Regnið lemur framrúðuna á Qashqai þar sem við fD leggjum leið okkar í átt að hálendinu. Það er eins og það reyni að koma í veg fyrir að við fáum sinnt erindi okkar, en rúðuþurrkurnar reyna aftur á móti að berjast gegn regninu og vísa þannig leiðina á áfangastaðinn.
Áfram.
Áfram silumst við, hugsi.
Fyrir framan er túristabíll og annar fyrir aftan, svona eins og fara gerir.
Vegurinn býður upp að holudans til að drepa tímann. Eitt feilspor í þeim dansi gæti orðið dýrt. Það kemur sér illa að hafa ekki lagt meira upp úr skíðamennsku, en aðrir kostir vega á móti.
Þetta er nú ekki nema um 12 km spotti við þessar aðstæður, nægur tími til að gera upp hug sinn. Nægur tími til að velta fyrir sér hver möguleikanna 5 skuli valinn, nema niðurstaðan verði sú að bæta þeim sjötta við.
Nei, það er lýðræðisleg skylda að velja einn þessara fimm.
Þó mér finnist að ýmsu leyti ósanngjarnt að vera settur í þá stöðu að þurfa að taka afstöðu, er eiginlega ekki um annað að ræða en nýta þann dýrmæta rétt sem sem ég hef til að tjá vilja minn.
Við nemum loks staðar á áfangastað - kjörstað.
Enn þessi nagandi efi, enn þessi leiðinda pæling um að þetta breyti engu, til eða frá. Er það úrhellið og holurnar sem valda, eða er einhver löngu kæfður uppreisnarandi að reyna að láta á sér kræla?
Hvað með það.
Það verður ekki snúið við úr þessu. Best að ákveða þetta bara á leiðinni inn.
Kominn inn, en engin niðurstaða.
"Gjörðu svo vel, Sigríður, þú er næst." tilkynnir ofurhress dyravörður með gleraugu og beinir máli sínu til eldri konu með grásprengt hár, sem ég hef aldrei séð áður. Til þess að komast inn á kjörstaðinn þarf nefnilega dyravörð, sem leyfir manni að ganga inn á kjörstaðinn, ganga þar fyrir þrjá valinkunna sveitunga, sem finna á hvaða blaðsíðu maður er í kjörskránni, segja hvert öðru og skrá það loks með penna á blaðsíðu í einhverjum doðranti.
Sigríður hverfur inn um dyrnar, en út kemur í sama mund yngri karlmaður með þykkt rauðsprengt hár, sem ég hef aldrei séð áður, heldur.
"Má ekki bjóða ykkur kaffi?", gellur í dyraverðinum. "Það verður smá bið. Það eru þrír á undan þér".
"Hversvegna geta ekki fleiri en tveir verið þarna inni í einu?" spyr ég dyravörðinn - augljóslega af nokkurri vanþekkingu á kjörfræðilegum núönsum..
"Það eru nefnilega bara tveir kjörklefar þarna inni," kom svarið um hæl.
"Þarna inni" er salurinn þar sem ég dansaði í gamla daga eins og enginn væri morgundagurinn, við dynjandi rokktóna hljómsveitarinnar ein, Mána, ásamt 3-600 unglingum. Nú er bara pláss þarna inni fyrir tvo kjörklefa. Spurningin var samt fullkomlega tilgangslaus og annað svar hefði engu breytt.
Ég gleymi að þiggja kaffið. Ég er að reyna að komast að einhverri niðurstöðu.
Einn oddvitinn er þarna á svæðinu, en það auðveldar mér ekkert að finna rétta svarið.
"Þá ert þú næstur", tilkynnir dyravörðurinn mér og ég geng fyrir hin valinkunnu og þau gera það sem þau gera.
"Þú þarft svo að brjóta saman seðilinn áður en þú setur hann í kassann og strax þegar þú ert búinn að gera við hann það sem þú ætlar að gera", er efnislega það sem einn þeira segir við mig í þann mund er hann réttir mér seðilinn og áður en ég tek við honum og geng inn í annan tveggja kjörklefa, sem híma út við vegg.
Innan tjalds í klefanum (það eru engar dyr, heldur bara tjald) er lítil hilla, útkrotað sýnishorn af kjörseðli og blýantsstubbur.
Nú var mér nauðugur einn kostur að beita lýðræðislegum rétti mínum, sem forforeldrar mínir börðust fyrir með svita og tárum.
Ég hef 5 möguleika í þessari stöðu.
Ég vel á endanum einn. Það þýðir ekki að vera með neinar málalengingar í því sambandi.
Ég vel einn.
Valið er mitt og um það tjái ég mig auðvitað ekki.
Ég finn ekki fyrir neinni sérstakri fullnægju eða stolti eftir að niðurstaðan er fengin.
Út, út.
Enginn tekur mynd af mér þar sem ég set seðilinn í kassann. Ég þykist hissa á þessu og geri við það athugasemd.
Hin valinkunnu brosa þreytulega. Búin að heyra þennan þreytta brandara oft á þessum degi.
Komið við í búð á heimleið og keyptur ís. með lúxus súkkulaðiídýfu.
Allavega það.
-----------------------------
Ef einhver skyldi ekki hafa áttað sig á því þá var hér á ferð prósaljóðið Kjördagur, eftir mig.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)
Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...
-
Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...
-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlaso...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli