12 apríl, 2023
35/70 og öfugur karlahringur
17 febrúar, 2023
Hilmar Einarsson - minning
Það má kannski segja, að haustið 1970 standi, að vissu leyti, upp úr í sögu Menntaskólans að Laugarvatni og kemur þar þrennt til: Hilmar var ráðinn til að hafa umsjón með heimavistunum, nýr skólameistari, Kristinn Kristmundsson, hóf störf, og ég settist í 1. bekk. Þetta þrennt átti síðan fljótlega eftir að búa til þá sögu sem hér verður frá greint, eftir stuttan inngang.Ungt fólk á þessum árum var, svona þegar litið er til baka, ekkert sérlega leiðitamt, ef svo má að orði komast. Ekki vil ég segja að það hafi verið uppreisnargjarnt, en allavega vildi það, mögulega umfram aðrar kynslóðir ungs fólks, gjarnan fara sínar eigin leiðir. Mér verður stundum hugsað til þeirrar stöðu sem þeir Kristinn og Hilmar voru búnir að koma sér í með því að taka við rekstri skólans þetta haust. Þarna beið þeirra starf með, eða fyrir, all kraftmikið ungt fólk."Fleiri nýjungar litu dagsins ljós og voru til marks um þá viðleitni stjórnvalda og skólayfirvalda að endurskipuleggja starfsemi menntaskólanna og bæta úr því sem aflaga hafði farið á undanförnum árum. Þegar um haustið 1970 var ráðinn sérstakur starfsmaður til að hafa umsjón með nemendabústöðum, umgengni þar og heimilisháttum. Var það gert á grundvelli nýrra laga um menntaskóla frá sama ári og var meira en tímabært ef tekið er mið af rekstri skólans á undanförnum árum. Nýi starfsmaðurinn var Hilmar Einarsson trésmíðameistari og hafði hann reyndar unnið að byggingu og frágangi heimavistarhúsanna allt frá því fyrsta skóflustungan var tekin. Annálaritari skólans þóttist hinsvegar vita allt um það, til hvers leikurinn var gerður: "Hann á að passa að nemendur drekki ekki brennivín og að þeir gangi vel um húsin". Nú var líka kjörið tækifæri fyrir nemendur, að sýna snyrtimennsku í hvívetna."
(Margrét Guðmundsdóttir, Þorleifur Óskarsson: Menntaskólinn að Laugarvatni, forsaga, stofnun og saga til aldarloka. Sögusteinn 2001, bls 193)
Þetta vor lauk ég námi í Héraðsskólanum, þar sem Benedikt Sigvaldason var skólastjóri. Dvölin í héraðsskólanum var að mörgu leyti eftirminnileg, er hún er ekki umfjöllunarefnið hér, utan að geta þess, að ekki fór hjá því að ég hlakkaði dálítið til þess að komast í hóp menntskælinganna, sem nutu talsvert meira frelsis til ýmissa athafna, en dvölin í héraðsskólanum bauð upp á.
Hvað um það, þarna héldu þeir Kristinn, 33 ára og Hilmar, þrítugur, inn í haustið og voru búnir að setja upp hvernig þeir hygðust nú halda utan um hópinn sem lagði leið sína á staðinn. Þeir voru búnir að setja upp nokkuð ákveðið kerfi um það hvernig tekið skyldi á málum, ef nemendur vikju af tiltekinni braut siðprýði og ásættanlegrar hegðunar. Einn hluti áætlunarinnar fólst í því, að Hilmar fékk bók í hendur, þar sem skráð skyldu frávik frá því sem hægt væri að sætta sig við, að því er hegðun varðaði. Þannig var það hugsun þeirra (tel ég), að með bókhaldi af því tagi yrði hægt að kortleggja hvernig landið lægi hverju sinni og bregðast við með fyrirfram ákveðnum hætti við ítekuð brot á þeim reglum sem giltu á heimavistinni.Það sem fer hér á eftir, skrái ég eftir nokkrar vangaveltur um réttmæti þess að varpa ljósi á gamlar syndir. Hilmar hafði gaman af að rifja upp þessa sögu í heyranda hljóði, eftir að ljóst var orðið að ég, með framgöngu minni á fullorðinsárum, hafði sýnt fram á að ég hafði komist tiltölulega óskaddaður frá þessu öllu saman. Þetta er saga sem hvorugur okkar gleymdi og fyrir mér er hún einkar ljóslifandi. Ég treysti mér til að segja hana frá minni hlið, vegna þess að nú nýt ég eftirlaunaáranna og ekkert getur snert mig lengur þannig að skaða megi. Vissulega er sumt í þessari sögu ekki alveg skýrt, en það verður að vera svo. Nú er ég einn eftir til frásagnar og frásögn mín er svona:Haustið 1970 kom ég, ásamt öðrum nýnemum inn í þennan nýja heim, sem heimavist ML var. Vissulega hafði ég þá kynnst heimavistarlífi ágætlega, eftir þrjá vetur á heimavist héraðsskólans í skjóli Benedikts Sigvaldasonar og hans fólks. Ég vissi auðvitað, að um dvölina á vistinni giltu reglur. Ég var einnig kominn á þá skoðun og deildi henni með skólafélögunum, að reglurnar væru þess eðlis, að ef brot á þeim færu "undir radarinn" teldist ekki um raunverulegt brot að ræða.
Augljóslega þurfti að ná einhverri niðurstöðu þarna og hún náðist, með nokkurskonar Salómonsdómi Hilmars: Hann spurði mig hvort ég væri með eitthvert ílát í herberginu og sú var raunin. Þá opnaði hann flöskuna og hellti vænum slurk úr henni, skrúfaði síðan tappann á aftur og tjáði mér að ég gæti vitjað flöskunnar hjá honum þegar skóla lyki vorið eftir og sjálfsagt fylgdu föðurlegar leiðbeiningar um tilgang lífsins og heimavistardvalarinnar, en ekki man ég það. Svona lauk þessum eftirminnilegu samskiptum, og úr varð sameiginleg minning okkar Hilmars. Hann skráði brotið í bókina, eins og þeir Kristinn höfðu ákveðið. Ég veit hinsvegar ekki hvort þeir áttu samtal um málið í framhaldinu, en finnst það líklegt, vegna þess, að Hilmar sagði mér síðar, að nafn mitt hefði verið það eina sem rataði í þessa bók. Þetta skráningarkerfi var aflagt eftir þetta, en ekki finnst mér ólíklegt að þeir félagar hafi skemmt sér konunglega í umfjöllun um málið.
Ég fór svo heim til Hilmars vorið eftir og fékk flöskuna í hendur aftur og reikna með að innihaldið hafi komið í góðar þarfir á einhverju Mánaballi í Aratungu sumarið 1971.
Bókina geymdi Hilmar hinsvegar, með þessu eina nafni brotamanns og mér finnst nú alveg við hæfi, að ég fái hana í hendur, rúmlega hálfri öld síðar og með henni nokkurskonar "uppreist æru".
Eftir þetta lauk ég mínum fjórum árum í ML og fór að sinna hinu og þessu eins og gengur, en örlögin leiddu mig aftur á Laugarvatn um miðjan 9. áratuginn og þá í hlutverki kennarans. Það gekk svo sem áfallalaust. Eðlilega áttu börn Hilmars og Lindu leið í gegnum skólann og það leiddi síðan til þess að ég fékk að reyna það, að fortíð manns getur bankað upp á hvenær sem er. Þannig gerðist það, að eitt sinn uppljóstraði eitt barnanna, í heyranda hljóði um atburðinn sem ofanskráð saga lýsir. Þá hafði viðkomandi mögulega verið að gramsa í gömlu dóti frá föður sínum og fundið þar þessa bók, með einu nafni og líklega atvikalýsingu. Ég er ekki frá því að uppljóstrunin hafi frekar komið mér til góða í samskiptum mínum við nemendur. Þau áttuðu sig kannski betur á því að ég var einusinni á þeirra aldri og hafði reynt svipaðar aðstæður og þau voru stundum í sjálf.
Mér finnst þessi saga lýsa Hilmari afar vel. Hann bjó yfir sterkri siðferðiskennd og manngæsku, naut þess ekkert sérstaklega setja öðrum stólinn fyrir dyrnar, en ef það reyndist nauðsynlegt, valdi hann til þess leið sem allir gátu sætt sig við.
Hilmar lést þann 10. febrúar síðastliðinn. Úför hans var gerð í dag frá Selfosskirkju og hann mun hvíla í Laugarvatnskirkjugarði.
-----------------------
Myndirnar sem birtar eru með þessari grein tók ég við ýmis tækifæri þar sem við Hilmar vorum báðir á ferð og ég með myndavélina, Þarna er um að ræða t.d. Íslendingaslóðir í Kanada, Bayern í Þýskalandi og Helsinki í Finnlandi og Ísland.
![]() |
Vettvangurinn |
10 mars, 2020
Aftur til genginna spora

![]() |
Á kennarastofunni |
Það er svo bágt að standa’ í stað, og mönnunum munar
annaðhvurt aftur á bak ellegar nokkuð á leið.
Hvað er þá orðið okkart starf í sex hundruð sumur?
Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?
(úr kvæðinu Ísland, eftir Jónas Hallgrímsson)
![]() |
Í Baldurshaga |
Ég var þarna kominn til að inna af hendi lítið verkefni, sem ég vissi nánast ekki nákvæmlega hvert var. Fékk að nýta nýtt og glæsilegt fundarherbergi, sem kallast víst frekar Baldurshagi en Baldursból. Mér finnst það síðarnefnda lýsa umræddu herbergi betur, reyndar, en það er ekki mitt að hafa skoðun á því. Þarna inni var allt nýtt: fundarstólar, fundarborð og risaskjár á vegg, sem hægt er að nýta með snertingu, tölvumús eða lyklaborði.
Þarna í Baldurshaga fletti ég í gegnum myndasöfn og leiftur frá liðnum tíma stukku fram, hvert á fætur öðru. Verkefni mitt þarna á Laugarvatni tengdist nefnilega vali á myndum sem síðan eiga að nýtast í tilteknum tilgangi, eða þannig. Margar voru myndirnar og margar skemmtilegar og vel unnar, enda ....... jæja, förum ekki þangað.
![]() |
Húsþing |
![]() |
Skólameistari á skaflinum |
Ekki varð ég var við nemendur á þessum degi, utan einn eða tvo sem sátu í sófa og nokkra sem gengu framhjá Baldurshaga og inn í herbergi við hliðina, sennilega til að vinna að einhverju verkefni. Þar fór ekki mikið fyrir þeim, eitt og eitt "fokk" heyrði ég þó, en annað ekki merkingarbært.
Eftir að hafa tínt fram slatta af myndum taldi ég verkefninu lokið, utan það að mig vantaði mynd af skólameistara fyrir framan stofnunina, en slíka mynd hafði ég ekki fundið í myndasafninu. Þar með dró ég hann upp á skafl og smelli nokkrum myndum. Ég kann ekki við að setja þær bestu hér, en læt honum eftir að ákvarða hver örlög þeirra verða.
Ég held að það sé manni hollt að kíkja svona í heimsókn á gamlan vinnustað og vökva þannig rætur sem annars myndu visna og deyja.
27 maí, 2017
Vissulega frekar endanlegt
Símtalið
Vorið 1986 fékk ég þetta símtal frá Kristni Kristmundssyni, skólameistara. Hann var í einhverjum vandræðum með enskukennara og og hafði dottið í hug að biðja mig að sækja um, en á þessum tíma var ég grunnskólakennari og reyndar orðinn nokkuð móður í því starfi - fannst kannski of mikið af tíma mínum færi í annað en það sem ég hafði menntað mig til.
Kristinn hitt vel á og ég var ráðinn. Við tók erfiðasti vetur á starfsferlinum, með 37 tíma kennslu á viku. Það hlaut eitthvað að gefa sig, og gerði það, reyndar. Svo varð þetta smám saman léttara.
Ég hef starfað við Menntaskólann að Laugarvatni síðan, eða í 31 ár. Þó enn sé ég á besta aldri, tel ég þetta komið gott.
Á þessum degi verð ég formlega afmunstraður.
Ég ætla ekki að reyna að halda því fram, að það takist ekki á í mér ýmsar kenndir á þessum vegamótum, en um það fæ ég engu ráðið. Ég kýs að líta að þennan dag sem nýtt upphaf. Framundan geta verið fjölmörg spennandi ár.
Þessu getur líka lokið á morgun.
Í dag er borinn til grafar eiginmaður fermingarsystur minnar og nánast jafnaldri. Þannig er nú bara þetta líf okkar mannanna.
Enginn veit sína ævina fyrr en öll er og það er kannski eins gott.
Í dag geng ég út í sumarið, jafn tvítugur í anda og ávallt, með sama hætti og nýstúdentarnir. Verkefnin framundan eru óþrjótandi og nú er bara að vona að starfsemi höfuðsins fái að haldast sem lengst.
Veri eftirlaunaaldurinn velkominn.
11 október, 2016
Ég, hálfvitinn
Gegnum tíðina hafa orðið til ótal, ágæt, íslensk orð yfir ýmiss konar ástand á fólki; orð sem voru bara ágæt til síns brúks þegar þau urðu til. Þessi orð eiga það sameiginlegt að hafa síðan umbreyst smám saman og orðið að örgustu skammaryrðum og horfið út úr orðaforða siðaðs fólks.
Ég er nú í þeirri stöðu að vera að stíga, hægt og hægt út úr starfi sem ég hef gegnt lengi, þar sem ég hef safnað í höfuðið heilmiklu viti um flest það sem lýtur að stofnuninni sem ég vinn við. Með þessari breytingu gerist það smám saman að ég veit æ minna um það sem gerist nýtt og hef því meiri tíma til að velta mér upp úr því sem var. Það sem var myndar síðan grunninn sem ég byggi á hæfileika mína til ráðgjafar af ýmsu tagi, eftir því sem eftir er leitað og þörf er fyrir. Mér kemur alltaf í huga þegar gamla tíma ber á góma, þegar Hreinn heitinn Ragnarsson hóf mál sitt á kennarafundum með þessum orðum: "Í Héraðsskólanum........". Samstundis skynjaði maður það í hópnum að fólkið var ekkert sérstaklega tilbúið að leggja við hlustir, eða taka mark á einhverju sem gert hafði verið í Héraðsskólanum fyrir áratugum. Allt á sinn tíma og nútíminn er ekkert sérstaklega ginnkeyptur fyrir því að gapa við vísdómsorðum, sem geta jafnvel einfaldað mörg mál og stuðlað að farsælli niðurstöðu. Menn telja sig oft vita betur.
Ég held að ég sé ekki kominn á sama stað og Hreinn að þessu leyti, ekki enn. Enn finn ég augu samstarfsmanna beinast að mér þegar spurning liggur í loftinu og bíður svars. Nú er ég stundum farinn að segja: "Ég veit það ekki!" og nýt þess jafnvel stundum. Ef ég veit svörin, svara ég auðvitað og ég vona að þeim skiptum fari ekki mjög hratt fjölgandi þegar ég veit ekki. Við sjáum til með það.
Hvað um það. Hér er ég búinn að finna ágæta leið, að eigin mati til að endurnýta gömul orð sem hafa hlotið þau örlög að verða ónothæf.
Þetta virkar einfaldlega þannig, að þegar starfsmaður stofnunar eða fyrirtækis er byrjaður að draga saman seglin og veit jafnvel ekki lengur nema helming þess sem hann vissi þegar hann var upp á sitt besta, myndi samkvæmt þessu teljast vera hálfviti. Þegar lengra líður síðan gæti hann orðið kvartviti, með um það bil fjórðung hámarks vits á innviðunum, þá örviti, sem veit örlítð, sem væri svona um það bil sem hann er endanlega að kveðja vinnustaðinn og loks óviti, sem myndi gerast við það að hann hætti störfum.
Eftir á að hyggja er ég ekki orðinn hálfviti ennþá, ef miðað er við ofangreinda skilgreiningu. Ætli ég sé ekki nær því að teljast vera ofviti, sem stefnir í að verða bara viti, áður en ég verð trekvartviti og síðan hálfviti og svo fram eftir götunum.
Já, þetta er aldeilis ekki búið enn.
28 ágúst, 2016
Sósulitur og svartur ruslapoki eða skrautklæði
Það sem hér er til umfjöllunar á sér bræður í tveim pistlum frá ágústmánuði árið 2014 og þá má sjá hér og hér.
Það er nánast erfitt að hugsa til þeirra tíma þegar móttaka nýnema í framhaldsskóla á Íslandi tók mið af því sem gerist þegar ný hæna kemur inn í hænsnahóp. Ég held og vona að það hafi tekist að breyta þeim hefðum sem voru orðnar allof fastar í sessi og sem fólust í því að spyrja nýnema hvern fjandann þeir vildu upp á dekk og gera þeim ljóst að þeir væru ekki velkomnir. Þeir þyrftu að gangast undir píningar og niðurlægingu til að geta fengið inngöngu í samfélag nemenda í skólanum; leggja leið sína í gegnum einhverskonar hreinsunareld.
Auðvitað getur hver maður séð að með þessum aðferðum við að taka á móti nýjum samnemendum voru eldri nemendur fyrst og fremst að gera lítið úr sjálfum sér, þroska sínum og atferli. Það var hinsvegar hægara sagt en gert að koma þeirra hugsun til skila, til þess var óttinn við að víkja frá hefðinni of sterkur. Ég er viss um að margir áttuðu sig á þessu, en voru ekki tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að breyta.
Það er svo, að dropinn holar steininn og við kusum að fara tiltölulega mjúka leið til að breyta þeim hefðum sem tengdust "busun" eða móttöku nýnema. Einum af öðrum var þeim þáttum fækkað, sem í raun voru óásættanlegir og þar kom, haustið 2014 og endanlegur viðsnúningur varð og það sem áður kallaðist "dauðaganga" í umsjón ruslapokaklæddra, sósu- og matarlitaðra ógnvalda, vék fyrir "gleðigöngu" sem er leidd áfram af dansandi, skrautklæddum fígúrum af ýmsu tagi. Það var fatnaðurinn og tónlistin sem í raun breytti öllu yfirbragðinu. Stjórn nemendafélagsins sem tók þá erfiðu ákvörðun að móta þessa nýju nálgun, verður seint fullþakkað. Vissulega voru þau ekki endilega öll sátt og vissulega voru aðrir eldrinemendur misglaðir, en þeir tóku þátt í breytingunni.
Ég hef, starfsins vegna, fylgst allvel með þessum þætti í gegnum árin. Neita því ekki, að ég kveið nokkuð fyrir því fyrstu skiptin; fannst skelfilegt hve lágt var lagst á stundum og man þá tíma þegar einhverjir eldri nemendur voru búnir að setja í sig það sem ekki má og þá fannst mér þessi hefð vera komin á sitt lægsta plan.
Nú er móttöku nýnema lokið í þriðja sinn, með þeim jákvæðu formerkjum sem mótuð voru haustið 2014. Trú mín á að maðurinn sé eitthvað annað og meira en kjúklingur, hefur vaxið enn frekar.
Bæði góður, en líka leiðinlegur.
Þ að er nú ekki vegna þess að ég hef ekkert við tímann að gera, nema finna eitthvað í lífinu til að fjargviðrast yfir, sem ég ákvað að reyna...

-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
50 ára stúdentar, 2024 Maður áttar sig ekki endilega á því, meðan einhverjar aðstæður eru fyrir hendi, hvort þær hugsanlega muni skipta máli...
-
Við Jósefína kenndum saman í Reykholtsskóla við upphaf 9. áratugarins, þegar ég var að stíga fyrstu skref mín sem kennari og það gekk allave...