Sýnir færslur með efnisorðinu hjúkrunarheimili. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu hjúkrunarheimili. Sýna allar færslur

01 september, 2021

Eldri borgarar: Það vantar einn hlekkinn

Hjúkrunarheimili á Selfossi Mynd frá RUV
Ég bý við Austurveg á Selfossi, þar sem  mikil byggð íbúða fyrir eldri borgara er og hefur verið að rísa. Hér er um að ræða tiltölulega hentuga stærð íbúða, fyrir fólk sem er að stíga út úr önnum starfsævinnar og út úr stórum einbýlishúsum, sem eru orðin alltof stór fyrir þarfir þess.  Hér við Austurveginn er risið heilt hverfi fjölbýlishúsa fyrir eldra fólk, sem keypt hefur þessar ágætu íbúðir fyrir heilmarga tugi milljóna. Þetta er valkostur fyrir það fólk sem þetta getur - sem hefur getað selt einbýlishús og haft efni á að kaupa íbúðir í af þessu tagi, á þessum stað.

Hér skammt frá er verið að byggja glæsilegt hringlaga hjúkrunarheimili, sem ætlað er að taka við fólki sem komið er í þá stöðu að geta ekki séð um sig sjálft lengur. Það þarf hjúkrun. Þetta má segja að þetta hjúkrunarheimili sé, eins og önnur slík, endastöð fólks hér á jörð. Hjúkrunarheimili eru dýr valkostur, eins og okkur ætti að vera orðið ljóst, og þar að auki eru heilmiklir biðlistar eftir að plássi fyrir fólk, sem þarf þá að teppa rándýr pláss á þjóðarsjúkrahúsinu, sem síðan orsakar ofurlanga biðlista þar. 

Það eru, held ég, allir sammála um, að það sé mikilvægt að draga úr þörfinni fyrir innlögn á hjúkrunarheimili og það er almennt mikilvægt að skapa aðstæður til að takast á við stórvaxandi fjölda eldri borgara nú og á næstu árum.
Þessi mynd sýnir fjölda fæddra síðastliðin 120 ár. Í ljósa reitnum er fólk sem er núna
á aldrinum 50 til 70 ára - fólkið sem mun fylla hóp eldri borgara næstu árin.  Heimild Hagstofan.

Stjórnmálin og eldri borgarar

Í aðdraganda kosninga eru enn á ný ofarlega í talanda stjórnmálamanna ástin á velferð eldri borgara. Munurinn er kannski sá nú, að við baráttufúsari eldri borgara er að eiga. Hippakynslóðin og bítlakynslóðin sætta sig ekki við að gleymast milli kosninga. Þær kynslóðir sem eru nú að komast á eftirlaun gera allt aðrar kröfur til lífsgæða en þær sem á undan hafa komið. 
Eins og einhver sagði í útvarpsviðtali, þá lítur þetta fólk ekki á harmonikkuleik með polkum og rælum, sem afþreyingu. Það má vel segja að hér sé um alveg nýjan þjóðfélagshóp að ræða. Þetta er hópur sem lifir lengur og er hress lengur, sem bætist auðvitað ofan á, að um er að ræða fjölmennasta hóp eldri borgara sem nokkurn tíma hefur þurft að sinna.

Stjórnmálamennirnir tala nú hver í kapp við annan um að það þurfi að auka við og efla þjónustu við eldri borgara, án þess, að því er virðist, að vita mikið um við hvað er að eiga.
Það á að stórefla heimaþjónustu (sem sveitarfélögin hafa á sinni könnu). Þetta er áherslumál númer eitt.  Mér finnst þeir ekki hafa hugsað það mál til enda. Á sú heimaþjónusta að felast í þrifum á heimilum fólksins, líkamlegum þörfum, félagslegum og andlegum þörfum?  

Í þessum glæsilegu íbúðum sem eldri borgarar leggja í kaup á, hérna við Austurveginn, er fólk frá um það bil sjötugu til um það bil níræðs. Það er nokkuð algengt að annar makinn sé látinn og ekkillinn eða ekkjan sitja ein eftir í íbúðinni góðu. Þetta er að mestu leyti fólk sem getur vel séð um sig sjálft og stundað félagslíf af krafti, ef því er að skipta. Það er komið í litla og viðráðanlega íbúð, en rándýra. Það hentar vissulega sumum, sérstaklega þeim sem áttu  einbýlishús til að selja. Það eru ekki allir  í aðstöðu til kaupa á svona íbúðum. 


Milli heimilis og hjúkrunarheimilis.

Mér finnst sárlega vanta í umræðu um málefni eldri borgara hugmyndir um hvernig við ætlum að leysa úr málum þess stóra hóps fólks, sem  býr tiltölulega einangrað í of stóru húsnæði, en getur alveg séð um sig sjálft, jafnvel til æviloka. Sannarlega er það einn valkosturinn að kaupa íbúð eins og hér á Austurveginum. 
Mér finnst vanta hlekk á milli heimilis fólks sem kemst á eftirlaun, og hjúkrunarheimilis. Sá hlekkur á að vera til þess ætlaður, að fólk þurfi síður eða seinna, eða aldrei á hjúkrunarheimili að koma.  Þetta væru klasar með litlum, ódýrum/ódýrari íbúðum, sem fólk gæti keypt eða leigt. Jafnframt væri góð aðstaða fyrir íbúa þessara klasa til að sinna áhugamálum, njóta samvista við annað fólk, stunda heilsurækt og svo framvegis.  Litlu íbúðirnar væru athvarf, sem hver og einn dveldi í eftir því sem hann kærir sig um.


Heimaþjónustan

Jú, jú það er örugglega gott og gilt að efla heimaþjónustu, en hún mun seint ná að fullnægja öllum þörfum fólks. Hvað með ekkjuna, eða ekkilinn, sem hittir fáa eða engan utan manneskjunnar sem kemur (kannski daglega - hver veit) vegna þess að hún fær greitt fyrir það? Ætli þessi heimaþjónusta eigi að fela í sér að sinna félagslegum þörfum - spjalla, til dæmis?  Hvað með hjónin sem eru búin að vera saman í 70 ár og eru búin að tæma öll sín umræðuefni?  Svona fólk myndi eflast við að komast í sambýli eins og ég nefni hér að ofan, lífsgleðin myndi aukast og lífslíkur þar með. 

Það vantar millistig fyrir fólk sem þarf að forða frá einangrun inni á heimilum sínum. Maðurinn er félagsvera og samfélag við annað fólk frestar eða hindrar þörfina fyrir pláss á hjúkrunarheimili.

Elliheimili framtíðar

Nútímalegt elliheimili er það sem ég vil kalla eftir. Væri alveg til í að hjálpa til við að skipuleggja það, með mina kynslóð og þær næstu í huga. Heimili af þessu tagi ætti ekki að verða dýrt í rekstri, þar sem íbúarnir ættu íbúðirnar, eða væru með þær á leigu, og sæi mikið til um sig sjálft. 
Hringleikahúsið okkar hérna á Selfossi gæti örugglega nýst vel til þess arna - en það á að verða hjúkrunarheimili, segir sagan.



06 desember, 2019

Jaðarsett sameiningartákn (3)

Afmælisveisla hjá Gróu Kristínu Helgadóttur í janúar 1956
- tel ég víst
Þetta er framhald að tveim pistlum sem sama nafni.

Jón í Vorsabæ var umdeildur meðal Laugarásbúa, sem voru að stórum hluta sjálfstæðir garðyrkjubændur, sem voru ekkert áfjáðir í að láta utanaðkomandi yfirvöld segja sér hvað þeim væri fyrir bestu. Ég held nú samt, að Laugarásbúar eigi Jóni margt að þakka og ég held að hann hafi borið hag þessa vaxandi þéttbýlis mjög fyrir brjósti. Einhvernveginn finnst mér, þó ekki hafi ég handbær einhver gögn þar um, að Skeiðamenn hafi í gegnum tíðina verið einna jákvæðastir hreppanna gagnvart Laugarási og uppbyggingu þar.

Á níunda áratugnum gerðu Biskupstungnahreppur og Laugaráslæknishérað með sér samning, sem ég á enn eftir að sjá, þar sem hreppurinn tók að sér flest það sem að Laugarási laut. Oddvitanefndin hefur þó ávallt verið í bakgrunninum. Hvernig málefni Laugaráss voru, hafa verið og eru rædd á þeim vettvangi, veit ég svo sem ekki, en þykist þess fullviss að frá því Biskupstungnahreppur fékk verkefnið í hendur, hefur ekki verið unnið af neitt sérstökum krafti eða metnaði að uppbyggingu í Laugarási. Ástæður fyrir því fara varla á milli mála, að minnsta kosti ekki í höfðinu á mér.

Þegar tilraun var gerð til sameiningar uppsveitahreppanna á tíunda áratugnum, voru auðvitað þeir sem töldu enga þörf á sameiningu því það væri svo mikil samvinna milli þessara hreppa. Þessi samvinna átti sér ekki síst stað í gegnum sameiginlegt eignarhald þeirra á Laugarásjörðinni.  Laugarás var snertiflötur hreppanna, nokkurskonar sameiningartákn. Oddvitarnir hittust reglulega á grundvelli þessarar sameiginlegu eignar sinnar og fluttu þar inn hugmyndir og tóku þaðan með sér hugmyndir. Ég hlakka til að kynnast innihaldi  fundargerða oddvitafundanna og þar með, að hve miklu leyti umfjöllunarefni þeirra tengdist eða tengist Laugarási. Þessir fundir voru og eru enn, eftir því sem ég best veit, haldnir í nafni Laugaráshéraðs.

Starfsfólk í Krossinum sumarið 1959.
Mynd: Matthías Frímannsson
Vissulega hafa verið rekin hér fyrirtæki og stofnanir, sem eiga það þó sameiginlegt, á staðsetning þeirra var ákveðin annarsstaðar en í stjórnkerfi uppsveitanna. Sláturfélag Suðurlands byggði hér og rak sláturhús frá 1964 - 1988, Rauði kross Íslands - Reykjavíkurdeild byggði hér og rak sumardvalarheimili fyrir Reykjavíkurbörn frá 1952 - 1971.  Sláturfélagið valdi staðinn vegna þess að hann er miðsvæðis í uppsveitunum og Rauði krossinn valdi staðinn vegna þess að formaðurinn átti hér sumarhús og taldi staðinn henta vel fyrir starfsemina.  Slátrun var lögð af vegna fækkunar sauðfjár og Krossinn hætti starfsemi vegna lélegs húsakosts og breyttra viðhorfa til barnauppeldis.

Ég hugsa að það hafi verið þegar farið var af stað með verkefnið Laufskála, sem áttu að vera íbúðir, eða íbúðaklasi fyrir eldri borgara, að ég áttaði mig endanlega á að ekkert væri sjálfgefið þegar spurning væri uppi um uppbyggingu í Laugarási. Það kom á daginn, að hugur fylgdi ekki máli, enda raddir sem töldu byggð af þessu tagi betur komna í einhverju hinna þorpanna. Það var gefið út, minnir mig, að íbúðirnar hafi reynst alltof dýrar og áhugasamir þessvegna hætt við. Látum það vera. Það var byggt eitt sýningarhús og síðan ekki söguna meir.

Það hafa lengi verið uppi hugmyndir um uppbyggingu í Laugarási sem myndi styrkja heilsugæslustöðina og þar hefur helst verið horft til dvalar- og/eða hjúkrunarheimilis fyrir eldri borgara.  Jón í Vorsabæ nefndi þetta í viðtalinu við tímaritið Sveitarstjórnarmál, sem ég birti í síðasta pistli. Ég hef reynt að færa rök fyrir þessu, ítrekað, á þessum vettvangi, án þess að vart hafi orðið nokkurra viðbragða.

Svo birtist þetta allt í einu í Sunnlenska, í mars 2013:


Ég minnist þess ekki að þetta hafi hreyft neitt sérstaklega við mér, enda bara nefndarsamþykkt. Um framhaldið eftir hana, veit ég ekkert.

Ári síðar  birti Sunnlenska svo þetta:

Ég neita því ekki, að ég varð undrandi, en fyrst og fremst glaður, þar sem ég hef mikla trú á áhrifamætti kvenfélaganna, ekki síst þegar um væri að ræða það sem mannlegt er.  Þarna er það tiltekið að öll kvenfélögin hefðu samþykkt að skora á sínar sveitarstjórnir að vinna að þessu. Þessi atlaga kvenfélaganna dó drottni sínum þegar umræðan fór af stað innan sveitarfélaganna.
Það næsta sem fram kom um þessi mál, var í viðtali MHH við nýjan oddvita Hrunamannahrepps á Bylgjunni, í fyrra:




Ætla þetta sé nú ekki orðið í lengra lagi. Þvi geri ég hlé á þessum skrifum þar til næst.



13 júlí, 2018

Hvað er verið að tala um?

Ég ætlaði nú að hætta að vera að skipta mér af óljósum hugmyndum sem sveima um samfélagsmiðla í framhaldi af viðtali Magnúsar Hlyns Hreiðarssonar við oddvita Hrunamannahrepps, Halldóru Hjörleifsdóttur, á Bylgjunni fyrir nokkrum dögum, undir fyrirsögninni: Kanna möguleika á að koma upp hjúkrunarheimili.  Það reyndist  hinsvegar erfiðara en ég hafði haldið, því eftir lítilsháttar skrun yfir facebook í kjölfar þessarar frétta komst ég að því að þeir sem tjáðu sig virtust nokkuð almennt á því að heppilegsti staðurinn fyrir "hjúkrunarheimilið" væri húsnæðið sem Húsmæðraskólann á Laugarvatni skildi eftir sig og sem varð síðan að Íþróttafræðasetri KHÍ og síðar HÍ og sem tilheyrir nú HÍ, eftir því sem ég best veit. Ég get alveg verið sammála því að þarna er um að ræða afar hentugt hús fyrir dvalarheimili eldri borgara. Fjarri mér að hafa eitthvað á móti því.
Í fréttinni spyr MHH oddvitann ítrekað um hjúkrunarheimili og oddvitinn segir mikinn skort á hjúkrunarrými í uppsveitum.

Í umræðum í framhaldinu var mér tjáð þetta, af manni sem er vel inni í sveitarstjórnarmálum í uppsveitunum: Í mínum huga er ekki vafi á því að verið er fyrst og fremst með í huga dvalarheimili.

Þarna var sem sagt eitthvað annað uppi á teningnum en hjá oddvita Hrunamannahrepps í viðtalinu. 

Mér er því spurn: 
Um hvað er verið að tala? 
Til hvers að hleypa einhverri umræðu af stað þegar forsendurnar eru kannski vitlausar og fólk fer að tala í kross?
Á hvaða stigi er þetta mál meðal sveitarstjórnarfólks? 
Er kannski búið að ákveða eitthvað? 
Er búið að greina hvar þörfin liggur?
Er sveitarstjórnarfólk búið að koma sér niður á sameiginlegan stað?
Það eru reyndar margar aðrar spurningar, en það hefur engan tilgang að henda þeim út í tómið si svona.

Það sem ég gerði, til að fá betri mynd af því hvað um er að ræða, var að fara á vef Velferðarráðuneytisins og þar er að finna skilgreiningar á dvalarheimili, annarsvegar og hjúkrunarheimili, hinsvegar. Á þessu tvennu er talsverður munur. 

Dvalarheimili
Dvalarrými eru í húsnæði sem er sérhannað fyrir þarfir aldraðra sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu. Skilgreint er í lögum um málefni aldraðra og reglugerð um stofnanaþjónustu aldraðra hvaða þjónusta skuli vera fyrir hendi í dvalarrýmum, en þar á meðal annars að vera varsla allan sólarhringinn, öryggiskerfi í hverri íbúð og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum og félags- og tómstundastarfi.
Hjúkrunarheimili
Hjúkrunarrými eru á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum, ætluð öldruðu fólki sem er of lasburða til að geta búið heima með þeim stuðningi sem er í boði, svo sem heimaþjónustu, heimahjúkrun, dagdvöl, hvíldarinnlögn eða búsetu í dvalarrými. Í hjúkrunarrými skal veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta auk endurhæfingar og annarrar þjónustu sem skilgreind er í lögum um málefni aldraðra og reglugerð um stofnanaþjónustu aldraðra.
Þá höfum við það. Það er kannski búið að ákveða hvað er verið að tala um, en þá þarf það að liggja fyrir, opinberlega, trúi ég.

Ég skoðaði lítillega þá þjónustu sem er í boði á Lundi á Hellu og á Krkjuhvoli á Hvolsvelli.
Þjónusta á Lundi

Þjónusta á Kirkjuhvoli

Það er rétt að geta þess, að Lundur og Kirkjuhvoll eru hjúkrunar- og dvalarheimili og hýsa því nokkuð breiðan hóp fólks.

Mikilvægast í þessu öllu er að það verði fundið úrræði fyrir aldraða í uppsveitunum í samræmi við þörf.  Hvaða þjónustuþörf hefur helst leitt eldri borgara í uppsveitum í dvöl í öðrum byggðarlögum?
Er það stefna sveitarfélaganna í uppsveitum að gera eldra fólki kleift að dvelja á heimilum sínum eins lengi og nokkur kostur er?  Þessi hugmyndafræði virðist mér eiga talsvert upp á pallborðið þessi misserin.

Svo ætla ég að reyna að hætta þessu og treysti því að það verði fagleg niðurstaða, en önnur, óviðkomandi sjónarmið verði ekki látin ráða för.

09 júlí, 2018

Nú stendur til að kanna þann möguleika, .....

Hvítárbrú hjá Iðu
.... að byggja hjúkrunarheimili í Uppsveitum Árnessýslu.
Frétt á Bylgjunni

Að hluta til fagna ég því auðvitað, að enn fer af stað umræða um að byggja hjúkrunarheimili í Uppsveitum; hjúkrunarheimili sem ætti að vera komið hér fyrir löngu.

Að öðrum hluta til lít ég þessa frétt sem enn eina umræðuna sem fær að renna út í sandinn. 

Mér finnst það gott framtak hjá Hrunamönnum að setja þessa umræðu af stað, þessu sinni. Þeir hyggjast ræða við hin sveitarfélögin um málið og vona að það náist samstaða um þetta verkefni. Það má vera orðin mikil breyting á ef slík samstaða á að nást, einfaldlega vegna þessa að allir hrepparnir eiga besta staðinn fyrir hjúkrunarheimili. Þannig er það bara.

Ég bendi, eins og oft áður, á þann samnefnara sem uppsveitahrepparnir eiga, en það er jörðin Laugarás.  Fyrir utan það, auðvitað að Laugarás er sá staður í uppsveitum sem er næst miðjunni, þá er þar heilsugæslustöð sem mikilvægt er að styrkja af öllum mætti.

Það hefur verið þannig og er enn, að þegar umræða í uppsveitunum beinist að Laugarási, eru sveitarstjórnir og reyndar íbúar hreppanna, utan Laugaráss, fljótir að fara í vörn, einfaldlega vegna óttans við að fari eitthvað í Laugarás af þeim verkefnum sem sinna þarf í uppsveitunum, sé það jafnframt tap allra hreppanna.  Vegna þess að allir vilja opinbera þjónustu til sín, fær enginn neitt. 
Svo einfalt er það nú. 

Jæja, ég er búinn að skrifa mig bláan í framan á þessum miðli mínum um þá skoðun mína, að eðlilegasti samnefnarinn í þessu sé Laugarás. Ég var búinn að ákveða að hætta að skipta mér af þessu máli og sú ákvörðun stendur enn. 

Þumbist hrepparnir enn við varðandi hjúkrunarheimili í Laugarási, tel ég eðlilegast að þeir selji jörðina.  Eignarhald þeirra á henni skaðar framþróun byggðar í Laugarási verulega. Ágætur Skeiðamaður sagði við mig að Laugarás hefði borið mikinn skaða af þessu eignarhaldi. Nú þegar Laugaráslæknishérað er ekki lengur til, er ekki lengur ástæða til þessa sameiginlega eignarhalds hreppanna á jörðinni.
Svona gengur þetta ekki áfram, að því er ég tel.
Og hananú.

Þetta er hlekkur þar sem finna má þau tilvik sem ég hef notað orðið hjúkrunarheimili undanfarin allmörg ár.




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...