Sýnir færslur með efnisorðinu spjall. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu spjall. Sýna allar færslur

09 febrúar, 2019

Þorraspjall á Hestakránni

Það kom mér nokkuð í opna skjöldu fyrir nokkrum vikum, þegar ég fékk símtal frá Bjarna Ófeigssyni í Fjalli á Skeiðum. Erindi hans var að biðja mig að spjalla við eldri borgara í Skeiða og Gnúpverjahreppi á þorrablóti þeirra í Hestakránni þann 8. febrúar.  Þetta kom mér svo mikið í opna skjöldu, að ég bað um umhugsunarfrest. Svo hugsaði ég og komst að þeirri niðurstöðu að líklega gæti ég alveg kraflað mig fram úr þessu verkefni, og tók það að mér. 
Ég fékk, hjá Bjarna, alveg frjálsar hendur varðandi innihald og tímalengd "spjallsins", með þeim orðum að fólk á þessum aldri hefði nægan tíma. 
Þar sem ég fell ekki í þann flokk manna að vera "spjallari" að eðlisfari, settist ég yfir verkið í tölvunni minni og skráði það sem ég vildi sagt hafa, frá orði til orðs. Ég myndi svo geta bætt við eða sleppt úr, eftir því hvernig aðstæður yrðu.

Mynd: fD

Þorrablót eldri borgara í Skeiða- og Gnúpverjahreppi var í gær, kl. 14. Til að byrja með fannst mér þetta fremur undarlegur tími fyrir þorrablót, en því meira sem ég hugsaði málið, varð ég hrifnari af þessu fyrirkomulagi. Til hvers líka að vera að dandalast langt fram eftir kvöldi við skemmtun af þessu tagi?

Ég fann það strax þar sem ég gekk þarna í salinn á Hestakránni og leit yfir hópinn, að þarna væri komið fólk sem að mörgu leyti hefði deilt sömu reynslu og ég. Mörg andlit þekkti ég eða kannaðist við, sem er nú ekki óeðlilegt, svo sem.  Ekki vissi ég hvernig "spjalli" mínu yrði tekið, en ákvað fyrirfram að taka bara kæruleysið og léttleikann á þetta. Svo færi sem fara myndi.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, en þessi hópur tók mér afskaplega vel þó langt væri erindið. Ég fékk algert hljóð undir flutningnum og engir farsímar fóru á loft.  Þetta var hin ágætasta stund, og ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að koma þarna til að kynnast menningu í öðrum sveitum. 

Þar sem ég lagði nú talsverða vinnu í að skrá "spjallið" niður, ákvað ég að setja það hér inn, ekki síst bara fyrir sjálfan mig, í þeirri von að Google ákveði ekki dag einn að henda út öllu sem hann geymir undir mínu nafni. Ég bætti aðeins inn í textann sem ég flutti og það er skáletrað.


Og hefst þá spjallið

Ásmundur Benidiktsson

Ég vil byrja á að þakka fyrir að hafa verið boðið til þessa þorrafagnaðar eldri borgara í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hér í Hestakránni. Nafn staðarins ber með sér að hann sé helst ætlaður hestamönnum, en ég held að minna hestelskandi einstaklingar, svona eins og ég, hljóti að kíkja hér inn einstaka sinnum.

Á æskuheimilinu var ekki mikið um húsdýr, ein kýr var þó á einhverjum tíma, sem bar nafnið Kusa og einnig folald eða foli sem gekk undir nafninu Jarpur. Jarpur var aldrei taminn og ég held að hann hafi frekar verið einhverskonar dekurdýr á heimilinu og færði sig æ meir upp á skaftið. Gekk svo langt, þegar hann kom að útidyrunum opnum, að hann fór inn og skellti sér í búrið til að ná sér í brauðbita. Þar kom að hann hverf af heimilinu og ég veit ekkert um afdrif hans þaðan í frá.

Í æsku fór einusinni á hestabak, svo ég muni. Þá fór ekki betur en svo að hrossið bakkaði og hreyfði sig ekki eftir það. Síðar prófaði ég nokkrum sinnum en tókst aldrei að uppgötva þá töfra sem hestamennsku eiga að fylgja.

Tengsl mín við Skeið og Gnúpverjahrepp.

Ætli sé ekki rétt að ég byrji á að gera aðeins grein fyrir mér, en til þess að tryggja jákvæðar viðtökur vil ég geta þess, að á Skeiðum og í Gnúpverjahreppi eiga ættmenn mín nokkur spor, þó ég sjálfur eigi hér fátt nema ferðir niður og upp Skeiðin, einar 80 á ári, sem er nú alveg slatti.

Þannig var, að langa lang afi minn og amma, afi og amma afa míns, sem var Páll Guðmundsson á Baugsstöðum, þau Ásmundur Benidiktsson og Sigurlaug Jónsdóttir, fluttu búferlum frá Stóru Völlum í Bárðardal árið 1870 og settu sig niður að Haga í Gnúpverjahreppi. Eitt af því, sem Ásmundur var einna kunnastur fyrir út í frá, voru langferðir hans í ýmsum erindum, helst fyrir aðra og hann fór um 40 ferðir yfir Sprengisand.

Líf þessarar fjölskyldu í Haga var víst enginn dans á rósum en þar bjuggu þau í tæp tuttugu ár. Þá tók Vigfús sonur þeirra við búinu, en hann var afi Árna Kjartanssonar bónda á Seli í Grímsnesi.

Þau Ásmundur og Sigurlaug fluttu svo með honum að Fjalli á Skeiðum 1892, þaðan sex árum seinna, til annars sonar, Ásgeirs, að Árhrauni, þar sem þau voru í 11 ár, eða þangað til fjölskyldan fluttist að Kálfholtshjáleigu í Ásahreppi. Þar létust þau Ásmundur og Sigurlaug með skömmu millibili (1915 og 1916) og voru jarðsett að Stóranúpi, að eigin ósk. 

(viðbót)
Ásgeir Ásmundsson
Úr minningargrein um Ásgeir Ásmundsson frá 1947Ásgeir og Sigríður Gísladóttir frá Arakoti, kona hans hættu kotbúskap sínum í Kálfholthjáleigu 1923, fóru síðan í eitt ár í húsmennsku að Helgastöðum í Biskupstungum, þaðan fóru þau niður í Flóa og bjuggu í nokkur á í Rútsstaða Norðurkoti í Gaulverjabæjarhreppi. Með bilandi heilsu og féleysi urðu þau að leita á náðir annarra. Hjóni í Sandlækjarkoti, Eiríkur Jónsson og Kristín Ingimundardóttir tóku við þeim, vegna gamals vinfengis. Sigríður lést 1946 en Ásgeir 1947.

Tvö börn Ásmundar og Sigurlaugar til viðbótar áttu heimili á Skeiðum. Það voru þau Ingibjörg, sem var gift Birni Guðmundssyni í Vesturkoti og Benedikt, sem var til heimilis þar hjá systur sinni, en „var vitfirrtur frá unga aldri“ eins og Valdimar Briem segir í þeirri frásögn af þessari fjölskyldu sem ég byggi þetta á.

(Viðbót)
Þessi frásögn er til og skráð af Hermanni Jónassyni skólastjóra í Sunnudagsblaðinu 28. maí 1961:
SKÖMMU fyrir 1870 brjálaðist unglingspiltur á Stóruvöllum í Bárðardal. Hann hét Benedikt Ásmundsson. í fyrstu hafði hann veikina öðru hvoru, og fylgdi æði veikindaköstunum. Síðar varð veikin stöðug og æðið minnkaði. Einu sinni var það í harðindatíð að vetrarlagi að Skjálf andafljót,. er rennur niður undan Stóruvöllum, féll í nálægt 12 metra breiðum ál millum sterkra höfuðísa. Þá var það, að Benedikt slapp á burtu í einu æðiskastinu. — Hann hljóp beint niður að fljótinu. Efldir karlmenn eltu hann þegar, en þeir höfðu ekkert við honum á hlaupi. Þá er að álnum kom, stökk Benedikt óðar út í hann. — Fljótt bar hann yfir. Var sem hann væði í óstæðu vatninu, og hafði hann höfuð og háls upp úr því. Þegar yfir að skörinni kom,. studdi Benedikt höndum á brúnina og strokaði svo sig léltilega upp úr vatninu, að hann kom fyrst á fæturna niður á ísinn. Állinn var langt yfir að vera stæður á dýpt, og allstrangur. Frá næsta bæ á móti sást fol ferða Benedikts og varð 'honum náð þaðan.

Ásmundur og Sigurlaug áttu þrjú börn til viðbótar, sem komust til manns, tvo syni, Ágúst og Halldór, sem fluttu til Vesturheims.

(Viðbót)
Frásögn af Ágúst Ásmundssyni í Lögbergi 9. júní, 1955:
Ágúst Ásmundsson
Þann 8. desember 1954 andaðist Ágúst Ásmundsson að heimili sínu í Red Deer, Alberta. Ágúst var fæddur 25. ágúst 1871 að Haga í Gnúpverjahrappi í Árnessýslu, sonur Ásmundar Benediktssonar og konu hans Sigurlaugar. Systkini Ágústs voru Ásgeir, Vigfús, Halldór og Ingibjörg. Halldór kom til Vesturheims og bjó í Calgary, nú dáinn fyrir mörgum árum. Þau voru náskyld þeim bræðrum, Gísla Dalman, Jóni Jónssyni og Benedikt Bardal frá Möðrudal. Til Vesturheims kom Ágúst árið 1900 og var samferða Breiðuvíkur-fólkinu. — Hann dvaldist um nokkurn tíma í Argyle-byggð, en fluttist þaðan til Albertafylkis og bjó þar framvegis. Árið 1903 kvæntist hann Sigurlaugu Önnu Jónsdóttur frá Clavertshúsum í Garði í Gullbrigusýslu. Bjuggu þau fyrst í Oktotoks, Alberta, en árið 1905 fluttu þau vestur fyrir Markerville og tóku sér þar heimilisréttarland. Árið 1907 fluttu þau til Red Deer og þar var heimili þeirra upp frá því. Ágúst og Sigurlaug eignuðust þrjú börn. Jón Haraldur, kvæntur konu af norskum ættum, dó 1942 frá konu og fjórum börnum, öllum í ómegð. Anna Sigurlaug, gift H. Goodaere, eiga þau tvö börn. Býr hún á næstu jörð við foreldra sína og hefur verið þeirra önnur hönd. Óskar Ingólfur býr í California, kvæntur hérlendri konu, eiga þau tvö börn. Óskar var um tímabil mikill "Hockey "-kappi. Ágúst hafði marga þá eiginleika til að bera, er gjörðu hann sérstaklega góðan ferðafélaga á lífsleiðinni. Hann var framúrskarandi góður heimilisfaðir, með sinni glaðværu og staðföstu lund. Glöggt dæmi um þessa eiginleika hans er það hvernig hann reyndist tengdadóttur sinni, en hann vitjaði hennar á hverjum morgni til að sjá, hvernig henni og börnunum liði og studdi hana á ýmsan hátt. Vart mun að finna iðjusamari mann. Á yngri árum sínum ruddi hann heila flaka af skógi með exi sinni, og hvaða vinna sem var sýndist leikur í hans höndum. Hann lagði stund á steinsteypu síðustu árin, og var það hans líf og yndi. 75 ára að aldri byggði hann sér heimili úr steinsteypublökkum, sem hann hafði búið til í frístundum sínum. Hann gegndi störfum, sem banka-"janitor' í 26 ár. Húsið er snildarlega gjört, með öllum nýtízku þægindum og mun standa sem minnisvarði um langan aldur. Heimili þeirra „Laugu og Gústa" hefur ætíð verið annálað fyrir gestrisni og góðvild til vegfarenda á þessum slóðum, og voru þau bæði samhent í því. Ágúst var ungur í anda fram til síðustu stundar. Bókhneigður var hann og unni öllu því, sem fagurt var á íslandi. Og þó að honum gæfist aldrei tækifæri til að sjá ættjörð sína aftur, þá dvaldi þó hugurinn oft á þeim slóðum, sérstaklega síðustu árin. Útför hans fór fram frá Brown and Johnson Chapel í Red Deer-borg, og var fjöldi af vinum viðstaddir og mikið barst af fögrum blómum. Rev. Uiller og Rev. Guebert fluttu kveðjuorðin. Eru þeir báðir lúterskir kirkjuprestar. Þeim söfnuði tilheyrðu þau hjónin og studdu hann af ráði og dáð. Ágúst var lagður til hinztu hvíldar í Red Deer grafreit.
(viðbót) Sumarið 2017 kom hér barnabarn Ágústs Ásmundssonar til að leita upprunans og það kom í minn hlut að taka á móti honum og samferðafólki og veita þeim leiðsögn um slóðir langafa hans og langömmu. Við fórum meðal annars að Stóra Núpi til að leita uppi leiði þeirra, en þau fundust ekki.
Ég skrifaði um þessa heimsókn undir heitinu Jón frændi 

(Viðbót) 
Frásögn af Halldóri Ásmundssyni í Heimskringlu 6. janúar 1932:
Þann 26. nóvember s.l. lézt Halldór Ásmundsson að heimili sínu í Calgary. Hann var fæddur 9. júní 1873 í Haga í Gnúpverjahreppi í Árnessýslu á Íslandi. Foreldrar hans voru Ásmundur Benediktsson frá Stóruvöllum í Bárðardal í Þingeyjarsýslu og kona hans Sigurlaug Jónsdóttir, ættuð úr Fnjóskadal. Fluttist Ásmundur búferlum suður í Árnessýslu með fjölskyldu sína og búslóð og fór Sprengisand, og þótti það vel gert, eins og ferðalög voru erfið í þá daga. Halldór fluttist vestur um haf árið 1901. Var fyrst í Norður Dakota í eitt ár, og fór svo þaðan til Albertafylkis í Canada. Tók heimilisréttarland norðvestur af Markerville pósthúsi, vann sér inn eignarrétt á því, en skifti því svo fyrir fasteignir í Red Deer og settist þar að árið 1905. Til Calgary fluttist hann 1919 og hefir búið þar síðan.

Árið 1904 kvæntist hann ungfrú Kristínu Þorvaldsdóttur frá Skaftholti í Gnúpverjahreppi. Var Þorvaldur, faðir hennar sonur séra Jóns Eiríkssonar frá Stóranúpi, faðir hinna mörgu Stóranúpssystkina, sem mikill ættleggur er frá kominn. — Halldór og kona hans eignuðust tvo syni, sem nú eru fulltíða menn; Þorvald Pál, sem nú vinnur hjá Canadian Bank of Commerce, og Eggert, skrifstofuþjón hjá Canada Kyrrahafs járnbrautarfélaginu. Lifandi systkini Halldórs sál. eru: þrír bræður, Ágúst í Red Deer, Alta., og Vigfús og Ásgeir og ein systir, Ingibjörg, öll á Íslandi.

Dótturina Guðnýju, áttu þau Ásmundur og Sigurlaug einnig, en hún giftist Guðmundi Jónssyni frá Minna Núpi og þau bjuggu á Baugsstöðum og voru foreldrar afa míns og nafna.

Móðir mín var sem sagt Guðný Pálsdóttir frá Baugsstöðum í Stokkseyrarhreppi, en tenging mín við Skeiðin og Gnúpverjahrepp er þannig, að ég hef ekki ástæðu til að draga hana í efa.

Bjarni í Fjalli, sem ber ábyrgð á að ég er hér kominn, er ekki skyldur mér neitt sérstaklega mikið þó báðir séum af Bergsætt, en það sem er, er í gegnum ömmu mína, Elínu Jóhannsdóttur á Baugsstöðum, en ekki afa minn Pál Guðmundsson.

Þetta þýðir augljóslega að tenging mín við Fjall er meiri en meira að segja ég hafði lengi ímyndað mér. Það er nánast ættaróðal.

Ég treysti mér engan veginn til að tengja föður minn Skúla Magnússon, við Skeiðin. Hann fæddist á Rangárlóni í Jökuldalsheiði haustið eftir frostaveturinn mikla. Hann fór ungur í fóstur að Hallormsstað til Sigrúnar og Benedikts Blöndal. Þegar sá tími kom, var hann sendur um tvítugt suður að Syðri-Reykjum í Biskupstungum, því ætlunin var að hann skyldi læra garðyrkju og koma síðan austur aftur að loknu námi í garðyrkjuskólanum loknu. Af því varð ekki og yrði of langt mál að fjalla um það allt saman. Það sem sennilega gerði útslagið var að hér fyrir sunnan endurnýjuðust kynni hans og heimasætunnar frá Baugsstöðum, en hún hafði einmitt verið í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað.

Nú, síðan gerðist það, eins og gerist harla víða. Þau leituðu sér að hreiðri til að ala upp ungana sína í og fundu það í Laugarási. Þar átti bankinn land sem kallaðist Lemmingsland. Þar var íbúðarhús og þrjú rúmlega 100 ferm gróðurhús. Fyrri ábúendur voru dönsk hjón, Börge og Ketty Lemming. Þau höfðu komið þarna 1941 og reist þessa fyrstu garðyrkjustöð í Laugarási.

Já, foreldrar mínir settust að í Lemmingslandi í 60 ferm eldhúslausu íbúðarhúsi, en fyrri eigendur elduðu allan mat í hverunum. Þetta var vorið 1946.
Móðir mín taldi ótækt að búa á bæ sem héti Lemmingsland, svo úr varð á endanum að þetta garðyrkjubýli þeirra fékk nafnið Hveratún.
Svo lifðu þau þarna bæði til æviloka, hún til 1992 og hann til 2014. Börnin urðu fimm og eitt þeirra tók svo við – svona eins og gengur og gerist.
Ég tók ekki við, þó svo ég væri elsti sonurinn, heldur fór aðrar leiðir, sem urðu til þess að ég eyddi ævinni í að uppfræða og ala upp börn og ungmenni, síðustu rúm 30 ár starfsævinnar í Menntaskólanum að Laugarvatni.

Það er eiginlega frekar óvenjulegt, að af fimm systkinum, búa fjögur enn í Laugarási. Þetta getur ekki þýtt nema annað af tvennu: að Laugarás sé mikill dásemdarstaður, eða þá að við systkinin séum eitthvað undarleg. Ég held auðvitað hinu fyrrnefnda fram, þó ýmsir geti orðið til þess, að að halda því fram að það sanni einmitt hið síðarnefnda.

Látum það liggja milli hluta.

Ég er búinn að eiga sömu konuna í rúm 40 ár, Dröfn Þorvaldsdóttur og við eigum 4 börn, sem eru úti um hvippinn og hvappinn, eins og gerist nú til dags.

Ég reikna nú með að þessi umfjöllun mín um sjálfan mig og ættimenni sé orðin í lengra lagi og við flestar aðrar aðstæður væri ég löngu búinn að missa áheyrendur í spjall eða ofan í símana sína.

Um uppsveitamenn og hraða þróun

Mögulega er ég einnig búinn að missa talsverðan hluta ykkar, sem þó búið vísast yfir meiri hæfni til einbeitingar en yngri kynslóðir.

Ég er viss um að meðal ykkar eru allmargir sem eiga það til að hverfa ofan í facebook eða twitter samt örugglega færri, en í yngri hópum.
Ef að líkum lætur er ég eitthvað örlitið yngri en þið flest sem hér eruð. Samt man ég nú tímana tvenna eða þrenna og velti nokkuð fyrir mér þeim ótrúlegu breytingum sem við höfum gengið í gegnum.

Ég man þegar fyrsti alþýðuflokksmaðurinn flutti í Laugarás, því hann var litinn hornauga. Uppsveitamenn hafa ekki séð mikla ástæðu til að þróa stjórnmálaskoðanir sínar verulega síðustu áratugina, en ég held að þeir séu hljóðari um þær en var þegar inn á heimilin kom annaðhvort Tíminn eða Mogginn. Þegar fólk gerði innkaupin annaðhvort í KÁ eða Höfn. Þar réði verðsamanburður harla litlu. Þegar bílarnir voru fylltir hjá Essó eða Skeljungi. Frekar var bíllinn látinn verða eldsneytislaus, en að menn færu að versla við andstæðinginn.

Þetta voru þeir tímar þegar flest var klipptara og skornara en nú er.

Ég er viss um að mörg okkar sakna þessa einfaldleika. Þá var utanaðkomandi áreiti á okkur bara frá einni rás Ríkisútvarpsins og frá dagblaðinu sem við fengum mögulega tvisvar til þrisvar í viku – þetta var dagblaðið sem við vorum áskrifendur að vegna þess að við þurftum að haldast staðföst í trúnni, annaðhvort á samvinnuhugsjónina eða einstaklingsfrelsið.

Svo varð lífið smám saman flóknara. Sjónvarpið tók til starfa, sem betur fer þannig, að það var frí frá því á fimmtudögum, sem gaf færi á að skella sér á framsóknarvist, og allan júlímánuð þannig að fólk gat áfram notið kvöldblíðunnar lognværu, sem kyssir hvern reit á millli þess sem það skellti sér í ballfötin og á Mánaböll, eða Steina spil með pyttluna í buxnastrengnum.

Síðan þá hefur þetta allt stefnt í eina átt. Eftir að kalda stríðinu lauk vitum við varla hvorumegin hryggjar við eigum að vera.
Hugsjónir breyttust í blinda trú á eitthvað sem svo reynist engin innistæða vera fyrir. Þá spretta nýir stjórnmálaflokkar fram eins og gorkúlur á haug, utan um eitt til tvö málefni hver. Hugmyndir okkar um lífið og tilveruna hætta að snúast um lífssýn eða hugsjónir, en fara þess í stað að taka mið af því hvort stjórnmálaleiðtogi fellir tár í sjónvarpsumræðum.

Stærstur hluti tækniþróunar sem hefur átt sér stað, hefur beinst að því að létta því sem var er líkamlega erfitt eða leiðinlegt af mannfólkinu. Allt sem hægt var að vélvæða var vélvætt og eftir sátum við og söfnuðum ístru.
Það var viðskiptatækifæri.
Matseld fluttist æ meir inní verksmiðjur og fæðan birtist síðan undir vöruheitum í búðunum eða á skyndibitastöðunum – allt tilbúið – ekkert að elda, bara hita upp! Það spruttu upp líkamsræktarstöðvar til að gefa okkur færi á að ná af okkur spikinu.

Tilhlökkun þurfti að fjarlægja eins og kostur var og þar með er það orðið búið mál að við þurfum að bíða þar til í næstu viku eftir framhaldinu af Ófærð eða Barnaby. Maður bara smellir hér og þar og næsti þáttur er kominn á skjáinn áður en við er litið. Kostar auðvitað eitthvað, en „so vott“?
Ég á eftir að nefna lífsstílsiðnaðinn til að taka á hreyfingarleysinu, óholla mataræðinu, þunglyndinu og kvíðanum, en ég vil ekki ofgera ykkur.

Það má margt fleira segja um þessar þjóðfélagsbreytingar allar saman.

Margar þeirra hafa verið og eru til góðs. Hvernig má líka annað vera? En stundum hendir það mig að ég fyllist efa um framtíð mannkyns. Ég er nú líka svoddan svartsýnismaður á ýmsum sviðum.

Til fortíðar

Ég finn sjálfan mig vera farinn að leita æ meir til fortíðarinnar og sennilega hefur einn þátturinn í þeirra leit minni verið þegar ég gekk til liðs við Félag eldri borgara í Biskupstungum, fljótlega eftir að ég hætti ævistarfinu fyrir tveim árum. Þar komst ég fljótlega að því, að á þeim bæ, eða í þeim kima, er flest er eins og það var, talsverður óumbreytanleiki. Þar er enn (eða síðast þegar ég vissi) boðað til funda með úthringingum á einhverja fyrirfram ákveðna línu. Formaðurinn hringir í einhverja sem síðan hringja áfram og svo koll af kolli.
Ég prófaði að stofna metnaðarfullan hóp á Facebook undir heitinu Sextíu plús í Biskupstungum, en hann hefur aldrei komist á flug.

Ég er líklega enn of ungur til að passa alveg í þennan hóp og það finnst mér ég hafa uppgötvað, að það eru í stórum dráttum ákveðin skil að eiga sér stað þessi árin, milli þeirra sem hafa ákveðið að ganga ekki inn í þennan heim tölvutækninnar og hinna sem nota tölvur á hverjum degi. Tölvutæknin er ekki að fara neitt. Hún verður bara þróaðri með hverjum mánuðinum sem líður, og ég er að komast á þann stað að segja við sjálfan mig, að nú sé ég búinn að læra nóg á þessu sviði.
Ég stend mig stundum að því að ákveða að læra ekki, sem í sjálfu sér er frekar mikil uppgjöf, því maðurinn verður aldrei svo gamall að hann getir ekki bætt við sig þekkingu.

Um þorrablót
Það er stundum talað um að uppsveitirnar ættu að sameinast í eitt sveitarfélag, vegna þess að atvinnulífið hér, menningin og mannlífið sé svo einsleitt.
Þegar Bjarni fræddi mig um þorrablót eldri borgara hér í sveit, uppgötvaði ég að svo er bara hreint ekki.
Í Tungunum eru þorrablót í afar föstum skorðum.. Aðalþorrablótið skal haldið á bóndadag. Þar kemur hver með
sitt og enn eru til á einhverjum bæjum trog sem Ingólfur á Iðu smíðaði forðum daga af listfengi. Einhverjir koma enn með þorramatinn sinn í trogum, sem dúkur hefur verið hnýttur utan um, með tiletknum hætti. Þessi hópur er heldur farinn að þynnast.
Æ stærri hluti þorrablótsgestanna kemur með þetta í plastpokum, nú eða á þessum plastbannstímum, í tuskupokum. Svo eru skemmtiatriði, sem sóknirnar fjórar skiptast á að sjá um.

Síðan gerist það, helgina eftir, að Félag eldri borgara í Biskupstungum, heldur sitt þorrablót. Í þessu félagi er auðvitað fólkið sem allt sitt líf barðist fyrir trogaþorrablótunum á sínum tíma. Nú nennir það ekki lengur að standa í svoleiðis veseni. Þorrahlaðborð skal það vera.

Sú hefð, að skemmtiatriðin frá aðalblótinu eru endurflutt hjá þeim eldri, er að verða æ fastari í sessi, sem verður að teljast afar jákvætt að flestu leyti.

Það má ekki skilja mig svo að ég amist við trogaþorrablótum. Mér finnst þetta fyrirkomulag að mörgu leyti skemmtilegt og sérstakt. Það er bara að verða svo, að eldra fólk sækir þorrablót í æ minni mæli. Blótin eru að verða, eins og stundum er haft á orði, „unglingaskemmtanir“, sem er vísast eðlilegt, þar sem því eldra sem fólk verður, því minni verður þörf þess fyrir útstáelsi og djamm.

Látum þetta gott heita.

Um skráningu sögu Laugaráss
Fyrir tæpum 10 árum kom mér í hug að ég ætti kannski að byrja að taka saman eitthvað um Laugarás og þá aðallega fólkið sem hefur byggt þann stað. Mér fannst að saga byggðarinnar væri ekki orðin það umfangsmikil að eitthvert stórmál væri að ná utan um hana.

Það lá þá þegar fyrir heilmikið efni í merkisritinu Sunnlenskar byggðir, sem Búnaðarsamband Suðurlands gaf út á 9. áratugnum og sem á mínu heimili gengur undir heitinu "Glæpamannatalið".
Þetta rit varð síðan útgangspunktur minn og ég lagði þaðan í þá vegferð sem ég er á ennþá, og hef hreint ekki séð fyrir endann á.

Ég hef nú tekið saman efni um íbúa í Laugarási fram til aldamóta, skráð sögu sláturhússins sem starfaði frá 1964-88 og barnaheimilis Rauða krossins sem var starfrækt frá 1952-1971. Þá er ég búinn að taka saman aðdragandann að byggingu brúarinnar sem var tekin í notkun í lok árs 1957.

Þessu efni hef ég komið fyrir á vefsíðu sem ber heitið laugaras.is og þangað ætla ég einnig að setja það sem enn er ógert, sem reynist vera heilmikið. Þar á meðal er saga læknishéraðsins og þar með þess samstarfs sem uppsveitahrepparnir hafa átt með sér í gegnum eignarhald sitt á jörðinni Laugarási.

Þar hef ég nú rekist á vegg, allavega í bili.

Það var nefnilega þannig, að eftir að hrepparinir eignuðust jörðina, mynduðu oddvitar framkvæmdanefnd sem fjallaði um málefni hennar og læknishéraðsins. Það verður að reikna með að þeir hafi haldið fundargerðir. Þær liggja hinsvegar ekki á lausu fyrr en frá árinu 1979.

Það væri mikill skaði ef ekki tekst að draga þær fram í dagsljósið fundargerðabækur sem ná yfir árin frá 1922-1979, eða á sjötta tug ára.

Biskupstungnahreppur hefur verið nokkuð duglegur að koma gjörðabókum sínum á héraðsskjalasafnið og eftir að hafa þrælað mér í gegnum þær, hef ég komist að því að málefni sem tengjast læknishéraðinu eða Laugarási hafa ekki verið umfjöllunarefni hreppsnefnda svo heitið geti. Það er þessvegna því mikilvægara að finna gjörðabækur oddvitanefndarinnar.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...