Sýnir færslur með efnisorðinu oddvitanefnd. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu oddvitanefnd. Sýna allar færslur

09 nóvember, 2020

Svona um það bil 15 ár

Laugarás á fremur sérstaka sögu og henni er hreint ekki lokið. 
Einhvern veginn æxlaðist það svo, að ég fór að safna saman ýmsu því sem verður að teljast hluti af þessari sögu og óhjákvæmilega kom að því, að ég þyrfti að takast á við sögu Laugaráshéraðs, sem ég hygg að hvergi hafi verið skráð nokkuð heildstætt.  

Frá upphafi voru það oddvitar sveitarfélaganna sem að Laugaráshéraði stóðu eða standa, sem fjölluðu um mál sem snertu læknisseetrið og Laugarásjörðina. Þeir komu alla jafna saman árlega til aðalfundar og tóku til umfjöllunar ýmis mál. Fundirnir urðu smám saman ítarlegri og tóku á flóknari málum. 

Ég er, um þessar mundir, að rekja mig í gegnum fundargerðir þessarar oddvitanefndar, sem gekk undir ýmsum nöfnum, reyndar og er þakklátur fyrir að okkur skyldi auðnast að koma flestum fundargerðabókum nefndarinnar og ýmsum gögnum hennar, til varðveislu á Héraðsskjalasafni Árnesinga, en þar á svona efni auðvitað heima.

Það vantar sem sagt ekki mörg ár inn í þessa sögu, ekki nema 15, reyndar.
Þessi 15 ár, eru hinsvegar afskaplega mikilvæg og má segja að þau myndi grundvöllinn að því sem síðan gerðist í málefnum Laugaráss. Þetta eru árin frá því um 1920 til um það bil 1935.

Héraðsskjalasafn Árnesinga, oddvitar í uppsveitunum og ég, erum nú að freista þessa að þefa uppi einhverskonar fundargerðir oddvitanna í þessi 15 ár og núverandi oddvitar tóku að sér að birta í miðlum sveitarfélaga sinna, nokkurskonar ákall um að afkomendur sveitarsjórnarmanna í þessum hreppum á umræddum tíma kæmu til liðs við okkur við að reyna að hafa upp á þessum bókum, eða bók.


Ég geri það sama hér, í mínum, ekki alltof áberandi miðli líka. Það er kannski von á að einhverjir eða einhverjar deili þessu áfram.

Hérna efst er upphaf elstu fundargerðinnar sem enn hefur fundist. Hún, og aðrar sem fylgdu, er skráð í bók sem er ekki nema 7x11 cm að stærð (kápan hér til hægri), sem bendir til að fyrri bækur hafi ekki verið mikið stærri.

Það er auðvitað möguleiki, að fundir oddvitanna frá 1920-1935 hafi verið skráðir í fundargerðarbækur einhvers hreppanna, en ýmsar þeirra hafa, að því er virðist, ekki skilað sér á héraðsskjalasafnið. Það er full ástæða til að leita þær uppi einnig og svo bara öll möguleg gögn sem leynast kannski í dánarbúum, eða hjá fjölskyldum, en ættu að komast til varðveislu á heráðsskjalasafni.

Ég ætla svo að láta fylgja hér fyrir neðan, textann sem ég klambraði saman og sem ætti að dreifast up uppsveitirnar um þessar mundir. 

Meðan ég held áfram að vinna mig í gegnum það efni sem þegar er fyrir hendi, lifi ég í voninni um að það takist að finna efni til að fylla í þessa 15 ára eyðu.

Undirskriftir oddvitanna sem sátu þennan fund, árið 1935.


Oddvitarnir á fundinum 1935, frá vinstri: Sr Guðmundur Einarsson Mosfelli, Páll Stefánsson 
Ásólfsstöðum, Eiríkur Jónsson Vorsabæ, Teitur Eyjólfsson Eyvindartungu, Árni Ögmundsson Galtafelli, Guðjon Rögnvaldsson Tjörn.

Þegar þarna var komið sögu læknishéraðsins, var sr. Guðmundur Einarsson prófastur á Mosfelli formaður nefndarinnar.

-------------------------------------

Þá er það textinn, sem nú er dreift í uppsveitunum:


Finnum þessar bækur 

Ég segi nú stundum, að án sögunnar, værum við ekki að spígspora um þessa jörð. Það fólk sem ól okkur af sér á líka sína sögu og þar fram eftir götunum, langt inn í fortíðina. Okkur ber skylda til að halda frásögnum af verkum og lífi þess til haga, eftir föngum.

Undanfarin ár hef ég verið að taka saman ýmsar upplýsingar um Laugarás og er búinn að koma upp vef sem kallast laugaras.is, sem geymir það sem ég hef tekið saman um þennan þéttbýliskjarna, sem á sér stutta, en sérstaka sögu.

Hluti af þessari samantekt á að vera nokkurskonar saga Laugaráslæknishéraðs, sem áður kallaðist Grímsneslæknishérað, en þar sem uppsveitamenn virðast hafa komið sér hjá því að vera mikið á síðum dagblaða, þarf að treysta á þau gögn sem hafa orðið til innan svæðisins, til dæmis fundargerðabækur.

Erindi mitt við þig er þetta:

Mig vantar enn bækur sem ná yfir tímabilið frá 1920 – 1935; það vantar fimmtán mikilvæg ár inn í þessa sögu. Gögn frá þessum tíma hefur mér ekki tekist að finna, utan fundargerðabóka hreppsnefndar Biskupstungnahrepps og Sýslunefndar Árnessýslu. Þar fyrir utan er um að ræða glefsur úr öðrum bókum sem tengjast uppsveitunum, sem héraðsskjalasafnið geymir.

Þú ert kannski afkomandi einhverra þeirra forystumanna sem komu við sögu á þessum tíma og hugsanlega geymir fjölskylda þín einhver gögn sem þeir létu eftir sig, þar sem ein til tvær litlar fundargerðabækur gætu leynst. Ert þú til í að leita þessi gögn uppi, eða láta okkur vita hvar líklegt er að þau sé að finna? Elsta bókin sem við höfum er ekki nema 11x17 cm að stærð (sjá meðfylgjandi mynd), svo hér er líklega ekki um að ræða stórar eða miklar bækur. Mögulega bara eina bók.

Það getur verið, að fundargerðir oddvitanna á þessum tíma, hafi verið skráðar í fundargerðabók einhverrar hreppsnefndarinnar, en því miður eru þær einnig ófundnar, utan fundargerðabóka Biskupstungnahrepps frá þessum tíma. Í þeim er ekki mikið fjallað um læknishéraðið.

Til fróðleiks læt ég hér fylgja nöfn forystumanna úr hreppunum sem komu að læknishéraðinu á árunum 1920-1935. Þeir eru sannarlega fleiri, en þessar upplýsingar eru úr fundargerðabókum sýslunefndar Árnessýslu, Biskupstungnahrepps og oddvitanefndar. Kannski kveikir það í þér

Biskupstungnahreppur
Sr. Eiríkur Þ. Stefánsson, Torfastöðum
Jörundur Brynjólfsson, Múla og Skálholti
Einar Jörundur Helgason, Holtakotum
Jóhann Kr. Ólafsson, Kjóastöðum
Guðjón Rögnvaldsson, Tjörn
Skúli Gunnlaugsson, Bræðratungu.

Hrunamannahreppur
Ágúst Helgason, Birtingaholti
Helgi Ágústsson, Syðra Seli

Gnúpverjahreppur
Sr. Ólafur Briem, Stóra Núpi
Páll Stefánsson, Ásólfssöðum 
Árni Ögmundsson, Galtafelli

Grímsneshreppur
Gunnlaugur Þorsteinsson, Kiðjabergi
Magnús Jónsson Klausturhólum
Sr. Guðmundur Einarsson, Mosfelli

Laugardalshreppur
Böðvar Magnússon. Laugarvatni
Teitur Eyjólfsson, Eyvindartungu

Skeiðahreppur
Guðmundur Lýðsson, Fjalli
Brynjólfur Bjarnason, Framnesi
Eiríkur Jónsson, Vorsabæ

Ef þér skyldi takast að grafa upp þessa gömlu bók (eða bækur), eða ef þú gætir veitt einhverjar upplýsingar um hvar hana gæti verið að finna, bið ég þig að hafa samband við eitthvert þeirra sem hér eru tilgreind:

Páll M. Skúlason netf. pallsku@gmail.com s. 8989152
Þorsteinn Tryggvi Másson netf. thorsteinn@heradsskjalasafn.is s. 4821259
eða oddvitann í þínu sveitarfélagi.


Með fyrirfram þökk.

Páll M Skúlason





06 desember, 2019

Jaðarsett sameiningartákn (3)

Afmælisveisla hjá Gróu Kristínu Helgadóttur í janúar 1956
- tel ég víst
Þetta er framhald að tveim pistlum sem sama nafni.

Jón í Vorsabæ var umdeildur meðal Laugarásbúa, sem voru að stórum hluta sjálfstæðir garðyrkjubændur, sem voru ekkert áfjáðir í að láta utanaðkomandi yfirvöld segja sér hvað þeim væri fyrir bestu. Ég held nú samt, að Laugarásbúar eigi Jóni margt að þakka og ég held að hann hafi borið hag þessa vaxandi þéttbýlis mjög fyrir brjósti. Einhvernveginn finnst mér, þó ekki hafi ég handbær einhver gögn þar um, að Skeiðamenn hafi í gegnum tíðina verið einna jákvæðastir hreppanna gagnvart Laugarási og uppbyggingu þar.

Á níunda áratugnum gerðu Biskupstungnahreppur og Laugaráslæknishérað með sér samning, sem ég á enn eftir að sjá, þar sem hreppurinn tók að sér flest það sem að Laugarási laut. Oddvitanefndin hefur þó ávallt verið í bakgrunninum. Hvernig málefni Laugaráss voru, hafa verið og eru rædd á þeim vettvangi, veit ég svo sem ekki, en þykist þess fullviss að frá því Biskupstungnahreppur fékk verkefnið í hendur, hefur ekki verið unnið af neitt sérstökum krafti eða metnaði að uppbyggingu í Laugarási. Ástæður fyrir því fara varla á milli mála, að minnsta kosti ekki í höfðinu á mér.

Þegar tilraun var gerð til sameiningar uppsveitahreppanna á tíunda áratugnum, voru auðvitað þeir sem töldu enga þörf á sameiningu því það væri svo mikil samvinna milli þessara hreppa. Þessi samvinna átti sér ekki síst stað í gegnum sameiginlegt eignarhald þeirra á Laugarásjörðinni.  Laugarás var snertiflötur hreppanna, nokkurskonar sameiningartákn. Oddvitarnir hittust reglulega á grundvelli þessarar sameiginlegu eignar sinnar og fluttu þar inn hugmyndir og tóku þaðan með sér hugmyndir. Ég hlakka til að kynnast innihaldi  fundargerða oddvitafundanna og þar með, að hve miklu leyti umfjöllunarefni þeirra tengdist eða tengist Laugarási. Þessir fundir voru og eru enn, eftir því sem ég best veit, haldnir í nafni Laugaráshéraðs.

Starfsfólk í Krossinum sumarið 1959.
Mynd: Matthías Frímannsson
Vissulega hafa verið rekin hér fyrirtæki og stofnanir, sem eiga það þó sameiginlegt, á staðsetning þeirra var ákveðin annarsstaðar en í stjórnkerfi uppsveitanna. Sláturfélag Suðurlands byggði hér og rak sláturhús frá 1964 - 1988, Rauði kross Íslands - Reykjavíkurdeild byggði hér og rak sumardvalarheimili fyrir Reykjavíkurbörn frá 1952 - 1971.  Sláturfélagið valdi staðinn vegna þess að hann er miðsvæðis í uppsveitunum og Rauði krossinn valdi staðinn vegna þess að formaðurinn átti hér sumarhús og taldi staðinn henta vel fyrir starfsemina.  Slátrun var lögð af vegna fækkunar sauðfjár og Krossinn hætti starfsemi vegna lélegs húsakosts og breyttra viðhorfa til barnauppeldis.

Ég hugsa að það hafi verið þegar farið var af stað með verkefnið Laufskála, sem áttu að vera íbúðir, eða íbúðaklasi fyrir eldri borgara, að ég áttaði mig endanlega á að ekkert væri sjálfgefið þegar spurning væri uppi um uppbyggingu í Laugarási. Það kom á daginn, að hugur fylgdi ekki máli, enda raddir sem töldu byggð af þessu tagi betur komna í einhverju hinna þorpanna. Það var gefið út, minnir mig, að íbúðirnar hafi reynst alltof dýrar og áhugasamir þessvegna hætt við. Látum það vera. Það var byggt eitt sýningarhús og síðan ekki söguna meir.

Það hafa lengi verið uppi hugmyndir um uppbyggingu í Laugarási sem myndi styrkja heilsugæslustöðina og þar hefur helst verið horft til dvalar- og/eða hjúkrunarheimilis fyrir eldri borgara.  Jón í Vorsabæ nefndi þetta í viðtalinu við tímaritið Sveitarstjórnarmál, sem ég birti í síðasta pistli. Ég hef reynt að færa rök fyrir þessu, ítrekað, á þessum vettvangi, án þess að vart hafi orðið nokkurra viðbragða.

Svo birtist þetta allt í einu í Sunnlenska, í mars 2013:


Ég minnist þess ekki að þetta hafi hreyft neitt sérstaklega við mér, enda bara nefndarsamþykkt. Um framhaldið eftir hana, veit ég ekkert.

Ári síðar  birti Sunnlenska svo þetta:

Ég neita því ekki, að ég varð undrandi, en fyrst og fremst glaður, þar sem ég hef mikla trú á áhrifamætti kvenfélaganna, ekki síst þegar um væri að ræða það sem mannlegt er.  Þarna er það tiltekið að öll kvenfélögin hefðu samþykkt að skora á sínar sveitarstjórnir að vinna að þessu. Þessi atlaga kvenfélaganna dó drottni sínum þegar umræðan fór af stað innan sveitarfélaganna.
Það næsta sem fram kom um þessi mál, var í viðtali MHH við nýjan oddvita Hrunamannahrepps á Bylgjunni, í fyrra:




Ætla þetta sé nú ekki orðið í lengra lagi. Þvi geri ég hlé á þessum skrifum þar til næst.



03 desember, 2019

Jaðarsett sameiningartákn (2)

Þessi mynd, frá fjölskyldu Ólafs Einarssonar læknis, var tekin um 1950.
Þarna er horft frá sumarhúsi fjölskyldunnar, yfir garðlönd, að gróðurhúsum
og bragga sem þau byggð. Þar fyrir aftan er Hveratún og sjá má þar fyrir
aftan gróðurhúsin á Sólveigarstðum.
Hér er um að ræða framhald af Jaðarsett sameiningartákn (1).
Uppsveitahrepparnir eignuðust sem sagt jörðina Laugarás í Biskupstungum árið 1923, til að gera að læknissetri fyrir uppsveitirnar. Utan um málefni Grímsneslæknishéraðs (eins og læknishéraðið kallaðist þá) héldu oddvitar hreppanna í umboði hreppsnefndanna og héldu gjörðabækur um starfsemina. Enn hefur mér ekki unnist tími til að vinna upp úr gjörðabókunum, en það hefur nú tekist að safna saman á Héraðsskjalasafn Árnessýslu öllum gjörðabókum frá árinu 1931. Það þýðir að það vantar enn efni frá um það bil fyrstu 10 árum í sögu læknishéraðsins. Ég hef reynt að leita þeirra, en enn hefur sú leit ekki borið árangur. Svo mikið veit ég þó, að Helgi Ágústsson í Birtingaholti var formaður þessarar oddvitanefndar fyrstu árin, en við af honum tók sr. Guðmundur Einarsson á Mosfelli um 1931. Ég held að nánast upp frá því og þar til Biskupstungnahreppur tók við umsýslu með málefnum Laugaráss, hafi þeir feðgar Eiríkur Jónsson og Jón Eiríksson í Vorsabæ, verið atkvæðamestir í því sem sneri að Laugarási. Jón var lengi vel nokkurskonar oddviti oddvitanna og framkvæmdastjóri Laugaráslæknishéraðs. Hann var stundum kallaður borgarstjóri í Laugarási og "Jón í Vossas".

Jón Eiríksson
Ég gríp hér niður í viðtal við Jón, sem birtist í Sveitarstjórnarmálum árið 1978:

— Á ekki Skeiðahreppur samaðild að Laugaráslæknishéraði ásamt fleiri hreppum? 
„Jú, Skeiðahreppur, Grímsneshreppur, Laugardalshreppur, Biskupstungnahreppur, Hrunamannahreppur og Gnúpverjahreppur eiga saman jörðina Laugarás í Biskupstungum. Þar hefur nú risið upp heilsugæzlustöð fyrir þessar uppsveitir Árnessýslu. Jörðina keyptu hrepparnir á árinu 1922 til þess að reisa á henni læknisbústað. Var það mikið heillaspor. Auk þess sem jörðin liggur miðsvæðis í héraðinu, er þar mikill jarðhiti og góð aðstaða til ylræktar. Læknishéraðið hefur leigt út lönd og hita og hefur komið upp hitaveitu á staðnum. Eru þarna orðnar fjórtán garðyrkjustöðvar, og því allmyndarlegur byggðarkjarni. Á staðnum hefur verið byggð upp heilbrigðisþjónusta, og á árinu 1971 var þar stofnuð læknamiðstöð, sem nú hefur breytzt í heilsugæzlustöð. Þar starfa tveir læknar, hjúkrunarfræðingur og læknaritari."
— Nú hefur þú haft forgöngu um framkvæmdir í Laugarási um árabil. Hvernig er stjórnarfyrirkomulagi háttað á staðnum?
„Þetta er í rauninni nokkuð flókið mál. Oddvitar hreppanna, sem eiga jörðina Laugarás, hafa með höndum yfirstjórn allra mála á staðnum, og hefi ég verið formaður oddvitanefndarinnar síðan árið 1959. Hefi ég þvi séð um uppbyggingu og daglegan rekstur á staðnum. Síðan heilsugæzlustöðin komst á, lýtur hún sérstakri stjórn, og hefi ég einnig verið formaður í henni."
— Nú er Laugarás í Biskupstungnahreppi. Hvernig fer það saman, að oddviti Skeiðahrepps sé að ráðslaga þar með t. d. skipulags- og byggingarmálefni?
„Ég vil svara því til, að Biskupstungnahreppur sér um skipulagsmál, eins og honum ber að lögum, og að farið sé eftir byggingarsamþykkt hreppsins. En ég hefi í umboði oddvitanefndarinnar leigt út lönd og hita. En samstarf við oddvita Biskupstungnahrepps hefur verið ágaett, t. d. um skipulagningu byggðarinnar þar."
— Hefur þú trú á því, að Laugarás muni vaxa ört sem byggðarkjarni?
„Ég tel, að Laugarás búi yfir miklum ónýttum möguleikum til aukinnar ylræktar. Það hefur sýnt sig, að þar er unnt að fá mikið viðbótarvatn og að það er óvenjulega gott, ekki til í þvi kísilmyndun né önnur skaðleg efni. Þá tel ég, að þarna muni í framtíðinni rísa upp stofnanir, sem byggjast á þessari góðu aðstöðu, og hef ég þá í huga til að mynda heilsuhæli eða elliheimili. Síðan á stríðsárunum hefur Rauði kross Islands rekið barnaheimili í Laugarási. Það hefur ekki verið starfrækt nokkur allra síðustu árin, en til athugunar er að reisa þar nýtt barnaheimili."
— Nú nær Biskupstungnahreppur talsvert suður fyrir Hvítá. Eru það ekki harla óvenjuleg og annarleg hreppamörk?
„Það er rétt, að landfræðilega ættu þrjár jarðir í Biskupstungnahreppi frekar að heyra til Skeiðahreppi, því þær eru sunnan Hvítár. Þetta fyrirbæri mun vera frá tíma biskupsstólsins í Skálholti. Á 18. öld voru allar jarðir í Skeiðahreppi og flestar jarðir í Biskupstungnahreppi í eigu stólsins. Ég hefi ekkert reynt til þess að fá þessu breytt, enda ávallt verið gott samstarf milli þessara sveita."
Svo mörg voru þau orð Jóns og einhvernveginn minnir mig nú, að Laugarásbúar hafi nú ekki alltaf rekist vel og samskipti þeirra við þá yfirstjórn oddvitanefndarinnar sem birtist í viðtalinu við Jón, virðast ekki hafa verið alveg slétt og felld. Sérstaklega olli hitaveitan ýmsum núningi, en hún var stofnuð 1964 ásamt Vatnsveitufélagi Laugaráss (kalt vatn). Þessar veitur voru ekki síst nauðsynlegar vegna Sláturhússins, sem tók til starfa haustið 1964. Hitaveitan ásamt Hvítárbrú (1957) opnaði síðan möguleika á mikilli fjölgun garðyrkjubýla í Laugarási.
Það var þessi núningur milli stjórnar læknishéraðsins og  íbúa (garðyrkjubænda) sem leiddi til þess að þessi samþykkt var gerð á aðalfundi Hagsmunafélags Laugaráss. áið 1980:

Aðalfundur Hagsmunafélags Laugaráss haldinn 2. júní, 1980, skorar á hreppsnefnd Biskupstungna að stefna að því af fullum einhug, að taka jörðina Laugarás á leigu með réttindum og skyldum, af læknishéraðinu.
Árið 1982 var Biskupstungnahreppur svo tekinn við rekstri hitaveitunnar, en notendur veitunnar skipuðu meirihluta stjórnar. Það féll ekki allt í ljúfa löð við breytta rekstrarstjórn veitunnar, sem sjá má af aðalfundarsamþykkt frá 1985:
 
Aðalfundur Hagsmunafélags Laugaráss haldinn 22/4, 1985 mótmælir eindregið þeirri aðferð sem notuð er við skipulagningu Laugaráshverfis, en hún felst í því, að hreppsnefnd Biskupstungnahrepps lætur skipulegga lóðir hingað og þangað í landi Laugaráss og ætlar síðan Hitaveitu Laugaráss og Vatnsveitu Laugaráss að leggja stofna á þessi svæði, án þess að tryggt sé að þau byggist í náinni framtíð, eða jafnvel yfirleitt, eins og skipulag gerir ráð fyrir.

Af þessu ráðslagi leiðir, að kostnaður hitaveitu og vatnsveitu verður óhóflega mikill fyrir þá íbúa sem fyrir eru í Laugarási. Aðalfundurinn telur hreppsnefnd ábyrga fyrir þessu skipulagshneyksli og fer þess á leit, að kostnaður sá sem hitaveita og vatnsveita verða fyrir, verði greiddur úr hreppssjóði.
 Af þessu má sjá, að ekki virðast nýir herrar yfir málefnum Laugaráss, hafa sinnt málum eins og vonast hafði verið eftir.
Var þetta skref úr öskunni í eldinn?

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...