Sýnir færslur með efnisorðinu fjallganga. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu fjallganga. Sýna allar færslur

24 ágúst, 2020

Reykjadalur: Það sem ég átti kannski ekki að gera, en ...

Ekki næstum komin upp, en við blasir útsýnið til sjávar.

"Það er bara bratt rétt til að byrja með og síðan er þetta bara nánast jafnslétta"
. Þetta er um það bil orðrétt haft eftir börnum okkar fD sem gengu í Reykjadal þann 8. þessa mánaðar. Það var á grundvelli þessa, sem ég, með gildandi veðurspár bak við eyrað, stakk upp á því í fyrradag, við fD, að það væri ekki óvitlaust að ganga í þennan Reykjadal, sem er upp af Hveragerði. Uppástungan fékk betri undirtektir en ég hafði vonast til, enda eru fjallgöngur og hafa verið, í litlu uppáhaldi hjá mér gegnum tíðina. Ég hét því, meðal annars, eftir göngu á Vörðufell fyrir nokkrum árum, að gangan sú skyldi verða mín síðasta fjallganga.
"Úr því þetta er svo létt ganga sem sagt var, eigum við þá ekki að fara með einhverja dalla til að tína ber á eftir?" stakk fD upp á, en ég brást nú ekkert sérlega vel við þeirri tillögu; taldi svo sem ekkert gera til að taka með einhver ílát, svona ef gangan yrði nú ekki nægilega krefjandi.

Einhversstaðar þarna uppi, en á niðurleið.

Segir ekki meira af þessu máli fyrr en við vorum komin á bílastæðið sem markar upphaf göngu í Reykjadal. Ég horfði upp eftir fjallinu sem blasti við, og neita því ekki, að það fór lítillega um mig. Ekki var um að ræða að snúa bara við, því, eins og fD ítrekaði á flestum tuga áningastaða á leiðinni upp, þá myndi slík uppgjöf sitja í okkur það sem eftir væri ævinnar. Í hljóði voru viðbrögð mín við þeirri möntru þau, að það væri bara í góðu lagi að sjá eftir einhverju alla ævi, því þegar ævinni lyki yrði ekkert lengur til: engin eftirsjá, ekkert. Þar með væru allar ástæður til eftirsjár foknar út í veður og vind. Nei, ég hafði ekki orð á því, en lét teymast áfram á þessum eftirsjár grundvelli. 
Jú, það var sannarlega bratt fyrst, þá 10 metra jafnslétta, þá enn meiri bratti, svo næstum því jafnslétta nokkur skref áður en meiri bratti tók við. Eftir því sem fleiri brattar brekkur voru lagðar að baki, fjölgaði áningarstöðunum, oft undir því yfirskini að ég væri að dást að útsýninu, með lofthúsið í Hveragerði, sem glitraði á í ágústsólinni, hafið fyrir utan Ölfusárósa og bílakeðjuna sem brunaði upp og niður Kambana, fyrir augum.  
Andlega tók einna mest á þegar kom að beygjum á slóðanum og maður var búinn að sjá fyrir sér enda brattans og framundan jafnsléttuna, en í staðinn blöstu við fleiri brattar, sem prjónuðu sig einhvernveginn til himins. Ég var jafnvel farinn að ímynda mér að þangað lægi leið mín ef áfram héldi sem horfði. 

Náttúrustemning.

Á þessari leið inn í Reykjadal má segja að það sé "bratt alla leið nema rétt síðast". Því naut ég þess þegar síðasti brattinn var frá, að leggjast endilangur í mosató, horfa til himins, sem ég reyndist þá ekki vera á leið til, eftir allt saman og dást að sjálfum mér fyrir að hafa ekki gefist upp, heldur barist allt til enda. 

Baðalækurinn

Síðasti hluti þessarar göngu upp að baðalæknum, þar sem fólk lá eins og hráviði og naut hitans og veðurblíðunnar, var létt og löðurmannleg. Því neita ég ekki, að umhverfið þar og reyndar alla leiðina þarna uppeftir, er sérlega fagurt, í það minnsta það sem ég sá þegar ég gaf mér stund til að hugsa um annað en aumingja mig. 

Sönnun þess að þarna fórum við.

Ekki fórum við fD í lækinn, heldur nutum þess að leggjast fyrir um stund, láta líða úr okkur, fylgjast með mannlífinu og hugsa til göngunnar til baka, en óhjákvæmilega beið hún okkar.

Ég neita því ekki að mér fannst nú brekkurnar upp á við, vera heldur margar á niðurleiðinni, en á heildina litið, segir fátt af þeirri för. 
Mig langaði að stökkva og hrópa þegar ég var kominn niður á jafnsléttu, áfallalaust, en ákvað að láta það vera, enda stöðugur straumur fólks sem var að hefja gönguna þarna, og ég veit að fD hefði ekki tekið slíkum gleðilátum fagnandi.

Hungrið var farið að sverfa að þegar niður var komið og ég sá fyrir mér að setjast inn á veitingastað þar sem við gætum snætt aðalmáltíð dagsins og fagnað þeim hetjuskap sem við höfðum sýnt. Okkur var vísað til sætis á þekktum veitingastað í Hveragerði, afhentir matseðlar og síðan ekki söguna meir. Við biðum eftir að fá frekari þjónustu, en hún kom bara ekki innan þess tíma sem við treystum okkur til að bíða.  Við ísbúðina var biðröð langt út á götu og það sama var uppi á teningnum í bakaríinu þar sem við höfðum sæst á að fá okkur súpu og brauð. Í bónus var allt búið sem kalla mátti samlokur og það sama var uppi á teningnum á bensínstöðinni. Þá vorum við komin talsvert langt frá upprunalegum hugmyndum um gómsæta máltíð á veitingastað og fengum okkur innpakkaðar kökur á bensínstöðinni og orkan sem fékkst úr þeim skilaði okkur heilu höldnu heim í kotið. 

Það getur einhver skilið mig sem svo, að þessi fjallganga hafi bara verið hið versta mál, en það var hún sannarlega ekki og ég sé hreint ekki eftir að hafa lagt þessa tæplega 10 km gönguferð að baki á einstökum dýrðardegi.  Það sem ég er að koma á framfæri með þessum skrifum, er sú staðreynd að ég er ekki byggður fyrir fjallgöngur. Annað var það nú ekki.

Ég hef efast um hvort það sé gáfulegt að setja hér inn sjálfu af okkur fD á þessari gönguför. Ég hef ákveðið að gera það samt. Hún er þannig til komin, að við stilltum okkur upp þannig að í bakgrunni væru fallegir fossar þarna í Reykjadal. Niðurstaðan varð, eins og sjá má: engir fossar og fD með lokuð augu, enda ekki nema von í glampandi sólskininu, eða kannski vegna þess að undir niðri vildu hún bara ekkert vera á þessari mynd, svona "out og sight, out of mind" dæmi. Ég auðvitað, eins og ávallt, sjálfuöryggið uppmálað.


Það varð ekkert úr berjatínslu. Annað reyndist mikilvægara.

28 september, 2019

Fátt segir af þokunni

"Svartagil!! Við áttum að fara að Svartagili!  hérna!". 
Auðvitað beygði ég. Svo tók við malarvegur, sem brátt sveigði burt frá fjallinu.
"Ætli þetta sé ekki örugglega rétt?"
Eftir um kílómeters akstur í áttina að Þingvallavatni voru vonir farnar að dofna um að við værum á réttri leið, en þá blasti við beygja til vesturs og síðan til norðurs og í átt að fjallinu, Vonir glæddust. En svo kom aftur beygja á veginn til suðvesturs og vonir dofnuðu. Það sem hélt voninni hinsvegar á lífi var slóði sem lá áfram og í átt að fjallinu.
"Prófum þennan. Hann virðist liggja þarna inn í gilið".
Slóðinn lá þarna eitthvert inn úr og það var meira að segja lítil brú ("Þú ferð ekki lengra!"), sem lá yfir lítinn læk og sauðfé á beit og beitarhólf og svo bara gufaði slóðinn upp.
Þarna tóku við ýmsar vangaveltur.
"Ég veit nú ekki hverskonar leiðbeiningar þetta eru eiginlega! Afhverju er þetta ekki betur merkt?"
Þarna sáust engin merki um göngustíga en nýlegar mannaferðir, yfirleitt, svo það var bara snúið við. Reynt að gúgla, án þess að komast nær upplýsingum um hvar hefja skyldi gönguna á fjallið.

Þetta átti að vera gangan sem hafði það markmið eitt að finna grænan póstkassa einhversstaðar uppi á Ármannsfelli, samanber Ármannsfellið fagurblátt og fannir Skjaldbreiðar, og svo framvegis.  Sannarlega voum við orðin nokkuð viss um hvar Ármannsfell var, en eins og flestir vita eru ýmsir möguleikar á uppgöngu á það.  Þeirrar sem taldist vera heilsueflandi, leituðum við lengi, lengi og vorum næstum búin að aka í kringum fjallið þegar tekið var á það ráð að hringja "í vin". Þar fengust leiðbeiningar sem leiddu okkur nær einhverskonar sannleika. Sannleikurinn var þó ekki meiri en svo, að hann kostaði okkur kílómetra lengri göngu en ástæða hefði verið til.


Svo tók gangan við og þar sem ganga er bara ganga, segir fátt af henni, en því vil ég halda til haga, að fjallgöngur hafa aldrei verið neitt sérstakt áhugamál hjá mér og því var það fyrir lítt orðaðan hópþrýsing og ekkert annað, að ég lét hafa mig úti í þessa för. Ég hugsaði á endanum sem svo, að ég gæti þó allavega tekið nokkrar myndir. Þar með burðaðist ég þarna áleiðis með helstu linsur og EOS-inn.
Útsýnið reyndist síðan ekkert sérstakt: móða og mistur.  Það var aldrei ætlun mín að klífa þetta fjall nema að hluta til, en samferðafólkið gerði heilmikið úr því að það ætlaði að finna póstkassann og skrifa nöfn sín í bókina. Ég setti mér þó mí hóflegu markmið og smám saman þokuðumst við upp hlíðina, með  hvassviðri í fangið. Þetta fannst mér vera talsvert feigðarflan sem engan veginn myndi til góðs.
Til að gera langa sögu styttri þá var viðhaldið óorðuðum þrýsingi á mig, sem varð til þess að markmið mín og um freista þess að ná kannski upp í miðjar hlíðar, enduðu með því að toppnum var náð, en þá skall á niðadimm þoka svo leitin að póstkassanum tók á sig undarlegar myndir, sem skiluðu sér að lokum inn í EOS-inn, áður en haldið var aftur niður hlíðina, undan hvassvirðinu og eftir nokkur skakkaföll.


Svo sem búast mátti við, lauk göngunni þar sem Qashqai beið þolinmóður, miklu lengra burtu en þörf hefði verið á og þar með lauk tilraunum mínum til að klífa fjöll, í það minnsta þar til skrokkurinn og sálin verða tilbúnari, sem ég útiloka auðvitað ekki að verði, svo sem.

Hvað er svo satt af ofanskráðu verður hver og einn lesenda að meta fyrir sig.




Koma heim og heita því
að leggja aldrei upp á ný.
Dreyma margar næstu nætur
hrap í björgum, brotna fætur.
Segja löngu seinna frá því:
„Sjáið tindinn, þarna fór ég!
(úr ljóðinu "Fjallganga", eftir Tómas Guðmundsson)



























Ég tel rétt að þakka göngugörpunum Ragnheiði Jónasdóttur og Dröfn Þorvaldsdóttur fyrir hvatninguna og samfylgdina. Án óþreytandi hvatningar frá þeim hefði ég líklega aldrei lagt Ármannsfell að fótum mér.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...