Sýnir færslur með efnisorðinu íbúð. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu íbúð. Sýna allar færslur

29 mars, 2019

Kúba: næturstaður, snyrtingin og VR

Örin bendir á dyrnar að híbýlum okkar í Havana. Íbúðin er
á annarri hæð í þessum blágræna pastellit.
Havana er jú bara borg, svona í stórum dráttum eins og borgir eru. Umferðin er að vísu talsvert minni en gengur og gerist í höfuðborg okkar og einhvernveginn umtalsvert meiri ró yfir mannlífinu. 

Eftir að við höfðum brunað gegnum neðansjávargöngin og inn í borgina lá leiðin beint í gististaðina sem okkur voru ætlaðir, en þeir voru með svipuðum hætti og verið hafði í Casilda, nema þarna voru þeir allir við sömu gatnamótin í gamla bænum, í húsum sem eitt sinn hýstu betur stæða þegna Kúbu en nú. 
Þar sem rútan var stöðvuð við gatnamót, inni í hverfinu í gamla bænum, voru gestgjafar okkar komnir til að taka á móti hópnum. Þeir tóku töskurnar okkar og fluttu upp í íbúðina, sem var á annarri hæð, í okkar tilfelli (þessara þriggja: ég, fD og fR).
Tilraun til að ná mynd í herberginu.

Þetta var dálítið konungleg upplifun, bæði með því að við þurftum ekki að snerta farangurinn fyrr enn upp í herberginu okkar og vegna þess að í þessari íbúð var afar hátt til lofts. Ég giska á að lofthæðin hafi verið einir 5-6 metrar. Ég freistaði þess að taka myndir sem eiga að sýna þetta.

Í íbúðinni voru þrjú stór herbergi í útleigu og gestgjafinn bjó þar einnig. Því miður talaði hún litla eða enga ensku svo samskipti við hana voru í heilmiklu lágmarki og nánast eins og hún vildi helst ekki vera neitt að reyna að spjalla. Aðbúnaðurinn allur var hinsvegar afskaplega góður, svo því sé nú haldið til haga.

Aðeins meira um herbergin.
Við fengum þarna ágætis herbergi, sem var að vísu gluggalaust, eins og herbergið sem kom í hlut fR. Það var gluggi á þriðja herberginu. Ég verð hinsvegar að segja það að gluggaleysið skipti engu máli, því þarna dvöldum við bara yfir blánóttina í ágætis rúmum. 
Herbergi okkar og fR voru samliggjandi og fljótlega kom í ljós að eitthvað var óvenjulegt við snyrtinguna, en það var salerni og sturta í öllum herbergjunum, sem ekki höfðu verið þar þegar upprunalegir eigendur á 18.eða 19. öld  bjuggu þarna, heldur sett upp þegar íbúðin var tekin í gegn vegna ferðaþjónustunnar.  Það hefur tekið mig nokkra stund að finna réttu orðin til að lýsa samspili snyrtinganna tveggja, okkar fD annarsvegar og fR hinsvegar. 

Setustofa íbúðarinnar og það sést út á svalir.
Kannski má orða það svo, að uppsetning þeirra hafi gert nágrönnunum kleift að skiptast á skoðunum og/eða upplýsingum meðan nauðsynlegum verkum var sinnt á snyrtingunni og þannig mátti spara tíma. Þarna hefðu fD og fR t.d. getað komist að niðurstöðu um veitingastað kvöldsins, þannig að það mál væri þá bara afgreitt þegar þær kæmu síðan út að verkum loknum. 
Á milli snyrtinganna var veggur, bara rétt eins og reikna hefði mátt með, utan það að hann var rétt rúmlega mannhæðar hár, en, eins og áður er getið, var lofthæðin í íbúðinni 5 - 6 metrar. 
Ég neita því ekki, að ég skipulagði nokkuð verkefni mín á snyrtingunni út frá því hvar ég taldi fR vera stadda hverju sinni.
Allt fór þetta vel og ekkert okkar fékk sár á sálina af þessum sökum, í það minnsta.

Dyrnar inn í herbergið okkar fD
Ég vil geta þess hér að ekki hefði ég viljað skipta á híbýlum okkar á Kúbu og einhverju stöðluðu hótelherbergi. 

Við gengum frá okkur í þessum konunglegu híbýlum og svo brunaði hópurinn á veitingastað, þar sem snæddur var ágætur matur og VR* innbyrt af nokkrum krafti. Þriðja konan bættist þarna við sem borðfélagi okkar þriggja. Þar með voru þær orðnar þrjár sem reyndu að hafa stjórn á mér. Undir borðhaldinu varð ég fyrir nokkurri ágjöf, við og við, en stóð það allt af mér af sannri karlmennsku, eins og maður segir.
Þar sem hópurinn yfirgaf veitingastaðinn, belgsaddur, fór rafmagnið af bænum (allavega hluta hans) og raunar ekkert meira um það að segja. Rútan beið okkar og nótt í nýju rúmi eftir heilmikinn dag, tók okkur fagnandi.

*VR merkir Vítamín R, sem er sú skírskotun til þjóðardrykks Kúbverja sem fararstjórinn kenndi okkur að nota. Með tilvísun til yfirstandandi kjaraviðræðna kýs ég að notast við VR.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...