Uppsveitir Árnessýslu: rauða lína sýnir, í stórum dráttum, það svæði sem er í byggð. |
Það var árið 1923 sem hrepparnir sem stóðu að Grímsneslæknishéraði eignuðust jörðina Laugarás í Biskupstungum til þess að koma þar upp aðsetri fyrir héraðslækni. Hvernig hrepparnir greiddu fyrir jörðina er mér ekki alveg ljóst. Kaupverðið var kr. 11000
Þessari gjörð var þinglýst þann 25. júní, 1927:
Með því að Helgi Ágústsson bóndi á Syðraseli hefur tekið að sjer fyrir hönd Grímsneslæknishéraðs, gagnvart Veðdeild Landsbanka Íslands greiðslu á veðskuld þeirri er hvílir á jörðinni Laugarási að upphæð kr. 1141.00og greitt mér eftirstöðvar kaupverðsins kr. 9859.00 Samtals kr. 11000.00- ellefu þúsund krónur – þá lýsi ég hann fyrir hönd Grímsneslæknishéraðs hjermeð rjettan eiganda að jörðinni Laugarás í Biskupstungum upp frá þessum degi og ber mjer að svar til [um] vanhemildir.Til staðfestu nafn mitt ritað í viðurvist tveggja vitundarvotta.
Þórarinsstöðum 8. júní, 1923
Guðm. Þorsteinsson (sign)
Vitundarvottar Þorgeir Halldórsson (sign) Ögm. Sveinbjörnsson (sign)
Eignarheimild þeirri er virðast mætti að jeg hefði á jörðinni Laugarás, samkvæmt framanrituðu afsali, afsala jeg mér hjer með fyrir [fult] og alt til handa Grímsneslæknishjeraði.
Syðraseli 16/12 1924
Helgi Ágústsson (sign)
Ekki dreg ég í ef eignarhald hreppanna á Laugarásjörðinni, en er ekki alveg jafn viss um að þeir hafi greitt fyrir hana úr sveitarsjóðum. Ástæða þess er fyrst og fremst þetta, sem birtist í læknablaðinu 1922:
Þetta skil ég ekki öðruvísi en svo, að í fjárlögum fyrir árið 1923, hafi Árnessýslu, eða væntanlega sýslunefnd Árnessýslu verið veitt allt að þeirri upphæð sem nam kaupverði jarðarinnar: kr. 11000. Ég reikna síðan með, allavega þar til annað kemur í ljós, að Grímsneslæknishéraði hafi verið afhent jörðin til eignar. Með öðrum orðum: hrepparinir, sem að Grímsneslæknishéraði, fengu jörðina að gjöf frá ríkinu. Kostnaðurinn sem síðan féll á sjóði hreppanna í framhaldinu fólst í að kaupa konungshúsið sem hafði staðið við Geysi frá 1907, flytja það í Laugarás og endurbyggja þar.
Grímsneslæknishérað varð að Laugaráslæknishéraði á fimmta áratugnum. Með því það var lagt niður þegar heilsugæslan var sett inn í Heilbrigðisstofnun Suðurlands, árið 2004, má velta fyrir sér hvað verður eða varð um eignir héraðsins.
Geta hrepparnir sem að Laugaráslæknishéraði stóðu, bara skipt eignum hennar á milli sín, si svona, í einhverjum hlutföllum? Væri ef til vill réttast, að þessi eign, Laugarásjörðin, yrði afhent ríkinu, enda ríkið sem greiddi fyrir hana?
Ég skil þessar spurningar eftir úti í tóminu og held svo áfram síðar á þessari braut.