Sýnir færslur með efnisorðinu garðyrkja. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu garðyrkja. Sýna allar færslur

01 febrúar, 2015

Frostgúrka


Eftir reynsluna af gúrkukaupum í stórmarkaði eða lágvöruverðsverslun sem ég greindi frá hér og hér, hef ég það fyrir sið, áður en ég skelli gúrku í körfuna, að þukla hana, með sviðpuðum hætti að sauðfjárbændur þukla hrúta.  Séu báðir endar stinnir, litaraftir fremur dökkgrænt en gulleitt og áferðin frekar hrjúf en slétt, hef ég talið að mér væri óhætt.
Svo er hinsvegar ekki.
Gúrkan á myndinni var keypt í lágvöruverðsverslun í höfuðstað Suðurlands fyrir 2 dögum og uppfyllti ofangreindar kröfur mínar.
Hún kom til neyslu í dag eftir að hafa verið geymd við löglegar aðstæður frá kaupum. Innvortis lítur hún svona út og helst má ætla að þarna sé um að ræða frostskemmdir.

Það var mikið framfaraspor þegar íslenskir garðyrkjubændur fóru að nýta orku landsins til að framleiða grænmeti allt árið. Það er hlýtt í gróðurhúsunum hvernig sem viðrar utan dyra, en þar getur orðið ansi kalt eins og hver maður getur sagt sér.
Hvernig er það tryggt að grænmetið frjósi ekki á leiðinn til Reykjavíkur og þaðan aftur í lágvöruverðsverslanir í höfuðstað Suðurlands?

Því miður stefnir í að ég verði enn meira hikandi við grænmetiskaup hér eftir. Því fleiri sem búa við svona reynslu, því minna verður selt af þeirri dásemdar vöru sem íslenskt grænmeti er.

Eitt að lokum:
Hvenær hyggjast garðyrkjubændur hætta að pakka gúrkum í loftþétt plast?

14 desember, 2014

Merki Kvisthyltinga

Merkið á sínum stað á húsinu.
Upp úr 1980 hófst bygging íbúðarhússins í Kvistholti. Það verkefni tók talsverðan tíma, ekki síst vegna tregðu þáverandi byggingafulltrúa Marteins Björnssonar til að samþykkja teikningarnar. Bréfaskipti mín og Marteins frá þeim  tíma eru gullmolar (að mínu mati).

Framkvæmdir hófust og ég fékk Böðvar Inga á Laugarvatni til að slá upp fyrir sökklinum. Síðan tók Steingrímur Vigfússon við og gegndi hlutverki byggingameistara úr því.

Þegar kom að því að slá upp fyrir kjallaranum þótti mér það tilvalin hugmynd að útbúa merki innan á mótin og dundaði mér við það verk í pökkunarskúrnum í Hveratúni. Þarna sagaði ég niður, heflaði og pússaði trélista sem ég negldi síðan innan á mótin áður en steypubílarnir frá Steypustöð Suðurlands renndu í hlað.

Merkið sem síðan hefur blasað við hverjum þeim sem í Kvistholt hefur komið, hefur mér þótt nokkuð vel heppnað, en því var ætlað að tákna einhverskonar gróður, enda vorum við þá búin að rækta rófur, kínakál og eitthvað fleira í einhver ár og það var fyrirhugað byggja gróðurhús, sem síðan reis undir lok 9. áratugarins.  Við hófum einnig strax að landið komst í okkar umsjá að planta trjám vítt og breytt, litlum ræflum sem nú eru orðin að ferlíkjum.

Merking merkisins reyndist vel við hæfi, hér óx allt, gróðurinn og börnin og við sjálf, þó það hefði verið að mestu láréttur vöxtur.

Nú er ég búinn að teikna merkið upp og hyggst nota það sem vörumerki fyrir Kvisthyltinga, hvað sem mönnum getur fundist um það.

Ég hef ekki borið ákvörðun mína um þetta merki undir neinn í fjölskyldunni, þannig að það ágæta fólk verður bara að kyngja því, en hefur frelsi til að nota það að vild í því góða sem það tekur sér fyrir hendur.
Þetta á nefnilega að vera nokkurskonar gæðastimpill.

Ég geri mér grein fyrir að það felst talsverður hroki í því að ein fjölskylda eigi sérstakt merki, en læt mér það auðvitað í léttu rúmi liggja.

27 júní, 2012

Að brjálast yfir papriku - allavega hvíld frá hinu

Það sem hér fylgir, er í tilefni af þessari færslu á FB, sem hefur nú verið fjarlægð þar sem þar á að hafa verið á ferðinni "ósanngjörn umræða, byggð á vanþekkingu þar sem mikið getur verið í húfi"  Ég birti þennan texta með þeim fyrirvara :
Papriku uppskera er að nálgast hámarki en ekki eru allir sem kunna að meta það !!! Fékk skilaboð frá SFG (sölufélagi garðyrkjubænda) um að senda næst papriku í lausu ! ekki innpakkað eða merkta. ég hringdi og athugaði afhverju, og fékk þau svör að Bananar ehf... og aðrir kaupmenn hafa flutt svo mikið inn af erlendri papriku (einhver þúsund tonn) að íslenska paprikan kemst ekki að og liggur undir skemmdum á lager hjá SFG. Ég gæti brjálast... hverjum dettur í hug að flytja inn erlent grænmeti á þessum tíma... háuppskerutíma íslenskra garðyrkjubænda ?! Hún er að vísu aðeins dýrari ... en hún er líka þúsund sinnum BETRI og hananú
Fyrst ætla ég að segja eitt, sem neytandi: Ég hef oft staðið frammi fyrir vali milli íslenskrar og erlendrar papriku og valið þá erlendu, einfaldlega vegna þess, að þeirri íslensku hefur verið pakkað, tveim saman, litaðri og grænni, í bakka. Ef mig vantar rauða papriku, jafnvel tvær, verð ég að kaupa græna með. Ég borða ekki græna papriku! Ég átta mig ekki á ástæðunni fyrir svona pökkun – er það kannski vegna þess að græna paprikan selst síður og það þarf að koma henni út? Það kann ekki góðri lukku að stýra. Í mínum huga er græn paprika óþroskuð. Ég veit það hinsvegar, að það þarf að létta á plöntunum með því að tína græna papriku líka. Allt um það: afskaplega oft hef ég keypt erlenda papriku til að losna við að kaupa græna.

Til að halda því til haga, þá ræktaði ég papriku í ein 15 ár, frá lokum níunda áratugarins fram undir aldamót og tel mig því þekkja nokkuð til þess sem við er að eiga. Það sem nefnt er í FB textanum (sem er búið að eyða) er meðal helstu ástæðna þess að ég hætti í þessum bransa. Ýmislegt hefur sjálfsagt breyst síðan ég hætti..
Það var rætt á þeim tíma að pakka heima til að auka geymsluþolið, ekki síst vegna þess, að á þessum árstíma var alltaf framleitt meira en keypt var, og þar fyrir utan var mikil umræða um okurverð á þessari grænmetistegund. Þegar framleiðslan var of mikil þá hafði heildsalinn þann háttinn á, að senda elstu paprikuna í búðirnar, og þá grautlina og hreint ekki líklega til að efla neyslu. Því var það að ný paprika var sjaldséð í búðum þrátt fyrir að markaðurinn væri yfirfullur.

Það gerðist einhverntíma á þeim tíma sem ég var í þessu, að innflutningur var leyfður á papriku og þá kom einmitt upp það sem nú er raunin að mér virðist: innflytjendur, sem  voru (eru) einnig heildsalar fyrir íslenskt grænmeti, fluttu inn ódýrari papriku. Þar var flutt inn tiltekið magn sem þurfti síðan að selja, því innflutningsaðilinn sat uppi með skaðann af því sem ekki seldist og þurfti að henda.  Þessu var öðruvísi háttað með íslenska grænmetið:  bændur sendu inn sína framleiðslu til heildsalans og fengu síðan greitt fyrir það sem seldist, hitt fór í afföll og bóndinn sat upp með það tjón. Það þarf nú ekki mikinn speking til að ímynda sér, hver forgangurinn hjá heildsalanum var.  Fyrsta markmið innflytjandans er að hagnast á starfsemi sinni, þar er enginn ungmennafélagshugsjón á ferðinni - Íslandi allt, og allt það.

Neytandanum, mér, er alveg sama  um það hvert ástand er á markaði, ég lít á grænmetið eins og hverja aðra framleiðsluvöru, t.d. súkkulaði. Ég er ekkert að velta fyrir mér því hvernig háttað er framleiðslu og markaðssetningu. Ég vil bara fá góða vöru á lágu verði. Ef ég er sérvitringur með snert af þjóðrembu, þá kaupi ég íslenskt grænmeti þó það sé dýrara, jafnvel þó það sé ekki betra.  Sóknarfæri íslenskrar garðyrkju, skyldi maður ætla, felst kannski frekar í að tryggja gæði alla leið, frekar en fara að reyna að keppa í verði við rækilega styrktan landbúnað Evrópusambandsríkja (jú, hann er styrktur vel og kyrfilega).

Það verð ég að segja, að það að blanda aðildarumsókn Íslands inn í þessa umræðu um paprikuna, finnst mér að þurfi kannski að endurskoða.
Árið 1993 gerðist Ísland aðili að EES samningnum, en hann:
..veitir EFTA-ríkjunum Íslandi, Liechtenstein og Noregi aðgang að innri markaði Evrópusambandsins án þess að þau þurfi að gerast fullir meðlimir í sambandinu. Fjórfrelsið svokallaða gildir á öllu svæðinu en það felur í sér frjáls vöru- og þjónustuviðskipti, frjálsa fjármagnsflutninga og sameiginlegan vinnumarkað. Að auki kveður EES-samningurinn á um samvinnu EES-ríkjanna á sviði félagsmála, jafnréttismála, neytendamála, umhverfismála, menntamála, vísinda- og tæknimála o.fl.
Með þessum samningi þurfti þjóðin að fórna ýmsu, en óneitanlega hefur hún einnig haft af honum mikinn hag. Með þessum samningi erum við komin ansi langt með að  geta orðið fullgildir aðilar að Evrópusambandinu. Getur einhver fullyrt það og fært fyrir því gild rök, að hagur paprikubænda yrði verri með inngöngu landsins í ESB? Ekki ætla ég að þykjast (öfugt við ýmsa aðra) vita allt um það hvað aðlild hefði í för með sér, en ég er ekki tilbúinn að gleypa gengdarlausan áróðurinn gegn aðild, bara si svona.
Nú er alið á þjóðrembunni sem aldrei fyrr, á sama og við eigum að vera búin að læra þá lexíu, að við erum sjálfum okkur verst í flestum málum.

Kaupum íslenskt vegna þess að það er betra, 
ekki bara vegna þess að það er íslenskt.


04 febrúar, 2012

Ég, baráttumaðurinn fyrir betri gúrkum

Í síðasta pistli fjallaði ég um óneysluhæfa gúrku og skellti myndum af gripnum með.


Ég sendi hlekkinn á þrjá aðila: Samband garðyrkjubænda, Sölufélag garðyrkjumanna og Krónuna.
Viðbrögð hef ég fengið frá tveim þeim síðarnefndu. Þau eiga það sameiginlegt, að halda því fram, að þarna sé líklega á ferðinni undantekning og mér bent á að fara með gúrkuna í búðina og fá aðra, góða í staðinn.
Svari sínu lýkur Kristinn Skúlason hjá Krónunni svona:
En í lokin þá átta ég mig ekki á því hver tilgangurinn var hjá þér að blogga þetta mál.
Mér finnst hann vera að gefa í skyn, að þegar svona einstakt tilvik á sér stað þá komi maður með vöruna í búðina og fái nýja.  Ég svaraði Kristni með þessum hætti:

Við einu vil ég bregðast, en það er að þú áttir þig ekki á tilganginum með þessum bloggskrifum.
Það má kannski segja að það komi ekki nægilega fram, en þetta er hreint ekki í fyrsta og örugglega ekki síðasta skipti sem ég og aðrir kaupum köttinn í sekknum varðandi grænmeti, sérstaklega í lágvöruverðsverslunum. Þessi umrædda gúrka var eiginlega kornið sem fyllti mælinn í þessum efnum hjá mér og ég tel mig ekki hafa haft á lofti stóryrði í garð ykkar eða annarra, enda ekki markimið mitt ata ykkur auri, heldur leggja lítið korn á vogarskálina í því skyni að ég geti farið að kaupa hið "ferska og brakandi" grænmeti sem auglýst er talsvert.

Maður fær það á tilfinninguna, með réttu eða röngu, að hugsunin með því að setja svo gamalt grænmeti fram í búðir sé sú að þetta sé nógu gott í kjaftinn á fólkinu fyrir það verð sem það greiða. Ég vona samt sannarlega að svo sé ekki.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé kominn tími til að upplýsingar um aldur grænmetis komi fram í verslunum, hvernig sem menn fara að því - þetta er hægt með aðrar landbúnaðarafurðir - því ekki gúrkur tómata og papriku.

Ég fer í kaupstað einu sinni í viku - því er að ekki fyrr en viku seinna sem ég get komið með gúrkuræksnið til að fá nýja - þú getur rétt ímyndað þér hvernig hún er þá útlítandi.
Þar fyrir utan hef ég annað að hugsa en að muna eftir að taka með mér einhverju gúrku sem kostaði tvöhundruð kall - mér fyndist það smásálarlegt.
Í gær bröskraði mér hinsvegar og í sambandi við það bloggaði ég - sendi jafnframt slóðina á ykkur, Sölufélag Garðyrkjumanna, og Samband garðyrkjubænda. Þetta er sá hópur í samfélaginu sem á að sjá til þess að við sem neytum þessarar vöru eigum kost á því besta hverju sinni.
Kristín Linda Sveinsdóttir, sem er markaðsstjóri hjá SFG, brást við með því að þakka ábendinguna, svona gæti vissulega komið fyrir og ég ætti að hafa samband við verslunina og fá nýja gúrku. Ég svaraði pósti Kristínar svona:
Það er nú svo, að þetta snýst ekki bara um eina gúrku - hún kostar einn til þrjá hundraðkalla - þó vissulega sé pirrandi að sitja uppi með svona vöru tveim dögum eftir að hún er keypt.
Ég sendi hlekkinn einnig á Samband garðyrkjubænda og Krónuna - enda tilgangurinn ekki að rífa niður, heldur reyna að styðja við vinnu að betra íslensku grænmeti í verslunum. 
Ég mun hika við að kaupa mér gúrku næst - það er tap fyrir garðyrkjuna, ekki síst ef það eru margir aðrir með sömu reynslu.

Þú nefnir einmitt það sem er stóri gallinn í þessu öllu, en hann er sá, að maður veit ekki hvenær gúrkan var skorin af plöntunni og pakkað hjá garðyrkjubónda. Ef ekki er hægt að treysta byrgjum og verslunum til að vera vakandi fyrir aldri grænmetis í hillum, þá finnst mér að til þurfi að koma upphafsdagsetningin - hvenær var gúrkan skorin?

Ég er búinn að fá svar frá Krónunni og hann skilur ekki tilgang minn með blogginu - en ég er búinn að svara honum til um það.

Ég fer í kaupstað vikulega og það er borin von að ég sé þannig þenkjandi að ég fari að burðast með gúrkukmaukið niður á Selfoss til að fá nýja gúrku - sem ég veit ekki hvort er eitthvað skárri.
Ég ræktaði papriku í ein 15 ár og fannst alltaf jafn nöturlegt að sjá aldrei þessa fersku papriku sem ég sendi frá mér í búðunum, heldur linkulegt drasl
 Kristín svarað þessum lestri mínum svona:
Ég skil vel vonbrigði þín og þau eru ekki síður okkar hér hjá Sölufélaginu. En eins og ég nefndi við þig þá getur þetta gerst því miður. Þó að það eigi ekki að gerast.

Við reynum eftir okkar fremsta megni að vera í góðu samstarfi við verslanir um þessi mál. Og ég veit til þess að verslanir þær hafa sinn metnað líka að gera þetta vel.

Vona að í næstu búðarferðum þínum þá verði vörurnar í lagi.

Ef þetta upphlaup mitt eykur líkur á að ég og aðrir getum treyst því að grænmetið sem við kaupum sé "brakandi ferskt" og að við fáum ekki aðeins að vita hvaðan það kom heldur einnig hvenær það kom þaðan.

02 febrúar, 2012

Mér þykir það leitt, en þetta er ekki boðleg vara

Venjulega kaupum við fD gúrkur í Bjarnabúð, í Reykholti því við vitum að þær eru nýjar. Þangað áttum við ekki ferð og létum okkur því hafa það s.l. mánudag, sem var 30. janúar, að kaupa eina gúrku í Krónunni á Selfossi, en maður hefur alloft heyrt því fleygt að þar sé grænmetið talsvert skárra en í Bónus, án þess þó að ég ætli að taka afstöðu í því máli.
Ég þykist vita talsvert um gúrkur, enda uppalinn á garðyrkjubýli og stundaði sjálfur ræktun í ein 20-30 ár. Ég fór í gegnum gúrkukassana og valdi loks eina fagurgræna og stinna, gerði ráð fyrir að hún myndi verða í góðu standi í svona viku, ef á þyrfti að halda.

Í dag er þessi fagurgræna og stinna gúrka eins og sjá má á þessum myndum og ég myndi ekki vilja neinum svo illt að setja ofan í sig þessa gulleitu slepju sem vall út úr plastinu.

Ég veit af reynslu, að þetta er ekki ræktendunum um að kenna, heldur einhverju sem gerist frá því gúrkan fer frá þeim og þar til hún er sneidd ofan á brauðið eða í salatið. Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar alllengi, að þessi plasthulsa sem gúrkur eru oft klæddar í, dragi úr geymsluþolinu þó sannarlega haldist þær lengur stinnar. Ég gæti vel trúað að þessi gúrka hafi verið skorin af plöntunni í kringum áramót (jafnvel fyrr).

Svona nokkuð er ekki boðlegt! Það er ekki einu sinni þannig, að maður geti sannað að gúrkan hafi verið keypt á tilteknum stað á tilteknum tíma.  Í skjóli þess, að þessi vara er ekki merkt með síðasta söludegi, er hún látin liggja í geymslum eða verslunum lon og don, svo lengi sem ekki er hægt að sjá utan á henni það sem fyrir innan er.

Mér er hlýtt til garðyrkjunnar og veit að þar starfa menn af metnaði. Þessi endi keðjunnar hlýtur að hafa slæm áhrif á orðspor þessarar greinar.





15 janúar, 2011

Tærður fittings

Það var í janúar á síðasta ári, sem ógæfa dundi yfir í Kvistholti, sem nokkuð rækileg grein var gerð fyrir í fjórum eftirminnlegum færslum undir heitinu JANÚARKRÍSA 1-4.
Það var í gær sem ég fékk símtal, sem ég vildi hreint ekkert fá:
"Hitalögnin í efra plasthúsinu hjá þér er sprungin. Ég var þarna á gangi með hundana og heyrði hávaðann."
Ég þakkaði auðvitað fyrir að hundaeigandinn skyldi láta mig vita af þessu. Settist síðan niður og hugsaði minn gang. Fyrsta hugsunin var auðvitað, eins og venjulega þegar svona tilvik koma upp: Ég vil bara að þetta vandamál hverfi! Sannarlega gerði það það ekki. Mér var nauðugur einn kostur að athuga hvernig staðan var. Það var myrkur, enda komið kvöld í janúar. Þá uppgötvaði ég, maðurinn sem á nánast allt, að ég á ekki vasaljós. Sem betur fer var útihitinn tæpar þrjár gráður í plús og því var það, að ég tók ákvörðun um að fresta málinu, fara bara út og skrúfa fyrir - kíkja svo á málið þegar birti.  Þegar ég kom út heyrði ég, svo ekki varð um villst, að eitthvað hafði sprungið í efra plasthúsinu.  Ég stóð fast við fyrri ákvörðun mína og fór niður í gróðurhús þar sem hægt er að skrúfa fyrir hita í bæði plasthúsin. Það gerði ég síðan og svo sem ekkert meira um það að segja. Í skímunni frá götuljósum fikraði ég mig síðan að efra plasthúsinu, en út úr því gaus mikill gufumökkur. Þetta leit ekki vel út. Ég stóð við fyrri ákvörðun mína um frestun frekari aðgerða. Fór aftur inn í hlýjuna og á vedur.is þar sem ég fékk von mína uppfyllta um frostlausa nótt.
Í hönd fór síðan rólegheita nótt þar sem iðkaður var, með réttu eða röngu, svefn hinna réttlátu.

Þegar fór að birta aftur reikaði hugurinn í plasthúsið. Hvað skyldi bíða mín þar? Var kannski allt meira og minna frostsprungið? Hvernig færi ég að því við slíkar aðstæður, að hleypa bara hita á neðra plasthúsið?

Það varð hreinlega ekki undan því vikist að rölta niðureftir og öðlast þannig vitneskju um það sem gerst  hafði. Í gúmmískóna, vopnaður myndavél (augljóslega myndi hún ekki gera neitt gagn, eins og hver maður getur sagt sér).

Af ótrúlegri yfirvegun lagði ég leið mína inn í efra plasthúsið, sem bara var þarna í sakleysi sínu eins og ekkert hefði skeð. Það sem við blasti þegar inn var komið hafði tvennskonar áhrif - aldeilis af báðum pólum mannlegra tilfinninga; önnur kallaði fram í hugann (auðvitað ekki upphátt) ANDSKOTINN SJÁLFUR!, en hin framreiddi hugsunina GUÐI SÉ LOF!

Fyrir 15 árum voru plasthúsin byggð og þá var var plastinu á þeim gefinn 5 ára líftími, en vegna veðurfars í Laugarási sér ekki á því enn. Í húsin var sett miðstöð - af vanefnum, og allir vita að að því hlýtur að koma að mannanna verk gefa sig. Þarna hafði ég, sem sagt sett hitalögn þannig, að lagt var í plasti að húsunum og plastið síðan tengt við hitarörin inni í húsunum. Það var á þeim samskeytum sem  svart hné hafði gefið sig (svart, þýðir að það er ekki galvaniserað og getur því ryðgað), hafði orðið tæringunni að bráð. Á þetta hné var komið gat sem var tæpur fersentimetri að stærð.

Ég tók myndir af hnénu (hversvegna, verður hver að svara fyrir sig). Að því búnu fór ég aftur inn og átti símtal við hG sem hefur haft garðyrkjuhluta Kvistholts á leigu undanfarin ár. Hann kom síðan. Leit á aðstæður. Fór síðan og kom aftur með fittings (fittings, fyrir þá sem ekki vita, eru allskyns bútar með skrúfgangi. Þarna getur verið um að ræða hné, té, skrúfbúta, minnkanir, stækkanir o.þ.u.l.). "Ég geri bara við þetta til bráðabirgða", sagði hG. Með því var mér auðvitað stórlétt. Engin stórframkvæmd framundan. Allt í gúddí, nema auðvitað enginn handbolti í sjónvarpinu í kvöld!

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...