Þessi spurning barst mér inn í draumaheima og fylgdi mér síðan inn heim hinna vakandi. Dagur var enn langt undan, ef miðað er við að það er sunnudagur. Ekki gat ég sagt að ég væri sofandi - það getur maður ekki ef maður er sofandi og heyrir ekki hvað sagt er. Þessvegna umlaði (væntanlega) í mér:
"Uuuu já"
"Það er byrjað eldgos í Eyjafjallajökli."
Þegar maður er nývaknaður af værum blundi, hugsar maður nú ekki alltaf rökrétt, þannig að í byrjun var ég ekkert sérstaklega að pæla í því hvernig á því stóð, að fD var búin að komast að því, klukkan 5.30 að morgni að hafið væri eldgos einhversstaðar. Það leið þó ekki langur tími áður en þessi óhjákvæmilega spurning kæmi upp í hugann.
"Hvernig veistu það?"
"Ég fékk sms frá Auju/Auu." (voðalega lítur þetta einkennilega út á prenti)
Ég hefði líklega bara tekið það gott og gilt, ef téð fA byggi undir Eyjafjöllum og væri nú á flótta undan jökulflóði, en hún býr reyndar í Furulundi í kóngsins Kaupmannahöfn.
"Hversvegna ertu að fara á fætur ef þú heyrir sms píp (reyndar er það hanagal) um miðja nótt?"
"Það getur alltaf eitthvað hafa komið fyrir."
Þar með var það afgreitt.
Síðar kom í ljós, að smáskilaboðin, voru til komin vegna þess, að í dönsku textavarpi var greint frá eldgosi á Íslandi, án þess að tilgreint væri hvar, með þeim afleiðingum að fA fylltist áhyggjum af afdrifum okkur - hélt kannski að við værum einhversstaðar á flótta. Það var því, þegar allt kemur til alls, einskær áhyggjublandin elskusemi sem varð til þess, að ég vaknaði kl. hálf sex í morgun, án möguleika á að ná að festa svefn aftur.
Nú skulum við bara vona að þetta ágæta gos, sem er varla umtalsvert, sé ekki undanfari einhvers meira og verra: deyi bara út í dag.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli