Sýnir færslur með efnisorðinu Reykjanesviti. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Reykjanesviti. Sýna allar færslur

25 ágúst, 2025

Suðurnes: fimmti hluti: Reykjanesvirkjun og viti.

Framhald af þessu

Reykjanesvirkjun, Reykjanesviti og Gunnuhver eru skammt frá "Brúnni milli heimsálfa", aftast á hæl nessins og því lá beint við að kynna sér þá þekktu staði næst.  Kannski er rétt að afgreiða Reykjanesvirkjun fyrst, en þar hófst orkuvinnsla árið 2006, ári áður en Davíð og Halldór klipptu á brúarborðann (tenging? - líklega).
Ekki var um það að ræða að valsa um virkjunina, enda er þar heitt og hættulegt - þar getur maður brennt sig ef óvarlega er farið.
Þar með brunuðum við að Reykjanesvita, sem stendur uppi á háum hól, skammt frá virkjuninni. Það var sérstök ákvörðun að klífa upp að vitanum þótt ekki virtist brekkan upp að honum sérstaklega árennileg. 
Þetta er að finna um vitann á Wikipedia:
Reykjanesviti er elsti viti á Íslandi. Fyrsti Reykjanesvitinn var reistur árið 1878 og kveikt á honum 1. desember sama ár. Átta árum síðar reið jarðskjálfti yfir Reykjanesið og fyrsti vitinn laskaðist og hrundi úr honum. Sá viti sem nú stendur var reistur árið 1907, en kveikt á honum 20. mars árið 1908. Vitinn skemmdist töluvert í jarðskjálftanum árið 1926. 
Vitinn er 31 metra hár (22 metrar upp á pall), og stendur á útsuðurstá Reykjanestangans á Bæjarfelli, nokkuð upp af Valahnjúk, þar sem fyrsti vitinn stóð.

Þarna ók ég að vitanum og eftir því sem nær dró virkaði hóllinn undir honum óárennilegri og upp og niður hann var stöðugur straumur "allra þjóða kvikinda" að upplifa ævintýri lífa sinna. 

Bílastæðið við Reykjanesvita.
Áður en reyndi á fjallgöngugetu mína, þarna á bílastæðinu, rak ég augun í skilti sem benti mér á að fyrir það þyrfti ég sko að greiða. Auðvitað var ég með viðeigandi app, lífsreyndur maðurinn og greiddi ISK1000 fyrir að fá að leggja á "glæsilegu" stæðinu við vitann.  Það voru reyndar uppi þær skoðanir í bifreiðinni, að gjald af þessu tagi skyldi sko ekki greitt, en niðurstaðan varð samt sú, frekar en leggja í kílómetra fjarlægð, bara til að ganga síðan á staðinn aftur, til þess að geta loksins klifið vitahólinn.

Upp frá húsunum liggur umræddur stígur
Svo var bara að klifra upp að vitanum. Daglegar göngur á jafnsléttu reyndust lítið hafa gert til að undirbúa mig fyrir þá aðgerð. Örmjór, snarbrattur, þrepum lagður stígurinn var lagður að velli meira af sjálfsaga en mætti. Ég lét auðvitað sem ekkert væri og hélt jöfnum hraða alla leið upp, til að tefja ekki Japanann sem fylgdi. Nístandi sviðinn í fótavöðvum var ansi lengi að hverfa eftir að upp var komið og ég held að tilraunir mínar til að halda dúndrandi hjartslættinum og mæðinni frá andlitinu, hafi jafnvel dugað til að blekkja samklifurfólk mitt.


Af hólnum mátti sjá víða yfir svæðið: Reykjanesvirkjun, Gunnuhver  og Valahnjúk, svo eitthvað sé nefnt.

 Varla vorum við komin þarna upp, þegar við blasti aflíðandi stígur upp að vitanum, bakatil. Við völdum af ganga hann niður.

Næst lá fyrir að kíkja á Gunnuhver. Hver var þessi Gunna og sagan á bakvið nafngiftina? Svarið er að finna hér. Þetta er heilmikil og dapurleg saga af örlögum Guðrúnar Önundardóttur.

Eftir að hafa kynnt okkur svæðið við Gunnuhver nokkuð, var ferðinni haldið áfram á næsta áfangastað, Brimketil.

Reykjanesvirkjum, séð frá vitanum.

Karlinn


Hluti Valahnúks

Vitinn, séður frá Gunnuhver.

Reykjanesvirkjun

Giska á að þetta sé hinn eiginlegi Gunnuhver, en allt svæðið þarna í kring ber samt þetta nafn.

Gunnuhver

Stöðug flugumferð yfir þetta svæði, eins og búast má við.


Þetta var nú ekki alveg svona, reyndar.

FRAMHALD





Suðurnes: sjötti hluti: Brimketill og búið

framhald af þessu  Það var vissulega heilmargt áhugavert þarna á svæðinu í kringum Reykjanesvita , en að því kom að ferðinn var framhaldið o...