Sýnir færslur með efnisorðinu Viñales. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Viñales. Sýna allar færslur

02 apríl, 2019

Kúba: Viñales, vindlar, vegglist, uxar og .......

Í þurrkhúsinu
Það var heldur betur vaknað snemma þennan morguninn. Reyndar ekki snemma á þann mælikvarða sem ég nota á það hugtak, en þetta taldist víst snemmt. Það var kominn föstudagurinn 8. mars og framundan mikill dagur, rútubílsferð í vesturátt (VSV) frá Havana, í Viñales dalinn. Þau ykkar sem vilja vita eitthvað meira um jarðfræði og sögu þessa dals geta kíkt hingað.
Megin erindi okkar í þennan dal, sem er í um 180 km. fjarlægð frá Havana, var að kynnast aðeins hvernig farið er að því að búa til blessaða Kúbuvindlana, en það var nú líka fleira sem við tókum okkur fyrir hendur.   Ég set hér enn inn kortið af Kúbu svo betra sé að glöggva sig á þessu ferðalagi.


Langstærstan hluta leiðarinnar var ekið eftir hraðbrautinni A4, en það er dálítið sérstakt með hraðbrautir á Kúbu, að þær eiga það til að vagga manni dálítið og svo eru þessir troðnu slóðar sem liggja meðfram þeim (alla vega að hluta). Þrír samsíða slóðar, en þeir eru víst þarna vegna hestvagnanna.

Glæsilegur uxi á útsýnisstað
Viñales dalurinn er fagurt fyrirbæri, svo mjög að þar sem ekið er niður í hann er útsýnisstaður með hóteli og veitingasölu, lifandi tónlist og ýmsu fleiru. Þarna var svo bóndi með uxann sinn, sennilegast til að ná sér í smá aukatekjur frá ferðamönnum.

Eftir að hafa litið yfir dalinn og vætt kverkarnar lá leiðin að feikmiklu listaverki, einskonar veggmynd sem er 120 m á lengd og 80 m á hæð.

Klettavegglist um þróun lífs
Það tók 18 manns á fimmta ár að mála hana á klettavegg sem þarna er. Það var Leovigildo González Morillo sem hannaði myndina sem byggir á hugmynd Celia Sánchez, Alicia Alonso og Antonio Núñez Jiménez. Myndin á að sýna þróun lífs á jörðinni til þess tíma sem maðurinn steig fram á sjónarsviðið.  Þetta verk er víst harla umdeilt, vegna feikilegs kostnaðar við að mála það og viðhalda því. Þar að auki þykir það ekki beinlínis jákvætt frá umhverfissjónarmiði. Ég veit um eina manneskju, sem þarna var með okkur fD í grúppu (fR), sem ekki var par hrifin af þessari kúnst.

Hlaðið hádegisverðarborð
Þegar hér var komið var hádegisverður framundan hjá fjölskyldu sem hefur byggt upp veitingastað í dalnum, en í hann kemur heilmikill fjöldi ferðafólks. Þarna var ekki um að ræða neinn smávegis hádegisverð, en því miður, sem fyrr í þessari ferð kom eitthvert lystarleysi í veg fyrir að ég gengi langt í að innbyrða minn skammt af öllu því sem þarna var borið á borð á ótal diskum.
Sem fyrr reyndist maturinn sem borinn var fram langt umfram það sem hópurinn fékk torgað. Slíkt kallast víst að viðurgjörningur hafi verið góður.
Fyrir utan staðinn og allt um kring voru litlir garðar, þar sem grænmetið var ræktað, hænsni vöppuðu í hlaðvarpanum og þaðan komu vísast eggin sem notuð voru og mögulega einnig kjúklingarnir. Ég minnist þess ekki að hafa séð svín, sauðfé eða nautgripi, en það er ekkert að marka það.
Ég skildi ekki hvernig fólkið fór að því að framreiða allan þennan mat í örlitlu eldhúsinu sem þarna var.

Veitingastaðuriinn og fólkið.

Viñales bærinn 

Baráttan við brjóstmyndina
Í þessum dal búa um 28.000 manns og stunda að mestu einhverskonar landbúnað; rækta ávexti, grænmeti og kaffi, en ekki síst tóbak í víðfræga vindla. Svo eru víst einhverjar fiskveiðar stundaðar þarna. 
Við komum, belgsödd, í bæinn sem þarna er, með sínu torgi og kirkju, Iglesia del Sagrqado Corazon de Jesus, en þar innandyra leiddi prestur nokkrar konur í bæn til heilagrar Maríu. Fyrir utan bröskuðu verkamenn við að koma fyrir brjóstmynd af José Martí (1853-1895), en torgið fyrir framan kirkjuna ber einmitt nafn hans. Þessi aðgerð verkamannanna virtist geta farið hvernig sem var og ég tilbúinn að festa á minniskort allt sem kynni að gerast, en það fór allt vel og Martí komst heilu og höldnu á stallinn sinn.
Við dvöldum í bænum nokkra stund áður en kom að því sem allir höfðu beðið eftir.

Að rækta tóbak og búa til vindla

CHE GUEVARA II - kennarinn okkar í vindlafræðum

Vindilreyking
Stuttur spölur í rútunni og við vorum komin búgarð þar sem tóbaksplantan er ræktuð, blöðin/laufin síðan þurrkuð og unnin svo úr verði einhverjir magnaðir vindlar. Eftir því sem ég komst næst voru þarna framleiddir vindlar sem kallast Montecristo no. 4, en það eru einmitt vindlarnir sem Che Guevara hafði mest dálæti á. Þessi vindlategund mun seljast best kúbanskra vindla og eru almennt taldir afburðagóðir vindlar fyrir þá sem eru að byrja að reykja kúbanska vindla. 
Hvað um það. 
Á móti okkur tók piltur, sonurinn á bænum, Adrian að nafni (minnir mig). Hann hafði að sögn kennt sjálfum sér ensku og hafði nú þann starfa meðfram búskapnum að taka á móti ferðafólki og kynna tóbaksvinnsluna og vindlagerðina.
Þarna fyrir innan er kennslustofan
Þetta er afar líflegur og hress náungi og leiddi okkur langt inn í þann galdraheim sem vindlagerðin er:  í gegnum þurrkhúsið (sjá mynd efst) þar sem stöðugt þarf að "rótera" rekkunum sem blöðin eru hengd á, inn í n.k. kennslustofu, þar sem stór fáni með mynd af Che Guevara hangir á vegg, sagði frá eðli mismunandi blaða/laufblaða tóbaksplöntunnar, þurrkun og síðan að 90% uppskerunnar tæki ríkið og ynni úr í verksmiðjum sínum, en 10% yrðu eftir hjá ræktendum. Úr þeim hluta eru unnir handgerðir vindlar með sérstökum aðferðum og ýmisskonar kryddi, en hvað það er eða í hvaða mæli, er víst atvinnuleyndarmál. Ekki finnst mér nú líklegt að uppljóstrum slíkra leyndarmála hefði skapað mikla hættu á misnotkun í Aðaldal eða Tungunum. 
Gamli bóndinn að plægja
Þarna vafði Adrian vindil fyrir framan okkur og lýsti aðgerðinni og ástæðum hvers handtaks jafnóðum. Það lá við að maður yrði áhugamaður um vindlaframleiðslu í þessari skemmtilegu kennslustund. Það sem ég, m.a. lærði þarna var, að þegar maður ætlar að reykja vindil sem er lokaður í annan endann, á maður að skera nákvæmlega 3 mm af lokaða endanum og dýfa í hunang, áður en kveikt er í. 
Svo fengu þeir sem vildu, að prófa að reykja heimagerðan vindil. Ég lét slag standa, enda hafði ég þegar prófað vindil sem fylgt hafði gjafapakka Kúbuferða við upphaf ferðar og hafði fundist það sama um hann og aðra vindla: fann lítinn mun. Þetta var nú bara vindlareykur. Ég er einhvern veginn ekki þeirrar gerðar að gera mikinn greinarmun, eða finna mikinn mun á vindlum.
Það þarf að flytja ýmislegt eins og gengur og gerist.
Ekki heldur rauðvínum, ef því er að skipta. Í mínum huga reykja menn vindla vegna níkótínsins sem fær að streyma um æðarnar og rauðvínið drekka menn til að finna af því áfengisáhrif. Ekki meira um það. 
Þarna sagði Adrian okkur, að vindlareyk ætti maður ekki að draga ofan í lungun, heldur leyfa reyknum að leika við munnholið og njóta bragðsins. Það er nefnilega það. Þar leiðréttist misskilningur ævi minnar.

Áður en tóbaksplantan breytist í vindil, þarf að rækta hana. Á þessum bæ var ræktað tóbak á 2,5 ha lands.
Þessi mynd kallast: Ró og friður í fögrum dal
Aðferðirnar við það er mjög náttúruvænar. Uxareru notaðir eru við plægingar og flutninga og til að takast á við skaðvalda í ræktuninni er notað heimagert nikótín, en það fæst þannig, að æðarnar, sem eru fjarlægðar úr tóbaksblöðunum áður en vindlarnir eru vafðir, er settar í vatn, en í æðum tóbakslaufanna er langmesta nikótínið. Þetta nikótínvatn er síðan notað til að halda skaðvöldum í skefjum.

Enn ein upplifunin á Kúbu, en svo var lagt í hann heim á leið, til Havana, en það er ríflega tveggja tíma akstur. Á leiðinni var áð við vegasjoppu, nokkurskonar til að fólk gæti viðhaldið gegnumstreymi vökva um líkamann. Það þurfti að losa og taka inn.  
Þorsti kallar á bjór. Það reyndist einfalt mál, því um var að ræða eina tegund til að velja úr. Hún var bara hreint ágæt. Hverju hefði maður svo sem verið bættari með því að geta valið milli 10 eða 20 tegunda? Bjór er bjór.  
Þarna þurfti einnig að losa. Meira að segja ég viðurkenni að aðstæður að snyrtingunni voru með sérstakara móti.  Þarna voru einir þrír básar, hver með sínu klósetti innan dyra. Veggir básanna náðu þó ekki hærra upp en svo, að sæti maður á klósettinu var hægt að spjalla við náungann í næsta klefa. Aftur - hvað með það? Það sem fer fram í klefum af þessu tagi er eitthvað sem allir gera víst daginn út og inn og því ekkert sérstaklega spennandi á einn veg eða annan, varla neitt leyndarmál, í það minnsta.
Loks var ekinn síðasti leggurinn heim, eftir langan dag. Þrátt fyrir það safnaði fólk liði í rútunni til að fara á einhvern stað sem ég held að heiti því frumlega nafni Mojito og er einhversstaðar ekki fjarri aðsetri okkar í Havana. 
Við þrjú tókum ekki þátt í þeim leik. Við höfðum annað í huga, sem átti heldur betur eftir að krydda tilveruna, svo ekki sé meira sagt. Frá því segir næst, í síðasta eða næstsíðasta þætti þessarar maraþonfrásagnar af Kúbuferð.


Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...