Sýnir færslur með efnisorðinu Guðrún Ingólfsdóttir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Guðrún Ingólfsdóttir. Sýna allar færslur

22 desember, 2021

Guðrún Ingólfsdóttir (Gulla) - minning

Árið 2008:
Sigurður Jóhannsson, Guðrún Ingólfsdóttir
og Skúli Magnússon 
Það var haustið 1974 og ég hafði fengið kennarastöðu við Lýðháskólann í Skálholti, þar sem sr. Heimir Steinsson stýrði málum. Ég sá þetta sem tækifæri til að komast að því hvort kennsla væri eitthvað sem mögulega ætti við mig, tvítugur, með allt lífið framundan. Þáverandi kærasta og síðar eiginkona fékk einnig vinnu við skólann, svo þetta virtist bara vera hið ágætasta mál. 
Það var auðvitað ekki hægt annað en taka eftir ráðskonunni sem tók þarna á móti okkur, Guðrúnu Ingólfsdóttur, Gullu, sem átti eftir að verða ein þeirra sem hefur verið okkur samferða á þessari göngu sem lífið er. Sumarið áður hafði hún séð um matseldina í sumarbúðunum og var því orðin nokkuð vel kunnug staðnum.  
Gulla átti rauðan Fiat 127 á þeim tíma sem hún var í Skálholti. Ekki að það skipti neinu máli, svo sem, en einhvernveginn festist það í minninu.

Skálholt árið 1975: Guðrún Ingólfsdóttir,
Páll M. Skúlason og Dröfn Þorvaldsdóttir
Jarðvegurinn sem Gulla spratt upp úr var sannarlega ekkert til að kvarta yfir. Afi hennar og amma voru læknishjónin á Breiðabólstað á Síðu, þau Bjarni Jensson og Sigríður Jónsdóttir og foreldrar hennar voru Ingólfur Bjarnason, kaupmaður og kaupsýslumaður og Sigríður Guðmundsdóttir frá Skáholti, en hún var systir Vilhjálms skálds. 
Sjálfur Jón forseti Sigurðsson var langafabróðir hennar. 

Í desember 1959 gekk Gulla að eiga Jakob Guðvarðarson (1933-1992) og með honum eignaðist hún þrjá syni, Ingólf Bjarna 1960, Guðvarð Þórarin 1963 og Sigurð Björn 1968.  Móður sína missti Gulla árið 1965 og eftir það varð það hlutskipti hennar að annast um föður sinn. 
Leiðir Gullu og Jakobs skildi og hún varð einstæð, þriggja barna móðir. Þannig var staðan haustið 1974, þegar leiðir okkar lágu fyrst saman. 
Fyrir utan það að Dröfn og Gulla náðu vel saman við eldhússtörfin í Skálholti, gerðist það dag einn, sumarið 1974, líklegast, að miðsonurinn, Guðvarður, þá 11 eða 12 ára, lagði leið sína í Hveratún til að athuga hvort hann gæti fengið vinnu. Pabbi treysti sér ekki til að veita honum þessa ósk  hans nema heyra í móður hans fyrst. Hann fór í Skálholt þar sem Gulla tók erindinu vel og piltur var ráðinn til starfa. Í framhaldi af þvi varð til ævilangur vinskapur Gullu og foreldra minna. Pilturinn reyndist mikill dugnaðarmaður og var sumarvinnumaður í Hveratúni í ein þrjú sumur eftir því sem næst verður komist.

Eftir vetur okkar í Skálholti, hurfum við á braut, en Gulla sá um matarmálin í sumarbúðunum um sumarið. Það varð úr, að við fengum inni á heimili Gullu og föður hennar á Silfurteigi 2, fyrsta vetur okkar í borginni, en Gulla var þann vetur ráðskona á Skógum.  Eftir þann vetur hóf hún störf í Lyfjaverzlun ríkisins, þar sem hún var lengst af starfsævinnar eftir það.. 

Það var að vonum óskaplegt áfall þegar Ingólfur Bjarni lést í dráttarvélarslysi á bænum Gýgjarhóli II  þann 25. júlí, 1977, 16 ára að aldri og mig grunar að Gulla hafi aldrei komist fyllilega yfir það og lái henni það hver sem vill.  
Undir 1980 kynntist hún Sigurði Jóhannssyni (1930-2020), einstöku ljúfmenni og hagleiksmanni. Hann var húsgagnasmiður og skilur eftir sig margt glæsilegt handverkið. Ekki tel ég ólíklegt, að Gulla hafi stýrt því, að miklum hluta, hvert leiðir þeirra lágu í lífinu eftir að kynni þeirra hófust. Kynnin leiddu til hjónabands sem entist ævina á enda. 
Árið 1980 seldi faðir Gullu heimili þeirra á  Silfurteigi 2 og þá höfðu Gulla og Sigurður hafið samvistir og fluttu að Huldulandi í Fossvogi. Eitt leiddi af öðru og þar varð það úr, að Ingólfur flutti í litla íbúð sem var hluti af húseign í hans eigu á Laugavegi 27, en Gulla og Sigurður keyptu sér íbúð, sennilega í Birkihlíð í Fossvogi. Það má segja að þarna hafi skilið leiðir Gullu, föður hennar og systra hennar tveggja. 

Árið 2001: Híbýli Gullu og Sigurðar í Svíþjóð.


Gulla og Sigurður bjuggu víða á þeim, um það bil fjórum áratugum sem þau deildu súru og sætu. Fyrst í Huldulandi í Fossvogi, þá í Birkihlíð (sennilega) í Fossvogi, síðan á Þórsgötu. Eftir það tók við Svíþjóðardvöl um nokkurra ára skeið, en Siggi sonur Gullu var þá fluttur þangað og búinn að stofna fjölskyldu og fyrirtæki.  Eftir Svíðþjóðardvölina lá leiðin aftur heim til Íslands og þau settu sig niður á Bolungavík, en þar hafði Gutti þá komið sér fyrir og stundaði sjóinn. Eftir nokkur ár þar, fluttu þau í Borgarnes, þaðan í þjónustuíbúð í Boðaþingi í Reykjavík og að lokum á Hraunvang í Hafnarfirði.

Árið 2001: Heimsókn til Svíþjóðar.

Það er nú þannig, að stundum finnst mér það meinleg örlög að þurfa að vera uppi á sama tíma og sumir áberandi einstaklingar í þjóðfélaginu, en sem betur fer eru þeir margir sem á vegi mínum verða, sem ég þakka fyrir. Gulla var ein þeirra. Hún var sannarlega ekki skoðanalaus kona. Þannig var hún talsverður sjálfstæðismaður þegar við kynntumst henni fyrst, en eftir því sem árin liðu hallaðist hún æ meir til vinstri. Hún hafði til að bera skynsemina til að átta sig á pólitískum vindum í samfélaginu og réttlætiskennd hennar var sterk.  Synirnir tveir, sem hún átti eftir voru augasteinar hennar. "Gutti minn" og "Siggi minn", voru ávallt einhvern veginn það sem flest í lífi hennar snerist um, ásamt honum "Sigurði mínum" og sonasonunum. Það fór ekkert á milli mála hve stolt hún var af afkomendum sínum, og það mátti hún sannarlega vera. Báðir synirnir dugnaðarmenn og ömmusynirnir hver öðrum dásamlegri, að hennar mati.  

Júní, 2020: Dröfn, Páll, Gulla, Sigurður
Stöðug leit hennar að einhverskonar ró eða sátt, held ég hafi kannski átt þátt í því hve ör bústaðaskiptin reyndust verða. Ég held líka að Sigurður hafi notið nokkurs góðs af því, þar sem hann fékk tækifæri til að setja í stand, og græja ný heimili, enda var hann stöðugt að meðan heilsa og kraftar hans entust.

Eftir að Sigurður lést fyrir rúmu ári síðan, rétt að verða níræður, taldi Gulla sér ekki fært að halda íbúðinni, sem  þau leigðu dýrum dómum á Hraunvangi og fór að skoða möguleika sem í boði voru. Fljótlega stefndi hugurinn til Svíðþjóðar, en þar hugðist hún búa í nágrenni við Sigga og fjölskyldu hans og njóta í leiðinni sænskrar heilbrigðis- og félagsþjónustu. Það varð svo úr, að hún flutti utan í júlí s.l. 

Gulla lést í Svíðþjóð þann 23. nóvember og útför hennar var gerð í dag, 22. desember. 

Við erum þakklát fyrir næstum hálfrar aldar samfylgd hennar, Sigurðar og sonanna. 

Páll og Dröfn

Skólaspjald Lýðháskólans í Skálholti veturinn 1974-5






Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...