Sýnir færslur með efnisorðinu Laugarás. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Laugarás. Sýna allar færslur

27 júní, 2024

Laugarás: Æ, ég veit ekki....

Heilsugæslustöðin í Laugarási
virðist ekki að hruni komin.
Nú hefur forstjóri HSU skrifað annan pistil á vefinn island.is, til að upplýsa okkur um að heilsugæslan verði flutt að Flúðum næsta vor. Forstjórinn var búinn að þessu og lítil ástæða til að endurtaka það sem þegar hefur verið sagt. Vissulega bætir hann við skrifin ágripi af sögu heilsugæslu í uppsveitum. Þar ýjar hann að því, að þegar Skúli Árnason, fyrsti læknir héraðsins, lét af störfum og það þurfti að finna nýjan stað fyrir læknissetur, að ekki hafi það gengið hnökralaust fyrir sig. Það gekk hreint ekki hnökralaust fyrir sig.  
Hér er reiknað með því, að menn hafi séð fyrir sér, að í uppsveitum yrðu tvö læknishéruð, annað vestan Hvítár og þá líklegast með læknissetri í Grímsnesi og hitt austan árinnar, mögulega með aðsetri í Hrunamannahreppi. (af laugaras.is)

Það var þarna uppi ágreiningur, sem var leystur með því að kaupa jörðina Laugarás í Biskupstungum. Draumurinn um að fá sitt læknissetur, eða heilsugæslu, hefur lifað allar götur síðan austan Hvítár og það lítur út fyrir að hann fái nú að rætast - hver veit?

Forstjórinn fer í framhaldinu í það að reyna að klóra yfir blekkingarnar sem beitt var sem megin rökum fyrir þessum flutningi. Þarna finnst mér mikil lágkúra vera borin fram. Svo heldur hann áfram:

Í ljósi þessa var því mikilvægt að leggja mat á það hvort núverandi staðsetning heilsugæslunnar væri hentug til framtíðar eða hvort vænlegra væri að færa heilsugæsluna í þéttari byggðarkjarna og á sama tíma efla þjónustuna við íbúa uppsveita Suðurlands.

Í ljósi hvers - að það var svo dýrt að gera við húsið í Þorlákshöfn!?  Þá þurfti að meta hvort vænlegra væri að flytja heilsugæslustöðina í Laugarási í "þéttari" byggðakjarna?  Mér er fyrirmunað að skilja þessa röksemdafærslu og þegar forstjórinn klikkir svo út með því að segja: "og á sama tíma efla þjónustuna við íbúa uppsveita Suðurlands"  tekur steininn úr, að mínu mati, að sjálfsögðu. Hvernig ætlar forstjórinn að efla heilsugæslu í uppsveitum með þessu? Á kannski bara að vera svona lítil, "kósý" stöð á Flúðum fyrir Hreppamenn, en aðrir á svæðinu fái að njóta fádæma góðrar þjónustunnar á Selfossi? 

 Ekki meira um pistil forstjórans.

Fyrir þau ykkar sem þetta kunna að lesa, en vita kannski ekki alveg hvernig landið liggur í uppsveitum Árnessýslu, læt ég hér fylgja kort af uppsveitunum sem sýnir leiðirnar sem liggja frá byggðakjörnum í uppsveitunum, í heilsugæsluna í Laugarási.  Vegalengdir frá Laugarvatni, Flúðum og Árnesi, í Laugarás, eru um 25 km. Til annarra byggðakjarna er hún styttri.


Svo læt ég fylgja sama kort, en nú með þeim leiðum sem íbúar í uppsveitum þyrftu að fara frá byggðakjörnum í fyrirhugaða heilsugæslu á Flúðum.


Hér er mynd sem sýnir íbúafjölda í byggðakjörnum í uppsveitunum:



Hér er kort sem sýnir sveitarfélagamörk í uppsveitum.


Grímsnes- og Grafningshreppur á sneið innan Bláskógabyggðar, sem hefur því miður annan lit.

 

Hér er súlurit sem tilgreinir íbúafjölda í sveitarfélögunum 4 þann 1. jan., 2024, en þessar upplýsingar er að finna á vef Hagstofunnar.


Loks er hér súlurit sem tilgreinir íbúafjölda í Hrunamannahreppi, annarsvegar og hinna þriggja sveitarfélaganna hinsvegar.



Mér finnst upplýsingarnar hér fyrir ofan sýna fram á það, að það er enginn faglegur grunnur fyrir því að flytja heilsgæslu frá Laugarási á Flúðir, en það dregur sjálfsagt hver sína ályktun af þeim.

Ég viðurkenni, að ég nenni ekki að fara í meiri spurningaleik við forstjórann, enda mun hann ekki svara mér þannig, að ég sannfærist um að faglega hafi verið staðið að þessu máli. Í mínum huga er það ljóst að það var makkað um þetta bakvið tjöldin og síðan tínd til einhver rök, sem engu vatni virðast halda.

Ég ætla ekki að fara að eyða frekari tíma í þetta mál, en mun auðvitað fylgjast grannt með, hvort fyrirsvarsmenn í uppsveitum, sem lýsa sig andvíga þessum flutningi, ætla að láta þetta ganga yfir, án þess að leita færra leiða til að láta fara fram mat á þeirri málsmeðferð sem hér er um að ræða.

Góða helgi.

(Ég er fæddur og uppalinn í Laugarási og bjó þar síðan í um 40 ár. Nú bý ég á Selfossi. Undanfarin 12 ár hef ég unnið að vefnum um Laugarás: https://www.laugaras.is/ )

Það nýjasta sem ég hef skrifað um þennan fyrirhugaða flutning Heilsugæslunnar er: 

Laugarás: Fagmennska, eða annað  

14. júní, 2024

7. janúar, 2024





14 júní, 2024

Laugarás: Fagmennska, eða annað.


Þann 13. júní birtist á island.is island.is  tilkynning frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands þar sem greint er frá því á vorið 2025 verði heilsugæslan fyrir uppsveitir Árnessýslu, flutt frá Laugarási að Flúðum. 
Hér er  mynd sem sýnir  hvar Laugarás er og hvar Flúðir er að finna. 


Hér fyrir neðan birti ég einstaka hluta þessarar tilkynningar, og við þá geri ég mínar athugasemdir og varpa fram spurningum. 

Tilkynningin hefst á þessu:
Í ljósi stöðugrar uppbyggingar og fjölgunar íbúa í uppsveitum Suðurlands hefur Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) ákveðið að flytja starfsemi heilsugæslunnar í nýtt og nútímalegt húsnæði á svæðinu.

Hvaða nútímalega húsnæði er þarna um að ræða? Er það hannað og byggt með þarfir heilsugæslu í huga?  Er það nýtt, í ljósi þessarar athugasemdar sem birtist á Facebook:   "En kofinn á Flúðum er eldgamalt hús sem á að breyta í heilsugæslu og hentar engan veginn til starfans. Texti um að þetta þjóni sérstaklega nútíma kröfum er þvílík endemis lygi að ég hef varla séð annað eins haft eftir opinberum aðila." (Ólafur Ragnarsson).  

Um ástand húsnæðis heilsugæslunnar í Laugarási er eftirfarandi einnig á finna í athugasemdum á Facebook: "Hins vegar er það fásinna að kenna 25 ára gömlu, sérhönnuðu húsnæði um. Eina sem hægt er að benda á er kannski uppsöfnuð viðhaldsþörf ef eitthvað er." (Jónas Yngvi Ásgrímsson)

Ég skal alveg viðurkenna, að fjölgun íbúa í Laugarási hefur látið á sér standa og að þar skortir ýmsa þjónustu aðra en heilsugæsluna, en það er sérstakt mál, sem ég mun fjalla um, eina ferðina enn, í lokin

Í janúar síðastliðnum auglýsti FSRE eftir húsnæði til að hýsa heilsugæslu HSU í uppsveitum Suðurlands. 
Hvað kallaði á þessa auglýsingu? Hver átti frumkvæðið að því að þörf var talin á henni?  Svör við þessum spurningum skipta ansi miklu máli fyrir umræðuna. Er frumkvæðið komið frá ráðuneytinu, stjórn HSU, eða Hrunamannahreppi? Sem sagt: Hvernig þessi umræða fór af stað? 
Þrjú tilboð bárust og eftir ítarlegt mat á tilboðunum var ákveðið að ganga til samninga við Hrunamannahrepp um að leigja húsnæði undir heilsugæslu HSU á Flúðum. 

Hver var munurinn á þessum tilboðum? Hvað fólu þau í sér?  Hvernig fór þetta "ítarlega" mat fram,  hvaða aðilar stóðu að því og hverjar voru forsendurnar sem gengið var út frá?  Hvaða þættir voru það sem réðu úrslitum? 

Nýja húsnæðið býður upp á fjölmarga ávinninga fyrir samfélagið. Það er ekki aðeins fjárhagslega hagkvæmara en núverandi húsnæði, heldur verður það einnig sérhannað til að mæta nútímakröfum heilbrigðisþjónustu. 
Í hverju felast þessir "fjárhagslegu ávinningar"?  Hvaða kröfum um "nútíma heilbrigðisþjónustu" fullnægir 28 ára gamalt hús heilsugæslunnar í Laugarási ekki?

Heilsugæslustöðin í Laugarási, sem var vígð árið 1997 (mynd úr safni Jóns Eiríkssonar) fengin á  laugaras.is  - en þar er að finna mikið af myndum frá vígslunni.

Með betri aðstöðu og þjónustu tryggir HSU að heilbrigðisþjónusta svæðisins sé ávallt í samræmi við þarfir íbúa.
Hvernig er sú niðurstaða fengin, að með flutningi heilsugæslunnar verði tryggara en áður, að þjónustan sé í "samræmi við þarfir íbúanna"?  Þarfir hvaða íbúa er þar um að ræða - einhverra ákveðinna umfram aðra?
Staðsetningin á Flúðum leggur jafnframt grunn að frekari þjónustutækifærum, þar á meðal möguleika á opnun nýs apóteks.
 "Frekari þjónustutækifærum?"  Sá aðili sem rak apótekið í Laugarási gafst upp á rekstrinum Hvað liggur fyrir um að lyfjakeðja sé tilbúin að setja upp apótek á Flúðum?

Flutningurinn mun einnig stuðla að bættu samstarfi við björgunarsveitir og aðra viðbragðsaðila sem eru með aðsetur á Flúðum, sem er mikilvægt fyrir öryggi og velferð íbúa.

Þarna er um fremur fátækleg rök að ræða, auðvitað. Nánast rökleysa og bendir bara til þess, að verið sé að grípa í hálmstrá.  Samkvæmt vef Landsbjargar eru þrjár björgunarsveitir í uppsveitum, aðrar en Björgunarfélagið Eyvindar, en þær eru Björgunarsveit Biskupstungna, sem er í Reykholti, Björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni og Hjálparsveitin Tintron á Borg í Grímsnesi. 
Þetta framfaraskref er liður í stefnu HSU um að tryggja að íbúar í uppsveitum Suðurlands hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu sem mætir þörfum nútímans. 
Það vantar útskýringu á því hvert framfaraskrefið er, fyrir uppsveitir Árnessýslu. Þá á ég við uppsveitirnar sem heild, ekki bara afmarkaðan hluta þeirra. 
Það vantar útskýringu á því hvernig þessi flutningur tryggir betri aðgang íbúa í uppsveitum Árnessýslu.
Það vantar útskýringu á því hverjar "þarfir nútímans" eru, sem verða betur uppfylltar með flutningnum.
Með því að flytja heilsugæsluna á Flúðir er HSU ekki eingöngu að bæta aðstöðu heilbrigðisþjónustunnar, heldur er einnig verið að skapa öflugri grunn fyrir framtíðarþróun heilbrigðisþjónustu HSU í uppsveitum Suðurlands.
Hvernig  mun flutningurinn bæta "aðstöðu heilbrigðisþjónustunnar"?
"Skapa öflugri grunn fyrir framtíðarþróun heilbrigðisþjónustu HSU í uppsveitum Suðurlands."  
Fyrir mér segir þessi röksemd bara nákvæmlega ekki neitt. Er búið að móta einhverja framtíðarþróun að þessu leyti? Hver er hana að finna, ef svo er? Í hverju felst þessi framtíðarþróun? 
Flutningur heilsugæslunnar er fyrirhugaður vorið 2025 og mun nánari tímasetning verða tilkynnt þegar nær dregur.
Díana Óskarsdóttir, forstjóri

Þá er ég búinn að fara í gegnum tilkynningu um þennan flutning, en hann skilur eftir helling af spurningum.  Auðvitað fagna íbúar Hrunamannahrepps því að vera komnir með heilsugæsluna "heim", eins og hefur lengi verið draumurinn. Megi þeir njóta hennar vel og allrar þeirrar þjónustu, sem hún mun njóta góðs af og styrkja.  

Er ef til vill betur heima setið en af stað farið? 
Hver verða jákvæð áhrif þessa á íbúa uppsveitanna, aðra  en íbúa Hrunamannahrepps? 
Ef reyndin verður nú sú, að flutningurinn verði til þess að íbúar uppsveitanna, annarra en íbúa Hrunamannahrepps, muni í vaxandi mæli, eða alveg, telja henta sér betur að sækja læknisþjónustu á Selfoss, er þá heilsugæslan á Selfossi undir það búin?  Ég bý þar og veit að þar er löng bið eftir læknisþjónustu. 
Hvað felst í nútímavæðingunni, sem ætlað er að taka á þeirri framtíðarþróun?
Apótekið, sem er notað sem ein stóru röksemdanna í málinu, hvarf úr Laugarási vegna þess að það var ekki rekstrargrundvöllur. Hvað segir um það í framtíðaráætlunum HSU á nýjum stað?

Með ákvörðum um flutning heilsgæslunnar frá Laugarási að Flúðum er búið að stuðla enn frekar að klofningi í uppsveitum, í stað þess að  þær sameinist. Er það virkilega einhverjum til góðs? 

Ég er búinn að varpa fram, hér að ofan,  mörgum spurningum um þennan fyrirhugaða flutning. Mig grunar, að ef stjórnsýslan sem um hann hefur fjallað, getur ekki sýnt fram á, svo óyggjandi sé, að allt þetta ferli hafi verið faglegt, þannig að það þoli dagsljósið, muni óánægja grassera áfram. Það er talað um spillingu, sem tengist tveim ríkisstjórnarflokkanna, það er talað um pólitísk sambönd, fjölskyldutengsl og jafnvel skiptimynt í samningum um framgang mála innan ríkisstjórnarinnar.  
Það kæmi mér ekki á óvart, að þau orð hafi fallið einhverntíma í þessu ferli að það væri alveg hægt að standa af sér nokkurra daga hvassviðri á samfélagsmiðlum og halda svo bara áfram ótrauð. 
"Þegjum bara, þetta gengur yfir" - sem það gerir því miður ansi oft hér á landi.

---------------------------------------

Hér ofar, sagði ég: "Ég skal alveg viðurkenna, að fjölgun íbúa í Laugarási hefur látið á sér standa og að þar skortir ýmsa þjónustu aðra en heilsugæsluna, en það er sérstakt mál, sem ég mun fjalla um, eina ferðina enn, í lokin. "

Ég er reyndar búinn að fjalla ítrekað um ástæður þess, að Laugarás hefur átt skárri tíma og veit, svei mér ekki, hvort ég ætti að að fara endurtaka mig of míkið um það. Ef einhver hefur ekki lesið skoðanir mínar á því máli (flestir, líklegast) bendi ég til dæmis á  þennan pistil og  þennan .
Biskupstungnahreppur, Bláskógabyggð og Stjórnarnefnd heilsugæslunnar í Laugarási (Oddvitanefndin), hafa, með sinnuleysi, áhugaleysi og beinlínis andstöðu við uppbyggingu í Laugarási, skapað þá stöðu sem nú er uppi.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Þar er svo.
-----------------------------------------

Bakgrunnsefni:
Á vefnum laugaras.is er ítarleg umfjöllun um Laugaráslæknishérað og heilsugæsluna í Laugarási. Hér eru hlekkir á brot af því:




Uppfært 16. júní:
Ég hef nú sent erindi á heilbrigðisráðherra, þingmenn kjördæmisins og formann og varaformann velferðarnefndar Alþingis, með hlekk á þennan pistil.

07 janúar, 2024

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997
(mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson)
Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri, með handboltaveislu og hækkandi sól. Smátt fólk hefur nú valdið því að skugga ber á. Það er í það minnsta mín skoðun, að þar sé smátt fólk á ferð; fólk sem vinnur mál neðanjarðar og nýtir sér pólitísk sambönd, mögulega harla óeðlileg. Smátt, frekt fólk. 


Fyrir nokkrum dögum var sett innlegg á samfélagsmiðla þar sem birt var skjáskot af vefnum visir.is, þar sem greint var frá því, að á vef FSRE (Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir) myndi birtast auglýsing um húsnæði fyrir heilsugæslu í uppsveitum. Þetta skjáskot má sjá hér til hliðar.  

Það virðist hafa verið heilmikið neðanjarðarleikrit í gangi varðandi flutning á heilsugæslustöðinni úr Laugarási, að Flúðum í Hrunamannahreppi; frá miðju uppsveitanna út á kant. 

Ég neita því ekki, að ég finn fyrir nokkurri klígju vegna þessa máls, eins og það blasir við mér.  Það er ansans ári dapurlegt hve stór smæð fólks getur verið. Það sem mér finnst þó einna verst er, hve þumbaraleg sveitarstjórnin í Bláskógabyggð virðist vera í því hvernig hún hefur sýnst taka á þessu máli. Getur verið að í raun sé hún bara nokkuð sátt, þótt hún telji sig þurfa að halda öðru fram? 

Nú vona ég bara að það verði niðurstaða um, að heilsugæslan verði áfram í Laugarási, í 28 ára gamalli byggingu, sem var hönnuð til að vera heilsugæslustöð og sem er,  að bestu manna yfirsýn, í fínu lagi enn, þrátt fyrir að það hafi verið notað sem rök í þessu máli, að viðhaldsþörf á húsinu væri orðin gífurleg, án þess að fram hafi komið einhver rök því til stuðnings. 
Er ekki bara rétt að hætta þessari vitleysu? 

Myndir frá vígslu heilsugæslustöðvarinnar, á vefnum laugaras.is, sem komnar eru frá Jóni Eiríkssyni í Vorsabæ, en það var Jónas Yngvi Ásgrímsson, þáverandi framkvæmdastjóri heilsugæslunnar í Laugarási, sem tók þær. 

-------------------------------------------
Sannarlega átta ég mig á að ég á engra hagsmuna að gæta í málinu, nema tilfinningalegra, en það eru einnig hagsmunir.

17 september, 2023

Baðlón í Laugarási! Gengur það?

Fyrir nokkrum dögum birtist auglýsing í tilteknu dagblaði, þar sem óskað er eftir verkefnastjóra til að halda utan um byggingu baðlóns í Laugarási. Þessar upplýsingar virðast hafa komið við ýmsa.
Hér er nokkur dæmi um viðbrögð sem ég hef séð á samfélagsmiðli:

Hvað sem verður með þetta, finnst mér strax núna ánægjuleg breyting á umhverfinu þegar maður keyrir í gegn. Það er orðið miklu snyrtilegra en var. Þetta á þó líklega ekki að sjást mikið frá vegi.... sýnist mér?
Það er skemmtilegt að sjá að fólk er loksins að vakna til vitundar að fjölga baðstöðum á suðurlandi. Það eru ekki næstum því nógu mörg í Árnessýslu. Algerlega óásættanlegt að heita “Laugar -eitthvað” og hafa engar laugar. svar: það hefur lengi eða frá fyrstu Biskupum í Skálholti verið baðstaður á góðum stað hér í hverfinu
Þarf þetta ekki að fara í grenndakynningu? og má bara afhenda fjárfestum landið með ótakmörkuðum aðgangi að hvernum og hverju sem er? Nú þurfa Laugarásbúar að snyrta og laga til hjá sér
Það er reynslan af svona framkvæmdum í Laugarási að það verður ekki af þeim.
Ég reikna með að þetta verði eins
Ég hef lengi horft til Laugarás sem mögulegan stað til að skapa umhverfi þar sem Miðjarðarhafs loftslag ríki allt árið um kring
Kannski verður komið elliheimili þegar við þurfum á því að halda
Mér finnst þetta vera nokkuð afskekkt...
Frábært að það sé eitthvað í gangi hér í hverfi
Hver er eigandi? svar: það á að vera svona málum óviðkomandi ef einhverjir vilja leggja fúlgur fjár í uppbyggingu á svæðinu því ekki gerir sveitarfélagið neitt til að styðja við uppbyggingu
Frábært!

Svo kom auðvitað ýmislegt annað fram, bæði jákvætt og neikvætt, eins og gengur. Kaldhæðnin lét heldur ekki á sér standa.


Eftir því sem ég best veit, þá stendur til að byggja hótel þarna líka á sláturhúslóðinni og það vona ég sannarlega, fyrir hönd þeirra sem eru orðnir langþreyttir á að bíða eftir því að upp rísi í Laugarási öflug fyrirtæki, nægilega burðug til að efla byggðina, á stað sem getur talist einn sá fegursti í uppsveitum og þó víðar væri leitað.  

Það finnst mér orðið fullreynt að hreppsnefndir í uppsveitum stuðli að uppbyggingu, eða jákvæðri þróun byggðar í Laugarási. Þvert á móti og síðasta atlagan að þorpinu var gerð að heilsugæslunni.  Hvernig það fer, veit ég ekki enn.

Ég yrði ekki hissa þó það yrði gerð atlaga að þessu verkefni eins og öðrum, sem reynt hefur verið að stofna til. 

Það sem þarna er á ferðinni er verkefni sem stjórnast ekki af hreppapólitík, heldur miklu frekar þeim möguleikum sem blasa við. Það hvarflar ekki að mér annað en fagna því og sannarlega vona ég að þeim takist að sigrast á þeim úrtöluröddum, sem þeir munu örugglega finna fyrir.

Auk þessa finnst mér eðlilegt að hrepparnir selji Laugarásjörðina. Eignarhald þeirra á henni þjónar, að mínu mati, ekki hagsmunum Laugaráss eða Laugarásbúa.

Ég bý ekki lengur í Laugarási og á þá sennilega ekki að hafa rödd í þessu máli, en taugar mínar til staðarins eru sterkar og því leyfi ég mér að tjá mig um málefni Laugaráss, rétt eins og mig lystir.

07 júní, 2023

Laugarás: Sorgleg staða, en fyrirsjáanleg.

Kortið sýnir staðsetningu þéttbýliskjarna
í uppsveitum Árnessýslu.
Ég vil nú ganga svo langt að halda því fram, að sú staða sem nú er komin upp í uppsveitum Árnessýslu, sé afleiðing  um það bil fjögurra áratuga þróunar. 
Þetta byrjaði allt vel, þó umdeilt væri, þegar uppsveitahrepparnir sameinuðust um að kaupa jörðina Laugarás í Biskupstungum, fyrir 100 árum, beinlínis til að koma þar upp læknissetri fyrir svæðið. 
Af sögulegum ástæðum kallaðist læknishéraðið þá Grímsneslæknishérað, en varð svo Laugaráslæknishérað á 5. áratug aldarinnar.
Oddvitar hreppanna mynduðu stjórn héraðsins og þannig var það svo, allt þar til ný lög um heilbrigðisþjónustu voru samþykkt rétt fyrir hrun fjármálakerfisins og Heilbrigðisstofnun Suðurlands varð til.

Ekki verður annað séð, en það hafi verið nokkuð góð sátt um læknissetrið í Laugarási lengst af. Laugarásjörðin var sameiginleg eign hreppanna og fólk sá fyrir sér að þar myndi byggjast upp öflugur byggðarkjarni í hjarta uppsveitanna. Sú uppbygging fór vel af stað á fimmta og sjötta áratugnum, aðallega. þegar garðyrkjustöðvar spruttu upp og innviðir voru efldir til samræmis. Kannski er hægt að ímynda sér að fólkið hafi þá séð Laugarás með svipuðum augum og Árni G. Eylands: 
Þ A N K A R    V I Р   I Ð U B R Ú
Þar hef ég staðið undrandi.
Þvílíkur staður, hversu mikill ætti ekki hlutur þess hverfis að verða. Jarðhitinn, ræktunarlandið, áin – iðan – Vörðufell, og umhverfið allt. Hér á að rísa, hlýtur að rísa, mikið svitaþorp, borg garðyrkjubænda og annarra.
Fyrstu sporin þarf að stíga sem fyrst, og hljóta að verða stigin sem fyrst. Verzlun, sumarhótel, líkt því sem Þrastalundur var, þegar bezt var.
– Þvílíkur stðaur, þvílíkir möguleikar, ríkidómur og Guðsblessun. Hér hlýtur að rísa engu minna þorp en Selfoss og í bræðraböndum við þann stað.
– Já, ég nefndi Guðsblessun.
– Skálholt að baki, með það sem þar er búið illa að gera, og verið vel að gera – og verður vel gert. Og að fáu getur Skálholt og menningarhugsjónum þeirra sem þeim stað unna orðið meiri styrkur heldur en að vaxandi byggð við Iðu – ræktunarþorpi og miðstöð um samgöngur og framþróun nærliggjandi sveita.
– Sjá ekki allir Sunnlendingar hversu mikið hér er í efni? Vonandi gera þeir það, eins vel og betur en ég. Enn á ég ógert það sem mest er, að ganga á Vörðufell og líta yfir þetta fyrirheitna land.

Árni G. Eylands (1895-1980)
Heilsugæslustöðin í Laugarási og Hvítárbrú hjá Iðu. 

Sérstakt eignahald á Laugarásjörðinni hefur verið bæði blessun og bölvun gegnum áratugina. 
Blessun, vegna þess að með samstöðu uppsveitahreppanna tókst að byggja upp mjög öfluga heilsugæslu á svæðinu. 
Bölvun, vegna þess að með því hver hreppur fór í síauknum mæli að ota sínum tota varðandi uppbyggingu á þjónustu "heima fyrir", var markvisst dregið úr áherslu á frekari uppbyggingu í Laugarási.
 
Biskupstungnahreppur tekur Laugarás að sér
Þarna hugsaði hver um sitt og þar kom, að Biskupstungnahrppur tók jörðina á leigu um 1980 og hefur stýrt þróuninni síðan. Við þessa breytingu batnaði hagur Laugaráss harla lítið, þó vissulega hafi það vakið ákveðna bjartsýni þegar ný heilsugæslustöð var reist á síðari hluta 10. áratugarins. Það var eins með Tungnamenn og aðra uppsveitamenn: þeir unnu að því að byggja upp hver hjá sér og litu þannig á, að það sem gert væri í Laugarási væri til þess fallið að stöðva eða hægja á uppbyggingunni "heima fyrir".  Þetta var sem sagt áfram "bölvun" Laugaráss. Hugmyndir um uppbyggingu sem fram hafa komið gegnum tíðina, hafa verið kæfðar með þeim rökum að þær væru betur komnar á Flúðum, í Reykholti, eða á Laugarvatni, þar væru innviðirnir fyrir, svo ekki sé nú minnst á rökin um að þar væri "fólkið".
Þegar Biskupstungnahreppur tók Laugarásjörðina á leigu, var uppi sú sérkennilega staða, að honum var ætlað að stuðla að uppbyggingu á jörð, sem aðrir uppsveitahreppar áttu og fengu tekjur af. Á sama tíma voru Tungnamenn að byggja upp sinn byggðarkjarna í Reykholti, þar sem grunnskólinn var, félagsheimilið, sundlaugin og fleira. Hvaða ástæðu höfðu Tungnamenn svo sem til að efla byggðina í Laugarási?  Eina "opinbera" stofnun á vegum hreppsins fengu Laugarásbúar, en það var sorpbrennsluofn:
Þessi brennsluofn var sá eini í Biskupstungum og ætlaður til brennslu á sorpi frá öllum heimilum og má segja að hann hafi verið eina opinbera stofnunin sem sveitarfélagið hefur valið stað í Laugarási. Þannig var sorpi í Reykholti safnað og flutt til brennslu í Laugarási, við misjafnar undirtektir íbúa þar og þá aðallega vegna reykmengunar sem lagði frá honum yfir byggðina í norðlægum áttum. (laugaras.is)
Aðrir hreppar hafa líklega verið ágætlega hressir með þetta fyrirkomulag því þeir gátu einbeitt sér að uppbyggingunni heima fyrir.  Tungnamenn sátu uppi með að reyna að leiða hjá sér "síkvartandi" Laugarásbúa, sem töldu fram hjá sér gengið í uppbyggingu. Ég er þess fullviss, að tekjurnar frá Laugarási komu sér ágætlega fyrir hreppsjóð, en frumkvæði hreppsins í að halda áfram uppbyggingu þar var og er lítið sem ekkert. 

Bláskógabyggð verður til
Það var ákveðið, í byrjun þessara aldar, án þess að íbúar fengju að greiða um það atkvæði, að sameina Þingvallahrepp, Laugardalshrepp og Biskupstungnahrepp í sveitarfélagið Bláskógabyggð. Þá fór verulega að halla undan fæti í Laugarási, eins og glöggt má sjá á meðfylgjandi línuriti um íbúaþróun í þéttbýliskjörnunum þrem.
 

AUGLÝSING um staðfestingu félagsmálaráðuneytis á sameiningu Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps. Með vísan til 2. mgr. 91. gr. og 95. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, tilkynnir ráðuneytið að það hefur hinn 18. mars 2002 staðfest sameiningu Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps í eitt sveitarfélag. (18. mars, 2002)
Tungnamenn voru stærsta sveitarfélagið í þessari sameiningu og var mikið í mun að hin tvö upplifðu það ekki svo, að allur fókusinn eftir sameininguna yrði á uppbyggingu í Reykholti. Í aðlöguninni sem þarna fór fram, varð Laugarás nánast eins og neðanmálsgrein.  Ég vil nú ekki ganga svo langt, að halda því fram, að það hafi verið markviss stefna í uppsveitum, að ganga endanlega frá Laugarási, þó vissulega hafi það stundum hvarflað að mér. 
Sameiningin, þegar Bláskógabyggð varð til, var mistök, að mínu mati og ein birtingarmynd þeirra er það sem nú er í farvatninu og fjallað eru um þessa dagana.  Í mínum huga er þarna að birtast ein afleiðing ótrúlegs andvaraleysis (eða stefnu) sveitarstjórnarfólks í Bláskógabyggð undanfarna áratugi. Það kæmi mér ekkert á óvart ef tárin sem grátið er í samþykkt sveitarstjórnar (sjá hér fyrir neðan), séu, að miklum hluta, krókódílatár.

Hvað er svo framundan?  
Oddvitanefndin heldur sjálfsagt áfram að hittast til að ráða ráðum sínum, nefndin sem kallaði sig Stjórnarnefnd Laugaráslæknishéraðs. Hlutverk þessarar nefndar síðstliðna fjóra áratugi, í það minnsta, hefur ekki verið það að stuðla að uppbyggingu í Laugarási, heldur miklu frekar að tryggja það að í Laugarási yrði ekki uppbygging sem gæti ógnað uppbyggingunni "heima fyrir", þar sem fólkið er. 

Niðurstaða mín er sú, að það sem hefði getað orðið kjarninn í öflugri byggð í uppsveitunum, varð til þess að tefja þessa uppbyggingu, varð ok, sem uppsveitahrepparnir reyndu að losna við, en þótti samt (og þykir enn) gott að eiga ítök í til að tryggja að þessi kjarni fengi ekki að blómstra.

Það sem helst gæti orðið Laugrási til bjargar við þær aðstæður sem við blasa nú, þegar upp eru komnar hugmyndir um að flytja þaðan heilsugæsluna, er líklega að hrepparnir komi sér saman um að selja jörðina. Ég er ekki viss um að það verði ofan á, ekki meðan einhvern lífsneista er að finna í "þorpinu í skóginum".
Ég bíð nú nokkuð spenntur eftir framhaldi þessa máls og þar með hvort sveitarstjórn Bláskógabyggðar meinar eitthvað með samþykkt sinni, sem sjá má hér fyrir neðan. Mér finnst þessi samþykkt nú reyndar fremur veikburða, ef ég á að segja alveg eins og er, en það er rétt að sjá til hvað nú gerist.



Liður í undirbúningi að sameiningu?
Vissulega hvarflar það að mér, að það sé uppsveitamönnum smám saman að verða ljóst, að það mun koma til sameiningar þessara sveitarfélaga á næstu árum. Ég er alveg til í að líta að þessar hugmyndir um flutning heilsugæslunnar í því ljósi. Með honum væri rutt úr vegi einni stærstu hindruninni. Laugarás væri þá með engu móti lengur valkostur sem einhverskonar kjarni uppsveitanna til framtíðar. Þá yrðu stóru kjarnarnir tveir ótvíræðir valkostir í frekari uppbyggingu.
---------------------------------

Ég er búinn að fjalla oft um málefni Laugaráss í pistlum hér á þessu svæði
Hér eru hlekkir á nokkur dæmi:

Einskis manns eða allra 29. mars, 2015
Ólygnir sögðu mér 23. apríl, 2015
Enn á að selja 8. maí, 2017

Ef einhver sem þetta les veit ekki hver ég er, eða hversvegna ég er að blanda mér í þessa umræðu, þá er ég fæddur og uppalinn í Laugarási og bjó þar að langmestu leyti, þar til vorið 2022, þegar við Kvisthyltingar fluttum á Selfoss. 
Ég hef einnig unnið að því, í rúm 10 ár, að safna efni um Laugarás á vefinn https://www.laugaras.is

18 febrúar, 2023

"Ég falleraði á henni Blesperlu"

Ég rambaði á þetta viðtal í Vísi, frá árinu 1961.  Þar er rætt við Birgi Stefánsson, en fyrir ykkur sem ekkert vitið um þann pilt, þá er hann fóstursonur Guðnýjar Guðmundsdóttur (Gauju) og Helga Indriðasonar, sem stunduðu búskap í Laugarási frá 1946-1970, eða þar til kúabúskapur lagðist af.  
Harla margt fólk kemur við sögu í viðtalinu og ég lét það eftir mér að tína saman myndir af flestum sem nefndir eru. Vonandi hef ég hitt rétt á allt þetta fólk. - nú ef ekki, vonast ég til að verða leiðréttur.

Ef orðið "fallera" vefst fyrir einhverjum, þá er þessa skýringu að finna   í íslenskri orðsifjabók: 

fallera s. ‘fara í hundana; verða gjaldþrota; gata á prófi; †svíkja, blekkja’. To. úr mlþ. fallēren < ffr. faillīr < lat. fallere. Sumar merkingar ísl. orðsins eru síðar tilkomnar, frá d. fallere.


Hér kemur viðtalið við Bigga: 

"Ég falleraði á henni Blesperlu"
Dráttarvélaslysin eru orðin æði mörg á landi voru. Austan fjalls eru þau það tíð, að vart telst fréttnæmt þótt enn eitt slysið verði af völdum dráttarvélar.

Er fréttamaður blaðsins hitti Birgi Stefánsson, 13 ára yngismann frá Laugarási í Biskupstungum, í hjólastól á ganginum í sjúkrahúsinu á Selfossi, með hægri fótinn í gibsumbúðum, liggur því beint við að spyrja hann, hvort dráttarvélarskömmin hafi nú orðið honum að slysi.

Nánar á www.laugaras.is:   https://www.laugaras.is/laugars-i

„Nei, ég falleraði á henni Blesperlu", svaraði Birgir og síðan segir hann alla hrakfallasöguna, sem endaði í sjúkrahúsinu á Selfossi, og vonandi fer vel, eftir atvikum. Þeir höfðu verið í hestasnatti, Birgir, og kaupamaðurinn á bænum, Kristinn [Arnar Jóhannesson], sem er 14 ára. Þeir voru búnir að eltast við Blesperlu, en Reykur, 10 vetra gæðingur, var búinn að gera hana og hin hrossin hálfvitlaus í óþekkt.

Loksins náðu þeir merinni og Birgir lagði nú við hana og sté á bak, sló í og hugsaði henni þegjandi þörfina fyrir alla óþekktina. Blesperla tók viðbragð, en hún á til að vera dálítið hrekkjótt, þegar sá gállinn er á henni, enda ekki nema 5 vetra gömul, greyið.

Birgir hafði hugsað sér að hyggja að henni Golsu sinni, sem nýlega bar hvítum hrút og átti að vera einhvers staðar í námunda við Auðsholtsafleggjarann. Er þeir riðu í sprettinum niður brekkuna fyrir norðan Laugarástúnið vildi slysið til, Blesperla skvetti upp rassinum, Birgir kastaðist fram á makka á hryssunni og hékk þar nokkra stund, en Blesperla linnti ekki á sprettinum. Birgir reið í hnakk með opnum ístöðum og losnaði hann fljótlega úr þeim, en er hann sleppti hryssunni og féll af baki kræktist annað ístaðið í kálfann á honum og reif þar flipa upp undir hné, svo af varð svöðusár.


Kiddi reið strax heim, til að leita hjálpar, en Birgir gat skriðið út undir þjóðveginn. Skömmu síðar bar þar að bíl. Þar var kominn Þorfinnur mjólkurbílstjóri [Tómasson], sem í þetta skipti var í einkabíl sínum og var að halda á skemmtun í Aratungu. Tók hann nú hinn slasaða dreng upp í bílinn til sín og ók honum heim í Laugarás. Þar er læknissetur og gerði nú Grímur læknir [Jónsson] að sárum Birgis.

Daginn eftir fór Birgir að fá þrautir í fótinn og nú lét Grímur læknir flytja hann í sjúkrahúsið á Selfossi. Þar tók Kjartan sjúkrahúslæknir Magnússon við honum og hefur síðan stundað hann af mestu nærfærni, en Birgir heldur því fram, að hann sé einhver færasti læknir í heimi og stundum hefur Jón læknir Gunnlaugsson aðstoðað Kjartan. Það gróf illa í fætinum og Birgir hefur eftir Kjartani, að þegar hann sé búinn að hreinsa sárið nægilega vel og klippa burt allt skemmt og dautt skinn og hold, verði hann að taka sneið úr lærinu á honum og fylla upp í gatið. En Birgir kvíðir því engu, hugsar mest um að ná fullum bata og komast heim í heyskapinn.

„Ertu mikill heyskaparmaður?“

„Ég vil heldur vinna við heyskapinn heldur en í görðunum, ég er latur garðyrkjumaður“.

„Hafið þið mikla garðrækt í Laugarási, með búskapnum?“

„Já, það eru miklir gulrótargarðar, fyrir utan kartöflurnar, og svo er töluvert af rauðrófum hjá okkur“.

„Áttu Blesperlu, merina?“


„Nei, en ég á Blesa, 4 vetra fola, ættaðan frá Skálholti, frá Birni bónda [Erlendssyni] þar“.

„Ertu farinn að temja hann?“

„Ja, hún Jóhanna, dóttir hans Ingólfs á Iðu, er að temja hann fyrir mig. Svo var hann Geiri á Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi með hann dálítinn tíma í vor, hann er ágætur tamningamaður.“

„Heldurðu, að Blesi sé gott hestsefni?“

„Já, ég held hann verði bara nokkuð góður. Hanna fór með hann á hestamótið á Hellu í sumar".

„Fékk hann verðlaun?"

„Ja, hann komst á forsíðu Tímans, og Jóhanna líka, á Blesa.“

„Nú, það var ekki svo lítil upphefð fyrir ykkur öll saman. 

Ég ek nú Birgi inn í sjúkrastofu hans, sem er númer 8. Þar eru fyrir herbergisfélagar hans, þeir Bjarnhéðinn mjólkurbílstjóri [Árnason] og Magnús [Jónsson] frá Hveratúni í Biskupstungum, sem er í Laugaráshverfinu og Magnús því nágranni Birgis. Hann er maður á áttræðisaldri, en vel ern og hressilegur. Er ég spyr þá um veikindin, segir Bjarnhéðinn að það sé maginn, sem sé í ólagi. Hann segir, að læknirinn vilji ekki skera, sérstakt mataræði og spítalalega, sem nú fari að styttast, eigi að bæta hann. Annars virðist Bjarnhéðinn, sem er einn af vinsælustu mjólkurbílstjórunum á Selfossi, vera hálf móðgaður yfir því að vera ekki „skorinn".

— Magnús segir að þeir, læknarnir, hafi fyrst haldið að það væri hjartað sem væri að gefa sig, en svo kom í Ijós, að það mun bara hafa verið annað lungað sem „sprakk", eins og hann orðar það. Hann hefir fótavist og röltir útivið.

Báðir eru þessir herbergisfélagar Birgis hressir bragði og ég segi honurm, að ef honum leiðist geti hann stytt sér stundir við að stríða körlunum. En þeir segja, að hann sé góður strákur og duglegur, þegar læknarnir séu að „krukka" í hann. Ég kveð þá félaga og óska þeim góðs bata.

Sjúkrahúsið á Selfossi er myndarleg stofnun, þar ríkir auðsjáanlega stjórnsemi og reglusemi og ég hef orð héraðslæknisins Bjarna Guðmundssonar fyrir því, að hinn ungi sjúkrahúslæknir, Kjartan Magnússon, sé „vel verki farinn". 

(Vísir 14. ágúst, 1961)



11 ágúst, 2022

Hörður Vignir Sigurðsson - minning

Hörður V. Sigurðsson
Mynd frá Asparlundi
Þegar við þurftum að fara upp í Holt lá leiðin eftir veginum sem nú kallast Skúlagata, út á þjóðveg og svo bara yfir mýrina sem tók við. Þar varð á vegi okkar vatnsauga eða dý og ef maður leit ofan í það þá sást ekki til botns þó vatnið væri alveg tært. Við pössuðum okkur alltaf að loka munninum og helst halda líka fyrir nefið, svo brunnklukkurnar gætu ekki flogið upp í okkur, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Svo héldum við áfram upp í Holt, þar sem Magnús afi og pabbi voru með lítið fjárhús og þarna var líka útiræktun, kartöflukofi og aflögð aðstaða til að reykja kjöt.

Ég var 10 ára þegar Hörður og Ingibjörg fluttu í Laugarás, með tvo spekingslega syni, þá Atla Vilhelm og Bjarna. Dóttirin, Kristín, fæddist síðan ári eftir að þau komu í Gamla bæinn.
Þarna var Hveratúnsfjölskyldan nýflutt í nýja íbúðarhúsið og gamli bærinn beið einhvers hlutverks. Það hlutverk fékk hann þarna og ungu hjónin bjuggu á hlaðinu hjá okkur þar til þau höfðu byggt sér gróðurhús og íbúðarhús á landinu þar sem dýið með brunnklukkunum hafði áður verið. Landið hafði þá verið ræst fram og þar reis síðan, meðfram þjóðveginum, risastórt gróðurhús.

Sökum þess að ég var hvorki kominn til vits né ára, að neinu ráði á þessum tíma, man ég svo sem harla lítið eftir þessu nýja fólki í gamla bænum, utan það, að Ingibjörg átti það til að bjóða okkur inn til að þiggja eitthvert góðgæti.

Eldri spekingurinn var til í að spjalla við pabba, sem spurði hann út í hitt og þetta, eins og gengur. Sá stutti átti oftast auðvelt með að svara, en þegar að því kom að hann átti ekki svar, sagði hann: „Mamma mín segir að ég megi ekki tala við ókunnugt fólk“. Gamli maðurinn þreyttist ekki á að segja frá þessum samskiptum.


Hörður var rétt að verða þrítugur og Ingibjörg nokkrum árum yngri, þegar þau komu í Laugarás. Þá voru þar fyrir Skúli og Guðný í Hveratúni, Jón Vídalín og Jóna á Sólveigarstöðum, Helgi og Gauja í Helgahúsi, Jóna og Guðmundur á Lindarbrekku, Fríður og Hjalti í Laugargerði (bjuggu þá í Lauftúni) og Sigmar og Sigga í Sigmarshúsi. Laugarás var þétt samfélag á þessum árum og nýbúarnir Hörður og Ingibjörg féllu strax inn í það, enda þannig innréttuð bæði tvö. Þau tóku þátt í öllu og stuðluðu ötullega að því sem betur mátti fara. Ég hef oft séð þau fyrir mér sem tappann sem tekinn var úr, þannig að ungar garðyrkjufjölskyldur gætu streymt að. Það bættust átta nýjar garðyrkjustöðvar við í Laugarási næstu sex árin.

Garðyrkjubændurnir í Laugarási framleiddu aðallega tómata og gúrkur á þessum árum, en með Herði kvað við nýjan tón. Hann ræktaði alla tíð bara blóm. Krusa (eins og við kölluðum þessi blóm sem voru af ýmsum litum, stærðum og gerðum) og seinna einnig jólastjörnu. Svo held ég að hann hafi farið að einbeita sér meira að því að rækta græðlinga fyrir aðra blómaframleiðendur. Þó svo ég hafi einhverntíma á unglingsárum starfað um stund í Lyngási, man ég þetta ekki nákvæmlega.

Hörður tók auðvitað virkan þátt í félagsstörfum af ýmsu tagi í Laugarási, sat í stjórnum hagsmunafélagsins, hitaveitunnar og vatnsveitufélagsins og alltaf þegar eitthvert samfélagsverkefni lá fyrir, voru hjónin bæði mætt fyrst manna. Þau skildu sannarlega mikilvægi samstöðunnar í samfélagi eins og Laugarási.

Hörður kom mér fyrir sjónir sem maður sem hafði allt á hreinu. Mér fannst hann oftast hafa afar skýrar og ákveðnar skoðanir á málum, allavega í orði kveðnu. Þannig var hann ávallt tilbúinn að skoða aðra fleti og ég man ekki önnur en hnökralaus samskipti við hann. Ég hafði oft gaman af því, þegar þau Ingibjörg voru bæði viðstödd og Hörður sagði eitthvað hafa verið með einhverjum hætti. „Hvaða bölvuð vitleysa“ gall þá stundum í henni, áður en hún leiðrétti það sem eiginmaðurinn hafði sagt. Hörður hafði sérstakan hlátur, sem var yfirleitt grunnt á og hann reykti pípu í þá daga. Hann var sjálfstæðismaður, allavega að nafninu til, sem kannski má segja að hafi verið ljóður á persónu hans, en hann virkaði aldrei á mig sem slíkur. ég hef það á tilfinningunni, að félagshyggjan hafi staðið honum nær.

Skúli Magnússon í Hveratúni og 
Hörður V. Sigurðsson í Lyngási.
Það er nú svo, að oft er vísað til hjóna sem eins og hins sama. Mér finnst, þar sem ég er að reyna að setja saman einhverjar minningar mínar um Hörð, að þar sé Ingibjörg alltaf líka. Þau voru ólík og það var líklega einmitt styrkur þeirra.

Við byggðum okkur hús í Holtinu, við hliðina á Lyngási og fengum að njóta nærveru þessara ágætu nágranna. Þannig fannst þeim ekkert sjálfsagðara en að við fengjum að leggja vatnsslöngu og rafmagnskapal yfir á byggingarsvæðið og um greiðslu fyrir það þýddi ekki að að ræða. Allt var bara sjálfsagt.

Ekki síst eru það börnin okkar, sem eiga ljúfar minningar um Hörð og Ingibjörgu, sem voru þeim nánast eins og þriðja parið af ömmu og afa. Á grunnskólaárum barnanna lá stysta leiðin í skólabílinn, sem tók börnin upp í við búðina, í gegnum lóðina hjá þeim. Þessi leið var aldrei kölluð annað en Ingibjargarleið. Eftir að þau hurfu á braut og börnin uxu úr grasi, greri smám saman yfir Ingibjargarleið, en minningin um hjónin í Lyngási er ávallt vakandi.

Hörður og Ingibjörg voru Laugarásbúar eins og þeir gerðust bestir og mig grunar, að það hafi ekki verið þeim auðveld ákvörðun að selja Lyngás, en líklega var hún skynsamleg. Starf garðyrkjubóndans er harla strembið og tekur á skrokkinn. Það er betra að láta staðar numið í tíma og fá góð ár til að njóta lífsins í öðru samhengi. 

Það eru liðin ansi mörg ár frá því ég stóð við dýið, með lokaðan munninn og horfði ofan í djúpið. Ekki sá ég fyrir mér þá, hvernig þetta færi nú allt saman. Það fór eins og það fór, ég ég tel mig heppinn að hafa fengið að vaxa upp og búa í nágrenni við Hörð og Ingibjörgu. Fyrir það erum við Kvisthyltingar þakklát.

Hörður lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands þann 29. júlí og útför hans er gerð frá Hveragerðiskirkju í dag.

Páll og Dröfn frá Kvistholti.

Mynd frá Jakob Narfa Hjaltasyni

28 maí, 2021

Laugarás: leigulóðir 1953

Árið 1953, þegar tæpir sex mánuðir voru til þess tíma er ég hóf vegferð mína um veröldina fyrsta sinni, skilaði Skipulagsstjóri ríkisins, Zophonías Pálsson af sér teikningu af Laugarási, sem sýnir þær lóðir sem þá höfðu verið teknar á leigu. Lóðirnar eru númeraðar frá 1 - 12 í þeirri röð sem þeim var úthlutað. Þarna var hafin bygging brúarinnar á Hvítá, en enn nokkur ár í að smíðinni lyki. Knútur Kristinsson var héraðslæknir. Stefán Diðriksson á Minni-Borg var formaður oddvitanefndarinnar og árið áður voru fyrstu sumabörnin í Krossinum. Sex ára Ásta og 4 ára Sigrún Skúladætur dönsuðu um Hveratúnshektarann og biðu bróðurins í ofvæni.
Þetta ár fékk Guðmundur Einarsson frá Iðu (bróðir Sigurbjörns biskups) lóð 12 og Guðmundur Indriðason fékk lóð til nýbýlisstofnunar, Einar Ólafsson fékk annað land en það sem hann fékk síðan, Skúli Magnússon fékk leyfi til að veðsetja Hveratún.
Á teikningunni má sjá þrjá hveri. Hildarhver nyrst, næst honum Draugahver og talsvert þar fyrir sunnan Bæjarhver. Þarna var fjós og hlaða rétt norðan gamla læknisbústaðarins þar sem Jens og Matthildur búa nú. Þá lá heimreiðin að Sólveigarstöðum gegnum Hverstúnslóðina.

Ýmislegt orðið með öðrum hætti.
Rétt er að taka það fram að ég teiknaði upp teikningu skipulagsstjórans og skrifaði inn á hana.

08 maí, 2021

Tungnamenn vildu kaupa

Ég hef stundum fjallað um Laugarás í þessum pistlum og ekki að ósekju. Uppsveitahrepparnir eignuðust Laugarásjörðina þegar þar var sett niður læknissetur árið 1922 og kaupin voru formlega frágengin 1923. 
Það má auðvitað velta fyrir sér hversvegna það þurfti að kaupa heila jörð, um það bil 350 hektara, fyrir læknissetur, svona í ljósi þess að núna duga 3 hektarar vel fyrir alla þessa starfsemi, þó hún sé orðin margfalt umfangsmeiri en fyrir einni öld.  
Jú, vissulega var gert ráð fyrir því þá, að héraðslæknirinn framfleytti sér og sínum með búskap til hliðar við læknisstörfin, en fyrr má nú aldeilis fyrrvera.
Laugarásjörðin var sem sagt keypt að þar byggt læknissetur.  Árið 1946 hætti héraðslæknirinn að vera bóndi í hjáverkum og síðan hefur hreint engin augljós ástæða verið fyrir því að Laugaráshérað eigi þessa jörð, enda Laugaráshérað ekki til lengur. Það hljóta samt að vera ástæður fyrir því að enn í dag eiga uppsveitahrepparnir jörðina.


Ástæða þess að ég fjalla aðeins um þetta hér og nú, er, að í morgun sýndi Facebook mér minningu frá þessum degi fyrir fjórum árum. Þar er um að ræða pistil sem ég skrifaði, í tilefni af því að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafði samþykkt þá skoðun að eðlilegt væri að hrepparnir seldu jörðina.

Seld eða leigð 

Síðan þá er ég orðinn nokkru vísari um þessi mál.

Oddvitanefndin, það er að segja, nefnd oddvitanna sex í uppsveitunum (Biskupstungnahrepps, Hrunamannahrepps, Gnúpverjahrepps, Skeiðahrepps, Grímsneshrepps og Laugardalshrepps) stýrði málum í Laugarási og hittist á fundum einu sinni til tvisvar á ári að jafnaði í því skyni. Þessir félagar fjölluðu þar um stór og smá mál og ég dreg ekki úr því, að án öflugrar aðkomu þessara sex hreppa að uppbyggingu heilsugæslustarfsemi í Laugarási, væri staðan í þeim málum líklega önnur nú.

En Laugarás stækkaði og starfsemi heilsugæslunnar bólgnaði stöðugt. Þar kom að oddvitanefndin kaus undirnefndir, eða stjórnir til að sinna daglegum rekstri heilsugæslunnar og hitaveitunnar í Laugarási. Oddvitarnir héldu áfram að hittast á árlegum fundum og fengu þar skýrslur um starfsemina. 
Þar kom, árið 1979 nánar tiltekið, að þeir komust að þeirri niðurstöðu og það væri sennilega engin ástæða  til þess að þeir væru að reka hitaveitu Laugarási og vildu að Tungnamenn tækju  hana að sér, en þá kom fram einkar áhugaverð tillaga frá Tungnamönnum: 

Gísli Einarsson [oddviti Biskupstungnahrepps] ræddi þessi mál, og vildi hann ræða þessi mál á breiðari grundvelli. Hann sagði að Biskupstungnahreppur vildi gjarnan að þessi mál yrðu tekin vel í gegn og hitaveita verði ekki tekin út úr sér, heldur tæki hreppurinn við öllum eignum héraðsins – nema læknamiðstöðina og þær lóðir sem það þyrfti á að halda – og hitaréttindum.
Gísli gerði að tillögu sinni, að Biskupstungnahreppur tæki jörðina á leigu eða keypti hana. (fundargerð 07 04 1979)


Með þessari tillögu fór allt á hreyfingu. Það var fjallað um málið í öllum hreppsnefndum og Tungnamenn beðnir að setja fram "einhverjar hugmyndir eða tilboð um leigu eða kaup á jörðinni, sem gætu orðið umræðugrundvöllur hjá hreppsnefndum hinna hreppanna." (fundargerð 20 07 1979).

Svo leið eitt ár og hreppsnefndirnar höfðu fjallað enn meira um þetta stóra mál:

Svör hreppsnefndanna voru öll jákvæð hvað varði leigu, en sumar töldu sölu varla koma til greina að svo komnu máli.    Fram kom á fundinum að Hagsmunafélag Laugaráss mælir með að Biskupstungnahreppur taki jörðina á leigu. (fundargerð 11 06 1980)

 Í fundargerð hreppsnefndar Biskupstungnahrepps í framhaldinu kom fram að Skeiðahreppur, einn hreppanna hafi ekki viljað selja jörðina. Ég get ímyndað mér að meginástæðan fyrir afstöðu Skeiðahrepps hafi verið, að oddviti Skeiðamanna, Jón  Eiríksson í Vorsabæ, var nánast allt í öllu í Laugarási í áratugi og hafði sterkar taugar til jarðarinnar. 

Hér er svo einnig samþykkt Hagsmunafélags Laugaráss, sem vísað er til:

Aðalfundur Hagsmunafélags Laugaráss haldinn 2. júní, 1980, skorar á hreppsnefnd Biskupstungna að stefna að því af fullum einhug, að taka jörðina Laugarás á leigu með réttindum og skyldum, af læknishéraðinu.


Ekki treysti ég mér til að segja til um hversvegna Hagsmunafélagið kaus að ganga ekki alla leið og skora á Birskupstungnahrepp að kaupa jörðina. Mögulega taldi fólk þann möguleika ekki vera uppi á borðinu og valdi því þann sem meiri líkur voru á að gengi í gegn. Hugsanlega leit það málið þannig að betra væri að hafa hina hreppana í bakhöndinni, ef  Biskupstungnahreppur sinnti Laugarási ekki sem skyldi.  Hvað veit ég svo sem? 

Það varð svo úr, að Biskupstungnahreppur tók Laugarásjörðina á leigu, og samningur um það var undirritaður þann 6. maí 1981. 

Hagsmunir

Voru það með einhverjum hætti hagsmunir hreppanna, sem réðu því að þeir ákváðu að selja Laugarásjörðina ekki?

Ég leyfi mér hér að setja fram tvær tillögur að ástæðum fyrir því að hrepparnir töldu sig hafa hag af því að halda jörðinni í sinni eigu:


1. Hrepparnir sáu fyrir sér, að þeir myndu mögulega í framtíðinni sameinast og sáu í hendi sér að við slíka sameiningu yrði Laugarás sá staður þar sem stjórnsýsla í nýju sveitarfélagi yrði, auk annarra þjónustustofnana sveitarfélagsins og ýmiss konar atvinnustarfsemi. Þeir litu svo á að það myndi auðvelda sameiningu hreppanna, ef þeir ættu allir saman stað sem væri í hjarta uppsveitanna.

2. Hrepparnir voru á þessum tíma að byggja upp eigin þéttbýlisstaði þar sem þeir komu fyrir stjórnsýslu og opinberri þjónustu. Þeir voru áfram um að byggja upp hver hjá sér og óttuðust að ef þeir seldu Laugarásjörðina myndu þeir missa stjórn á því hvernig þróun byggðarinnar þar yrði. Þeim stóð, sem sagt, ógn af Laugarási og mögulegri uppbyggingu þar.

------------------------------

Hvor þessara tillagna minn aer nær lagi, hef ég ekki hugmynd um, þó sannarlega gruni mig hitt og þetta.



05 september, 2020

Laugarás: Hvað ef þetta hefði gengið eftir?


Þann 6. apríl, árið 1972 var haldinn svokallaður almennur sveitarfundur í Aratungu. Þar var meðal annars fjallað um skólamál í uppsveitunum. Á þessum tíma var Þórarinn Þorfinnsson á Spóastöðum, oddviti hreppsnefndar. Arnór Karlsson, ritari fundargerða hreppsnefndar, ritaði fundargerð þessa fundar. 
 Á þessum tíma var ég nú bara unglingsræfill sem vann við brúarsmíðar á sumrin og gekk í ML á vetrum. 
 Ætli þetta sé ekki nægilegur formáli að þeim lið í fundargerðinni þar sem fjallað var og ályktað um skólamálin. Ekki á ég von á að þetta falli öllum í geð, en hafa ber í huga, að það er tæp hálf öld síðan þetta var. 
Ég mun freista þess að skrifa lítilsháttar viðbrögð við þessu, í lokin. Feitletranir eru mínar.

 

2. Skólamál

Sveinn Skúlason, formaður skólanefndar Reykholtsskólahverfis, reifaði þessi mál.

Sagði hann frá fundi, sem haldinn var í Árnesi í Gnúpverjahreppi, fyrr á þessum vetri með skólanefndamönnum og oddvitum í uppsveitum Árnessýslu. Þar var fjallað um framtíðarskipan fræðslumála í þessum sveitum. Einnig sagði hann frá umræðum um fræðslumál, sem fram fóru á aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Suðurlandskjördæmi 25. marz, s.l, og tillögum til umræðna um skólaskipan á Suðurlandi, sem fulltrúar Menntamálaráðuneytisins lögðu þar fram.

Þórarinn Þorfinnsson ræddi þessi mál og lagði fram frumdrög að tilllögum til samþykkta.

Þorsteinn Sigurðsson tók til máls og drap á nokkkur atriði í sögu skólamála í Biskupstungum. Hann taldi, að mörg rök mæltu með að byggður væri skóli fyrir efstu bekki skyldunámsins í Laugarási og lýsti eindregið stuðningi sínum við þá hugmynd.

Taldi hann heppilegt að stofna búnaðarskóla á Laugarvatni. Grímur Ögmundsson lýsti stuðningi við þá hugmynd.

Sveinn Skúlason tók til máls og gaf nokkrar, nánari skýringar og óskaði eftir smávægilegum orðalagsbreytingum á tillögum Þórarins.

Tillögurnar voru síðan bornar upp og samþykktar samhljóða.

Þær voru á þessa leið:

Á almennum sveitarfundi í Biskupstungum, höldnum í Aratungu 6. apríl, 1972, þar sem rætt var um skólamál í uppsveitum Árnessýslu, með hliðsjón af nýjum tillögum Menntamálaráðuneytisins um skipan fræðslu- og skólamála á Suðurlandi, var samþykkt eftirfarandi:

1. Fundinum er ljóst, að til þess að leysa fræðslumálin á viðunandi hátt á þessu svæði, verða mörg sveitarfélög að vinna saman með rekstur skóla fyrir efstu bekki skyldunámsins og telur eðlilegt að sveitir þær, sem mynda Laugaráslæknishérað, vinni saman að lausn þessa máls.

2. Fundurinn telur Laugarvatn ekki heppilegan stað fyrir slíkan skóla. Bendir í því sambandi á að Laugarvatn er alveg úti á jaðri þess svæðis sem skólann á að sækja og því lítið hægt að koma við daglegum heimanakstri, vegna fjarlægðar, en mikill heimanakstur er talinn mjög æskilegur.

Einnig er vafasamt, að heppilegt sé, að setja svo marga, ósamstæða skóla hvað aldur nemenda snertir, á einn stað, eins og er á Laugarvatni.

3. Fundurinn vill benda á Laugarás, sem heppilegan stað fyrir slíkan, sameiginlegan skóla uppsveitanna. Til stuðnings við Laugarás má nefna:

a. Laugarás er miðsvæðis, og skóli vel settur þar með tillliti til daglegs heimanaksturs.

b. Í Laugarási, sem er sameign Laugaráshéraðs, er vaxandi þéttbýli og öll nauðsynleg þægindi fyrir slíka stofnun.

c. Barnaheimili Rauða krossins í Laugarási þarf endurbyggingar við og virðist eðlilegt að samvinna væri höfð við Rauða krossinn um bygginguna, þannig að skólinn væri notaður fyrir barnaheimili að sumrinu. Nýtist þá húsið betur og rekstur þess yrði hagkvæmari.

d. Ekki er ólíklegt að einhver samvinna gæti orðið um kennslukrafta milli skólans í Laugarási og skólans sem verið er að reisa í Skálholti, þar sem svo stutt er á milli. Einnig er ekki lengra til Reykholts en það, að sami sami kennari gæti kennt á báðum stöðunum, ef það þætti henta.

 

Ég viðurkenni það, hér og nú, að ég hafði ekki búist við að sjá samþykkt af þessu tagi á almennum sveitarfundi í Aratungu. Þá neita ég því ekki, að ég hlakka dálítið til að kynna mér fundargerðabækur oddvitanefndar Laugaráslæknishéraðs þarna um vorið 1972. Því miður virðast gjörðabækur annarra sveitarfélaga í uppsveitum, frá þessum tíma ekki vera aðgengilegar á vefnum enn, en það væri fróðlegt að kynna sér hvaða samþykktir áttu sér stað þar, um þetta efni. 

Ég veit veit hvernig fór með þessa samþykkt, en mér er ekki ljóst enn, hvað leiddi til þess að svo fór sem fór. 

Það eru spennandi tímar framundan hjá þessum nörd.

Bæði góður, en líka leiðinlegur.

Þ að er nú ekki vegna þess að ég hef ekkert við tímann að gera, nema finna eitthvað í lífinu til að fjargviðrast yfir, sem ég ákvað að reyna...