09 nóvember, 2020

Svona um það bil 15 ár

Laugarás á fremur sérstaka sögu og henni er hreint ekki lokið. 
Einhvern veginn æxlaðist það svo, að ég fór að safna saman ýmsu því sem verður að teljast hluti af þessari sögu og óhjákvæmilega kom að því, að ég þyrfti að takast á við sögu Laugaráshéraðs, sem ég hygg að hvergi hafi verið skráð nokkuð heildstætt.  

Frá upphafi voru það oddvitar sveitarfélaganna sem að Laugaráshéraði stóðu eða standa, sem fjölluðu um mál sem snertu læknisseetrið og Laugarásjörðina. Þeir komu alla jafna saman árlega til aðalfundar og tóku til umfjöllunar ýmis mál. Fundirnir urðu smám saman ítarlegri og tóku á flóknari málum. 

Ég er, um þessar mundir, að rekja mig í gegnum fundargerðir þessarar oddvitanefndar, sem gekk undir ýmsum nöfnum, reyndar og er þakklátur fyrir að okkur skyldi auðnast að koma flestum fundargerðabókum nefndarinnar og ýmsum gögnum hennar, til varðveislu á Héraðsskjalasafni Árnesinga, en þar á svona efni auðvitað heima.

Það vantar sem sagt ekki mörg ár inn í þessa sögu, ekki nema 15, reyndar.
Þessi 15 ár, eru hinsvegar afskaplega mikilvæg og má segja að þau myndi grundvöllinn að því sem síðan gerðist í málefnum Laugaráss. Þetta eru árin frá því um 1920 til um það bil 1935.

Héraðsskjalasafn Árnesinga, oddvitar í uppsveitunum og ég, erum nú að freista þessa að þefa uppi einhverskonar fundargerðir oddvitanna í þessi 15 ár og núverandi oddvitar tóku að sér að birta í miðlum sveitarfélaga sinna, nokkurskonar ákall um að afkomendur sveitarsjórnarmanna í þessum hreppum á umræddum tíma kæmu til liðs við okkur við að reyna að hafa upp á þessum bókum, eða bók.


Ég geri það sama hér, í mínum, ekki alltof áberandi miðli líka. Það er kannski von á að einhverjir eða einhverjar deili þessu áfram.

Hérna efst er upphaf elstu fundargerðinnar sem enn hefur fundist. Hún, og aðrar sem fylgdu, er skráð í bók sem er ekki nema 7x11 cm að stærð (kápan hér til hægri), sem bendir til að fyrri bækur hafi ekki verið mikið stærri.

Það er auðvitað möguleiki, að fundir oddvitanna frá 1920-1935 hafi verið skráðir í fundargerðarbækur einhvers hreppanna, en ýmsar þeirra hafa, að því er virðist, ekki skilað sér á héraðsskjalasafnið. Það er full ástæða til að leita þær uppi einnig og svo bara öll möguleg gögn sem leynast kannski í dánarbúum, eða hjá fjölskyldum, en ættu að komast til varðveislu á heráðsskjalasafni.

Ég ætla svo að láta fylgja hér fyrir neðan, textann sem ég klambraði saman og sem ætti að dreifast up uppsveitirnar um þessar mundir. 

Meðan ég held áfram að vinna mig í gegnum það efni sem þegar er fyrir hendi, lifi ég í voninni um að það takist að finna efni til að fylla í þessa 15 ára eyðu.

Undirskriftir oddvitanna sem sátu þennan fund, árið 1935.


Oddvitarnir á fundinum 1935, frá vinstri: Sr Guðmundur Einarsson Mosfelli, Páll Stefánsson 
Ásólfsstöðum, Eiríkur Jónsson Vorsabæ, Teitur Eyjólfsson Eyvindartungu, Árni Ögmundsson Galtafelli, Guðjon Rögnvaldsson Tjörn.

Þegar þarna var komið sögu læknishéraðsins, var sr. Guðmundur Einarsson prófastur á Mosfelli formaður nefndarinnar.

-------------------------------------

Þá er það textinn, sem nú er dreift í uppsveitunum:


Finnum þessar bækur 

Ég segi nú stundum, að án sögunnar, værum við ekki að spígspora um þessa jörð. Það fólk sem ól okkur af sér á líka sína sögu og þar fram eftir götunum, langt inn í fortíðina. Okkur ber skylda til að halda frásögnum af verkum og lífi þess til haga, eftir föngum.

Undanfarin ár hef ég verið að taka saman ýmsar upplýsingar um Laugarás og er búinn að koma upp vef sem kallast laugaras.is, sem geymir það sem ég hef tekið saman um þennan þéttbýliskjarna, sem á sér stutta, en sérstaka sögu.

Hluti af þessari samantekt á að vera nokkurskonar saga Laugaráslæknishéraðs, sem áður kallaðist Grímsneslæknishérað, en þar sem uppsveitamenn virðast hafa komið sér hjá því að vera mikið á síðum dagblaða, þarf að treysta á þau gögn sem hafa orðið til innan svæðisins, til dæmis fundargerðabækur.

Erindi mitt við þig er þetta:

Mig vantar enn bækur sem ná yfir tímabilið frá 1920 – 1935; það vantar fimmtán mikilvæg ár inn í þessa sögu. Gögn frá þessum tíma hefur mér ekki tekist að finna, utan fundargerðabóka hreppsnefndar Biskupstungnahrepps og Sýslunefndar Árnessýslu. Þar fyrir utan er um að ræða glefsur úr öðrum bókum sem tengjast uppsveitunum, sem héraðsskjalasafnið geymir.

Þú ert kannski afkomandi einhverra þeirra forystumanna sem komu við sögu á þessum tíma og hugsanlega geymir fjölskylda þín einhver gögn sem þeir létu eftir sig, þar sem ein til tvær litlar fundargerðabækur gætu leynst. Ert þú til í að leita þessi gögn uppi, eða láta okkur vita hvar líklegt er að þau sé að finna? Elsta bókin sem við höfum er ekki nema 11x17 cm að stærð (sjá meðfylgjandi mynd), svo hér er líklega ekki um að ræða stórar eða miklar bækur. Mögulega bara eina bók.

Það getur verið, að fundargerðir oddvitanna á þessum tíma, hafi verið skráðar í fundargerðabók einhverrar hreppsnefndarinnar, en því miður eru þær einnig ófundnar, utan fundargerðabóka Biskupstungnahrepps frá þessum tíma. Í þeim er ekki mikið fjallað um læknishéraðið.

Til fróðleiks læt ég hér fylgja nöfn forystumanna úr hreppunum sem komu að læknishéraðinu á árunum 1920-1935. Þeir eru sannarlega fleiri, en þessar upplýsingar eru úr fundargerðabókum sýslunefndar Árnessýslu, Biskupstungnahrepps og oddvitanefndar. Kannski kveikir það í þér

Biskupstungnahreppur
Sr. Eiríkur Þ. Stefánsson, Torfastöðum
Jörundur Brynjólfsson, Múla og Skálholti
Einar Jörundur Helgason, Holtakotum
Jóhann Kr. Ólafsson, Kjóastöðum
Guðjón Rögnvaldsson, Tjörn
Skúli Gunnlaugsson, Bræðratungu.

Hrunamannahreppur
Ágúst Helgason, Birtingaholti
Helgi Ágústsson, Syðra Seli

Gnúpverjahreppur
Sr. Ólafur Briem, Stóra Núpi
Páll Stefánsson, Ásólfssöðum 
Árni Ögmundsson, Galtafelli

Grímsneshreppur
Gunnlaugur Þorsteinsson, Kiðjabergi
Magnús Jónsson Klausturhólum
Sr. Guðmundur Einarsson, Mosfelli

Laugardalshreppur
Böðvar Magnússon. Laugarvatni
Teitur Eyjólfsson, Eyvindartungu

Skeiðahreppur
Guðmundur Lýðsson, Fjalli
Brynjólfur Bjarnason, Framnesi
Eiríkur Jónsson, Vorsabæ

Ef þér skyldi takast að grafa upp þessa gömlu bók (eða bækur), eða ef þú gætir veitt einhverjar upplýsingar um hvar hana gæti verið að finna, bið ég þig að hafa samband við eitthvert þeirra sem hér eru tilgreind:

Páll M. Skúlason netf. pallsku@gmail.com s. 8989152
Þorsteinn Tryggvi Másson netf. thorsteinn@heradsskjalasafn.is s. 4821259
eða oddvitann í þínu sveitarfélagi.


Með fyrirfram þökk.

Páll M Skúlason





Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...