.
Þetta er auðvitað í nafni viðskiptafrelsis. Frelsisins til athafna. Frelsisins til að flytja inn hvað sem mönnum dettur í hug, um langan veg, frá löndum þar sem gróðurinn býr við önnur og hagfelldari ræktunarskilyrði en hér.

Ég tel, að opinberum aðilum, eins og ríki eða sveitarfélögum, eigi að bera skylda til að leggja áherslu á að innkaup á íslenskum vörum á grundvelli gæða þeirra, á grundvelli ábyrgðar þeirra gagnvart umhverfinu, á þeim grundvelli að þeir byggja tekjur sínar að stórum á innlendri starfsemi.

Mér finnst að foreldrar ættu að rísa upp, ekki aðeins vegna barnanna sem borða útlend skordýr, ekki aðeins vegna slælegra vinnubragða innflytjandans, sem virðist ekki sérlega umhugað um gæði og öryggi vörunnar sem hann selur, heldur ekki síst vegna þess að þetta land er, í flestum tilvikum, það land sem börnin þeirra vaxa upp í og munu hafa lífsviðurværi í til framtíðar.

Það er nú svo.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...