Sýnir færslur með efnisorðinu tónlist. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu tónlist. Sýna allar færslur

11 september, 2019

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum
Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var bara svona sveitastrákur sem var gegnsýrður af sakleysi og algerlega laus við það spillta umhverfi sem borgarunglingar fengu að upplifa.
Ég var sendur í Héraðsskólann á Laugarvatni upp úr fermingu og þar má segja að ég hafi byrjað að spillast undir handarjaðri jafnaldra sem þegar höfðu marga fjöruna sopið, eða það taldi ég í það minnsta. Þarna voru Suðurnesjamenn talsvert áberandi.
Þriggja vetra dvöl mín í héraðsskólanum færði mig ugglaust nær því að verða maður með mönnum og hvernig má líka annað vera? Aðrir urðu samt meiri menn með mönnum og náðu því að láta reka sig fyrir reykingar eða ólöglegar heimsóknir á kvennavistina. Ugglaust mun ég fjalla meira um þau mál síðar, svona eftir því sem meiri opnun verður í höfðinu á mér, fyrir minningar frá þessum árum.

Höfundur, Laugarástöffari á umræddum tíma. (mynd frá EJ)
Tilefni þessa pistils tengist þessu auðvitað og skýrir nokkuð hve mikið mér er í mun að reyna að vera öðruvísi, reyna að verða maður með mönnum, án þess að langa eitthvað sérstaklega að ná þeim "status" í lífinu. Á táningsárunum er manni mikið í mun að víkja ekki verulega frá því "normi" sem verður til í unglingahópnum sem maður er í, og það felst kannski ekki síst í því að gera eitthvað sem getur orðið til þess jafnaldrnir sjái einhverja ástæðu til að öðlast virðingu fyrir manni og jafnvel taka upp eða aðhyllast það sem maður tekur sér fyrir hendur.

Hvað um það. Héraðsskólaárunum lauk og við tók að flytjast í næsta skóla, menntaskólann. Þarna á milli kom sumarið 1970.

Hinn Laugarástöffarinn á þessum tíma, Pétur Hjaltason.
(Mynd frá EJ)
Það taldist til nokkurra tíðinda þegar Hveratúnsfjölskyldan tók sig til og skellti sér í bæinn. Þarna var drapplitaður Landróver, bensín, heimilisbíllinn. Það tók tvo klukkutíma að keyra til Reykjavíkur yfir Heiðina.
Þetta sumar var haldið í bæjarferð, sem ég man svo sem ekkert eftir, utan eitt atvik, sem ég ætla að fjalla aðeins um hér.

Ég hafði upplifað það í þrjá vetur í héraðsskólanum, þegar menntskælingarnir komu hlaupandi ofan að í hádegismat í mötuneytinu. Þetta var auðvitað til að byrja með hundgamalt fólk, frekar rustalegt, með sítt, úfið hár og hálf druslulegt til fara (staðalmynd auðvitað). Eftir því sem ég færðist nær í aldri, virtist mér útgangurinn á þessu fólki æ eðlilegri, enda í æ meiri mæli farinn að reyna að tileinka mér samskonar lífsstíl.
Innanbúðar í Hljómplötudeild Fálkans 1970.
Það vissi ég, að ég þyrfti að gera mitt til að reyna að verða hluti af þeirri menningu sem beið mín þarna haustið 1970. Eitt að mikilvægasta fannst mér að væri að sýna fram á að ég væri maður með mönnum, sem gæti státað af einhverri lífsreynslu. Auðvitað gat enginn talist lífsreyndur sem ekki þekkti til í Reykjavík, en það var einmitt reynsla sem mig skorti á þessum tíma.
Því var það, að þegar foreldrar mínir þurftu að útrétta eitthvað í miðbænum, ákvað ég að tími væri kominn til að verða sjálfstæður. Ég var látinn út á Laugaveginum þar sem ég vissi að þar væri Hljómplötudeild Fálkans til húsa. Fyrir framan búðina á Laugavegi 24, fór ég út og ákveðið var hvert ég skyldi síðan koma þegar ég hefði lokið erindum mínum.

DENON ferðaplötuspilari eins og á er minnst.
Þegar þarna var komið hafði ég eignast Denon-plötuspilara og ætlun mín var að kaupa hljómplötu sem mögulega gæti fallið í kramið hjá verðandi skólafélögum mínum í ML.
Þegar ég kom inn í þetta musteri hljómplötunnar blöstu auðvitað við rekkar af hjómplötum hvert sem litið var og lifsreyndir Reykvíkingar flettu í óða önn í bunkunum, drógu fram plötur, fótu til afgreiðslumanns og báðu um að fá að hlusta á eitthvað tiltekið, hurfu síðan inn í hlustunarklefa.
Auðvitað sýndi ég þarna af mér fas manns með mönnum og tók til við að fletta í plöturekkunum. Ég ætlaði sko ekki að kaupa plötu með einhverjum sem var á einhverjum vinsældalistum. Það hafði ég lært hjá Denna, í Héró, að troðnar slóðir í þessum bransa væri sko ekki svalt; maður skyldi sko hlusta að eitthvað sem ekki væri allra. Þetta hafði hann sýnt fram á með því að spila Santana daginn út og inn, það væri sko hljómsveit í lagi. Ég náðiekki umtalsverðu sambandi við Santana, en eins og heyra má hér er þetta nú bara ágætt..
Frijid Pink platan góða.

Svo fann ég þessa plötu með hljómsveit sem bar nafnið Frijid Pink í einum rekkanum. Aftaná  henni var lagalisti og þar rak ég augun í "House of the Rising Sun" og ákvað að fá að hlusta á það. Rétti afgreiðslumanninum plötuna og fékk aðgang að tilteknum klefa, settist þar inn og hlustaði á þetta lag, fannst það bara skrambi  gott, fór fram að greiddi fyrir plötuna.

Auðvitað var þetta val mitt á hljómplötu ekki til þess fallið að gera mig að manni með mönnum, þegar upp var staðið. Staða hennar í tónlistarsögunni fer hljótt og mér er til efs, að nokkur sem þetta les, hafi heyrt á hana minnst, en útgáfa Frijid Pink á House of the Rising Sun er bara skrambi góð.

Flutningur Frijid Pink á "House of the Rising Sun"

Kveikjan að því að þessar minningar komu í hugann var vinylplötubunkinn sem ég fann í geymslunni í Kvistholti. Þar á meðal var þessi bleika plata Frijid Pink.

Þessi plötufundur kveikti einnig á minningu um það sem gerðist þegar ég, hróðugur eftir plötukaupin, steig út úr verzlun Fálkans á Laugarvegi 24, sumarið 1970. Þar sem ég stóð á gangstéttinni fyrir utan, uppgötvaði ég að ég vissi ekki í hvora áttina ég ætti að fara. Ég prófaði að ganga í aðra áttina og síðan í hina og svo aftur og enn aftur, en var engu nær. Einn, villtur í 80.000 manna stórborginni. Ástandið var ekki efnilegt og ég hygg að þessi reynsla sé helsta ástæða þess að ég man nokkuð glöggt eftir heimsókn minni í Hljómplötudeild Fálkans.
Ég man enn léttinn þegar ég sá drapplitaðan Landróverinn birtast, en þá hafði staðið yfir einhver leit að mér. Pabbi ráðlagði mér þarna, að sveitamannasið, að ég skyldi alltaf vera klár á kennileitum þar sem ég væri staddur á ókunnum slóðum. Það hef ég reynt að gera síðan.

Vinsældalistinn árið 1970

Edison Lighthouse - 'Love Grows (Where My Rosemary Goes)' 
Lee Marvin - 'Wand'rin Star' 
Simon & Garfunkel - 'Bridge Over Troubled Water' 
Dana - 'All Kinds Of Everything' 
Norman Greenbaum - 'Spirit In The Sky' 
England Football World Cup Squad "70" - 'Back Home' 
Christie - 'Yellow River' 
Mungo Jerry - 'In The Summertime' 
Elvis Presley - 'The Wonder Of You' 
Smokey Robinson & The Miracles - 'The Tears Of A Clown' 
Freda Payne - 'Band Of Gold' 
Matthews Southern Comfort - 'Woodstock' 
Jimi Hendrix Experience - 'Voodoo Chile' 
Dave Edmunds Rockpile - 'I Hear You Knocking'

--------------------------------------------
Þar sem ég hyggst ekki verða mér úti um plötuspilara fyrir Vinyl plötur, liggur nú fyrir að losna við bunkann. Þarn er vísast mörg perlan sem verður barist um.

05 júní, 2017

Af barnasprengjukynslóðinni

Ég hef nefnt það hér, að ég fermdist árið 1967. Um fermingaraldurinn verður tónlistin í kringum
mann á einhvern hátt mótandi afl í lífinu. Unglingar eru alltaf með tónlist við höndina og máta hana við tilfinningar sínar. Ég hef haldið því fram að tónlistarlega séð tilheyri ég einni heppnustu kynslóð sem uppi hefur verið.
Hér ætla ég að sýna nokkur dæmi um það sem ég á við, en þau eru öll frá árinu 1967, fermingarárinu mínu. Þetta er bara örlítið brot af því sem átti þátt í að móta mig. Það má eiginlega segja að út frá tónlistinni sem kom fram á unglingsárum hefi ég að einhverju leyti tekið stefnur í lífinu, eða mótað mér lífsskoðun. Það á vísast við um alla unglinga á öllum tímum: tónlistin á mótunarárunum hjálpar þeim í einhverjum skilningi að finna sig.
Á þessu ári byrjaði hippamenningin, svokallaða, að festa rætur. Við vorum aðeins of ung til að tileinka okkur hana, en það munaði ekki miklu.
Næstu árin báru keim að hippamenningunni hjá okkur; sítt ár, litríkur fatnaður, peace merki um hálsinn, útvíðar buxur, þykksólaðir skór.

Þá að dæmunum:
1.  Ég þarf auðvitað ekki að minnast á Bítlana sem gáfu út eitt mesta stórvirki sitt "Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band". Ekki þarf að hafa mörg orð um það, en ekki held ég að ég hafi þá leitt mjög hugann að innihaldinu í þessu lagi. 



2. Um miðjan maí, nánast sama dag og við fermingarsystkinin staðfestum skírn okkar í Skálholti, rataði þetta lag inn á vinsældalista. Það var og er, að mínu mati ein þeirra perla sem standa upp úr meðal þeirrar tónlistar sem síðan hefur hljómað. Já, já, maður verður að taka stórt upp í sig. 


3. 10 dögum eftir ferminguna hélt þessi snillingur tónleika í Stokkhólmi.


4. Það var líka margt léttara, eins og t.d. þetta:


5. Og svo var þetta líka, sem ég, með réttu eða röngu, tel hafa átt þátt í að skapa það sem síðar varð að hippamenningunni, með blómabörnin sín. Sumarið 1967 hreiðruðu ungmenni um sig í ákveðnu hverfi San-Francisco með blóm í hárinu og ást og frið á vörum.



Ég gæti haldið lengi áfram við að flytja ykkur í huganum 50 ár til baka, þegar 10 Tungnamenn gengu upp að altarinu í Skálholtskirkju og sögðu "Já" við spurningu prestsins.  Kannski var sá tími ekkert sérlega merkilegur, eða frábær meðan á honum stóð, en hann hefur þroskast einstaklega vel.

Í Skálholtskirkju, 14. maí 1967.  Myndin er spegluð eins og glöggir munu sjá.




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...