Sýnir færslur með efnisorðinu Búdapest. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Búdapest. Sýna allar færslur

15 október, 2019

Söngferð í suðausturátt.

Ferðalangarnir í Vecsés
Sökum þess að ýmislegt er og hefur verið í gangi hjá þessum pistlaskrifara að undanförnu og er enn og verða mun, ef að líkum lætur, hefur hann ekki fundið nauðsynlegan tón til að setjast yfir þennan miðil um tíma. Nú skal hinsvegar láta á það reyna hvernig til tekst.
Þessi pistlaskrifari er auðvitað ég.

Það eru mál sem tengjast fyrirhuguðum breytingum á lífsháttum, lífsskilyrðum og bara lífinu svona almennt hjá okkur fD, sem hefur átt hug minn allan að undanförnu, en um það hef ég kosið að fjalla ekki á þessum vettvangi, enda vandséð hvernig best væri að taka á þannig málefnum, fyrir utan það, að þar er um að ræða mál sem ekki eiga endilega að rata á vettvang sem þennan.
Ég hyggst hinsvegar gera því öllu skil þegar sá tími kemur.

Heimsóknin til Orbans.

Dagana 5. - 10. þessa mánaðar tók ég þátt í einkar ánægjulegri ferð Skálholtskórsins til Ungverjalands. Það var eiginlega alveg kominn tími á að þessi kór sleppti fram af sér beislinu með þessum hætti, en ég fór í síðustu ferð af þessu tagi haustið 2008, þegar Guð var beðinn að blessa Ísland og allt það var í gangi. Síðan hefur margt gerst í kórþátttökumálum mínum: ég hætti ósáttur í nokkur ár, en svo rann smám saman af mér og ég byrjaði aftur. Svona getur þetta verið.

Jæja, það er þessi ferð til Búdapest í Ungverjalandi.
Ég ætla mér ekki að skrifa sögu hennar hér í neinum smáatriðum en kannski geta nokkurra þátta með aðstoð mynda. Mér myndi hugnast það vel ef aðrir sem þarna voru á ferð myndu nú skrásetja það sem þarna fór fram.
Vinstri neðst: Jón Bjarnason kórstjóri.
Hægri efst Csaba Oppelt, fararstjóri
Það sem mér finnst einna mest til um ferðina, fyrir utan auðvitað félagsskapinn, sönginn og fleira, var fararstjórinn okkar, Csaba Oppelt; Ungverji sem sem talar glimrandi íslensku  og afskaplega vel að sér um ungversk málefni. Þarna var á ferð þægilegur maður, sem hafði alltaf stjórn á hlutunum án þess nokkurntíma að sýna annað en ljúft viðmót. Mér fannst ég einu sinni sjá á honum örlítil streitumerki, en það var þegar við þurftum að ganga talsverðan spotta í myrkri, til að ná í næstu lest sem kæmi eða kæmi kannski ekki, til að flytja okkur frá bænum Vecsés sem er í rúmlega 20 km fjarlægð í suðaustur frá Búdapest. Auðvitað fór það allt vel, enda kórfólk, fylgdarsveinar og meyjar allt hið prúðasta og ábyrgasta fólk.  Csaba stóð sig afar vel, sem sagt.

"Meðan birgðir endast"
Fyrir utan þessa dagsferð til Vecsés lá leið einn daginn norður með Dóná. Sú ferð hafði verið kynnt okkur með þessum hætti:
Ferð í Dónárdalinn, meðal annars farið á flottan veitingastað þar sem boðið er upp á villibráð af ýmsu tagi. Drykkir innifaldir að vild.  Ekki vitað hve langan tíma þessi ferð mun taka en við komumst að því – meðan birgðir endast allavega J 
Mér finnst einhvern veginn að þetta feitletraða hafi einna helst gripið athyglina, en ekki verður því haldið fram að fólk hafi beinlínis oltið inn í rútuna að aflokinni dvöl þarna í Visegrád.

Hetjutorgið í Búdapest
Að öðru leyti dvaldi hópurinn í Búdapest í góðu yfirlæti, bæði með skipulagðri skoðunarferð um merkustu staði borgarinnar og á eigin vegum. Ég tek það auðvitað fram, að við fD fórum EKKI í verslunarmiðstöð þar sem við hefðum vísast getað keypt okkur farsíma á þriðjungi þess verðs sem tíðast á norðuslóðum. Svona staðir höfða bara ekki til mín, hafa ekki gert og munu sennilega aldrei gera. Við erum meira upptekin af því þessa mánuðina að grynnka á dóti fortíðar og höfum uppgötvað við það þann stóra sannleik, að stærstur hluti þess dóts sem maður hefur safnað inn til sín gegnum tíðina, hefur ekkert varðveislugildi, nema síður væri.
Það var hinsvegar ánægjulegt að rölta eftir Váci út (Vaci gata), sem er nokkurskonar Laugavegur þeirra Búdpestunga. Hver smáverslunin á fætur annarri, litlir veitingastaðir, rólegt umhverfi.

Horft af Kastalahæðinni "Citadella"
Það er alveg hægt að lifa á svona ferð lengi, trúi ég. Þakklátur er ég þeim sem tóku að sér umsýslu með þessu og einnig kórstjóranum og Csaba.








Í lest á leið til Vecsés

Í leit að fataverslun á Vaci götu

Að láta tælast af saltsölumanni í Vaci götu

Í Nagy Vásárcsarnok sem er risastór innimarkaður við endann á Vaci götu.

"Hvítárbrú" þeirra Búdpestunga. Þessi ber nafnið Erzsébet híd, eða Elísabetarbrúin.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...