19 mars, 2020

Eyrugla í Kvistholti

Þetta set ég hér inn til geymslu

Það má kalla daginn í gær "Dag uglunnar", en í birtingu kom í ljós, að eyrugla sat á matarborðinu þar sem venjulega eru smáfuglar, sem uglan þessi nýjir sem fæðu, alla jafna. Sagan um þessa uglu stóð fram á kvöld, en hvað hún síðan gerði eftir að myrkur varskollið á, er ekki vitað, og að morgni þessa dags var hún horfin.

Eftirfarandi tvo texta skráði ég með myndum sem ég setti inn á Facebook.

Fyrri textinn: (MYNDIR)

Þegar ég kom mér fram úr í morgun, þá morgunskíman var vart greinanleg, tók ég eftir breytingu á fóðurborðinu hér fyrir utan gluggann hjá mér. Við nánari skoðun reyndist vera um að ræða uglu, en slíkan fugl sem þennan hef ég aldrei séð, berum augum. Þarna sat hún grafkyrr og þegar ég fór alveg að glugganum, leit hún á mig nokkuð yfirlætislega, en brást ekki við að öðru leyti.
Það tók að birta og enn sat þessi nýi pallgestur grafkyrr og ég var farinn að draga þá ályktun, að eitthvað hlyti að ama að, svo ég sendi skilaboð á fuglafræðinginn okkar (Tómas Grétar Gunnarsson). Hann taldi að annarsvegar væri eitthvað að, eða þá að hún væri bara nýbúin að ná sér í æti á pallinum, fugl eða mús. Ef fugl, þá ætti að sjást fiður í nágrenninu - sem ekki sást.

 
Hann benti mér á að athuga hver viðbrögð hennar væru ef ég nálgaðist, þannig að ég opnaði dyrnar og kíkti út fyrir, þá í um þriggja metra fjarlægð. Hún leit á mig nokkra stund, fremur letilega, en hóf sig síðan til flugs og sveif inn í skóginn. Það merkilega var, að engan heyrði ég vængjasláttinn. Það var, að öllum líkindum mús, sem að sögn hefur verið gleypt í heilu lagi. Þessi vitneskja olli ekki sorgarviðbrögðum hér innan dyra.
Það þarf ekki að fjölyrða um það, að EOS-inn var á lofti þann rúma klukkutíma sem uglan sat hér fyrir utan og hann var farinn að hitna talsvert.

Síðari textinn: (MYNDIR)

Ef þú ert ekki búin(n) að fá nóg að Eyruglu í dag:
Þessi ugla hefur, að því er virðist, tekið ástfóstri við Kvistholt, líklegast er þar um að ræða matarást.
Hún kom aftur á svæðið upp úr miðjum degi og sat aftur á matarborðinu. Ég fældi hana reyndar þaðan, en ekki fór hún langt: upp í næsta tré, sat þar og naut þess að leyfa hundslappadrífunni að lenda á andlitinu.
Möguleg, fljúgandi, fórnarlömb hennar fóru smám saman að reyna sig við kornið og fræið, og

 gerðust æ frakkari. Þegar svo var komið fór uglan að glenna upp skjáina og fylgdist grannt með.
Þar kom, þegar stór hópur snjótittlinga og auðnutittlinga og nokkurra svartþrasta, sat að snæðingi, að hún lét vaða, sveif í boga yfir matstaðinn og síðan inn í Sigrúnarlund, án þess að verða nokkuð ágengt.
Nú er þessi ugla orðin "persona non grata" hjá fD og hefur þannig bæst í hóp hagamúsanna.
Þegar þetta er ritað, er uglan aftur búin að stilla sér upp í trjágrein ca 10m frá matarborðinu, og hrærist ei - augun galopin og vakandi.
Fyrir utan gluggann minn koma og fara hundruð mögulegra kvöldverða.




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...