10 mars, 2020

Aftur til genginna spora

Í gær lá leið mín á Laugarvatn, þar sem ég eyddi næstum 40 vetrum ævi minnar. Mér finnst dálítið merkilegt að hugsa til þess, verð ég að segja. Þetta voru þrír vetur í héraðsskólanum, fjórir í menntaskólanum sem nemandi og 31 ár við þá stofnun sem starfsmaður.  Ég get varla sagt að ég hafi komið í húsnæði menntaskólans frá því ég gekk þaðan út og inn í eftirlaunaárin fyrir þrem til fjórum árum (fer eftir því hvernig er talið). Fyrir því eru aðallega tvær ástæður: annarsvegar vildi ég ekkert vera að trufla starfsemi skólans með einhverri beinni eða óbeinni afskiptasemi og hinsvegar nennti ég eiginlega ekki að keyra þessa leið sem ég hafði ekið tvisvar á dag að vetri í um 30 ár - það var bara komið gott.  En hvað um það.

Það var ágætlega tekið á móti mér og ég gat nánast gengið þar um sali eins ég hefði aldrei farið. Þarna mættu mér gömul andlit og einhver ný. Flest er óbreytt hið ytra, en mig grunar, að hið innra hafi ýmislegt tekið nokkrum stakkaskiptum. Ég hygg, að sögur af mér og fleiri starfsmönnum fortíðar, kryddi frímínútur við og við á kennarastofunni og kalli fram nokkur bros, enda liðinn sá tími þegar kennarar sátu við kennaraborðið, eða skrifuðu á töfluna. Liðinn sá tími, þegar ramminn um nám og kennslu var nánast greyptur í stein - skóli hófst að morgni kl. 08.15 og við tóku 5, 40 mínútna kennslustundir með 10 mínútna frímínútum á milli, til kl. 12.15, þegar nemendur flykktust í matsalinn í hádegisverð. Kl 13.00 hélt skóladagurinn síðan áfram eftir sama kerfi. 
Á kennarastofunni
Það má kannski líkja þessu við það þegar við nutum þess að hafa bara eina útvarpsrás, sem allir hlustuðu á.  Upp er runninn tími föndurvagnsins og risaskjásins, tími vinnustunda, símats og verkefnamiðaðs náms, tími mats og endurmats og innra mats og funda.  Tími óreiðu og agaleysis, eða tími sköpunar og frelsis? Ég veit það ekki, svei mér þá. Allavega öðruvísi tími. Ég verð víst að viðurkenna, að samfélag nútímans kallar á breytt menntakerfi, öðruvísi nálgun. Það er víst ekki lengur mitt að hafa skoðun á því hvort gengið er til góðs þessa götu fram eftir veg.
Það er svo bágt að standa’ í stað, og mönnunum munar
annaðhvurt aftur á bak ellegar nokkuð á leið.
Hvað er þá orðið okkart starf í sex hundruð sumur?
Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?
(úr kvæðinu Ísland, eftir Jónas Hallgrímsson) 
Í Baldurshaga
Ég kom á kennarastofuna undir hálf tíu, þegar, samkvæmt því sem venja var, átti að standa yfir kennsla. Þar stóð þá yfir einkynja samræðustund, sem ég gekk inn í, rétt eins og ég hefði aldrei farið neitt. Kaffið beið á könnunni, móttökurnar hlýjar. Þarna voru dansæfingar efst á baugi í spjallinu sem átti sér stað, umfram jafnvel covid19.  Enn, sem svo oft áður fór ég ósjálfrátt að bera saman kennarastofuna 1986 og kennarastofuna nú. Óorðanleg, nánast, er sú breyting sem orðin er á.

Ég var þarna kominn til að inna af hendi lítið verkefni, sem ég vissi nánast ekki nákvæmlega hvert var. Fékk að nýta nýtt og glæsilegt fundarherbergi, sem kallast víst frekar Baldurshagi en Baldursból.  Mér finnst það síðarnefnda lýsa umræddu herbergi betur, reyndar, en það er ekki mitt að hafa skoðun á því.  Þarna inni var allt nýtt: fundarstólar, fundarborð og risaskjár á vegg, sem hægt er að nýta með snertingu, tölvumús eða lyklaborði.

Þarna í Baldurshaga fletti ég í gegnum myndasöfn og leiftur frá liðnum tíma stukku fram, hvert á fætur öðru. Verkefni mitt þarna á Laugarvatni tengdist nefnilega vali á myndum sem síðan eiga að nýtast í tilteknum tilgangi, eða þannig.  Margar voru myndirnar og margar skemmtilegar og vel unnar, enda ....... jæja, förum ekki þangað.

Húsþing
Þar sem ég sat við þetta verkefni var bjöllunni hringt 2x3 sinnum, sem hefur, svo lengi sem elstu menn muna þýtt að kallað er á húsþing. Húsþing er vettvangur sem skólameistari notar til að fara yfir ýmis mál við nemendur, oftast í upplýsingaskyni og til hvatningar á einhverjum sviðum. Ég lét húsþingið ekki framhjá mér fara, þó það sem fjallað var þar um, komi mér ekkert við.

Skólameistari á skaflinum
Þarna hefur skólameistari stillt sér upp frá því skólahúsið var tekið í notkun, en það sér ekki enn á tröppunni.  Stundum hefur honum verið mikið niðri fyrir, stundum verið kátur og glettinn, stundum ávítandi og stundum spekingslegur, allt eftir tilefninu hverju sinni.

Ekki varð ég var við nemendur á þessum degi, utan einn eða tvo sem sátu í sófa og nokkra sem gengu framhjá Baldurshaga og inn í herbergi við hliðina, sennilega til að vinna að einhverju verkefni. Þar fór ekki mikið fyrir þeim, eitt og eitt "fokk" heyrði ég þó, en annað ekki merkingarbært.

Eftir að hafa tínt fram slatta af myndum taldi ég verkefninu lokið, utan það að mig vantaði mynd af skólameistara fyrir framan stofnunina, en slíka mynd hafði ég ekki fundið í myndasafninu.  Þar með dró ég hann upp á skafl og smelli nokkrum myndum. Ég kann ekki við að setja þær bestu hér, en læt honum eftir að ákvarða hver örlög þeirra verða.

Ég held að það sé manni hollt að kíkja svona í heimsókn á gamlan vinnustað og vökva þannig rætur sem annars myndu visna og deyja.




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...