Ef orðið "fallera" vefst fyrir einhverjum, þá er þessa skýringu að finna í íslenskri orðsifjabók:
fallera s. ‘fara í hundana; verða gjaldþrota; gata á prófi; †svíkja, blekkja’. To. úr mlþ. fallēren < ffr. faillīr < lat. fallere. Sumar merkingar ísl. orðsins eru síðar tilkomnar, frá d. fallere.
Hér kemur viðtalið við Bigga:
"Ég falleraði á henni Blesperlu"
Dráttarvélaslysin eru orðin æði mörg á landi voru.
Austan fjalls eru þau það tíð, að vart telst fréttnæmt þótt enn eitt slysið verði
af völdum dráttarvélar.
Er fréttamaður blaðsins hitti Birgi Stefánsson, 13
ára yngismann frá Laugarási í Biskupstungum, í hjólastól á ganginum í
sjúkrahúsinu á Selfossi, með hægri fótinn í gibsumbúðum, liggur því beint við
að spyrja hann, hvort dráttarvélarskömmin hafi nú orðið honum að slysi.
Nánar á www.laugaras.is: https://www.laugaras.is/laugars-i |
„Nei, ég falleraði á henni Blesperlu", svaraði Birgir og síðan segir hann alla hrakfallasöguna, sem endaði í sjúkrahúsinu á Selfossi, og vonandi fer vel, eftir atvikum. Þeir höfðu verið í hestasnatti, Birgir, og kaupamaðurinn á bænum, Kristinn [Arnar Jóhannesson], sem er 14 ára. Þeir voru búnir að eltast við Blesperlu, en Reykur, 10 vetra gæðingur, var búinn að gera hana og hin hrossin hálfvitlaus í óþekkt.
Loksins náðu þeir merinni og Birgir lagði nú við hana og
sté á bak, sló í og hugsaði henni þegjandi þörfina fyrir alla óþekktina. Blesperla
tók viðbragð, en hún á til að vera dálítið hrekkjótt, þegar sá gállinn er á
henni, enda ekki nema 5 vetra gömul, greyið.
Birgir hafði hugsað sér að hyggja að henni Golsu sinni,
sem nýlega bar hvítum hrút og átti að vera einhvers staðar í námunda við
Auðsholtsafleggjarann. Er þeir riðu í sprettinum niður brekkuna fyrir norðan
Laugarástúnið vildi slysið til, Blesperla skvetti upp rassinum, Birgir
kastaðist fram á makka á hryssunni og hékk þar nokkra stund, en Blesperla
linnti ekki á sprettinum. Birgir reið í hnakk með opnum ístöðum og losnaði hann
fljótlega úr þeim, en er hann sleppti hryssunni og féll af baki kræktist annað
ístaðið í kálfann á honum og reif þar flipa upp undir hné, svo af varð
svöðusár.
Kiddi reið strax heim, til að leita hjálpar, en Birgir gat skriðið út undir þjóðveginn. Skömmu síðar bar þar að bíl. Þar var kominn Þorfinnur mjólkurbílstjóri [Tómasson], sem í þetta skipti var í einkabíl sínum og var að halda á skemmtun í Aratungu. Tók hann nú hinn slasaða dreng upp í bílinn til sín og ók honum heim í Laugarás. Þar er læknissetur og gerði nú Grímur læknir [Jónsson] að sárum Birgis.
Daginn eftir fór Birgir að fá þrautir í fótinn og nú lét
Grímur læknir flytja hann í sjúkrahúsið á Selfossi. Þar tók Kjartan
sjúkrahúslæknir Magnússon við honum og hefur síðan stundað hann af mestu
nærfærni, en Birgir heldur því fram, að hann sé einhver færasti læknir í heimi
og stundum hefur Jón læknir Gunnlaugsson aðstoðað Kjartan. Það gróf illa
í fætinum og Birgir hefur eftir Kjartani, að þegar hann sé búinn að hreinsa sárið
nægilega vel og klippa burt allt skemmt og dautt skinn og hold, verði hann að
taka sneið úr lærinu á honum og fylla upp í gatið. En Birgir kvíðir því engu,
hugsar mest um að ná fullum bata og komast heim í heyskapinn.
„Ertu mikill heyskaparmaður?“
„Ég vil heldur vinna við heyskapinn heldur en í görðunum,
ég er latur garðyrkjumaður“.
„Hafið þið mikla garðrækt í Laugarási, með búskapnum?“
„Já, það eru miklir gulrótargarðar, fyrir utan kartöflurnar, og svo er töluvert af rauðrófum hjá okkur“.
„Áttu Blesperlu,
merina?“
„Nei, en ég á Blesa, 4 vetra fola, ættaðan frá Skálholti, frá Birni bónda [Erlendssyni] þar“.
„Ertu farinn að temja hann?“
„Ja, hún Jóhanna, dóttir hans Ingólfs á Iðu, er að temja
hann fyrir mig. Svo var hann Geiri á Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi með hann
dálítinn tíma í vor, hann er ágætur tamningamaður.“
„Heldurðu, að Blesi sé gott hestsefni?“
„Já, ég held hann verði bara nokkuð góður. Hanna fór með
hann á hestamótið á Hellu í sumar".
„Fékk hann verðlaun?"
„Ja, hann komst á forsíðu Tímans, og Jóhanna líka, á
Blesa.“
„Nú, það var ekki svo lítil upphefð fyrir ykkur öll
saman.
Ég ek nú Birgi inn í sjúkrastofu hans, sem er númer 8.
Þar eru fyrir herbergisfélagar hans, þeir Bjarnhéðinn mjólkurbílstjóri
[Árnason] og Magnús [Jónsson] frá Hveratúni í Biskupstungum, sem er
í Laugaráshverfinu og Magnús því nágranni Birgis. Hann er maður á
áttræðisaldri, en vel ern og hressilegur. Er ég spyr þá um veikindin, segir
Bjarnhéðinn að það sé maginn, sem sé í ólagi. Hann segir, að læknirinn vilji
ekki skera, sérstakt mataræði og spítalalega, sem nú fari að styttast, eigi að
bæta hann. Annars virðist Bjarnhéðinn, sem er einn af vinsælustu
mjólkurbílstjórunum á Selfossi, vera hálf móðgaður yfir því að vera ekki
„skorinn".
— Magnús segir að þeir, læknarnir, hafi fyrst haldið að
það væri hjartað sem væri að gefa sig, en svo kom í Ijós, að það mun bara hafa
verið annað lungað sem „sprakk", eins og hann orðar það. Hann hefir
fótavist og röltir útivið.
Báðir eru þessir herbergisfélagar Birgis hressir bragði
og ég segi honurm, að ef honum leiðist geti hann stytt sér stundir við að
stríða körlunum. En þeir segja, að hann sé góður strákur og duglegur, þegar
læknarnir séu að „krukka" í hann. Ég kveð þá félaga og óska þeim góðs
bata.
Sjúkrahúsið á Selfossi er myndarleg stofnun, þar ríkir auðsjáanlega stjórnsemi og reglusemi og ég hef orð héraðslæknisins Bjarna Guðmundssonar fyrir því, að hinn ungi sjúkrahúslæknir, Kjartan Magnússon, sé „vel verki farinn".
(Vísir 14. ágúst, 1961)
Stórskemmtileg upprifjun............
SvaraEyða