Mánudagurinn 28. október átti nú ekki að vera neitt strembinn, en reyndist samt nokkuð umfangsmikill. Eyðimerkurævintýrið var að baki og framundan stóð til að fimmmenningarnir kynntu sér souk/souq - í elsta hluta Dúbæ. Souk þýðir markaður. Það var talið geta orðið heilmikið ferðalag, sem og varð.
Klíníkin
Dagurinn hófst þó með því að það varð að ráði að ég færi til skoðunar á heilsugæslustöð, vegna þess sem heimafólk hafði greint sem "mygga", en reyndist vera aðeins meira, þegar alvöru egypskur læknir hafði greint stöðuna. Ég læt liggja milli hluta það sem þarna reyndist um að ræða, enda ástæða þess, að ég nefni þessa heilsugæsluferð sú, að þar var þjónustan ansi ólík því sem maður á að venjast hérlendis. Þarna fór ég á bráðamóttöku þar sem hjúkrunarfræðingur sagði mér að blóðþrýsingurinn væri ansi hár (varla við öðru að búast í aðstæðunum). Svo hringdi hann eitt símtal og sagði mér eftir það að fara upp á næstu hæð, þar sem læknir nánast beið eftir mér og átti við mig 5 mínútna viðtal. Skráði eitthvað í tölvuna og beindi mér síðan í apótek við hliðina, þar sem 5 mínútna bið skilaði lyfjum við kvillanum. Kviss ... pang. Vissulega ber að geta þess, að þarna var um að ræða einkarekna klínik. Mér reiknast svo til að klukkutíminn hjá lækni þar kosti um það bil 140.000 krónur.
Ég sleppi því að ræða ástand opinbera heilbrigðiskerfisins hér á landi í þessu sambandi að öðru leyti en því að mér blöskrar hvernig búið er að fara með það, beinlínis til að gera það ófært um að sinna sjúklingum og opna þannig fyrir einkarekstur. Nei, ég skal reyna að halda aftur af mér .....
Souk
Eftir þeta ævintýri mitt var lagt í hann í elsta hlut Dúbæ, þar sem markaður var starfræktur, en þrátt fyrir að ágangur sölumanna á svona mörkuðum teldist illþolandi, þótti heimsókn þangað mikilvægur þáttur í ferðinni. Það var var ekki svalanum fyrir að fara í gönguferðinni í gegnum markaðinn. Þetta var svona markaður þar sem fólk gekk í gegn og sölumenn keppust við að ota að vegfarendum ilmvatnsprufum og það var nánast eins gott að staldra hvergi við. Það var allavega sú lína sem tekin var að mestu. Ég læt bara nokkrar myndir um að segja þessa sögu.
![]() |
Kötturinn var ekki með rauð augu. |
Burj Al-Arab
Þegar heim var komið frá markaðnum lá fyrir að skella sér í kvöldverð í grend við eitt helsta kannileiti Dúbæ, Arabaturninn, eða seglið. Þetta er mikilfengleg bygging og að sögn eina 7 stjörnu hótelið í heimi. Eftir ágæta máltíð stóð til að komast nær þessari miklu byggingu, en það mun vera hægara sagt en gert, ef þú hefur ekki bókaða gistingu þar. Við komumst þó svo nærri, að hótelið sást á myndum, baðað ljósi í ýmsum litbrigðum. Enn nokkrar myndir.
![]() |
Eldflaugaárás? Nei, Photoshop. |
Svo var bara enn einn sæludagurinn í sandkassanum kominn á það stig að nóttin tók við, þar sem safnað var kröftum fyrir síðasta þátt ferðarinnar: moskuna miklu í Abu Dhabi. Það var eins gott að vera klár í réttan útbúnað fyrir það ævintýri.