Sýnir færslur með efnisorðinu Reykjavík. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Reykjavík. Sýna allar færslur

16 febrúar, 2017

Túristi í 101

fD í hlutverki sínu.
Það er búið að búa til ákveðna "staðalmynd" (leiðinlegasta og þvældasta orð sem til er í íslensku, að mínu mati) af erlendum ferðamönnum á Íslandi. Klæðnaður þeirra felst í prjónahúfu með dúski og eyrnaskjóli, úlpu og vindbuxum frá 66°, með myndavél og borgar- eða landakort.
Svona er erlendi ferðamaðurinn, svona var okkur sýndur hann á leiksýningunni í Borgarleikhúsinu sem var hluti helgardagskrár okkar fD um liðna helgi.

Þannig var það, að í tilefni af helgardvöl í höfuðborginni, eða borg óttans, eins og einhverjir kjósa að kalla Reykjavíkurborg, var það gert af einum liðnum í dagskránni, að leyfa okkur að líða um stræti hins víðfræga hverfis sem kallast oftast 101, þar sem latte lepjandi borgarbúarnir vilja víst helst halda sig.
Síðast þegar við áttum þarna leið um var það til að mótmæla og auðvitað var full ástæða til.
Nú gerðumst við túristar. 
Áttum reyndar ekki húfu með skúf eða 66°N alklæðnað. Við áttum samt húfur, trefla og einhverja jakka - og auðvitað myndavél.
Í sem stystu máli féllum við afar vel í hópinn, enda ekki allir túristarnir með húfu með rauðan skúf, í peysu.
Leið okkar lá af Sóleyjargötu inn Fríkirkjuveg, þá Lækjargötu, upp Bankastræti, upp Skólavörðustíg, þar sem við heyrðum fyrstu íslensku orðin í ferðinni en hún kom úr munni afgreiðslumanneskju sem er af erlendu bergi brotin (eins og okkur finnst svo gaman að segja; maður sér þá fyrir sér Alpana eða klettana í Dover, eða Kákasusfjöllin, Alpana eða Kilimanjaro).
Íslenskan var samt betri en hjá mörgum þeirra sem þó eru af íslensku bergi brotnir, t.d. Vörðufelli, Esjunni eða Efstadalsfjalli.
Inn í Hallgrímskirkju þar sem áð var um stund.
Síðan var haldið niður Frakkastíg, þá Laugaveg, Bankastræti aftur, Austurstræti, (fish n´chips á sjúskuðum Hressó, "Table for two?" "Já takk, borð fyrir tvo" "Fyrirgefiði, það koma eiginlega bara útlendingar hingað").
"Ég hef aldrei komið í þetta fræga Hafnarhús" - nú auðvitað fórum við þangað (sjá hér).
Eftir þá reynslu lá beint við að fara í Kolaportið, en ég ætla ekki einu sinni að anda út úr mér fordómaflækjunni sem varð til í höfðinu á mér við þá reynslu.  Út, út, út!
Við tók Pósthússtræði og Austurvöllur, hljóður og mannlaus. Þar ættu að vera mótmæli alla daga, af nógu er að taka.  Þar stóð túristi með götukort og horfði í kringum sig.
Þegar við nálguðumst sagði hann: "Hey, you are a native. Could you....?" Þá var hann að tala við mann sem gekk fyrir aftan okkur, en ekki við okkur. Dulargerfið virkaði.   En, "native!". Í gamla daga var þetta orð notað um frumstæða ættbálka í svörtustu Afríku, ekki um hin göfugu þjóð sem byggir land elds og ísa. Svona breytist veröldin.

Tjörnin með máva- og álftager og einhver slatti af öndum.
Einhvernveginn er ekkert merkilegt að taka myndir af fuglum á Reykjavíkurtjörn. Fuglarnir virka á mann eins og ódýr leikmynd.

Svo var það eiginlega bara Fríkirkjuvegur, Fjólugata (þar sem húsin vinstra megin standa við Fjólugötu en húsin hægra megin við Sóleyjargötu.

Æ, hve ég var nú hvíldinni feginn eftir fjögurra klukkustunda túristaskap.

Aumingja, blessaðir erlendu ferðamennirnir.







13 febrúar, 2017

Hvað er list, eiginlega?

Þessi mynd er list. Hún ber heitið:
"Un pissoir dans une galerie d'art"
Fyrirsögnin er spurning sem mannfólkið hefur spurt sig gegnum aldirnar. Áður var skilgreiningin örugglega talsvert þrengri en nú og ég held að það sé vegna þess að það er enginn lengur sem telur sig þess umkominn að ákvarða hvar skilin liggja milli þess sam kalla má list og þess sem er bara ruglað flipp, eða eitthvað þaðan af vitlausara.
Ég held að nú sé allt list, ef sá sem setur það frá sér segir að það sé list.

Tilefni þessa pistils míns er helgarferð okkar fD í höfuðborgina. Ég mun mögulega síðar gera grein fyrir öðru í því sambandi, en núna læt ég duga þann þátt ferðarinnar sem snéri að listneyslu okkar í ferðinni, sem sem má segja að hafi verið talsverð.
Það sem ég segi hér á eftir, ber enganveginn að túlka sem árás á þá listamenn sem voru svo óheppnir að fá mig í heimsókn,  Þetta er almennara en svo. Lýsingar mínar á verkunum sem ég fékk að upplifa munu væntanlega eiga ekki síður við margt annað sem, hlotnast hefur sá heiður að skoðast sem list, í einhverjum kimum.
Ykkur, lesendur góðir, er velkomið að taka skoðunum mínum eins og ykkur finnst réttast, en hafið það í huga, að ég er á sjötugsaldri og þessvegna: "Hvað veit ég svo sem?"

Upplifun 1: Við höfðum aldrei komið í Hafnarhúsið, sem oft ber á góma þegar listir eru annarsvegar. Þetta eru feikilega mikil húsakynni. Á neðri hæðinn er risastór og hrár sýningarsalur (það virðist vera inni í dag, hrátt og dimmt). Þar sem við gengum inn í þennan sal, tók fyrst á móti okkur saltbingur (virtist vera salt). Honum hafði verið sturtað þannig að hann lá utan í dyraumbúnaðinum og ég velti fyrst fyrir mér hvernig dyrakarmurinn muni fara út úr snertingunni við þetta efni.   Nokkru innar, á miðju gólfi, var annar saltbingur og á hann var varpað hreyfimynd ofan úr loftinu. en þar hafði verið komið fyrir skjávarpa innan í hluta úr loftræstistokk.   Flest verkin á sýningunn fólust síðan í samskonar aðferð: hreyfimynd sem sýndi nærmyndir af líkamshlutum (væntanlega listamannsins) þar sem hún/hann var í ræktinni. Aldeilis var þetta ógurlega merkilegt, ef þannig má að orði komast, eða hitt þó heldur. Mér fannst þetta mikil sóun á stóru rými.
Eftir þetta, ég eins og ávallt, til í að gefa hlutum séns, öfugt við samferðamanninn, héldum við upp á næstu hæð. Hafi neðri hæðin kveikt efasemdir um að list væri að ræða, þá slokknaði þarna uppi öll von um að heimsóknin í þetta musteri listarinnar yrði til þess að auðga andann á nokkurn hátt. Uppi komum við inn í þrjá myrkvaða sali þar sem sjónvarpstækjum hafði verið komið fyrir hér og þar og eitthvert ótrúlegt flipp átti sér stað á hverjum skjánum á fætur öðrum.  Ég sagði fátt, var orða vant.

Þegar sýningarsalirnir höfðu verið afgreiddir stóð eiginlega bara eitt eftir: "En hvað með 1600 kallinn sem ég borgaði við innganginn?" 

Mér leið dálítið eins og karlinum í einu vídeoverkinu, sem hafði verið komið fyrir aftan í sendibíl með grímu fyrir andlitinu þannig að hann gat ekkert séð eiginlega ekki andað. Svo var þessum sendibíl  ekið eftir hálf ófærum vegi, að því er vistist og karlinn hentist fram og til baka, hjálparlaus og við það að kafna.  Þannig var nú líðanin.

Upplifun 2: Listupplifun kvöldsins fólst í þriggja tíma setu í Borgarleikhúsinu undir verki sem gerði ekkert nema draga mann niður í þunglyndi, ef það hefði þá verið hægt.  Leikararnir skiluðu sínu með miklum sóma, en að öðru leyti....... Jæja, ætli ég þegi ekki bara um það, enda hefur traustið á sjálfum mér, þegar list er annars vegar, beðið hnekki eftir þessa menningarreisu.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...