Sýnir færslur með efnisorðinu kosningar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu kosningar. Sýna allar færslur

25 september, 2021

Sama gamla

Það má hverjum manni vera ljóst, að ég ætla mér að nýta kosningaréttinn, þó ég viti, að eins og venjulega muni mér ekki verða að ósk mini um stjórn í þessu landi, sem mér hugnast. Ég man varla eftir kosningum sem fóru í samræmi við vilja minn. Samt kýs ég og kýs og kýs.

Jú, það hefur komið fyrir að ég ég hef fengið hluta óska minna uppfylltan, en þá hefur verið mynduð einhver samsteypustjórn þar sem sérhagsmunaöfl, sem við fáum aldrei að kjósa, taka til varnar með aðferðum sem sjaldan fara hátt.  
Svo fáum vð aldrei að kjósa embættismenn, E-flokkinn, sem hafa fengið völd langt umfram það sem eðlilegt er. Þeir hafa mikil völd til, og mikil tengsl við öflin sem stjórna bak við tjöldin.
Við kjósendur getum spriklað eins og við viljum, en það breytir bara harla litlu, því miður. Við þykjumst geta breytt einhverju, sjáum fyrir okkur fyrirmyndarsamfélagið og finnum einhvern hóp sem þykist tilbúinn að berjast með okkur fyrir því. Svo gengur bara harla fátt eftir, þegar upp er staðið. 

Gegnum árin hef ég auðvitað velt því fyrir mér hvernig stendur á því að fólk notar atkvæði sin til að styðja við öfl sem hafa það helst að markmiði að skara eld að eigin köku og tekst að blekkja okkur til að halda að það sé okkur fyrir bestu. Ég skil bara hreint ekkert í því og sé ekki fram á að skilja það. 

Hér hefur talað kjósandi sem hlakkar ekkert sérlega mikið til að vita hvað kemur upp úr kjörkössunum, því hann veit að það verður það sama og venjulega.
Þessi kjösandi ætlar, þrátt fyrir það að nýta kosningaréttinn. Allavega það.
Svo ætlar hann að halda áfram með líf sitt, fullur bjartsýni á að einhver finni leið, einhverntíma, til að bylta þessari samfélagsgerð.

-------------------------

Hvað á ég svo að kjósa? Hvað kemst næst því að get haft áhrif eftir kosningar, sem eru í einhverju samræmi við lífsskoðanir mínar? Á ég kannski bara að kjósa nákvæmlega þann flokk sem ég hallast helst að, þó ég viti að því atkvæði er ekki "taktískt" vel varið?  


26 maí, 2018

Kjördagur

Regnið lemur framrúðuna á Qashqai þar sem við fD leggjum leið okkar í átt að hálendinu. Það er eins og það reyni að koma í veg fyrir að við fáum sinnt erindi okkar, en rúðuþurrkurnar reyna aftur á móti að berjast gegn regninu og vísa þannig leiðina á áfangastaðinn.

Áfram.

Áfram silumst við, hugsi.

Fyrir framan er túristabíll og annar fyrir aftan, svona eins og fara gerir.

Vegurinn býður upp að holudans til að drepa tímann. Eitt feilspor í þeim dansi gæti orðið dýrt. Það kemur sér illa að hafa ekki lagt meira upp úr skíðamennsku, en aðrir kostir vega á móti.

Þetta er nú ekki nema um 12 km spotti við þessar aðstæður, nægur tími til að gera upp hug sinn. Nægur tími til að velta fyrir sér hver möguleikanna 5 skuli valinn, nema niðurstaðan verði sú að bæta þeim sjötta við.

Nei, það er lýðræðisleg skylda að velja einn þessara fimm.
Þó mér finnist að ýmsu leyti ósanngjarnt að vera settur í þá stöðu að þurfa að taka afstöðu, er eiginlega ekki um annað að ræða en nýta þann dýrmæta rétt sem sem ég hef til að tjá vilja minn.

Við nemum loks staðar á áfangastað - kjörstað.
Enn þessi nagandi efi, enn þessi leiðinda pæling um að þetta breyti engu, til eða frá. Er það úrhellið og holurnar sem valda, eða er einhver löngu kæfður uppreisnarandi að reyna að láta á sér kræla?

Hvað með það.
Það verður ekki snúið við úr þessu. Best að ákveða þetta bara á leiðinni inn.

Kominn inn, en engin niðurstaða.

"Gjörðu svo vel, Sigríður, þú er næst." tilkynnir ofurhress dyravörður með gleraugu og beinir máli sínu til eldri konu með grásprengt hár, sem ég hef aldrei séð áður. Til þess að komast inn á kjörstaðinn þarf nefnilega dyravörð, sem leyfir manni að ganga inn á kjörstaðinn, ganga þar fyrir þrjá valinkunna sveitunga, sem finna á hvaða blaðsíðu maður er í kjörskránni, segja hvert öðru og skrá það loks með penna á blaðsíðu í einhverjum doðranti.

Sigríður hverfur inn um dyrnar, en út kemur í sama mund yngri karlmaður með þykkt rauðsprengt hár, sem ég hef aldrei séð áður, heldur.

"Má ekki bjóða ykkur kaffi?", gellur í dyraverðinum. "Það verður smá bið. Það eru þrír á undan þér".
"Hversvegna geta ekki fleiri en tveir verið þarna inni í einu?" spyr ég dyravörðinn - augljóslega af nokkurri vanþekkingu á kjörfræðilegum núönsum..
"Það eru nefnilega bara tveir kjörklefar þarna inni," kom svarið um hæl.
"Þarna inni" er salurinn þar sem ég dansaði í gamla daga eins og enginn væri morgundagurinn, við dynjandi rokktóna hljómsveitarinnar ein, Mána, ásamt 3-600 unglingum. Nú er bara pláss þarna inni fyrir tvo kjörklefa.  Spurningin var samt fullkomlega tilgangslaus og annað svar hefði engu breytt.

Ég gleymi að þiggja kaffið. Ég er að reyna að komast að einhverri niðurstöðu.
Einn oddvitinn er þarna á svæðinu, en það auðveldar mér ekkert að finna rétta svarið.

"Þá ert þú næstur", tilkynnir dyravörðurinn mér og ég geng fyrir hin valinkunnu og þau gera það sem þau gera.
"Þú þarft svo að brjóta saman seðilinn áður en þú setur hann í kassann og strax þegar þú ert búinn að gera við hann það sem þú ætlar að gera", er efnislega það sem einn þeira segir við mig í þann mund er hann réttir mér seðilinn og áður en ég tek við honum og geng inn í annan tveggja kjörklefa, sem híma út við vegg.
Innan tjalds í klefanum (það eru engar dyr, heldur bara tjald) er lítil hilla, útkrotað sýnishorn af kjörseðli og blýantsstubbur.

Nú var mér nauðugur einn kostur að beita lýðræðislegum rétti mínum, sem forforeldrar mínir börðust fyrir með svita og tárum.

Ég hef 5 möguleika í þessari stöðu.
Ég vel á endanum einn. Það þýðir ekki að vera með neinar málalengingar í því sambandi.

Ég vel einn.

Valið er mitt og um það tjái ég mig auðvitað ekki.
Ég finn ekki fyrir neinni sérstakri fullnægju eða stolti eftir að niðurstaðan er fengin.

Út, út.
Enginn tekur mynd af mér þar sem ég set seðilinn í kassann. Ég þykist hissa á þessu og geri við það athugasemd. 
Hin valinkunnu brosa þreytulega. Búin að heyra þennan þreytta brandara oft á þessum degi.

Komið við í búð á heimleið og keyptur ís. með lúxus súkkulaðiídýfu.

Allavega það.

-----------------------------
Ef einhver skyldi ekki hafa áttað sig á því þá var hér á ferð prósaljóðið Kjördagur, eftir mig.


19 maí, 2018

Ekki vera neikvæður

Sammála er ég því að það er skemmtilegra að vera jákvæður en neikvæður, í þeirri merkingu sem maður leggur alla jafna í þau orð.
Það er sérlega gaman þegar maður fær að heyra hvað maður sé nú jákvæður, sem í mínu tilviki gerist reyndar afar sjaldan. Að sama skapi er fremur leiðinlegt að fá það framan í sig að maður sé neikvæður: "Vertu nú ekki svona neikvæður!"

Áður en lengra er haldið ætla ég aðeins að tjá þá skoðun mína, að það geti verið varhugavert að vera jákvæður, jafnvel neikvætt. Að sama skapi getur verið afar gagnlegt að vera neikvæður, jafnvel jákvætt.
Allt fer þetta eftir samhengi hlutanna, eins og svo oft er nú.


Þú geymir Skálholt, ...
Nú eru kosningar framundan, sveitarstjórnarkosningar, þar með einnig í þessum litlu hreppum okkar í uppsveitunum. Það eru einmitt þær sem valda því að ég velti þessum tveim hugtökum fyrir mér: jákvæðni og neikvæðni í samhengi við hugtökin gagnrýnisleysi og gagnrýni.

Þar sem við höfum valið okkur bústað þykir gagnrýni á sveitarstjórn ekki lýsa sérlega sérlega mikilli jákvæðni. Ástæða þess er einföld: við þekkjum oftar en ekki, fulltrúa okkar í sveitarstjórn persónulega og við slíkar aðstæður getur orðið erfitt að aðgreina gagnrýni á stefnu, aðgerðir eða aðgerðaleysi sveitarstjórnar, og þær persónur eða þá einstaklinga sem í sveitarstjórninni sitja.
Það er frekar ríkt í okkur, að gagnrýna ekki opinberlega fólk sem við þekkjum, þekkjum jafnvel vel. Sömuleiðis er það ríkt í sveitarstjórnarfólki í fremur fámennum samfélögum, að taka allri gagnrýni á störf sveitarstjórnar, persónulega. Því kann að finnast gagnrýnin beinast að sér, fremur en einhverri stefnu eða stefnuleysi þess hóps sem það er fulltrúi fyrir.

... Þingvöll, ...
Það fólk sem setur fram gagnrýni á sveitarstjórn eða stöðu samfélags, telst vera fremur neikvætt fólk. Þeir sem gagnrýna ekki og láta sem allt sé í "gúddí" tilheyra hópi jákvæða fólksins.

Þegar hér er komið, vil ég fullyrða, að ef engin væri gagnrýnin, eða neikvæðnin myndi kyrrstaðan ríkja og deyfðin, aðgerðaleysið og metnaðarleysið.  Þar fyrir utan tel ég auðvitað af ef minnihluti í sveitarstjórn er samsettur af ákaflega jakvæðu fólki, geti það verið harla neikvætt fyrir samfélagið.

Ráðið til þess að gagnrýni, neikvæðni ef það er orðið sem fólk kýs að nota, fái notið sín sem slík, tel ég að það þurfi að færa valdið (sveitarstjórn) lengra frá fólkinu sem kýs. Sveitarstjórnarfólk á að tilheyra mismunandi pólitískum stefnum þar sem það er stefnan, aðgerðirnar eða aðgerðaleysið sem situr undir gagnrýni, en ekki einstaklingarnir sem eru fulltrúar fyrir hana. Hér er ég ekki endilega að tala um að það þurfi að vera einhverjir stjórnmálaflokkar að baki, heldur frekar lífsskoðanir: fólk sem telur sig aðhyllast félagshyggju gætu komið sér saman um framboð, þá einnig talsfólk einstaklingsfrelsisins og loks þeirra sem þar væru mitt á milli. Kjósendur eiga á því rétt, að vita hvar á þessu rófi framboðin eru. Að mínu mati vantar mikið upp á hjá þeim framboðum sem okkur standa til boða  fyrir þessar kosningar.

Með því að færa valdið fjær fá mismunandi stefnur að takast á og bera málefni sín upp fyrir kjósendur í aðdraganda kosninga.  Það er bara það sem lýðræðið gengur út á og á að ganga út á: val milli mismunandi stefna, frekar en val milli einstaklinga eða búsetu einstaklinga, sem ekkert gefa upp um fyrir hverju hjörtu þeirra slá.

... Haukadal.
Ég get lýst því yfir, að ég tel að næst á dagskrá sé sameining allra sveitarfélaga í Árnessýslu í eitt.

Ég get jafnframt lýst því yfir, að ég er orðinn bara nokkuð þreyttur á þeirri hreppapólitík sem tíðkast í uppsveitum Árnessýslu, þar sem menn vegast á um hin og þessi framfaramálin, sem síðan verða að engu.  Neiti því hver sem vill að svona sé og hafi verið staðan.

Já, já, sjálfsagt munu margir verða til þess að hrista höfuð yfir þessu "neikvæðnirausi" í mér. Ég kýs hinsvegar að líta að þetta litla framlag mitt í umræðuna sem merki um nauðsynlega jákvæðni af minni hálfu.  Ég er jákvæður fyrir hönd þessa svæðis, fái það yfir sig stjórn sem lítur það frá víðara sjónarhorni en raunin er við óbreytt ástand.

Mér er hulið hvernig Bláskógabyggð komst að þeirri niðurstöðu að hafna þátttöku í sameiningarviðræðum við önnur sveitarfélaög í Árnessýslu. Engin rök hef ég séð fyrir þeirri ákvörðun og ekki veit ég til að leitað hafi verið álits íbúanna á henni, í það minnsta var ég aldrei spurður.





24 október, 2017

...sem fyllir mælinn?

Þessa mynd tók ég ófrjálsri hendi hér, en átti síðan aðeins við hana.
Sennilega myndi þetta teljast siðferðilega rangt - sem það eflaust er,
eins og svo margt í þeim veruleika sem við búum við.
Í gær fjallaði ég um þjóðkirkjuna, bankaleyndina, traust og siðferði. Engin smá viðfangsefni í nokkrum línum.
Það kann einhver að spyrja til hvers ég var nú að því og mér er ljúft að svara.
Ég er afskaplega þreyttur á því að geta ekki treyst sjórnvöldum eða stjórnmálaleiðtogum í þessu landi. Ekki fæ ég betur séð að en sama sé uppi á tenginum meðal margra samlanda minna og einnig meðal annarra þjóða.

Til þess að njóta trausts verður fólk sem tekur þátt í stjórnmálum að koma hreint fram, vera það sem það er, sannfæra kjósendur um að það sé ekki með óhreint mjöl í pokahorninu.
Ég geri mér auðvitað grein fyrir því, að til þess að komast áfram í stjórnmálum virðist þurfa að beita ýmsum meðulum sem ekki þola alltaf dagsljósið. Svona hefur þetta verið frá alda öðli, sjálfsagt.

Stjórnmálamennirnir eru eitt, en síðan eru það kjósendurnir. Þar er nú margur sauðurinn og þar á meðal þessir:
1. Kjósandinn sem  hefur afar skýra heildarsýn á það hvernig honum finnst að þjóðfélagið eigi að vera. Hann er tilbúinn að kjósa mismunandi stjórnmálaflokka eftir því hvernig honum finnst þeir uppfylla þessa sýn. Hann fylgist afar vel með öllum hliðum og leggur til hliðar fordóma sína gagnvart einstökum persónum eða málum, en lætur heildarsýnina á það hvernig honum finnst gott samfélag eigi að vera, ráða för og vali sínu á kjördegi. Þetta er nánast hinn fullkomni kjósandi.

2. Kjósandinn sem með einhverjum hætti, hvort sem það gerðist í foreldrahúsum, í gegnum nám sitt (nám sín (nýslenska)), tengslanet sitt, vonir sínar eða þrár, kýs ávallt það sama, óháð öllu öðru sem kann að gerast.
Þessi kjósandi les aðeins "réttu" miðlana, finnur sér ávallt einhverja kima til að styrkja skoðanir sínar, er tilbúinn að dreifa óhróðri um þá sem hafa aðrar skoðanir, og gerir leiðtoga síns flokks nánast að leiðtoga lífs síns, óháð því hvað sá hefur að geyma í raun.
Það skiptir þennan kjósanda engu máli, þó flokkurinn hans vinni beinlínis gegn því sem myndi henta manneskju í hans stöðu best.  Þetta er yfirleitt kjósandinn sem segist ekki vera pólitískur, vegna þess að hann hefur í rauninni ekki nein baráttumál utan að verja flokkinn sinn.

3. Kjósandinn sem lætur stundarhagsmuni ráða hvaða bókstaf hann merkir við í kjörklefanum. Hann stekkur á einhver afmörkuð mál sem einhver flokkur lofar í kosningabaráttu; lætur þau skipta öllu. Þetta geta jafnvel verið lítil og ómerkileg mál, en mál sem skipta þennan kjósanda miklu þá stundina. Þetta er kjósandinn sem veldur sveiflum í skoðanakönnunum. Þetta er kjósandinn sem stjórnmálamennirnir hamast við að reyna að sannfæra. Þetta er kjósandinn sem lætur glepjast af yfirboðum í aðdraganda kosninga.

4. Kjósandinn sem hefur engar ákveðnar lífsskoðanir, er bara nánast sama um þetta "helvítis kjaftæði". Þetta er kjósandinn sem lítur þannig á að atkvæði hans skipti engu máli, eða að það sé sama rassgatið undir öllum þessum póitísku drullukökusmiðum. Þetta er kjósandinn sem, annaðhvort mætir ekki á kjörstað, eða kýs þann flokk sem tókst að rétta honum einhverja dúsu, t.d. veitti nóg af bjór á kynningarfundinum, gaf honum bol, eða barmmerki.

Ég held að það sé strengur úr öllum þessum kjósendategundum í mér - misáberandi þó.

Ég ætlaði hinsvegar ekki að fjalla um tegundir kjósenda hér og nú, heldur áfram um spurninguna um traust.

TRAUST
Bankaleynd er sennilega stærsta uppspretta þess vantrausts sem nú ríkir í þessu samfélagi og þannig hefur það verið, líklega síðustu 15 ár. Þetta er óhemju eyðileggjandi fyrirbæri.  Í svo fámennu samfélagi sem við búum í er kjörlendi fyrir spillingu. Ættir og viðskiptafélagar birtast einhvernveginn allsstaðar þar sem góðir dílar eru gerðir, þar sem ríkiseignir eru seldar, þar sem einkahagsmunir koma við sögu.
Auðvitað er svona andrúmsloft líka gróðrarstía fyrir samsæriskenningar, en þær spretta fram þar sem vantraust er fyrir hendi.

Í mínum huga er veruleiki okkar í þessu landi lagskiptur:
- það er sá veruleiki sem blasir við okkur og sem öllum má ljóst vera að er fyrir hendi.
- það er sá veruleiki sem venjulegt fólk/almenningur sér ekki. Það sem gerist á lokuðum fundum, óformlegum fundum, í Öskjuhlíðinni, á einhverri paradísareyju í suðurhöfum, í skíðaskála í suður Evrópu, á krá í Amsterdam, í ræktinn.  Á þessum veruleika ættum við að byggja val okkar á stjórnmálaleiðtogum, en það mun vera siðferðilega rangt að veita okkur upplýsingar um hann. Hann er á þeim stað sem lögin banna okkur að fara. Lögin sem voru sett í þágu..........

Svo er það spurningin um sannleikann. Hver er hann þessi sannleikur? Er hann gamall eða nýr?
Sannleikur er það sem satt er og rétt. Raunveruleiki.  Það sem er ekki raunverulegt er þá væntanlega ekki sannleikanum samkvæmt.  Þá þarf að velta fyrir sér hver raunveruleikinn er. Er hann það sem blasir við okkur dags daglega, eða er hann ef til vill eitthvað það sem lúrir undir yfirborðinu og okkur á að vera siðferðilega ómögulegt að nálgast? Lifum við þá í einhverjum gerviheimi?

---------

Af heilum hug get ég lýst því yfir hér, að ég verð ekki tengdur einhverjum tilteknum stjórnmálaflokki, þó vissulega falli skoðanir mínar að langstærstum hluta að stefnumálum þeirra stjórnmálaflokka sem vinstra megin eru við miðjuna.  Sannarlega skammast ég mín ekki fyrir það, er stoltur, ef eitthvað er.  
Ég hef heldur ekki farið sérstaklega dult með það, að ég hef nokkra óbeit á þeim öflum í stjórnmálum sem teljast standa hægra megin í þessu litrófi. Þá hef ég megna óbeit á persónudýrkun þegar stjórnmál eru annars vegar. 
Svona er ég og ég tel að mikið þurfi að ganga á, áður en einhverjum tekst að breyta mér að þessu leyti. Hlekkir á síður sem eiga að sannfæra mig um að ég fari villur vega, þar með talið á umfjöllun um I C E S A V E,  skipta nákvæmlega engu að þessu leyti.

🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆

Þar hafið þið það, þessi fáu sem höfðu þrek til að lesa alla leið, ekki síst ef þið hafið haft nægilega opinn huga til að skilja hvað ég er að fara.

Markmið mín með þessum skrifum eru ekki að reyna að sannfæra einhvern um að hann ætti ef til vill að endurskoða pólitiska hugsun sína eða skoðanir.  Ég veit að það mun ekki gerast.  Þau snúast, tel ég, aðallega um að skýra þessi mál með sjálfum mér og halda því til haga fyrir síðari tíma, hve rétt ég reyndist nú hafa haft fyrir mér alla tíð.
😎




08 október, 2017

Klemma

Ég fæddist inn í og ólst upp á því sem kallað hefur verið "framsóknarheimili". Á slíkum heimilum, á tíma áður en jafnvel sjónvarpið var komið til sögunnar, var ekki um að ræða aðra fjölmiðla en flokksblaðið Tímann, sem kom í knippum tvisvar til þeisvar í viku og ríkisútvarpið, sem þá útvarpaði á einni rás, sem var líkust því sem rás 1 er í dag.  Þetta var einfaldur heimur, verð ég að segja.

Að óbreyttu hefði ég haldið áfram að vera grjótharður framsóknarmaður fram á þennan dag. Það fór hinsvegar svo, að á þeim tíma  ævinnar þegar stjórnmálaskoðanir tóku að festast að einhverju ráði, lá leið mín úr foreldrahúsum og ég uppgötvaði annarskonar hugmyndir um hvernig þjóðfélagið ætti að vera. Það varð til ákveðin lífsskoðun eða sýn á þjóðfélagið, sem tengdist ekki einstökum persónum eða stjórnmálaflokkum endilega, heldur fól hún í sér, að ég þurfti að velja milli flokka í kosningum, sem héldu fram svipaðri sýn og ég hafði.  Það er fjarri því, að þessi lífssýn mín hafi eitthvað að gera með mína eigin hagsmuni eða fjölskyldunnar. Ég hef þá staðföstu trú að þjóðfélagi sé best þannig komið, að einkahagsmunum, viðskiptahagsmunum, hagsmunum einstakra stétta aða hópa, sé eins fyrir komið. Með öðrum orðum, það á ekki að hygla að einum á kostnað annars. það eiga allir að taka þátt, hver eftir því sem hann getur.

Ég geri mér grein fyrir að það eru og verða hópar og einstaklingar í samfélaginu sem telja sig "jafnari" en aðra. Það er verkefni samfélagsins að halda þeim í skefjum.

Ég játa það, að stundum hefur framsóknarmaðurinn í mér (fjórðungi bregður til fósturs) látið á sér kræla, en hefur ekki náð neinni fótfestu, enda tel ég framsóknarflokkinn hvorki vera né fara þó margt sé þar að finna (ef horft er framhjá hversu ólánlega þeim flokki hefur stundum tekist með val á forystu) sem fellur að sýn minni.

Nú er ég kominn í talsverða klemmu.
Ég hef verið þeirrar eindregnu skoðunar að maður eigi að kjósa eftir sannfæringu sinni, eins og hún endurspeglast í skoðunum manns á því hvernig samfélaginu í heild verði best borgið. Ég hef gert fremur lítið úr því þegar fólk kýs á öðrum forsendum, t.d. vegna ástar á einhverjum stjórnmálaleiðtoga, eða á grundvelli einkahagsmuna, eða "af því bara".


Þá er það klemma mín
Nú stend ég frammi fyrir því að velja milli einkahagsmuna og lífsskoðana þegar ég geng að kjörborðinu.
Ástæðan?
Fyrir nokkrum mánuðum birti einn þingmanna stjórnmálaflokks, sem ég hef oft ljáð atkvæði mitt, opinberlega þá skoðun súna að ég ætti að "fokka mér" og að ég væri "ofboðslega vitlaus".
Að vísu sagði hann þetta ekki berum orðum, þessi "ágæti" þingmaður, heldur samþykkti hann þessa skoðun á mér, með því á smella á hnappinn þar sem fólk getur látið sér vel líka það sem einhver segir. Hann, sem sagt, "lækaði" þessa skoðun.
Ef einhver áttar sig ekki á um hvað málið snýst, þá má eitthvað um það hér.

Ég hélt þá, að framundan væru nokkur ár þar til ég þyrfti aftur að gera upp við mig hvernig atkvæði mínu yrði best varið, en nú blasri við að ég þarf að ákveða mig með hraði.
Á ég að kjósa flokk þar sem forystumennirnir taka þátt í því, á samfélagsmiðlum, að fordæma fólk sem það þekkir ekki?
Á ég að kjósa flokk sem hýsir kima þar sem mannhatur fær að þrífast?
Á ég að velja þann flokk sem ég kemst næst því að deila skoðunum með?

Ég breyti ekki þeirri skoðun minni, að maður á að kjósa í samræmi við sannfæringu sína á því hvað kemur samfélaginu í heild best. Ég neita því hinsvegar ekki, að persónulegir hagsmunir hljóti að koma við sögu.

Svona er nú það.

---------------------------
Það er af ásettu ráði sem ég fjalla ekki um einstaklinga, eða einstaka flokka (nema, framsóknarflokkinn, auðvitað). Ég er búinn að læra það að slíkt breytir engu. Fylgjendur verða bara meiri fylgjendur og andstæðingar meira andstæðingar.

04 október, 2017

Enn eina ferðina: bara hann

Persónudýrkun er vafasamt fyrirbæri, svo ekki sé meira sagt, en þegar við erum farin að láta heilan stjórnmálaflokk snúast um eina persónu, erum við komin út á harla vafasamar brautir. Í mínum huga er eitthvað bogið við fólk sem sækir inn í slíka flokka.  Ætli þetta stefni í að verða þriðju kosningarnar til Alþingis í röð, þar sem ein persóna nær að láta alla umræðu snúast um sjálfa sig?

Ég hneigist til að kenna fjölmiðlum um þetta, að stórum hluta, því varla ropar þessi persóna öruvísi en að úr verði flennifyrirsögn og í kjölfarið logandi samfélagsmiðlar.

Ef um væri að ræða manneskju sem býr yfir einhverjum persónutöfrum, glæsileik, myndugleik, öryggi, manngæsku, mannskilningi, eða bara einhverjum jákvæðum eiginleikum sem myndu geta sannfært mig um að þarna væri á ferð framtíðarleiðtogi þessa örsmáa eyríkis, gæti ég skilið alla umfjöllunina.

Ég sé ekkert birtast mér, þegar mér tekst ekki að snúa mér undan, nema einstakling sem hefur komist í þessa stöðu vegna einhvers annars en hæfni til þess arna, eða gáfna og mér er fyrirmunað að skilja hvað þar er, nákvæmlega við hann sem  veldur því að upp undir 10% þjóðarinnar kveðst myndu kjósa flokkinn hans. Því þetta er bara flokkurinn hans - einskis annars. Flokkur þar sem hagsmunir hans og persóna virðast vera það sem skiptir  máli.

Það sem er kannski alvarlegast í þessu er, að á meðan hann heldur fjölmiðlum uppteknum við sjálfan sig, fær  Flokkurinn að fara sínu fram í skugganum - skugganum þar sem ljósið verður að fá að skína, ef einhver von á að verða fyrir þá sem þurfa mest, til að fá tækifæri til að lifa  mannsæmandi lífi. Skugganum þar sem menn "víla og díla" með líf annarra í eigin þágu.

Ábyrgð fjölmiðla er jafnvel meiri en okkur grunar.

Sjálfsupphafnig og persónudýrkun eru eitur í mínum beinum, hvað sem það segir nú um mig, en auðvitað skiptir það ekki máli.

Ég lýk þessu á mynd af þessari persónu, sem dregin er upp af fyrrverandi flokksfélaga hennar:

Eftir hádegi mætti formaðurinn og við það breyttist andrúmsloftið, tillögur voru dregnar til baka og frjálslynt fólk dró sig til hlés. Þarna var ég fyrst var við það að „óþægilegu“ fólki var stuggað frá og einangrað. Allt starfið snerist um að halda línunni, og formaðurinn lagði línuna, ekki grasrótin.

Sama vetur atvikaðist það svo að ég varð sessunautur formannsins í veislu 
[....].  Sessunautur minn var ekki sá beitti samfélagsrýnir sem ég hafði séð á opinberum vettvangi. Heldur var hann frekar óöruggur og var um sig, þetta virtist mér ekki vera maður sem skeytti mikið um nærumhverfi sitt og hvað þá fólkið sem þar var.

Þetta er mynd sem mér finnst lýsa þeim sem ég sé í fjölmiðlum, þegar mér tekst ekki að snúa mér undan.

Kannski er mér að yfirsjást eittvað. 

23 október, 2016

Hvar setur maður krossinn? (2)

Hér er framhaldið leiðbeiningum mínum til lesenda, eftir allmargar áskoranir, um það hvar þeir ættu að setja krossinn sinn á kjördag, þann 29. október.  Í fyrri hluta leiðbeininganna renndi ég mér yfir fimm þeirra flokka sem bjóða fram á landsvísu. Það þýðir að ég á eftir að afgreiða fjóra sem þannig háttar um og síðan eina þrjá, sem bjóða ekki fram allsstaðar.
Ég tek eftirfarandi fram aftur, svo enginn verði misskilningurinn: 
Við vinnsluna hef ég ekki aðrar heimildir en annað eyrað, sem ég hef notað til að hlusta á stjórnmálaumræður, og annað augað sem ég hef notað til að renna yfir helstu fyrirsagnir fjölmiðla (utan eins sem ég hef ekki augum litið nema í fjarska síðan árið 2009). Við ofangreindar heimildir bæti ég síðan skvettu (dassi) af eigin reynslu og hyggjuviti. 
Þá er bara að vinda sér í þetta:

P-listi: Píratar

Þú kýst Pírata ef:
- þú vilt grundvallarbreytingar á samfélaginu.
- þú veist fátt verra en fjórflokkinn.
- þú ert tölvunörd
- þú vilt nýja stjórnarskrá.
- þú er fyrrverandi stærðfræðikennari við framhaldsskóla í uppsveitunum.
- þú vilt flokk sem er hvorki hægra megin né vinstra megin, en ert ekki viss.....
- þér finnst geðveikt kúl að kjósa flokk með útlenskt nafn.
- þú "notar" en hefur samt rænu á að mæta á kjörstað.
- þú kýst alltaf flokka sem fá mikið fylgi í skoðanakönnunum.
- þú ert áhættufíkill.
- þú ert búin(n) að fá upp í kok af þessu ógeðslega samfélagi.
- þú er áhugmanneskja um að kjósa oft um flest.
- karlþingmaður flokksins hefur alveg náð þér (meira að segja þó hann sé ekki í framboði).
- þú er fyrir dálítið kaótíska aðferð við að taka ákvarðanir.
- þig langar að segja fokk við fjórflokkinn.
- þú ert tölvulistaspíra.
- þú starfar hjá tölvuleikjafyrirtæki.
- gegnsæi er lykilorðið í þínum huga.

S-listi: Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands

Þú kýst Samfylkinguna ef: 
- þú talar um flokkinn sem Samfylkinguna en ekki Samfó.
- þú ert jafnaðarmanneskja af gamla skólanum.
- þú studdir Alþýðuflokkinn í denn.
- þú vorkennir forystufólki í Samfylkingunni vegna þess hve illa flokkurinn kemur út í skoðanakönnunum.
- þú ert hlynntur aðildarumsókn að ESB.
- þú ert krati og stolt(ur) af því.
- þér líkar jarðbundinn og látlaus stíll formannsins.
- þú skilur ekki hversvegna flokkurinn er talinn vera hluti fjórflokksins.
- þú getur ekki fyrirgefið Bjartri framtíð að hafa hlaupist undan merkjum.
- þér finnst skemmtileg áskorun að skilja málefnin sem flokkurinn berst fyrir.
- þú ætlar að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, en ruglast. Er Flokkurinn ekki örugglega með S?

T-listi: Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði

Þú kýst Dögun ef:
- þig langar að segja "fokk" við fjórflokkinn.
- þú manst ekki hvort þú ætlaðir að kjósa þennan flokk eða Flokk fólksins og setur bara krossinn hér.
- þú ímyndar þér að þessi flokkur muni komast í aðstöðu til að gera eitthvað, annars er þér bara alveg sama.
- þú vilt refsa öllum flokkum á Alþingi nema Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.
- þú telur Ingu Sæland vera í þessum flokki. Þér finnst hún svo frábær.
- þú vilt senda fjórflokknum skýr skilaboð um óánægju þína.
- þú ert ofurhörð baráttumanneskja fyrir bættum kjörum þeirra sem minnst mega sín.
- þér finnst að flokkurinn berjist fyrir öllu sem bæta mun hag þjóðarinnar.
- þú vilt ekki skila auðu og ekki gera ógilt.
- þú ert þessi nörd sem gaumgæfir stefnur allra flokka og finnur hjá þessum flokki nákvæmlega það sem þú vilt sjá gerast í samfélaginu.
- þú horfir á Friends í endursýningu.
- þú varst á Austurvelli veturinn 2008-9.
- þú setur krossinn bara hipsum hapsum og hann lendir á þessum flokki.
- þú ert kjósandinn sem styður minnimáttar.

V-listi: Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Þú styður Vinstrihreyfinguna - grænt framboð ef:
- þú ert femínisti
- þú ert öfgafemínisti, en samt ekki ein(n) af þeim sem hættu í Sjálfstæðisflokknum. Það væri of rosalegt.
- þú skilgreinir þig sem sósíalista.
- þú studdir Alþýðubandalagið í denn.
- þú ert heilluð/heillaður af formanninum.
- þú ert pólitísk(ur).
- þú hefur einstrengingslegar skoðanir á flestum málum.
- þú ert vinstrivinstrikrati.
- þú ert á móti aðild að ESB.
- þú ert listaspíra.
- þú trúir því að það þurfi að hafa hugsjónir í pólitík.
- þú þolir hreint ekki spillingu og baktjaldamakk.
- þú ert baráttumanneskja fyrir náttúruvernd.
- þú vilt "eitthvað annað" en stóriðju til að efla atvinnulíf.
- þú ert sérstök baráttumanneskja gegn kúgun auðvaldsins.

Eftirfarandi stjórnmálasamtök bjóða fram lista í Norðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi, Suðvesturkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmum norður og suður:

R-listi: Alþýðufylkingin

Þú kýst Alþýðufylkinguna ef:
- þér finnst VG ekki vera nægilega vinstrisinnaður.
- þú varst félagi í Fylkingunni í den, og vilt bara vera þar ennþá.
- þú telur svona flokk eiga erindi við nútímafólk með síma.
- þú vilt gefa skít í fjórflokkinn, sama hvað.
- þú ert dálítill byltingarsinni í þér.
- þú varst hrifin(n) af liði Fljótsdalshéraðs í Útsvari í fyrra.
- þú þekkir ekki muninn á þessum flokki og Þjóðfylkingunni. Skellir krossinum bara hér.


Eftirfarandi stjórnmálasamtök bjóða fram lista í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi:

E-listi: Íslenska þjóðfylkingin

Þú kýst Íslensku þjóðfylkinguna ef:
- þú ert á "E"
- formaðurinn hefur ekki verið rekinn úr flokknum.
- þú ert rasisti í þeim skilningi sem lagður er í það orð á samfélagsmiðlum.
- þú vilt loka landamærum.
- þú hefur andúð á múslimum.
- þú ert á móti mosku.
- þú varst einu sinni Hægri græn(n), en þurftir að samþykkja að aðhyllast skoðanir Þjóðfylkingarinnar til að lifa af.
- þú hlustar á útvarp Sögu allan daginn.....alla daga.
- þú varst einusinni í Fylkingunni og fyrir þér er fylking bara fylking.
- þú uppfyllir ofangreind skilyrði og ert á kjörská í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi og setur krossinn ekki óvart á Alþýðufylkinguna.

Eftirfarandi stjórnmálasamtök bjóða fram lista í Reykjavíkurkjördæmi suður:

H-listi: Húmanistaflokkurinn

Þú kýst Húmanistaflokkinn ef þú ert á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi suður og ef:
- þú telur þig vera meiri húmanista en annað fólk.
- þér finnst mikilvægt að flækja málin.
- þér finnst mikilvægt að hafa langan aðdraganda að inntaki stefnu flokksins.
- þú vilt að fjölmiðlun virki eins og um 1960.
- þér finnst formaðurinn ljúfur og staðfastur karl.

------------------------------------------------------------
Þá er komið að niðurstöðunni.
Nú er ég búinn að taka fyrir öll framboð til Alþingis í komandi kosningum. Nálgun mín af verkefninu felst að stórum hluta með því að skella einhverjum merkimiðum á framboðin, sem taka mið af tvennu:
- einhverjum þeirra stefnumála sem ég hef séð fljóta framhjá þar sem ég hef hlustað með öðru eyranu og horft með öðru auganu.
- alhæfingum, sem byggja að stærstum hluta á myndum (misskýrum) sem koma í hugann þegar ég leiði hugann að viðkomandi framboði.
Þetta er ein leiðin til að velja sér fulltrúa á Alþingi.

Það eru til fleiri leiðir.
Ég finn sjálfur engan flokk sem hefur allt það sem mér finnst að minn flokkur þurfi að hafa. Ég ætla samt að kjósa, að sjálfsögðu, því ef ég hefði ekki rétt til að taka þátt í að kjósa til Alþingis eða sveitarstjórnar, hver væri staða mín þá?
Svona set ég dæmið upp:
1. Hverjar eru lífsskoðanir mínar? Hvernig samfélag vil ég?  Hver er ég? Ég byrja á að svara þessum spurningum. Þetta eru engar smá spurningar.
2. Búinn að svara spurningunum. Þá spyr ég: Hverjum þessara flokka sem bjóða fram TREYSTI ég best (reynslan) til að vinna að óskum mínum?  Það getur vel verið að þá komi ekki nema einn flokkur til greina, en þeir geta einnig orði einir fjórir eða fimm. hvað geri ég þá?
3. Hver þessara flokka er líklegur til að koma manni á þing? Það er nú heldur lítið gagn í því að kjósa einhvern flokk sem mun ekki eiga fulltrúa á Alþingi eftir kosningar, er það? þarna get ég verið búinn að þrengja valkostina talsvert mikið.
4. Nú er komið að lokaatrennunni og það gerist með því að bera saman valkostina sem eftir standa.  Þar kann eitthvað að koma fram sem hljómar betur en annað og leysir þannig málið.
5. Ef enn er vandi með valið, þá er bara að bíð þar til í kjörklefanum. 

Ég hef eiginlega bar eitt megin ráð til kjósenda: "Ekki kjósa bara "af því bara". Það er ábyrgðarleysi. Þú ættir að reyna að sjá fyrir þér hvernig samfélag þú vilt og kjósa að því búnu. Þá hefur þú kosið rétt.
________________________


Svona rétt í lokin, til að bjarga mannorðinu, ef það er þá til staðar.  
Ef einhver ykkar hafa ekki húmor fyrir kosningaleiðbeiningum mínum í þessum skrifum, þá bið ég þá að láta bara vera að kíkja á bloggskrif mín yfirleitt og leita fanga frekar þar sem þeim líður betur með málflutninginn. 
Megum við öll kjósa rétt.



11 september, 2016

Þessir kjósendur!

Dröfn Þorvaldsdóttir: (ónefnd fuglategund) 2016
Ég vil nú bara breyta því hvernig fólk velst á Alþingi. Ég veit að það vilja margir, en á ólíkum forsendum. Mig langar að hafa meiri bein áhrif á það hvaða fólk á mínum lista hlýtur kosningu.
Aðferðirnar sem eru notaðar við þetta núna, einkennast  af því að einhver fámennur hópur velur einhver frambjóðendapakka sem ég verð síðan að samþykkja, vilji ég kjósa einhvern flokk.
Þessar aðferðir stjórnmálaflokka til að velja fólk á lista fyrir kosningar eru gallaðar og stuðla hreint ekki endilega að því að kjósendur hafi nægileg áhrif á niðurstöðuna.

Prófkjör/flokksval
Sumir stjórnmálaflokkar halda prófkjör fyrir Alþingiskosningar. Þau fara eftir einhverjum reglum sem hver flokkur fyrir sig setur. Tilgangur þeirra er að velja fólk á lista fyrir kosningar. Prófkjörum er einnig ætlað að raða fólki á listana þannig, að sá sem flest atkvæði hlýtur í einhver tiltekin sæti fái það sæti. Þannig verður til pakki frambjóðenda, sem kjósendur geta síðan valið í kosningum. Þetta hljómar allt tiltölulega einfalt og lýðræðislegt. Við þurfum bara að ganga í einhvern flokk og þar með getum við haft áhrif á hvaða fólk fer í framboð og í hvaða röð í okkar kjördæmi.

Þetta er hinsvegar ekki aldeilis svona einfalt og þar kemur ýmislegt til.
1. Aðstöðumunur
Sitjandi þingmenn geta lagt verk sín í dóm samflokksmanna.
Sumir eru þekktari en aðrir.
Sumir eru snoppufríðari en aðrir (sigurvegari í prófkjöri í Suðurkjördæmi sagði aðspurður, að listinn hefði orðið "álitlegri" með konur ofar en reyndin varð :))
Sumir eru ríkari af veraldlegum auð en aðrir. Allir vita að peningar eru afl þess sem gera skal, líka í prófkjörum.
Kjósendur sumra flokka dást frekar að ákveðnum týpum af fólki (t.d. lögfræðingum eða körlum sem geta staðið í lappirnar, eins og það er kallað) og þar með getur listinn orðið ansi einhliða.

2. Smölun
Þeir sem hafa færi á því, vegna aðstöðu sinnar, að safna í flokkinn fólki beinlínis til þessa að þeir kjósi með tilteknum hætti og þá jafnvel gegn loforðum um eitthvað í staðinn.

3. Kynjakvótar
Þessir kvótar eiga að tryggja það að karla og konur skipist á lista í sem jöfnustum hlutföllum, sem getur þýtt að niðurstöðu prófkjörs verður breytt og þar með gengið gegn vilja kjósenda í prófkjörinu.
Mér finnst að aðall góðs eða öflugs þingmanns eigi að birtast í öðrum eiginleikum en kyni. Bæði kyn geta verið góðir og öflugir þingmenn.
Mér finnst reyndar margt fleira um þetta, en læt það bara ekki uppi.

4. Annað 
Fyrir utan þetta má örugglega tína til ótal flækjur í tengslum við þessi prófkjör.

Flokkurinn raðar
Einhver fámennur hópur flokksmanna raðar frambjóðendum á lista, sem er síðan samþykktur á einhverjum flokksfundi.  Fín aðferð fyrir svokallaða "flokksgæðinga", en síðri fyrir kjósendur.
--------
Ég vil hafa kosningar þannig, að ég þurfi fyrst að velja flokkinn minn og síðan þann sem ég vil sjá frá honum á Alþingi. Þetta myndi auðvitað gera ýmsum kjósendum erfitt fyrir þar sem þeir þyrftu að kjósa í tveim skrefum í stað eins: Fyrst að velja flokkinn og síðan þingmannsefnið. Sé þetta þeim ofviða, hafa þeir hreint ekkert að gera á kjörstað yfirleitt. 
Ég er kannski tregur, en ég átta mig ekki á hvaða vandkvæði myndu fylgja þessu fyrirkomulagi, enda myndi vilji kjósenda endurspeglast í því fólki sem fengi sæti á þingi. Þessi aðferð tel ég að myndi henta mjög vel í rafrænum kosningum: fyrst kæmi gluggi þar sem maður merkti við sinn flokk. Síðan kæmi gluggi þar sem maður merkti við sitt þingmannsefni. Loks kæmi gluggi sem tilkynnti þér, að atkvæðið væri komið til skila og þér þökkuð þátttakan.
Þetta myndi ég kalla lýðræðislegar kosningar.




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...