27 júní, 2012

Að brjálast yfir papriku - allavega hvíld frá hinu

Það sem hér fylgir, er í tilefni af þessari færslu á FB, sem hefur nú verið fjarlægð þar sem þar á að hafa verið á ferðinni "ósanngjörn umræða, byggð á vanþekkingu þar sem mikið getur verið í húfi"  Ég birti þennan texta með þeim fyrirvara :
Papriku uppskera er að nálgast hámarki en ekki eru allir sem kunna að meta það !!! Fékk skilaboð frá SFG (sölufélagi garðyrkjubænda) um að senda næst papriku í lausu ! ekki innpakkað eða merkta. ég hringdi og athugaði afhverju, og fékk þau svör að Bananar ehf... og aðrir kaupmenn hafa flutt svo mikið inn af erlendri papriku (einhver þúsund tonn) að íslenska paprikan kemst ekki að og liggur undir skemmdum á lager hjá SFG. Ég gæti brjálast... hverjum dettur í hug að flytja inn erlent grænmeti á þessum tíma... háuppskerutíma íslenskra garðyrkjubænda ?! Hún er að vísu aðeins dýrari ... en hún er líka þúsund sinnum BETRI og hananú
Fyrst ætla ég að segja eitt, sem neytandi: Ég hef oft staðið frammi fyrir vali milli íslenskrar og erlendrar papriku og valið þá erlendu, einfaldlega vegna þess, að þeirri íslensku hefur verið pakkað, tveim saman, litaðri og grænni, í bakka. Ef mig vantar rauða papriku, jafnvel tvær, verð ég að kaupa græna með. Ég borða ekki græna papriku! Ég átta mig ekki á ástæðunni fyrir svona pökkun – er það kannski vegna þess að græna paprikan selst síður og það þarf að koma henni út? Það kann ekki góðri lukku að stýra. Í mínum huga er græn paprika óþroskuð. Ég veit það hinsvegar, að það þarf að létta á plöntunum með því að tína græna papriku líka. Allt um það: afskaplega oft hef ég keypt erlenda papriku til að losna við að kaupa græna.

Til að halda því til haga, þá ræktaði ég papriku í ein 15 ár, frá lokum níunda áratugarins fram undir aldamót og tel mig því þekkja nokkuð til þess sem við er að eiga. Það sem nefnt er í FB textanum (sem er búið að eyða) er meðal helstu ástæðna þess að ég hætti í þessum bransa. Ýmislegt hefur sjálfsagt breyst síðan ég hætti..
Það var rætt á þeim tíma að pakka heima til að auka geymsluþolið, ekki síst vegna þess, að á þessum árstíma var alltaf framleitt meira en keypt var, og þar fyrir utan var mikil umræða um okurverð á þessari grænmetistegund. Þegar framleiðslan var of mikil þá hafði heildsalinn þann háttinn á, að senda elstu paprikuna í búðirnar, og þá grautlina og hreint ekki líklega til að efla neyslu. Því var það að ný paprika var sjaldséð í búðum þrátt fyrir að markaðurinn væri yfirfullur.

Það gerðist einhverntíma á þeim tíma sem ég var í þessu, að innflutningur var leyfður á papriku og þá kom einmitt upp það sem nú er raunin að mér virðist: innflytjendur, sem  voru (eru) einnig heildsalar fyrir íslenskt grænmeti, fluttu inn ódýrari papriku. Þar var flutt inn tiltekið magn sem þurfti síðan að selja, því innflutningsaðilinn sat uppi með skaðann af því sem ekki seldist og þurfti að henda.  Þessu var öðruvísi háttað með íslenska grænmetið:  bændur sendu inn sína framleiðslu til heildsalans og fengu síðan greitt fyrir það sem seldist, hitt fór í afföll og bóndinn sat upp með það tjón. Það þarf nú ekki mikinn speking til að ímynda sér, hver forgangurinn hjá heildsalanum var.  Fyrsta markmið innflytjandans er að hagnast á starfsemi sinni, þar er enginn ungmennafélagshugsjón á ferðinni - Íslandi allt, og allt það.

Neytandanum, mér, er alveg sama  um það hvert ástand er á markaði, ég lít á grænmetið eins og hverja aðra framleiðsluvöru, t.d. súkkulaði. Ég er ekkert að velta fyrir mér því hvernig háttað er framleiðslu og markaðssetningu. Ég vil bara fá góða vöru á lágu verði. Ef ég er sérvitringur með snert af þjóðrembu, þá kaupi ég íslenskt grænmeti þó það sé dýrara, jafnvel þó það sé ekki betra.  Sóknarfæri íslenskrar garðyrkju, skyldi maður ætla, felst kannski frekar í að tryggja gæði alla leið, frekar en fara að reyna að keppa í verði við rækilega styrktan landbúnað Evrópusambandsríkja (jú, hann er styrktur vel og kyrfilega).

Það verð ég að segja, að það að blanda aðildarumsókn Íslands inn í þessa umræðu um paprikuna, finnst mér að þurfi kannski að endurskoða.
Árið 1993 gerðist Ísland aðili að EES samningnum, en hann:
..veitir EFTA-ríkjunum Íslandi, Liechtenstein og Noregi aðgang að innri markaði Evrópusambandsins án þess að þau þurfi að gerast fullir meðlimir í sambandinu. Fjórfrelsið svokallaða gildir á öllu svæðinu en það felur í sér frjáls vöru- og þjónustuviðskipti, frjálsa fjármagnsflutninga og sameiginlegan vinnumarkað. Að auki kveður EES-samningurinn á um samvinnu EES-ríkjanna á sviði félagsmála, jafnréttismála, neytendamála, umhverfismála, menntamála, vísinda- og tæknimála o.fl.
Með þessum samningi þurfti þjóðin að fórna ýmsu, en óneitanlega hefur hún einnig haft af honum mikinn hag. Með þessum samningi erum við komin ansi langt með að  geta orðið fullgildir aðilar að Evrópusambandinu. Getur einhver fullyrt það og fært fyrir því gild rök, að hagur paprikubænda yrði verri með inngöngu landsins í ESB? Ekki ætla ég að þykjast (öfugt við ýmsa aðra) vita allt um það hvað aðlild hefði í för með sér, en ég er ekki tilbúinn að gleypa gengdarlausan áróðurinn gegn aðild, bara si svona.
Nú er alið á þjóðrembunni sem aldrei fyrr, á sama og við eigum að vera búin að læra þá lexíu, að við erum sjálfum okkur verst í flestum málum.

Kaupum íslenskt vegna þess að það er betra, 
ekki bara vegna þess að það er íslenskt.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...