Sýnir færslur með efnisorðinu viska. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu viska. Sýna allar færslur

27 nóvember, 2018

Uppreist aldursæru

Þegar upp er staðið bý ég smám saman yfir þeirri visku og yfirsýn, að ég geti kinnroðalaust tjáð skoðanir mínar í fullvissu þess, að þær séu í rauninni harla eftirtektarverðar. Það er ekki bara vegna þess að ég er sá sem ég er (sem er auðvitað mikilvægt í þessu sambandi), heldur ekki síður vegna þess að aldur minn hefur fært mig, sköpunarhæfni mína og hugsun, langt fram úr flestu því sem aðrir og yngri kunna að hafa fram að færa. 
Ég held að segja megi að ég sé "með þetta".
Þá er það sagt.

Einhver kann  að velta fyrir sér hvað veldur því að ég tek svo stórt upp í mig sem raun ber vitni og því er mér ljúft að svara. Ég horfði nefnilega á sjónvarpsþátt í gærkvöld sem heitir: Lífsins gangur, eða "Secret Life og Growing Up". Ekki nenni ég að fara að endusegja þennan þátt, en bendi þeim sem ekki sáu á að  horfa á hann hér.

Í þessum þætti kom allt það fram sem ég hef upplifað á sjálfum mér eftir því sem árin hafa liðið. Stöðugt hefur mér orðið ljósara hve margt mér yngra fólk á margt ólært um lífið og tilveruna. Það er eins og það sé bjargföst skoðun nýútskrifaðra doktoranna að þeirra sé sannleikurinn og þekkingin og skilningurinn og hvaðeina. Sannarlega þarf ekki doktora til, því það fólk er margt og margvíslegt sem telur sig eitt vita allt og skilja, en veit fátt og skilur enn minna.

Ég var sjálfur eitt sinn í þeirri stöðu að vera ungur og vitlaus. Ég gleymi seint viðbrögðum okkar þessara yngri, þegar gamli kennarinn á kennarastofunni hóf upp raust sína um skólamál. Hann vildi deila með okkur reynslu sem hann hafði öðlast við tilteknar aðstæður.  Jú, hann fékk svosem að segja sitt, en í kjölfarið ríkti þögn um stund, áður en þeir yngri (eftir að hafa sagt, í huganum: "Já, já, allt í lagi, gamli, en nú eru bara aðrir tímar") héldu áfram að reyna að leysa málin út frá sínum fátæklega þekkingargrunni, reynsluleysi og einstrengingslegu skoðunum.
Undir lokin á starfsferlinum upplifði ég æ oftar samskonar viðhorf til þess sem ég taldi mig hafa fram að færa, þó ég verði að segja, að kollegar mínir fóru ansi vel með mig, eða þá að ég hélt skoðunum mínum dálítið fyrir mig, í ljósi reynslunnar sem ég fékk við meðferðina á gamla kennaranum, sem ég minntist á hér fyrir ofan.

Ég held að það teljist ekkert sjálfsagt að maður á mínum aldri tjái sig mikið um uppeldismál. Ég hef samt gert það, en upplifi aðallega þögnina sem viðbrögð við þeirri tjáningu.  Það verður bara svo að vera. Við verðum bara að fá að reka okkur á, eða réttara sagt börnin okkar, sem, þegar sá tími kemur, þurfa að takast í æ meira mæli á við öldugang lífsins.  Hvað sem hver segir, þá mun ég halda áfram að halda því fram, að það skiptir í grundvallaratriðum ekki máli hvort maður fæddist árið 1630 eða 2018, maður þarf það sama: foreldra til að elska, leiðbeina, kenna, setja mörk. Á engum tíma þurfa börn foreldra sem geta ekki beðið þess að losna við þau inn á leikskóla, foreldra sem líta á það sem rétt sinn að geta komið af sér börnunum svo þeir geti farið að sinna því sem mikilvægast er: starfsframanum.   

Þetta er grundvöllurinn og honum verður ekki breytt. Síðan tekur hitt við: að kenna börnunum að takast á við allan tækjabúnaðinn sem þeim stendur til boða, öll öppin og spjaldtölvurnar og jútjúb og netflix og forritunina; takast á við veruleikann sem bíður þeirra síðar. Það er bara allt annað mál. það kemur ekkert app eða tölvuleikur í stað foreldra, nefnilega.


ps. Upptendraður af þættinum frá í gærkvöld, sendi ég þetta frá mér. Efast reyndar um hvort það sé rétt ákvörðun, en í ljósi þess að það mun enginn taka þetta til sín, þá ætti það að sleppa. 

psps Stararnir á myndinni endurspegla það sem ég er að reyna að tjá. Ég teldist þá vera sá sem ekki gapir.    

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...