Sýnir færslur með efnisorðinu bóndadagur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu bóndadagur. Sýna allar færslur

22 janúar, 2021

Mjakast, enda kominn bóndadagur

Ég tengi þann tíma ársins, sem nú er að verða hálfnaður, við hrein leiðindi. Þetta er hreint úr sagt leiðinlegsti tími hvers árs - hefur alltaf verið það og verður líklega áfram, að óbreyttu. Þar hafið þið það. Það er myrkur og sólin mjakast alltof hægt ofar á festinguna, daginn lengir alltof hægt, ófærð, hálka, stormar, iðulaus stórhríð, skítkalt - fátt, sem sagt, sem er til þess fallið að létta á drunganum. Ekki bætir það nú úr skák, um þessar mundir, að kófið kýlir okkur niður og flest bendir til að enn þurfum við að bíða mánuðum saman eftir sprautum með bóluefni. Ó, vei, ó, vei!
 Janúar og febrúar, eru aldeilis ekki uppáhalds mánuðir mínur, ó, nei.


Ég held að ég beri nú samt í mér genin sem við flest, sem þetta land byggjum, skörtum, og sem hafa gert okkur kleift að lifa af þessa myrkustu mánuði ársins, í aldir. Þessi fínu gen valda því að  við finnum alltaf eitthvað til að gleðja okkur og hjálpa til  við að lýsa upp þennan myrka tíma.  Ég ætla hér að nefna nokkur atriði, sem hafa orðið þess valdandi að hinir myrku mánuðir eru bara glettilega vel til þess fallnir að létta lund, þrátt fyrir að maður geti átt erfitt með að koma auga á það.


1. Handboltamánuðurinn. 
Sem betur fer hefur okkur tekist flest ár, að eiga handknattleikslið sem fulltrúa okkar í Evrópu- eða heimsmeistarakeppnum, nanast á hverju ári. Þessi janúar er engin undantekning, þó vissulega gæti gengið betur - reyndar ekki útséð um að svo verði. Sérstaklega er ánægjulegt, að þarna eru margir ungir gaurar, sem eiga eftir að gleðja okkur í mörg ár.

2. Trumpleysi. 
Mér finnst eins og við séum að stíga út úr einhverjum dimmasta tíma í sögu mannkyns. Það er eins og sprengja hafi verið gerð óvirk á síðustu stundu, þegar skrípimennið vestan hafs varð að láta í minni pokann, fyrir heldur skárri náunga, sem maður þekkir svo sem hreint ekkert til og veit ekki hvort lifir árið eða hvort breytir nokkru, eða gerir eitthvað jákvætt. Samt er tilkoma hans eins og ferskur og hlýr vorblær sem er byrjaður að bræða jökulkaldan lygahramm ofan af okkur, með loforði um að brátt sjáum við til sólar. Eftir situr samt efi um að brotthvarf trúðsins breyti nokkru, þegar upp verður staðið.


3. Nýtt nágrenni.
 
Það er ekki sjálfgefið, að þegar maður tekur svo afdrifaríkt skref, sem við fD höfum gert, að flytja úr sveitinni í fjölbýlishús á Selfossi, að það fari sérlega vel. Það hefur farið vel til þessa og það er ekki síst tvennu að þakka: 1) íbúðin fer afar vel með okkur - hentar þörfum okkar hreint ágætlega og 2) nágrannar okkar eru nánast undantekningarlaust, hið ágætasta fólk - flest meira að segja hreint indælt. 
Við eigum enn eftir að upplifa drauminn um að sitja undir hitalampa í útistofunni, þegar úti geysar iðulaus stórhrið með tilheyrandi samgöngutruflunum, en það er enn von.


4. Tiltölulegt þakklæti. 
Það má margt segja um þessa þjóð, en það má hún eiga, að í þessum kófstæðum (kófaðstæðum) er hún sennilega að verða búin að læra það, að það er best, þegar upp er staðið, að hlýða sóttvarnayfirvöldum, því fram til þessa hafa þau metið stöðu og horfur rétt. Ég held að sé óhætt að þakka okkur sem þjóð, fyrir að okkur virðist hafa tekist, eftir nokkrar atlögur, að skilja hvað þarf til, til þessi að kveða niður þennan vágest sem hefur herjað á okkur í nánast heilt ár. Ég, í það minnsta, rölti inn í vorið í þeirri trú, að samhliða því muni kófið smám saman hverfa og sólin ná í gegn á ný.


5. Morgungöngur
Það er þægileg tilfinning, að hefja hvern dag, árla, með því að ganga tæpa fimm kílómetra með selfysskum, vel miðaldra körlum. Þetta er dálítið sérstakt fyrirbæri, þessar göngur, sem lýkur yfirleitt með  einskonar Mullersæfingum undir stjórn þess elsta, sem er 87 ára. Ég get alltaf vonað að þannig verði ástandið á mér eftir tuttugu ár. 
Eftir morgungönguna þarf maður ekkert að spá í hvort eða hvenær maður ætti að koma sér út að viðra sig þann daginn.   Gallinn er aðallega sá, að á þessum tíma hef ég átt það til að sofa þessar morgungöngur af mér, ansi oft, en það stendur vonandi til bóta.


6. Flest er þá þrennt er.
Um áramótin fluttu systir og mágur frá Laugarási, sem þýðir að nú erum Hveratúnsfólk að verða komin í stöðu til að gera okkur gildandi hér í höfuðstaðnum. Það fer ekki á milli mála, að Laugarás verður alltaf okkar staður, en við getum fagnað því að hafa tekist að gera þær breytingar sem gera þurfti. 
Ég á nú eftir að sjá bræður okkar tvo, sem enn gista Laugarás, hverfa þaðan á næstunni, en auðvitað veit maður aldrei. Þetta eru hálfgerðir unglingar enn.

----------------------------------

Þannig er það. Niðurstaða mín er sú, að þessir leiðindamánuðir tveir, eru bara ágætir, svona þegar maður fer að rýna betur í þá. Þeir eru tími upphafs að svo mörgu leyti, og tími vonar um að framundan sé vor. 
Nú er Þorrinn genginn í garð og við selfysskt Hveratúnsfólk, mun taka á honum eins og við hæfi er og það verður eitthvað..

----------------------------------
Myndirnar tók ég í Kvistholti á fyrstu mánuðum síðasta árs.  Ekki get ég neitað því að ég sakna þessara fiðruðu vina minna, en myndirnar á ég og get rifjað upp nágrennið við þá.



Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...