Sýnir færslur með efnisorðinu 60 ára afmæli. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu 60 ára afmæli. Sýna allar færslur

10 desember, 2017

Að opna brú

MYNDIR FRÁ FORMLEGRI OPNUN HVÍTÁRBRÚAR OG TENDRUN LJÓSA Á NÝRRI LJÓSAKEÐJU.

Ég held að ég sé að komast niður á jörðina eftir afskaplega skemmtilegan dag í gær. Það spratt fram í kolli hugmynd einhventíma í sumar, vissulega frekar óútfærð og það var vandséð hvernig unnt yrði að útfæra hana.
Þessi hugmund átti samt aðdraganda sem nær talsvert fram yfir síðustu jól, þegar Jakob Narfi Hjaltason hafði forgöngu um að kveikt yrði á brúarljósunum á Hvítárbrúnni, eins og gert hafði verið frá 1998.
Hann vann að þessu máli þegar ljóst var orðið að sveitarfélagið drægi sig út úr því.  Fjöldi fólks hér í kringum brúna tók undir að mikilvægt væri að tryggja að ljósakeðja væri á brúarstrengjunum í svartasta skammdeginu, bæði til fegurðarauka og vegna umferðaröryggis.  Sjálfsprottin söfnun fór fram og inn á reikning komu á annað hundrað þúsnd krónur. Það var kveikt á keðjunni, en hún var orðin talsvert löskuð, enda búin að hanga uppi allt árið, árum saman. 
Þarna strengdu menn þess heit að fyrir komandi jól skyldi unnið að endurnýjun keðjunnar.
Jakob fór síðan á stað í haust og pantaði nýja keðju á annan væng brúarinnar, en okkur þótti líklegt að unnt yrði að safna fyrir honum, í það minnsta.
Þá fór boltinn að rúlla.
Ég hafði eitthvað farið að taka saman efni um brúna fyrir Litla Bergþór og áttaði mig á að  nú í desember yrðu 60 ár liðin frá því brúin var opnuð fyrir umferð. Guðmundur á Iðu hafði einhverntíma orð á því, að líklega hefði brúin aldrei verið vígð. Þetta fékk ég síðan staðfest hjá Vegagerðinni og úr dagblöðum frá þessum tíma, en þar var bara sagt frá því, að brúin hefði verið opnuð fyrir umferð þann 12. desember.
Upp úr þessu fór að komast talsvert meiri þungi í hugmyndirnar um brúarljósin. Þar kom við sögu hugmyndin frá því í sumar, um að efna til afmælishátíðar. Elinborg á Iðu kom inn í þessa sjálfskipuðu nefnd og það varð úr að við hófum að safna fé svo unnt yrði að kaupa nýja ljósakeðju með sparneytnum perum. Áætlaður kostnaður við þetta verkefni var kr. 700.000. 
Við sömdum texta sem sendur varð á öll sveitarfélög í uppsveitum, öll kvenfélög og Lionsklúbba. Auk þess sóttum við um styrk til Uppbyggingarsjóðs Suðurlands, en hann er á vegum SASS og við höfum fegnið tilkynningu um að þaðan fáum við kr. 300.000 til verkefnisins. Kvenfélag Biskupstungna styrkti ljósakeðjukaupin um 200.000, og Lionsklúbburinn Geysir og Vegagerðin um 100.000. Fjölmargir aðrir, félög, fyrirtæki og einstaklingar, hafa styrkt eða lofað að styrkja þetta verkefni í smáu og stóru.  
Það varð fljótt ljóst og fjármagn vegna nýju keðjunnar yrði tryggt.

Brúarhátíðin
Ég mun síðar greina frá ýmsu því sem gerðist síðan í aðdragandanum að hátíðinni sem við héldum í gær. Þar er margt sem rétt er að halda til haga og mér koma fyrst í huga tvö jákvæð orð: ósérhlífni og jákvæðni, þegar mér verður hugsað til þess fjölda fólks hér í nágrenninu sem lagði sitt af mörkum í stóru og smáu. Það er nefnilega svo, að þó lagt sé af stað með litla hugmynd, þá getur verið snúin sú leið sem lýkur með því að hún raungerist. Ótrúlegustu þættir verða á veginum sem maður áttar sig ekki á í fyrstu, en sem nauðsynlegt er að taka með í reikninginn. Það gekk svo langt að við veltum fyrir okkur hvort ekki væri rétt að hafa slökkvitæki við höndina ef Ásta og Guðmundur skyldu nú kveikja í sér í miðjum gjörningi. Þá veltum við því fyrir okkur hvor mögulega væri rétt að leggja stórum bílum þvert á veginn beggja vegna brúarinnar, ef einhver brjálæðingur skyldi fá þá hugmynd að fremja hryðjuverk.  Sannarlega hugsuðum við margt. 

Gjörningur - formleg opnun - tendrun brúarljósa
Kl. 16.00 í gær lokuðum við á umferð um brúna og bjuggum til eitt stykki hátíð. Þá hafði fólk streymt að og þegar upp var staðið reyndust vera á svæðinu ríflega 200 manns.
Þarna hafði ég það hlutverk að ávarpa gesti og gera lítillega grein fyrir málinu og hvað þarna myndi nú fara fram.  Mér heyrðist á fD að þarna hefði ég gerst heldur langorður, að fólk í kringum hana hefði verið farið að stappa og berja sér af kulda. Mér fannst þetta hinsvegar nauðsynlegur inngangur að því sem á eftir færi.


Af þessu tilefni læt ég punktana mína fylgja hér:
Praktísk mál:
Leyfa börnum að standa fremst eftir því sem við verður komið og þið viljið. Það tengist lítillega því sem við ætlum að gera hér á eftir.
Neyðarakstur - rýma

Þrennskonar tilefni
1. 60 ára afmæli brúarinnar, 12. desember 1957.
2. Kveikja á nýrri ljósakeðju, en við höfum safnað styrkjum til kaupa á henni og notið mikillar velvildar. Við munum gera nánari grein fyrir því síðar.
3. Brúin var aldrei opnuð formlega, eins og jafnan er gert þegar mikil mannvirki eru tekin í notkun. Árstíminn þótti ekki henta til þess arna.
Ætlum að gera það nú, 60 árum síðar með okkar hætti. Betra er seint en aldrei. Aðdragandinn að því öllu saman er orðin ein 70 ár. Árið 1947 fæddist Ásta dóttir Guðnýjar Pálsdóttur og Skúla Magnússonar í Hveratúni í Laugarási. Hún hefur búið í Laugarási síðan, lengst af á Sólveigarstöðum.
Þetta sama ár, 1947 fæddist Guðmundur sonur Margrétar Guðmundsdóttur og Ingólfs Jóhannssonar á Iðu, Vörðufellsmegin við ána. Hann hefur átt heima á Iðu allar götur síðan.
Fyrstu 10 ár ævinnar undu þau brúarlaus hvort á sínum bakkanum.
Haustið 1957 fór Ásta úr Laugarási ásamt frænku sinni með ferjubáti yfir ána til að tína ber í Vörðufelli. Að lokinni tínslunni héldu þær heim, en þá var búið að leggja tvöfalda 8 tommu planka yfir ána. Reynslan af því að verða með þeim fyrstu til að ganga yfir ána brenndi sig í huga Ástu.
Brúin var eiginlega tilbúin, þegar Guðmundur, ásamt félaga sínum var eitt sinn að sniglast við brúarendann Iðumegin. Umferð hafði ekki verið hleypt á brúna og henni lokað með trégrindum. Þar sem þeir voru þarna eitthvað að bjástra kom bifreið aðvífandi. Út stökk maður, fjarlægði hindrunina, stökk aftur upp í bílinn áður en honum var ekið yfir lokaða brúna. Félögunum tveim líkaði þetta illa og komu grindunum kirfilega fyrir á sínum stað aftur.
Þau eru nú hér stödd nú, Ásta, Laugarásmegin og Guðmundur Iðumegin. Þau ætla hér á eftir að opna brúna formlega, á táknrænan hátt, eftir að hún hefur þjónað okkur í 60 ár.
Þau munu einnig taka þátt í athöfninni, Kristján Valur Ingólfsson, með töluðu máli, og Unnur Malín Sigurðardóttir, í tónum.
Gjöriði svo vel.


Mér finnst þetta hreint ekki of langt. Hvað finnst þér?
Þarna tók við gjörningurinn, sem reyndist verða í sem stærstum dráttum eins og upp hafði verið lagt með. Það var NA gola eða kaldi sem varð til þess að ekki gekk fullkomlega að tendra eld á kyndlunum 32 sem hafði verið komið fyrir á brúarhandriðunum. Það gekk samt allt eftir.   Kristján Valur og Unnur Malín léðu atriðinu afar hátíðlegan blæ með sinni framgöngu. Fagfólk fram í fingurgóma.  

Þegar Ásta og Guðmundur höfðu kveikt á öllum kyndlunum og Kristján Valur  lauk sínu máli með tilvitnun í fyrstu Mósebók: "Verði ljós - og það varð ljós" tendraði Jakob ljósin í nýju brúarkeðjunni.

Þessu næst var þeim sem erfa skulu land, börnunum boði að ganga fyrst inn á brúna og umvefja Guðmund og Ástu, sem þau gerðu af röggsemi. 

Þegar gestir höfðu notið ljósakiptanna litla stund yfir ísilögðu stórfljótinu, fengu 32 þeirra kyndla í hendur, sem þeir síðan báru í blysför í Dýragarðinn í Slakka, þar sem hópsins beið ýmislegt gott í kroppinn.  Því mun ég gera betur grein fyrir síðar, en vil sérstaklega geta einstaks velvilja og hjálpsemi þeirra sem reka Slakka. Maður á einhvern veginn ekki alveg von á því í nútímanum að fá afnot af svona aðstöðu bara si svona.  Ofan á það buðu þau gestum kakó, kaffi og smákökur eins og hver vildi.  Gunnur, Matthías og Helgi eru fólk að mínu skapi.

Sannarlega er líka mikilvægt að geta þess, að fjölmargir lögðu til góðgæti af ýmsu tagi í svokallað "Pálínuboð".  
Ég var talsvert stoltur af samfélaginu okkar í Skálholtssókn eftir gærdaginn og held að á reynslunni frá í gær munum við geta byggt eitthvað skemmtilegt til framtíðar.

Meira um einstaka þætti síðar.

  

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...