Sýnir færslur með efnisorðinu þjóðhátíð. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu þjóðhátíð. Sýna allar færslur

17 júní, 2019

Af útvöldum og öðrum

Lífið gerist æ óbærilegra eftir því sem hitinn, lognið og linnulaust sólskinið umvefur allt. Hverjum dettur eiginlega í hug að kvarta yfir slíku? Ekkert mál að opna bara alla glugga og útidyr og hleypa þannig inn í húsið örlitlum svala, leyfa honum að kyssa kinn og draga þannig úr ótæpilegri svitamyndun líkamans. Ekkert mál, ef það væri nú bara hægt.
Undanfarnar vikur hefur faraldur að svokölluðu lúsmýi kallað á að öllum dyrum og gluggum væri kyrfilega lokað um leið og ljósaskiptin nálgast, en það hefur talist vera og reynst vera í lagi, að lofta hressilega út á daginn. Svitakófið átti kvöldið og nóttin.
Það var dásamlegt á þessum fagra þjóðhátíðarmorgni, þegar maður fagnar, í það minnsta innra með sér, 75 ára afmæli lýðveldisins, að opna alla glugga og allar útudyr, sitja síðan í tiltölulegum svalanum og hugsa um allt það sem lýðveldinu hefur fylgt gegnum áratugina.
"Var þetta mús?" spurði fD þar sem ég skaust út í dyrnar að pallinum með EOS-inn og stóru linsuna mína.  Ekki veit ég hvernig hún dró þá ályktun að þessi aðgerð mín gæti bent til þess að ég hefði séð mús á pallinum, en sú var þó raunin. Hún hafði náð sér í bita af eplahýði sem hinir útvöldu í umhverfi okkar í Kvistholti, fuglar himinsins, höfðu leyft að hljóta af veisluborði sínu. Þarna sat hún og nartaði í hýðisbitann í sakleysi sínu, en ekki lengi, þó það lengi að ég náði einni hálfmynd.
"Já, en hún er þarna langt fyrir utan pallinn" svaraði ég sem auðvitað lét mér ekki detta í hug annað en segja sannleikann.
"Lokaðu dyrunum!" hljómaði skipunin sem ekki varð missikilin. Henni fylgdu svo nokkur vel valin orð í garð músa.
Nú hefur öllum dyrum verið lokað, en gluggar eru opnir þar til lúsmýið fer á kreik þegar á líður.

Hvað á maður eiginlega að gera við þessa náttúru altt í kringum mann?
Flytja í blokk?

Lesendum óska ég gleðilegarar þjóðhátíðar. Það ólgar reyndar í mér þörfin til að tjá mig um lýðveldið, landið og þjóðina á þessum degi, en ég mun geyma það þar til síðar.

17 júní, 2017

Þjóðhátíðarávarp vort

Kæru Íslendingar.
Vér erum þjóð meðal þjóða. Vér ölum aldur vorn við ysta haf, langt fá heimsins vígaslóð. Land vort er dýrt og á hátíðastundum sem þessum, biðjum vér Drottin að geyma það, þjóðina, tunguna, jöklana, dalina, firðina, sjávarþorpin og hvaðeina sem oss dettur í hug að biða Drottin að geyma.

Á þessum degi ár hvert freistum vér þess að vekja með oss þjóðerniskennd, dásama þá staðreynd að vér tilheyrum frjálsri þjóð í frjálsu landi. Forsætisráðherra vor tjáir gleði sína yfir lífinu og tilverunni og að vér höfum aldrei fyrr notið jafn ríkulega af öllu því góða sem lífið getur fært oss. Hann leyfir því að fylgja með, undir rós, að líf vort sé svo óumræðilega gott fyrir hans tilstilli. Vér virðumst trúa því sem forætisráðherra vor og aðrir ráðamenn segja oss um líf vort. Vér trúum því litla stund að vér séum ein þjóð, eitt ríki með einn leiðtoga og það sé allt sem þarf til.

Oss finnst þægilegt að heyra hve gott líf vort er og vér köllum fram á sviðið Fjallkonuna sjálfa, kjarna þess sem vér erum, og felum henni að flytja gamalt ljóð, sem ætlað er að minna oss á hver vér erum í raun. Auðvitað er Fjallkonan oft leikkona í hlutverki, eða falleg stúlka, klædd í skautbúning af tilefninu.

Þetta árið má allt eins búast við að undir faldinum leynist Glock.
Vér erum víst ekki svo langt frá heimsins vígaslóð lengur. Vér erum víst ekki lengur þjóðin sem barðist fyrir frelsi sínu með ljóðum.  Hver erum vér þá?

Vér erum þjóðin sem þjáist vegna smæðar sinnar og þráir að verða stærri. Vér viljum tilheyra því sem stærst er og öflugast, en ekki því sem er minnst og veikast. Vér teljum oss vera þjóð sem rúmast ekki í landi við ysta haf, landinu bláa með jökla, víðerni, sindrandi bárur sem falla í drafnar skaut til að deyja.Vér erum þjóðin sem leitum annað að fyrirmyndum,en til feðra vorra og mæðra. Vér erum þjóðin sem krefst alls, en vill fátt gefa. Vér erum þjóðin sem tileinkar sér menningu sem tilheyrir öðrum þjóðum fremur en þeirri sem oss er falin.  Vér erum þjóðin sem vill gleyma því sem Fjallkonan er látin fara með einu sinni á ári. Fokk it, að það sé eitthvað annað en upplestur leikkonu á rómantískum kveðskap eftir löngu dauðan kall.

Kæra þjóð.
Oss tekst vel að feta þá braut sem vér teljum að leiða muni oss, börn vor og barnabörn til fyrirheitna landsins, lands hinna frjálsu og hugrökku.
Vér þekkjum betur til í því landi en voru eigin landi (á hverjum degi fáum vér greinargóðar upplýsingar um hvernig veðri þar er háttað), enda teljum vér menningu vora og sögu fremur lítilmótlega. Vér kunnum betur tungu hinnar frjálsu og hugrökku þjóðar, en tunguna sem sögur vorar voru ritaðar á.  Hvað höfum við svo sem  að gera við gamla sögu. Vér teljum oss betur borgið með því að vita sem minnst um hana. Framtíðin er oss ekki heldur ofarlega í huga.
Vér lítum svo á að lífið sé núna, fortíð eða framtíð sé ekki málið.
Vér höfum tileinkað oss og alið með drauminn, íslenska drauminn, drauminn um að dag einn blasi við okkur tækifæri til að verða auðug og valdamikil. Þessi draumur endurspeglast í vali voru á höfðingum til að leiða oss veginn, þar sem draumur vor, hinn íslenski draumur, gæti ræst.

Já, kæra þjóð. Vér lifum núna. Hvernig vér lifum, skiptir að voru mati harla litlu máli. Vér lifum. Vér förum í biðröð til að kaupa kleinuhring, þegar oss langar í kleinuhring, ekki síst ef sá kleinuhringur hefur ratað hingað alla leið yfir hafið. Vorir kleinuhringir eru síðri, þeir flytja ekki með sér ilminn af þeim menningarheimi sem vér viljum tilheyra og sem draumur vor tekur mið af.

Nú erum vér farnir að gelta og ýlfra á samkomum, eins og kúasmalar í landi frelsis og hugrekkis. Vér höfum uppgötvað annarskonar sannleik, sannleik sem er bara okkar og eigi annarra. Vér höfum tekið í sátt hugmyndina um að með Glock takist okkur að bægja frá hinu illa.

Jú, kæra þjóð. Vissulega eigum vér sögu. Sagan sú er þyrnótt, bæði vegna legu lands vors við ysta haf, eðlis landsins og draumsins, íslenska draumsins, sem ýmsir samlandar vorir, fyrr og nú hafa þráð svo heitt. Þetta er draumurinn um efnislega hagsæld og völd til handa sér og sínum, en ekki draumurinn um velferð allra. Hvurskonar draumur væri það nú?
Saga vor hefur einnig krýnst rósum, bæði vegna legu lands vors við ysta haf , vegna eðlis þess og vegna draums, ekki hins íslenska draums, heldur draumsins um að oss takist að eflast sem þjóð á eign verðleikum. Að oss takist að verða þjóð meðal þjóða, þjóð sem geltir ekki þegar hún fagnar velgengni listamanna sinna,




Hvort sem krýnist þessi þjóð 
þyrnum eða rósum
hennar sögur, hennar ljóð,  
hennar líf vér kjósum. 
Ein á hörpu ísa og báls 
aldaslag síns guðamáls 
æ hún leiki ung og frjáls 
undir norður ljósum. 
                                                                                  (Jóhannes úr Kötlum)




17 júní, 2016

Íslendingar að léttast?

Ég neita því ekki að á síðustu mánuðum finnst mér eins og það hafi verið að léttast upplitið á þessari þjóð; þjóðinni sem fagnar í dag á þjóðhátíðardegi. Mér hefur fundist áhugavert að velta fyrir mér hvað gæti valdið þessari breytingu og að sjálfsögðu fann ég nógu góða skýringu, fyrir mig í það minnsta. Ég reikna ekki með að skýringin henti þó öllum, en hver sem hún er í raun, þá tel ég að þjóðin sé að nálgast eitthvert jafnvægi aftur, eftir næstum 15 ára óstöðugleika.

1. kafli  Bláeyg þjóð
Til að gera langa sögu stutta, hefst skýring mín á Hrunadansinum (hrundansinum) í kringum gullkálfinn, sem lyktaði með margumræddu hruni.

2. kafli Reið þjóð
Þetta fjármálahrun og þjóðarhrun neyddi okkur til að hugsa margt í lífi okkar upp á nýtt. Tveim stjórnmálaflokkum var aðallega kennt um hvernig komið varog í kosningum komust þeir flokkar til valda sem síður voru taldir hrunvaldar. Það máttu allir vita, að verkefnið sem sú ríkisstjórn stóð frammi fyrir jaðraði við sjálfsmorð. Þjóð, sem áður hafði lifað í vellystingum með fjármagni sem engin innistæða hafði verið fyrir, var hreint ekki sátt við allan þann niðurskurð sem hér varð. Það risu upp lukkuriddarar í forystu fyrir flokkana sem hafði verið kennt um hrunið, sem töldu sig vita betur en stjórnvöld og lögðu sig fram um að rýra trúverðugleika þeirra. Þrátt fyrir miklar árásir og niðurrif ásamt innbyrðis átökum, tókst þessari stjórn að skapa grunn að endurreisn.  Sú vinna varð henni dýrkeypt.

3. kafli  Reið og bláeyg þjóð
Þjóðin var ekki sátt. Í kosningum, 4 árum eftir hrun voru það lukkuriddararnir sem báru sigur úr býtum. Sögðust myndu ganga frá vondu hrægömmunum sem ógnuðu þjóðinni. Sögðust myndu afturkalla allar vondu ákvarðanirnar sem ræstingafólkið hafði tekið. Áttu varla orð yfir hve lélegt ræstingafólkið hefði verið og þjóðin, sem auðvitað var enn ósátt við hvernig farið hafði, var búin að gleyma. Þjóðin man ekki langt, enda er það það sem brennur á skinninu hverju sinni sem ræður ákvörðunum hennar.
Með lukkuriddurum hófst, að þeirra sögn, hin raunverulega endurreisn. Þeir gerðu fátt annað en setja hvert heimsmetið af öðru með frábærum ákvörðunum sínum, að eigin sögn.  Svo kom í ljós að þeir voru ekki allir þar sem þeir höfðu verið séðir. Þeir höfðu ekki komið hreint fram.

4. kafli  Reið þjóð með opin augu.
Þjóðin fór að sjá hlutina í meira samhengi en áður. Efnahagurinn tók að batna, reyndar mest hjá þeim sem síst höfðu þörf á. Reiðiöldur risu þegar flett hafði verið ofan af hluta þess sem falið hafði verið. Aðal lukkuriddarinn neyddist til að segja af sér og hvarf af vettvangi. Þá fyrst fannst mér ég verða var við að það færðist meiri ró yfir þjóðlífið og umræðuna. Þetta ástand finnst mér hafa fest sig betur í sessi eftir því sem vikurnar hafa liðið.

5. kafli Sátt þjóð?
Ég veit ekki hve langan tíma það tekur þessa þjóð að verða sátt við hlutskipti sitt. Nú er meiri von til þess, en oft áður, að hún nálgist einhverskonar sátt.  Stærsta merkið um það virðist mér vera að hún hyggst hafna, í komandi forsetakosningum, hugmyndinni um forystumann á Bessastöðum, af því tagi sem verið hefur. Hún virðist vilja hafa á þeim stað einhvern sem kveðst vilja vera raunverulegt sameingartákn þjóðarinnar. Sá sem hefur nú setið á Bessastöðum í tvo áratugi, er um margt merkilegur forseti, sem á margskonar fögur eftirmæli skilin, en hann er þeirrar gerðar að í stað þess að sameina þjóðina, stuðlaði hann að sundrungu hennar á margan hátt.
Í haust verða svo kosningar, nema það verði ekki kosningar.  Ég hef nokkra trú á því að þær kosningar muni endurspegla meiri sátt meðal þessarar örþjóðar en verið hefur um langa hríð.
Ég vona að þjóðin hafni lukkuriddurum sem segjast munu gera allt fyrir alla. Við vitum að það er ekki mögulegt.  Megi okkur auðnast að kjósa til valda öfl sem vilja gera eitthvað fyrir alla, jafnt.

Þessa dagana er þrennt sem elur á bjartsýni minni fyrir hönd íslenskrar þjóðar:

1. Knattspyrna (sem meira að segja fD er farin að sýna örlítinn áhuga á, reyndar ekki í verki, heldur með óljósum viðbrögðum sem benda til þess að þjóðarstoltið sé að bera knattspyrnuandúðina ofurliði)
2. Handknattleikur
3. Forsetakosningar

Hafir þú komst alla leið hingað í lestrinum  
óska ég þér gleðilegrar þjóðhátíðar.


Við lifum viðsjárverða tíma í okkar góða landi nú um stundir og í ár er kosningaár og er því hætt við að inn á svið landsmála skeiði pólitískir lukkuriddarar með fullar skjóður loforða og tillagna. 
Úr fundargerð aðalfundar Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands, 
sem haldinn var þann 20. maí 2016 




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...