Sýnir færslur með efnisorðinu græna tunnan. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu græna tunnan. Sýna allar færslur

11 nóvember, 2016

Persónulegur ávinningur

Þetta er hún, græna tunnan sem við bíðum eftir.
Við fD bíðum í ofvæni eftir grænu tunnunni sem á að taka við plasti sem til fellur á vestrænu heimili okkar og það er sko hreint ekki lítið, frekar en á öðrum vestrænum heimilum. Við erum meira að segja byrjuð að safna í svartan plastpoka. Tunnan birtist, af einhverjum ástæðum ekki enn og svarti plastpokinn fyllist óðum og það er meira að segja búið að kjósa alræmdan umhverfissinna til að stýra landi hinna frjálsu næstu fjögur árin (reyndar ekki, en þetta var tilraun til smá kaldhæðni), síðan tilkynning barst um að tunnan væri á leiðinni.
Það er verkefni út af fyrir sig að breyta venjum sínum og reyna að muna eftir að setja allt plast í sérstakan plastpoka. Þetta hefur bara allt farið í ruslafötuna undir eldhúsvaskinum, en nú þarf að staldra við og hugsa í hvert skipti sem rusl eða úrgangur af einhverju tagi fellur til, hvað á að gera við hann. Það er hreint ekki pláss fyrir fleiri rusladalla í eldhúsinu, fD búin að leggja stærstan hluta þess lausa rýmis sem var í húsinu undir verkefni sín.  Okkur tókst, blessunarlega að venja okkur á að flokka allan pappír í sérstaka tunnu fyrir nokkrum árum, en það var fyrir nokkrum árum. Nú á að fara að bæta þessu við.  Miðað við fregnir úr nágrannaþorpum, þá er græna tunnan þegar komin þar við hvert hús, en hún er ekki komin við hús í Laugarási enn, svo vitað sé, en hvað veit ég svosem, og það kemur mér ekkert sérstaklega á óvart.

Til hvers er allt þetta tunnutilstand, þegar upp er staðið?
Hvað græði ég á þessu? Það  er kannski einmitt kjarnaspurningin; spurningin um tilgang minn með því að hætta að vera það sem kallað hefur verið "umhverfissóði" og fara að gerast "umhverfissinni".

Er eitthvað sérstakt sem hvetur mig til þess (fyrir utan auðvitað frú Ragnheiði á Ljósalandi og mögulega frænku í Miðdal, sem báðar aka um á rafmagnsbílum og senda þannig frá sér þau skilaboð, að umhverfið skipti þær máli)?  Mér finnst að enn sé litið á fólk sem er ofurmeðvitað um mikilvægi þess að sinna umhverfisvernd af einhverju tagi, sem hálfgerða furðufugla. Ekki vil ég vera furðufugl, er það?
Er eitthvað sérstakt sem letur mig? 
Já, og þar er af nógu að taka. Meginstraumurinn í hinum vestræna heimi virðist vera að fara í hina áttina. Já, segi og skrifa.
Mér hefur verið sagt, að við Íslendingar, sem þykjumst vera voðalega framarlega í umhverfisvernd og einstaklega meðvitaðir um allt sem lýtur að því að bjarga heiminum, séum mestu umhverfissóðar allra. Mér hefur verið sagt (sel það ekki dýrar en ég keypti, eins og stundum er sagt) að vistspor hvers Íslendings sé stærra en nokkurs annars fólks á jörðinni okkar bláu.  Við erum bara svo fá og í svo stóru landi, að það munar svo lítið um það. Getum afsakað okkur með því. Svo er vindasamt hjá okkur og það blæs menguninni eitthvað út í hafsauga.

Ég, núna
Það er hægt að undirrita í hálfkæringi allskonar alþjóðasamninga.
"Ég fagna því að náðst hefur sögulegt og metnaðarfullt samkomulag í loftslagsmálum á Parísarfundinum og við munum leggja okkar af mörkum bæði hér heima og við að miðla þekkingu okkar og reynslu til annara þjóða", segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. (MBL12/12, 2015)
Rauðvín frá Chile sem heitir
TerraMater - Móðir Jörð -
nafnið er viðeigandi
Fór þá ekki allt á fullt hjá íslenskum stjórnvöldum við að vinna í málinu? Ekki aldeilis. Unginn úr árinu 2016 hefur farið í að fjalla um aðra hluti en að hefja björgunaraðgerðir. Ætli mestur krafturinn í starfi stjórnmálamanna  síðan (ekki síst forsætisráðherrans sem vitnað er til) hafi ekki farið í að bjarga sjálfum sér, frekar en að vinda sér að að vinna að málum sem skipta alla máli. Það er einmitt kjarni málsins. Parísarsamkomulagið var ekkert sérstaklega áberandi í umræðunni fyrir Alþingiskosningarnar þann 29. október.
Það eru allir að bíða eftir að einhverjir aðrir taki til í sínum garði. Við gerum kröfur til annarra, en ekki okkar sjálfra. Okkar hluti veraldar gerir út á einstaklingshyggjuna. Hver er sjálfum sér næstur, og allt það.


Þegar ég fer í vínbúðina til að kaupa mér rauðvín þá fer ég auðvitað ekki að blanda því við umhverfismál, er það?  Ég sé þetta fína rauðvín frá Chile. Fer ég að pæla í því að það sem búið að flytja ríflega 12000 kílómetra, væntalega með skipi sem brennir jarðefnaeldsneyti? Rauðvínið mitt frá Chile í glerflösku, sem er helmingurinn af þyngdinni, sem síðan endar í flöskumóttökunni (ef ég á annað borð pæli eitthvað í því). Ef ég leiði hugann að umhverfismálum í tengslum við rauðvínskaupin, er ég snöggur að segja við sjálfan mig, að það geti nú ekki haft mikil áhrif á umhverfi heimsins að flytja eina flösku af rauðvíni frá Chile. Ég get líka sagt við sjálfan mig að fyrst aðrir kaupa rauðvín frá Chile, megi ég það ekki síður. Hversvegna á ég að neita mér um það sem aðrir leyfa sér, ef ég hef efni á því?
Þetta rauðvín er bara lítið dæmi sem hægt er að yfirfæra yfir flest það sem telja má munaðarvarning sem er eitt megineinkennið á ofgnóttarsamfélaginum sem við  búum í.   Í þessu samfélagi hreykjum við okkur af því, frekar en hitt, að láta aðra vita af því þegar við kaupum exótískar vörur sem eru langt að komnar.

Ég hef ekki trú á því að neitt umtalsvert gerist til að bjarga jörðinni frá þeim ósköpum sem hennar bíða, að mati þeirra sem til þekkja, fyrr en Vesturlandabúum verður settur stóllinn fyrir dyrnar með einhverjum hætti. Til að svo megi verða þarf að setja lög og reglur sem takamarka hitt og þetta og það verður ekki sársaukalaust, ef af verður. Stærsta orrustan verður þá líklega á milli stjórnvalda og þeirra sem eiga hagsmuna að gæta í því að framleiða og flytja heimshorna á milli, varning til kaupenda sem eiga pening.

Ég lít ekki á þessi skrif mín hér og nú sem pólitísk. Það sem hér er um að ræða er miklu merkilegra og  örlagaríkara en svo að réttmætt sé að setja það í flokk með pólitík eins og við höfum búið við á þessu landi.





Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...