12 desember, 2020

Að skellihlæja eða hágrenja


Ég hef aldrei verið mikið fyrir upphrópanir eða hástemmd slagorð. Upphrópanir, vegna þess að þær skortir íhugun og yfirvegun, Slagorð vegna þess að þau finnst mér vera innantóm. Ég er ekki tilbúinn að hrópa á torgum, eða drepa fyrir málstað.
Ég er hinsvegar tilbúinn að hlusta, stundum og jafnvel ljá málstað lið, ef hann fellur að lífsskoðunum mínum.
Það hefur einusinni eða tvisvar gerst, að ég hef sett einhvern hring með slagorði í kringum höfuðið á mér á facebook. Það var vegna þess að um var að ræða hvatningu til dáða eða skilning á málstað.

Þessa dagana keppist fólk við að setja hring um höfuð sín á facbook, þar sem það lýsir sér sem "örlitlum grenjandi minnihluta". Allt í lagi með það svo sem. Öll vitum við að þetta er tilkomið vegna ræðu á Alþingi og vegna frumvarps um þjóðgarð á hálendi Íslands. Sannarlega er hér stórt mál á ferðinni og eðlilegt að vandað sé til verka. Það verður hinsvegar ekki gert með upphrópunum og slagorðum. Það kemur fjölmargt til skoðunar og ýmsir hagsmunir líta dagsins ljós. 

Þó svo ég setji þetta hér inn, í kjölfar þess að fjöldi fólks lýsir sig grenjuskjóður þessa dagana, ætla ég mér ekki að fara að eyða tíma mínum frekar í karp um þetta. Karp, segi ég, vegna þess að málefnaleg umræða á erfitt uppdráttar í svo tilfinningahlöðnu máli. Verst finnst mér vera, þegar fólk setur á sig grenjugrímuna án þess að vera búið að renna yfir þetta frumvarp. Ég skil betur þá sem eru búnir að kynna sér málið ofan í kjölinn og eru samt ekki sáttir.

Jú, ég er búinn að renna yfir frumvarpið og líklega vegna þess að ég á engra beinna hagsmuna að gæta, utan þess að vera íbúi í þessu landi, tilheyra þessari þjóð, þá varð ekkert það á vegi mínum sem ég þurfti að staldra sérstaklega við.  Þá er spurningin: Tilheyri ég þá "risastóra skellihlæjandi meirihlutanum"? Ég reikna með að margir muni líta svo á. Það væri þá um að ræða harla svart/hvíta hugsun, en hún á heldur betur upp á pallborðið þessi árin og þar hefur fólk verið duglegt að læra að forsetanefnunni vestanhafs.


Ég tilheyri sjaldan meirihlutum í þessu samfélagi. Hef oftast tilheyrt minnihlutum og lært að sætta mig við það, þó mér finnist hábölvað oft á tíðum og upplifa grátlega heimsku samferðamannanna. Varla er ég sá heimski og allir hinir spekingar. Því trúi ég nú ekki. Ég nenni hinsvegar ekki að fara að grenja vegna þessa, hvað þá hágrenja. 

Það er hægt að fella tár af ýmsu tilefni. Það eru sorgartár, gleðitár, reiðitár og frekjutár, svo einhverjar tegundir tára séu nefndar.  Algengasta merkingin sem ég legg í orðið "grenja" er, að fella tár vegna frekju. Ekki veit ég hvort Steingrímur beitti þessu afdrifaríka orðavali í þeirri merkingu og læt það liggja því milli hluta.Engin ummæli:

Nýr mánuður, nýtt vor

Villingarnir undirbúa atriði sitt, fyrir nokkrum dögum Ítalir tóku upp á því þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst hjá þeim á vordögum ...