Sýnir færslur með efnisorðinu útsýnispallur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu útsýnispallur. Sýna allar færslur

02 september, 2019

Hugmynd, teikning, veruleiki.

Í janúar á síðasta ári, fyrir um 20 mánuðum. gerði ég það að gamni mínu að teikna upp svæði við brúarsporðinn þar sem ætlunin væri að útbúa bílaplan og koma upp söguskiltum. Nú standa þessi fínu skilti þarna á rúmgóðu plani. Skiltin meira að segja á sama stað og teikningin sýnir.

Auðvitað hugsa ég með mér, að ég hljóti að vera einhverskonar snillingur, en það er nú bara til heimabrúks og þá er undir hælinn lagt hvort nokkur tekur undir nema minn eigin hugarheimur, sem er mér í rauninni alveg nóg. Það eru ef til vill bara örlög mín að upplifa einn með sjálfum mér þá ljúfu tilfinningu að finnast ég vera snillingur. 

Hvað um það. Hugmyndin að söguskiltunum spratt út úr höfðum Iðumanna, en það samheiti um fjölskylduna á Iðu, í víðum skilningi, hefur verið notað svo lengi sem ég man eftir mér. Í ljósi þjóðfélagsbreytinga, þar sem konur virðast ekki lengur vera menn, má reikna með að framvegis verði alltaf talað um Iðufólkið og síðan vísað til þess sem ÞAU, þó svo málfræðin segi okkur að nota ÞAÐ um fólk. Allar þessar krókaleiðir í þessum skrifum hjá mér, breyta því ekki, að Iðumenn eiga þessa ágætu hugmynd skuldlausa og sem nú er orðin að veruleika, með minni aðkomu og sannarlega aðkomu og stuðningi talsvert margra annarra.


Söguskiltin eru einskonar virðingarvottur, þar sem þess er freistað að halda til haga tímanum sem er liðinn og minna okkur á það, að við erum ekki neitt, nema vegna þess sem var. Það veitir sannarlega ekki af því á tímum þegar mannskepnan glatar í æ rikari mæli tengslum við uppruna sinn í einhverju hvirfilæði. (Orð sem verður til í ljósi bylsins sem nú ógnar vinunum í vestri).

Hvað svo sem má segja um þetta allt saman, þá er það nú í rauninni ekki það eina sem ég vildi sagt hafa, hér og nú.

Efri myndina birti ég í janúar á síðasta ári. Þar fylgdi inngangur um fyrirhuguð sögu- eða upplýsingaskilti, en svo hélt ég áfram svona:
Þá rak ég augun í gamla vatnsveitukofann. Þar væri, að lágmarki hægt að koma upp hverfispöbb 📷 :) (sem örugglega myndi mælast vel fyrir), galleríi, safni af einhverju tagi, nú eða bara einhverju skemmtilegu. Svo er hægt að hugsa kofann (og vatnstankinn á bakvið sem neðri hæð veitingastaðar, með einstaklega fögru útsýni yfir ána og brúna og fjallið. Efst á hólnum gæti verið útisvæði/pallur sem væri á einstökum stað. Það má láta sig dreyma, en það þarf að útbúa bílastæði. Það er allavega ljóst.
Vatnsveitukofinn stendur þarna enn og framtíð hans er jafn óljós og fyrr. Sannarlega leyfi ég mér að ítreka það sem ég þarna sagði, en finnst rétt að geta þess jafnframt, að ég hyggst ekki verða þátttakandi í því að byggja þarna upp hverfispöbb, gallerí, eða veitingahús með útsýnispalli. Mér finnst samt hugmyndin vera góð, og verði henni hrint í framkvæmd, mun ég sannarlega minna á hver átti hana, skella mér á pöbbinn, njóta góðrar máltíðar og setjast síðan út á útsýnispallinn, umvafinn logninu í Laugarási um leið og ég virði fyrir mér eina ferðina enn fegurðina sem við blasir..

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...