Sýnir færslur með efnisorðinu þjóð við ysta haf. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu þjóð við ysta haf. Sýna allar færslur

17 júní, 2017

Þjóðhátíðarávarp vort

Kæru Íslendingar.
Vér erum þjóð meðal þjóða. Vér ölum aldur vorn við ysta haf, langt fá heimsins vígaslóð. Land vort er dýrt og á hátíðastundum sem þessum, biðjum vér Drottin að geyma það, þjóðina, tunguna, jöklana, dalina, firðina, sjávarþorpin og hvaðeina sem oss dettur í hug að biða Drottin að geyma.

Á þessum degi ár hvert freistum vér þess að vekja með oss þjóðerniskennd, dásama þá staðreynd að vér tilheyrum frjálsri þjóð í frjálsu landi. Forsætisráðherra vor tjáir gleði sína yfir lífinu og tilverunni og að vér höfum aldrei fyrr notið jafn ríkulega af öllu því góða sem lífið getur fært oss. Hann leyfir því að fylgja með, undir rós, að líf vort sé svo óumræðilega gott fyrir hans tilstilli. Vér virðumst trúa því sem forætisráðherra vor og aðrir ráðamenn segja oss um líf vort. Vér trúum því litla stund að vér séum ein þjóð, eitt ríki með einn leiðtoga og það sé allt sem þarf til.

Oss finnst þægilegt að heyra hve gott líf vort er og vér köllum fram á sviðið Fjallkonuna sjálfa, kjarna þess sem vér erum, og felum henni að flytja gamalt ljóð, sem ætlað er að minna oss á hver vér erum í raun. Auðvitað er Fjallkonan oft leikkona í hlutverki, eða falleg stúlka, klædd í skautbúning af tilefninu.

Þetta árið má allt eins búast við að undir faldinum leynist Glock.
Vér erum víst ekki svo langt frá heimsins vígaslóð lengur. Vér erum víst ekki lengur þjóðin sem barðist fyrir frelsi sínu með ljóðum.  Hver erum vér þá?

Vér erum þjóðin sem þjáist vegna smæðar sinnar og þráir að verða stærri. Vér viljum tilheyra því sem stærst er og öflugast, en ekki því sem er minnst og veikast. Vér teljum oss vera þjóð sem rúmast ekki í landi við ysta haf, landinu bláa með jökla, víðerni, sindrandi bárur sem falla í drafnar skaut til að deyja.Vér erum þjóðin sem leitum annað að fyrirmyndum,en til feðra vorra og mæðra. Vér erum þjóðin sem krefst alls, en vill fátt gefa. Vér erum þjóðin sem tileinkar sér menningu sem tilheyrir öðrum þjóðum fremur en þeirri sem oss er falin.  Vér erum þjóðin sem vill gleyma því sem Fjallkonan er látin fara með einu sinni á ári. Fokk it, að það sé eitthvað annað en upplestur leikkonu á rómantískum kveðskap eftir löngu dauðan kall.

Kæra þjóð.
Oss tekst vel að feta þá braut sem vér teljum að leiða muni oss, börn vor og barnabörn til fyrirheitna landsins, lands hinna frjálsu og hugrökku.
Vér þekkjum betur til í því landi en voru eigin landi (á hverjum degi fáum vér greinargóðar upplýsingar um hvernig veðri þar er háttað), enda teljum vér menningu vora og sögu fremur lítilmótlega. Vér kunnum betur tungu hinnar frjálsu og hugrökku þjóðar, en tunguna sem sögur vorar voru ritaðar á.  Hvað höfum við svo sem  að gera við gamla sögu. Vér teljum oss betur borgið með því að vita sem minnst um hana. Framtíðin er oss ekki heldur ofarlega í huga.
Vér lítum svo á að lífið sé núna, fortíð eða framtíð sé ekki málið.
Vér höfum tileinkað oss og alið með drauminn, íslenska drauminn, drauminn um að dag einn blasi við okkur tækifæri til að verða auðug og valdamikil. Þessi draumur endurspeglast í vali voru á höfðingum til að leiða oss veginn, þar sem draumur vor, hinn íslenski draumur, gæti ræst.

Já, kæra þjóð. Vér lifum núna. Hvernig vér lifum, skiptir að voru mati harla litlu máli. Vér lifum. Vér förum í biðröð til að kaupa kleinuhring, þegar oss langar í kleinuhring, ekki síst ef sá kleinuhringur hefur ratað hingað alla leið yfir hafið. Vorir kleinuhringir eru síðri, þeir flytja ekki með sér ilminn af þeim menningarheimi sem vér viljum tilheyra og sem draumur vor tekur mið af.

Nú erum vér farnir að gelta og ýlfra á samkomum, eins og kúasmalar í landi frelsis og hugrekkis. Vér höfum uppgötvað annarskonar sannleik, sannleik sem er bara okkar og eigi annarra. Vér höfum tekið í sátt hugmyndina um að með Glock takist okkur að bægja frá hinu illa.

Jú, kæra þjóð. Vissulega eigum vér sögu. Sagan sú er þyrnótt, bæði vegna legu lands vors við ysta haf, eðlis landsins og draumsins, íslenska draumsins, sem ýmsir samlandar vorir, fyrr og nú hafa þráð svo heitt. Þetta er draumurinn um efnislega hagsæld og völd til handa sér og sínum, en ekki draumurinn um velferð allra. Hvurskonar draumur væri það nú?
Saga vor hefur einnig krýnst rósum, bæði vegna legu lands vors við ysta haf , vegna eðlis þess og vegna draums, ekki hins íslenska draums, heldur draumsins um að oss takist að eflast sem þjóð á eign verðleikum. Að oss takist að verða þjóð meðal þjóða, þjóð sem geltir ekki þegar hún fagnar velgengni listamanna sinna,




Hvort sem krýnist þessi þjóð 
þyrnum eða rósum
hennar sögur, hennar ljóð,  
hennar líf vér kjósum. 
Ein á hörpu ísa og báls 
aldaslag síns guðamáls 
æ hún leiki ung og frjáls 
undir norður ljósum. 
                                                                                  (Jóhannes úr Kötlum)




Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...