17 júní, 2019

Af útvöldum og öðrum

Lífið gerist æ óbærilegra eftir því sem hitinn, lognið og linnulaust sólskinið umvefur allt. Hverjum dettur eiginlega í hug að kvarta yfir slíku? Ekkert mál að opna bara alla glugga og útidyr og hleypa þannig inn í húsið örlitlum svala, leyfa honum að kyssa kinn og draga þannig úr ótæpilegri svitamyndun líkamans. Ekkert mál, ef það væri nú bara hægt.
Undanfarnar vikur hefur faraldur að svokölluðu lúsmýi kallað á að öllum dyrum og gluggum væri kyrfilega lokað um leið og ljósaskiptin nálgast, en það hefur talist vera og reynst vera í lagi, að lofta hressilega út á daginn. Svitakófið átti kvöldið og nóttin.
Það var dásamlegt á þessum fagra þjóðhátíðarmorgni, þegar maður fagnar, í það minnsta innra með sér, 75 ára afmæli lýðveldisins, að opna alla glugga og allar útudyr, sitja síðan í tiltölulegum svalanum og hugsa um allt það sem lýðveldinu hefur fylgt gegnum áratugina.
"Var þetta mús?" spurði fD þar sem ég skaust út í dyrnar að pallinum með EOS-inn og stóru linsuna mína.  Ekki veit ég hvernig hún dró þá ályktun að þessi aðgerð mín gæti bent til þess að ég hefði séð mús á pallinum, en sú var þó raunin. Hún hafði náð sér í bita af eplahýði sem hinir útvöldu í umhverfi okkar í Kvistholti, fuglar himinsins, höfðu leyft að hljóta af veisluborði sínu. Þarna sat hún og nartaði í hýðisbitann í sakleysi sínu, en ekki lengi, þó það lengi að ég náði einni hálfmynd.
"Já, en hún er þarna langt fyrir utan pallinn" svaraði ég sem auðvitað lét mér ekki detta í hug annað en segja sannleikann.
"Lokaðu dyrunum!" hljómaði skipunin sem ekki varð missikilin. Henni fylgdu svo nokkur vel valin orð í garð músa.
Nú hefur öllum dyrum verið lokað, en gluggar eru opnir þar til lúsmýið fer á kreik þegar á líður.

Hvað á maður eiginlega að gera við þessa náttúru altt í kringum mann?
Flytja í blokk?

Lesendum óska ég gleðilegarar þjóðhátíðar. Það ólgar reyndar í mér þörfin til að tjá mig um lýðveldið, landið og þjóðina á þessum degi, en ég mun geyma það þar til síðar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...