Sýnir færslur með efnisorðinu miðaldamálsverður. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu miðaldamálsverður. Sýna allar færslur

06 maí, 2018

Bjór á tíkall

Nýi Skálholtsbjórinn, bruggaður í Ölvisholti.
Við fD veltum því fyrir okkur hvort við ættum að skella okkur út í Skálholt í gær til að smakka nýja bjórinn sem þar var kynntur.
Eftir nokkrar pælingar og vangaveltur í tengslum við samhengi kirkjusóknar okkar og áhuga á bjór, sem ekki leiddu til neins, ákváðum við að láta slag standa. Vandi okkar var eiginlega sá, að ekki var ljóst af kynningarefninu sem við höfðum séð, hvernig fyrirkomulag tímans milli 17 og 19 átti að vera. Þar kom aðeins fram hver dagskráin væri, en hvorki í hvaða röð hún væri né hvar hver dagskrárliður færi fram. Af þessum sökum vorum við andlega tilbúin til að fara beint í skólann þegar í Skálholt væri komið, beint í bjórinn, enda hann megin tilgangur viðburðarins.
Þegar við komum í Skálholt lá straumurinn hinsvegar inn í kirkju og við fylgjum straumnum,yfirleitt, að mestu. Það gerðum við einnig þarna.
Í kirkjunni hófst dagskráin með ávarpi sem ég heyrði eiginlega nánast ekkert af. Hélt að allgott hátalarakerfi myndi koma að góðum notum við svona tilefni, enda vita það allir að talað orð, ómagnað, á afar erfitt uppdráttar á því ágæta húsi sem kirkjan er.
Annað var uppi á teningnum þegar Jón Bjarnason flutti toccötu, sem ég veit ekki meira um, með sínum einstaka hætti og á eftir honum söng Unnur Malín, ofurkona á tónlistarsviðinu, tvö lög í tilefni sumarblíðunnar sem hefur látið bíða eftir sér. Vel gert.

sr. Halldór með þúsundkallinn
Þá var komið að sr. Halldóri Reynissyni, sem sagði sögur sem tengjast Skálholti og Skálholtsstað. Mál Halldórs komst vel til skila þar sem hann flutti það frammi í kirkjunni þar sem betur heyrist.
Hann bar fram margvíslegan fróðleik og í ýmsu, skemmtilegan. Þó kom á mig hik þegar hann skipaði gestum að taka fram veskin sín. Ekki varð ég við því, enda veskið mitt ekki með í för, bara nokkrir tíkallar fyrir bjór. Ekki ætla ég hér, að uppljóstra um tilefni þessarar skipunar sr. Halldórs, en hann veifaði þúsundkalli í kjölfarið í góða stund. Þá fjallaði hann um glugga Gerðar Helgadóttur, sem flestir eru í Þýskalandi til viðgerðar og altaristöflu Nínu Tryggvadóttur. Þar kom fram hjá honum að maður skyldi ávallt horfa á altaristöfluna í gegnum augnhárin, þá sæi maður Hreppafjöllin í bakgrunni. Ég mun ávallt horfa á hana með opnum augum og huga. Hann bar einnig saman þá Krist og Trump.
Altaristafla Nínu Tryggvadóttur

 Ég hef áður tekið myndir af þessu mikla verki Nínu, en aldrei við þær aðstæður sem nú eru fyrir hendi. Lýsingin á því er einstök þegar engir steindir gluggar hindra aðgang náttúrulegrar birtu að henni.

Fyrir utan spígsporuðu nokkrar lóur og ég hefði gjarnan viljað vera með fuglalinsuna mína.

Jæja, meðan sr. Halldór leiddi gestina niður í kjallara til frekari upplýsingar um staðinn, lögðum við fD leið okkar í skólann. Þar var fyrir hlaðið borð af matvælum eins og þeim sem rannsóknir benda til að hæft hafi veislum á miðöldum í Skálholti. Kokkurinn, Sölvi B. Hilmarsson, kynnti þennan miðaldamálsverð fyrir gestum, en þarna mátti fólk smakka sitt lítið af hverju.
Drífa á Keldum, formaður stjórnar Skálholts ávarpaði samkomuna.
Sr. Halldór tók þessu næst fyrsta sopann af hinum nýja Skálholtsbjór, sem ber heitið Skálholt og í beinu framhaldi hófst afgreiðsla hans á barnum og var þar heilmikill atgangur, eins og nærri má geta, enda þurfti að greiða hvorki meira né minna en 10 íslenskar krónur fyrir flöskuna (aðeins í gær). Þar mun hafa verið um að ræða verðlag í samræmi við það sem á að hafa tíðkast á miðöldum. Hvernig Skálholtsmenn hafa komist að því, er mér ókunnugt um, en hafi tíkallinn á miðöldum verið hlutfallslega jafn há upphæð og nú, má reikna með að miðaldamenn hafi ekki gert margt annað en sulla í bjórnum. Þar er ef til vill komin skýringin á "hinum myrku miðöldum".

Sýnishorn af málsverðinum.
Hvað sem því líður, þá létu gesti það eftir sér að reiða fram tíukrónu peningana sína möglunarlaust við barinn.
Síðan hófst drykkjan, eða segjum svo, og einnig smakkið. Undir þessu flutti Unnur Malín tónlist sína, sem þarna fór nokkuð framhjá mér vegna þess hve fólk ræddi ákaft munngátina og önnur veisluföng, eða bara skiptist á kjaftasögum, eða loforðum fyrir komandi sveitarsjórnarkosningar.

Bjórinn er hreint ágætur og fallegur á litinn. Ég hef hinsvegar ekkert vit á því hvernig bjór á að vera utan að mér finnst hann eiga að vera frekar fleiri prósent en færri. Þessi er frekar færri, en bragðgóður samt.
Ég gæti alveg hugsað mér að snæða miðaldamálsverð í góðu tómi og renna honum niður með Skálholti. Vonandi gefst tækifæri til þess.

Þarna var talsvert af fólki saman komið til að njóta stundarinnar. Þarna voru ekki allir sem ég hefði reiknað með.

Að veitingunum stóðu Sölvi og hans fólk og var þar allt staðnum til sóma.
Ég þakka fyrir mína hönd og fD fyrir ágæta stund.

Þessi sáu um matinn og bjórinn.
f.v.Hólmfríður Ingólfsdóttir, Sölvi B. Hilmarsson,
Eva Björk Kristborgardóttir og Jóna Þormóðsdóttir


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...