Sýnir færslur með efnisorðinu eldgos. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu eldgos. Sýna allar færslur

22 maí, 2011

Nú er það grábrúnt

Þetta er nú sent til áhugamanna um Laugarás, sem ég veit að eru margir.
Upp úr kaffinu færðist öskuský yfir þorpið eina, og við sem héldum að við nytum einhverrar sérlegrar verndar náttúruaflanna.






17 apríl, 2010

Til viðbótar við milljónir

Ekki get ég látið mitt eftir liggja þegar um er að ræða að mynda gos í Eyjafjallajökli.
Hér eru nokkur dæmi af gosmekki í kvöldsól. Hér eru síðan fleiri og stærri. Myndirnar eru teknar milli Iðu og Helgastaða og frá Laugarási.






Björgunaraðgerð



Gos í Eyjafjallajökli um hádegisbil í dag - séð frá Laugarási

Hvernig gæti ég hafa ímyndað mér að það ætti fyrir mér að liggja, að bjarga tveim Norðmönnum í vanda, á þessum sólríka laugardegi? Það varð hinsvegar raunin, þó svo endanleg ninðurstaða þessarar aðgerðar liggi ekki endanlega fyrir enn.

Það kom símtal frá Kvisthyltingnum danska, sem nú er staddur á ráðstefnu í þeirri merku borg Nottingham, þar sem Hrói höttur gerði garðinn frægan. Í dag hyllir undir ráðstefnulok og hugað er að heimferð. Þá kemur babb í bátinn, eins og flestum hlýtur að vera ljóst.

Þetta símtal fól í sér að fela mér að leita uppi mögulegar ferðaleiðir frá Englandi yfir á meginland Evrópu. Þar var nefnd til sögu hafnarborgin Harwich á austurströndinni. Þaðan eru ferjusiglingar til ýmissa borga. Ég hóf leit að fari og komst brátt að því, að þar er fátt um fína drætti. Næsta ferja sem ekki er fullbókuð fer til Esbjerg á föstudaginn kemur, 26. apríl. Ég leitaði því eftir fari til einhvers staðar sem kallast Hook of Holland, en þangað er rúmlega 6 tíma sigling. Fyrsta ferð þangað, þar sem enn var laust, reyndist vera að morgni þriðjudags næstkomandi.

Þetta tjáði ég Kvisthyltingnum símleiðis. Hann ákvað að taka þetta far þar sem ekkart annað var í kortunum. Að því sögðu fór hann þess á leit við mig að ég bókaði einnig tvo samráðstefnugesti hans í umrædda ferð. Þetta voru þeir Vegard Ölstörn og Bo Haugen, örugglega miklir öndvegismenn, norskir.

Ég komst í gegnum bókunarferlið og nú eru þeir félagarnir þrír bókaðir í ferju Stena Line frá Harwich til Hook of Holland, n.k. þriðjudag kl. 9:00 að morgni. Hvernig þier ætla sér síðan að komast til Norðurlandanna þaðan er eitthvað sem ekki liggur enn ljóst fyrir, en samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum frá Fyrrelunden eru og verða allar almenningssamgöngur í Evrópu fullbókaðar eins lengi og séð verður.


Nú bíð ég spenntur eftir fregnum af því, hvort bókun mín reynist verða sú björgun sem endanlega leiðir til þess að tveir Norðmenn og einn Kvisthyltingur komast til síns heima áður en langt um líður.

03 apríl, 2010

En fór ég þangað eftir allt saman?

Það er svona með þetta eldgos.
Það var kannski ekki vegna þess að ég skammaðist mín fyrir að segja frá því, að ég sagði frá því síðast, að ekki skyldi leið mín liggja á þær slóðir sem jörðin notar nú til að losa sig við angur sitt. Ástæðan er miklu nær því að vera sú, að til þess að koma því nægilega skýrt til skila til lesenda þyrfti ég að geta borið fram óvéfengjanlegar sannanir fyrir fyrir því að ég hefði verið á staðnum. Þær liggja nú fyrir og birtast sjónum ykkar hér fyrir neðan. Ég stóðst ekki mátið, eftir gengdarlausa áeggjan fjölmiðla og nágranna, að sitja bara einn eftir, hafandi ekki farið að sjá gosið.
Ferðin var farin í fyrradag og leiðin lá upp á Mýrdalsjökul og þaðan niður að gossvæðinu. Ýmsir aðrir voru með í för, en ég ætla ekkert að greina nánar frá því hverjir það voru, né heldur hvernig farartæki flutti mig þarna upp eftir. Miklu meira máli skiptir sú óraunverulega reynsla sem ég varð fyrir.
Á myndinni, sem að stærstum hluta var tekin af Hverstúnsbóndanum, er ég að ná mér í sýni af nýgosnu gosefni, sem nú prýðir stofuhillu í Kvistholti. Þarna var nokkuð heitt eins og glöggt má sjá. Ástæða þess að ég er þarna umlukinn gráleitum reyk er sú, að gúmmíið í skónum mínum var farið að bráðna svo um munaði. En hraunmolanum náði ég.

... eða ekki

01 apríl, 2010

Að sitja kyrr á sama stað.....

...en sjá samt eldgosið.

Það er einbeitt ákvörðun mín að fara ekki að þvælast austur á bóginn til að komast í návígi við yfirstandandi eldos. Það stafar nú ekki endilega af áhugaleysi mínu þegar eldgos eru annars vegar, heldur eitthvað meira í nágrenni við það að ég nenni ekki að leggja á mig allt sem slíkri ferð myndi fylgja. Þar að auki upplifði ég Skjólkvíagosið 1970 og veit því hvernig upplifunin er af því að sjá glóandi kvikuna hendast upp í loft og fylgjast með hraunkantinum skríða óstöðvandi þá vegalengd sem honum er ætlað að fara, með tilheyrandi hljóðum.

Í kvöld var léttskýjað og 6° frost. Gosið sést vel frá þeim stað sem gamla Helgastaðabrekkan var. Þangað hélt ég með EOSinn minn og smellti af nokkrum myndum. Miklu færri þó en ég hefði getað eða viljað, en, eins og margir gosgestir, þá var ég bara ekki klæddur fyrir langa útiveru.

__________________

Rjúpan situr kyrr á sama stað og kúrir sig í afslöppun fyrir framan útidyrnar í Kvistholti, þess fullviss um að þaðan berst engin skothríð.















21 mars, 2010

"Ertu vakandi?"

Þessi spurning barst mér inn í draumaheima og fylgdi mér síðan inn heim hinna vakandi. Dagur var enn langt undan, ef miðað er við að það er sunnudagur. Ekki gat ég sagt að ég væri sofandi - það getur maður ekki ef maður er sofandi og heyrir ekki hvað sagt er. Þessvegna umlaði (væntanlega) í mér:
"Uuuu já"
"Það er byrjað eldgos í Eyjafjallajökli."
Þegar maður er nývaknaður af værum blundi, hugsar maður nú ekki alltaf rökrétt, þannig að í byrjun var ég ekkert sérstaklega að pæla í því hvernig á því stóð, að fD var búin að komast að því, klukkan 5.30 að morgni að hafið væri eldgos einhversstaðar. Það leið þó ekki langur tími áður en þessi óhjákvæmilega spurning kæmi upp í hugann.
"Hvernig veistu það?"
"Ég fékk sms frá Auju/Auu." (voðalega lítur þetta einkennilega út á prenti)
Ég hefði líklega bara tekið það gott og gilt, ef téð fA byggi undir Eyjafjöllum og væri nú á flótta undan jökulflóði, en hún býr reyndar í Furulundi í kóngsins Kaupmannahöfn.

"Hversvegna ertu að fara á fætur ef þú heyrir sms píp (reyndar er það hanagal) um miðja nótt?"
"Það getur alltaf eitthvað hafa komið fyrir."

Þar með var það afgreitt.

Síðar kom í ljós, að smáskilaboðin, voru til komin vegna þess, að í dönsku textavarpi var greint frá eldgosi á Íslandi, án þess að tilgreint væri hvar, með þeim afleiðingum að fA fylltist áhyggjum af afdrifum okkur - hélt kannski að við værum einhversstaðar á flótta. Það var því, þegar allt kemur til alls, einskær áhyggjublandin elskusemi sem varð til þess, að ég vaknaði kl. hálf sex í morgun, án möguleika á að ná að festa svefn aftur.

Nú skulum við bara vona að þetta ágæta gos, sem er varla umtalsvert, sé ekki undanfari einhvers meira og verra: deyi bara út í dag.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...